Þjóð sem getur ekki stjórnað eigin málum!

ESB umræðan er full af stóryrðum og dag hvern skrifa ritstjórar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins um heimóttaskap, einangrunarstefnu og þjónkun við útgerðarauðvald allra þeirra sem ekki vilja setja upp ESB gleraugun. Slíkar röksemdir eru álíka málefnalegar eins og að segja alla ESB sinna vera grímulausa landráðamenn.

Einstöku sinnum örlar á hreinskilni eins og í eftirfarandi innleggi Einars Guðjónssonar í Reykjavík inn á síðuna hjá mér nú í vikunni þar sem hinir og þessir höfðu ausið úr fyrrnefndum gnægtabrunni ómálefnalegra fordóma:

Það efast engin um að þetta er ærlega meint hjá ykkur og má ekki blanda saman LÍU kóngum og Bjarna Harðarsyni og Heimssýn. Því miður ráðum við bara ekki við þetta verkefni að reka þjóðríki.

Hér talar maður sem er ærlegur í sínum málflutningi og verður ekki sakaður um landráð. Sjónarmiðið er einfaldlega þetta, okkur hefur tekist verr en öðrum þjóðum að ráða fram úr okkar málum og þarf engum að koma á óvart að svona sé hugsað. Bara núna meðan ég er að hripa þetta niður eru mæðulegir gamlir fréttamenn sem sjá um Spegilinn í útvarpinu að taka viðtal hver við annan um eignir bankanna og samtalið er einhvernveginn á þessum nótum:

- Já Gunnar, jú, jú það er auðvitað hægt að gera þetta öðru vísi en svona gerðu nú Svíar þetta á sínum tíma og já, já vinur það er nú að verða tímabært að Íslendingar fari nú bara eftir því hvernig útlendingar geri þetta og hætti að finna upp hjólið, hætti að horfa á séríslenskar leiðir því ekkert hefur nú gefist eins illa...

- Jú, jú Sigrún mín satt segirðu þetta er hverju orði sannara, Íslendingar eru nú það vitlausasta sem skríður á jörðinni og væri nú munur ef við einu sinni gerðum eins og aðrar þjóðir, sei sei já já...

Þetta er reyndar ekki orðrétt upptaka á Speglinum, þessu spaugilega elliheimili íslenskra fréttakrata en þeir sem vilja heyra þetta með öllum ambögum geta hlustað á samtalið hér, http://dagskra.ruv.is/ras1/4462999/2009/05/20/ 

(Það var reyndar ekki búið að búta Spegilinn niður í einstakar fréttir þannig að hann er í einu lagi hér á þessari slóð en í þetta sinn var boðið upp á einn pistil um að Evrópureglugerðir bjargi Þingvallaurriðanum, önnur um að Gísli Tryggvason talsmaður að ég held ESB talaði fyrir evru og samhengislaust um verðtryggingu, þriðja var ágætis úttekt á bílaiðnaði en þarna inn á milli var semsagt pistill um skilanefndir bankanna, stöðu fyrirtækjanna sem bankarnir hafa yfirtekið og frágang þeirra mála sem byggði á því að einn fréttamaður RÚV talaði við annan fréttamann RÚV og báðir jafn sannfærðir um þá rökleysu að öll fyrirtæki í landinu væru komin á höfuðið. Þar í var þetta kostulega samtal um það hvaða leiðir ætti að fara og rímaði vel við alla þá spekinga sem hamast nú við að halda því fram að Íslendingar séu allra manna lélegastir við að finna ráð við vandamálum yfirleitt og nær að treysta á útlendinga. Jafnvel Íslendingar sem búa í útlöndum eru taldir betri en Íslendingar hér heima því þeir eru þó í tengslum við siðaðar manneskjur!)

En hvernig standast þessi viðhorf skoðun. Hefur Íslendingum gengið verr að stjórna eigin málum heldur en öðrum þjóðum. Hefur krónan verið verri gjaldmiðill en aðrir gjaldmiðlar.

Ísland hóf sína sjálfstjórnargöngu fyrir 100 árum sem eitt fátækasta og vanþróaðasta ríki í Evrópu. Það voru engin náttúrulögmál sem réðu því að við vorum svo miklu lakar settir en aðrar Norðurlandaþjóðir fyrir öld síðan og það voru heldur engar guðs gjafir frá útlöndum sem réðu því að við tókum stökk fram á við og komust í fremstu röð, efnahagslega, tæknilega og í heilsufari, menntun og jafnrétti. Það sem fyrst og fremst gerðist var það að við tókum stjórnina í eigin hendur.

Jú, jú, ég veit að einhverjir halda að þetta hafi allt verið hersetu seinna stríðsins að þakka og aðrir að EES samningurinn hafi skilað þjóðinni frá örbirgð til velsældar. Já, eða að Marshall aðstoðin hafi breytt öllu, nú eða þá velvild og aðstoð nágranna okkar annarra við litla bróður í norðrinu. Engar af þessum fullyrðingum standast skoðun. Íslenska þjóðin tók stór stökk í átt til velsældar strax á fyrstu áratugum heimastjórnar (frá 1904) og fullveldis frá 1918 og náði vissulega að nýta sér margháttaðar ytri aðstæður. Ytri aðstæður sem ekki hefðu nýst ef við hefðum verið undir annarri þjóð.

Alla þessa leið frá því botnsætinu yfir á toppinn í merkilegustu og mestu keppni allra tíma, keppni 20. aldarinnar um að tryggja nútíma velmegun, alla þá baráttu höfum við háð með krónuna að vopni. Hún hefur auðvitað tekið við meiri sveiflum en aðrir gjaldmiðlar sem von er þegar hagsvæðið er svo lítið en ef við hefðum ekki haft krónuna er langlíklegast að við værum ennþá einhversstaðar neðarlega meðal Evrópuþjóða hvað snertir velsæld og velmegun. Við erum ennþá, þrátt fyrir Icesave og Jón Ásgeir meðal ríkustu þjóða heims.

En afhverju vorum það ekki hér áður fyrr. Var þá hvergi velmegun og ríkidæmi á 18. og 19. öld. Jú, kannski hvergi jöfnuður en víða velmegun og framfarir. Iðnbyltingin skilaði mannkyninu stórum stökkum framávið og íbúum fór meira fjölgandi en áður um gjörvalla Evrópu, en ekki á Íslandi. Var þá ekkert reynt?

Jú, hér var reynt að innleiða iðnbyltinguna með svokölluðum Innréttingum Skúla fógeta en rann út í sandinn eins og framfaraviðleitni  annarra kappa 18. og 19. aldar. Vegna heimsku mörlandans,- nei. Fyrst og fremst vegna þess hvað boðleiðir stjórnsýslunnar voru langar og óskilvirkar en yfirvöldin áhugalaus um vandamál sem snerti svo lítinn og ómerkilegan hluta ríkisins. Nákvæmlega sama verður uppi á teningnum ef við förum aftur þessa leið. Við verðum eins og með vatnatilskipun ESB látin gera fullt af fáránlegum og kostnaðarsömum hlutum en hættum að stjórna í takt við verkefnin.

Og höfum það hugfast,- það er einfaldlega þunglyndisraus af verstu sort að halda að Íslendingar séu verri til að ráða fram úr málum en aðrar þjóðir, jafn vitlaust eins og halda að við séum ofurmenni og kannski sami krankleikinn.

Okkur hefur í mörgum málefnum tekist vel upp og betur en þeim þjóðum sem við berum okkur saman við. Þetta á við í landgræðsluverkefnum, vatnsaflsvirkjunum, nýtingu jarðhita, friðun fiskistofna og í margskonar eflingu menningar í landinu. Á stuttu árabili starfaði hér á landi lítill hópur oflátunga í fjármálum sem hafa skaðað orðspor Íslands ómælanlega en látum það ekki berja niður sjálfsálit allrar þjóðarinnar.

Það er einfaldlega óskynsamlegt og leiðir til ófarnaðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband