Við höfum skyldur við börn okkar og barnabörn

Góðir tilheyrendur

 

Ég vil byrja á því þakka forsjóninni fyrir jólalegt veður á þessum degi, yfirvöldum fyrir að leyfa okkur að koma hér saman og Landsbankanum fyrir að vera hér á þessum stað. En þá er nú búið með þakkirnar.

 

En við erum samt ekki komin hér saman vegna einhvers þakklætis eða af þeirri auðmýkt að vilja kyssa á vöndinn. Slíkt höfum við gert nógu lengi í góðri trú um að allt væri nú á þokkalega réttu róli. Og við höfum verið höfð að fíflum.

 

Kannski er okkur þess vegna ekki of gott að þola nokkrar kárínur eigin fíflsku, þola nokkra skuldabyrði eftir að hafa mörg hver dansað með gagnrýnislítið um gullkálfinn. Og megum nú einnig þola að útlendingar brosi í kampinn og telji Íslendinga einhverskonar aulabárða sem við með nokkrum hætti vorum.

 

En jafnvel þó værum nú tilbúin til að kyssa vöndinn í skömm þess sem veit sig hafa brugðist þá berum við hér aðrar og meiri skyldur. Við höfum skyldur til að skila af okkur öðru til barna okkar og barnabarna en drápsklyfjum skulda og óuppgerðar sakir.

 

Okkur sem nú erum um og undir miðjum aldri var skilað íslensku þjóðarbúi í því fari að og við þá vaxtamöguleika að allt horfði nokkuð vel. Raunar bar okkur ekki erfiðara hlutskipti en að halda þeirri ávöxtun, fordjarfa ekki því sem okkur var falið og tókst lengst af bærilega. Hvenær okkur bar af leið frá þeirri leið ætla ég ekki að fullyrða en aðdragandi þess var nokkurra ára. Hann var ekki bara við síðustu stjórnarskipti og mig grunar raunar að fara þurfi lengra aftur en til stjórnarskiptanna þar á undan, eða að minnsta kosti 20 ár aftur í tímann. Um þær markalínur verða menn aldrei alveg sáttir enda ekki aðalatriði. Þó svo að uppgjörið skipti ekki aðalmáli þá þarf það að fara fram. Þjóðarsálin verður aldrei hrein nema loftað verði út og farið yfir af einlægni og heiðarleik. En ég segi ykkur, þetta er samt ekki aðalatriði.

 

Aðalatriðið er að óráðvendnin og sukkið nemi staðar. Að við fáum réttlæti í núinu. Að þeirri ósvinnu verði hnekkt að þeir menn sem fremst gengu í græðgisvæðingu undanfarinna ára haldi áfram að braska með líf okkar og eigur. Því hver á þau atvinnutæki, þær verslanir, þær flugvélar, þá kontórana og faktoríur sem velt hafa þúsund milljörðum yfir á herðar almennings. Nema almenningur sjálfur sem nú tekur á sig ábyrgð af öllu saman. Og hvenær fær að fara saman í landi okkar ábyrgð og völd. Í stað þess að hreinsa hér til hafa yfirvöld í landinu rétt sömu öflum sama matadorinn og bera því við að það þurfi hér menn með innsýn í hlutina. Þar ræður meiru sjónarmið reddinga en réttlætisins og það er aldrei farsælt.

 

Eftir því sem lengra líður án þess að hér sé gripið inn í aukast líkurnar á að sömu menn geti öðru sinni hagnast og auðgast á auðmýkt okkar, þægð og lítilþægni. Og ætlum á sama tíma að kyssa á vönd okkar fornu eljara á Bretlandseyjum,- nokkuð sem óhugsandi hefði verið í tíð þeirra stjórnskörunga sem hér leiddu landhelgisstríð þjóðarinnar til sigurs. Við áttum hér jafnvel þá skörunga sem stóðu upp í hárinu á þriðja ríkinu en nú gúlpna íslenskir ráðamenn gagnvart breskum krötum.

 

Við lifum í litlu landi þar sem hagsmunavefir liggja víða. Við völd eru nú tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsmanna og ef til vill fylgir sá böggull því skammrifi að því stærri sem flokkarnir eru því fleiri þræðir liggja um þeirra hús. Víst er að sá hlífiskjöldur sem stjórnvöld halda yfir útbrunnum útrásarvíkingum þessa lands er miður heppilegur og rýrir stjórnvöld og það traust sem þau þurfa að búa við á erfiðum tímum.

 

Það er fleira sem rýrir traust stjórnvalda og þá einkanlega það algera andvaraleysi sem hefur einkennt ráðamenn um langa hríð. Fyrir liðlega ári síðan, eða nánar tiltekið um 15 mánuðum, komu upp raddir um að ef til vill væri byggingaiðnaðurinn að stefna þjóðinni í ógöngur. Verið gæti að húsin væru að verða alltof mörg miðað við þarfir markaðarins. Sjálfur komst ég svo nærri valdastofnunum landsins á þessum tíma sem þingmaður í stjórnarandstöðu að ég gat lagt þá spurningu fyrir starfsmenn úr efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis og spurði þá hverju það sætti að deilur væru um þessar tölur. Hvort flókið væri að telja fjölda íbúðanna og fjölda landsmanna og komast að hinu sanna. Svar embættismanna ráðuneytisins var að þetta væri sáraeinfalt, hefði verið gert og ekkert benti til að neitt væri að, framboð og eftirspurn í eðlilegum farvegi. Hver er ábyrgð þessara útreikninga á því hvernig nú er komið fyrir byggingariðnaði okkar landsmanna. Þar með afkomu og atvinnu fjölmargra verktaka, bæði smáfyrirtækja og stærri. Þar er um að ræða vandamál sem mjög brennur á okkur Selfyssingum.

 

Aðstæður nú kalla á endurmat og þær kalla á naflaskoðun. Og þær kalla fram miklar hættur. Fjölmargir vilja nota sér bágar aðstæður okkar til að koma okkur enn verr en þegar er orðið. Verum þess minnug að með samtakamætti þjóðarinnar, samvinnu einstaklinga, stétta og fyrirtækja sem og öfgalausri sýn á hlutina tókst okkur Íslendingum að vinna okkur frá því að vera langfátækasta þjóð Evrópu yfir í það að vera þar í fremstu röð. Sá sigur náðist þrátt fyrir smæð landsins, hrakspár margra og þó svo að þeir sigrar sum unnust hafi verið algerlega órökréttir. Hér sannaðist sem fyrr að trúin flytur fjöll. Og þrátt fyrir áföll nú erum við enn í framvarðasveit þeirra þjóða sem hvað best lífskjör hafa.

 

Við getum tapað þeirri stöðu og við getum haldið henni. Allt eftir því hvernig haldið verður á málum í gegnum brimskafl komandi árs. Þar skiptir mestu að í landinu verði nú sem fyrr stjórnvöld sem trúa á íslenska þjóð og trúa á gildi þess að réttlætið ríki framar ómerkilegum reddingum.

 

(Ræða flutt á útifundi við Landsbanka Selfoss 18. desember 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ég hef mestar áhyggjur af því ef að Sigga Jóns þarf að vera að þvælast um með beran bossa eins og kom fram í viðtali á RÚV. Það er ekki gott. Ekki gott, því kaldur er þorrinn. Oft hríðarbylur og erfitt að hugsa til hennar þannig við bústörfin.

Hinsvegar sýnist mér í hennar tilfelli að hugsanlegt að skorturinn sé vegna þess að hún sé með dýran smekk. Velji aðeins það besta. Það kom fram að nú væri ástandið orðið þannig að hún gæti ekki keypt góða brók því slíkar væru á yfir 7 þúsund krónur.

Ég held að það sé alls ekki hægt að leggja meira á skattgreiðendur eða ríkisstjórnina. Við eigum nóg með að borga fyrir víkingana okkar. Er ekki einhver möguleiki Bjarni að þú getir tryggt henni Siggu gott föðurland að klæðast í gaddinum.

Annars verð ég bara að taka það að mér að leysa þetta mál. Við þurfum að hjálpast að í gegnum þetta.

Gunnlaugur B Ólafsson, 19.12.2008 kl. 01:14

2 identicon

Já Bjarni kær,

vasklega mæltist þér og auðvitað vil ég sjá þig á löggjafarsamkundu þjóðarinnar við fyrstu hentugleika. Það er nú svo að þar virðist alltaf vanta fólk, sem talar hreint út úr pokanum (hér er nú átt við samviskupokann).

Alltaf jafn sammála sjálfri mér að ég fær "kjánahroll" við að hlusta á marga kjörna fulltrúa þar. Ég veit ekki nema verði að taka upp einhvers konar "gripsvits-, manngildis- og hreinskiptnipróf" til að fólk geti öðlast þar sæti.

Svo er ég alltaf sama barnið "bara SKIL ekki" þetta ráðslag að smámylgra aðstöðu og ábyrðarstöðum aftur til þeirra, sem gerðu lítið sem ekkert - ef þá nokkuð - til að stöðva þá vá sem á okkur hefur nú dunið. SKIL ekki hvernig "ráða"menn geta haldið því fram að þarna sé verið að sækja þekkingu á málefnunum og kunnáttu.  En er verið að sækja rétta ráðslagið?

Nú en ef kunnátta og reynsla var til staðar, hlýt ég að spyrja af hverju þeim þáttum hafi ekki verið beitt áður.

Allt sýndaleikur stjórnmálarefa? Ekki þar fyrir ég sé sussum í loðið skottið á þeim, þrátt fyrir fagran fatnað og talandann, sem margt af þessu fólki heldur að enginn hafi betri; þrátt fyrir hugsanagang og siðferðisviðhorf, sem það virðist telja að ekki verði séð í gegnum.  Já eins og ég segi stundum "þetta makalausa traust á því að þjóðin sé fífl".

Ojá. Eða er bara hreinlega um að ræða persónur af þeirri gerð sem telur að sér leyfist ALLT?

EN  Gunnlaugur hún Sigríður Jónsdóttir er nú annar kapítuli en framangreint.

Já hún Sigga mín Jóns er ein af fáum konum þessa lands (á sínum aldri) sem kann bæði að vinna, spinna og prjóna nánast hvað sem er úr ullinni af sínum kindum. Já, bittinú! Höfum ekki áhyggjur af hennar botnkulda.

Hins vegar er hún afar kulsækin og þarf ugglaust að fá sér "einangrunar"bussur! Sjaldan hef ég hitt konu með jafn litlar efnislegar þarfir og sem er jafn nákvæm með að verja engu í óþarfa! Og nú er ég ekki að skemmta þér heldur segja þér hinn ómengaðasta sannleika. - hahaha EF ráðamenn stýrðu búi okkar og verðu fénu okkart á sama hátt og sú kulsækna kona --- ja, þá væri eiginlega allflest með öðrum brag í fjármálum þjóðarinnar. Og fleiru.

 Stóðst bara ekki freistinguna að segja þér frá þessu Gunnlaugur! Mér fannst svo skemmtilegt að nefna Siggu og dýran smekk (jafnvel eyðslusemi, sem sumir kalla) í sama pistli... en hvernig áttir þú nú að vita þetta?!

Helga Ág. 

P.S. Föðurland? - sennilega á fáum stöðum fleiri til en að heimili þeirra ágætu hjóna!

´Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 10:08

3 Smámynd: Diesel

Mjög málefnalegt og gott Bjarni minn. Þú stóðst þig vel.

En mig langar að biðja ykkur öll að lesa þessa grein

Diesel, 19.12.2008 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband