Prófraun VG eru Bakki og Helguvík

Vinstri grænir standa nú frammi fyrir mikilli prófraun. Flokki Steingríms J. er smám saman að takast að þoka sér upp úr því hjólfari að vera þröngsýnn óstjórntækur öfgaflokkur í eilíflegri stjórnarandstöðu yfir í að vera stjórntækur og sæmilega víðsýnn þjóðlegur vinstri flokkur. Þetta er líka mikilvægt ef flokkurinn ætlar að halda í það fylgi sem hann fékk í síðustu kosningum og helst auka það.

ESB-málin eru vissulega skuggi á mynd flokksins en ef og þegar ESB-samningi hefur verið hafnað í þjóðaratkvæði þá getur vel farið svo að við þjóðlega þenkjandi menn tökum að lokum ofan fyrir Steingrími og Ögmundi fyrir þann kjark að hleypa þessu máli hjá á viðsjártímum. En þá er líka eins gott að allur þingflokkur VG beiti sér gegn samþykkt samningsins. Og um Icesave er það að segja að það mál er að fara eins og það hlaut að fara.

Stóra prófraun flokksins nú er álverið við Húsavík. Það er algerlega óásættanlegt fyrir okkur landsbyggðarsinnaða og skynsama kjósendur VG ef flokkurinn ætlar að stoppa Bakka við Húsavík en hleypa Helguvík áfram. Sjálfur get ég vel sætt mig við að Helguvík verði stöðvuð enda vafamál að það sé skynsamlegt að reisa risaálver ofan í hesthúsahverfum Keflvíkinga. Ég skil líka að það er ákveðin málamiðlun milli álverssinna og hinna að stoppa annað álverið en það er afar misráðið og andstætt þeirri byggðastefnu sem VG hefur staðið fyrir ef það verður norðlenska álverið sem verður þar sett út í kuldann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Svar mitt er fljótgert,vil auðvitað gera allt til að rétta landsbyggðinni það sem hún  þarf,'Alver á báðum stöðum er i lagi,það verður bar að semja betur um rafmangsöluna,vistvænn orka er okkar megin/En svona i framhjáhlaupi ekki vissi eg  að þú Bjarni bloggvinur væri kjósandi V.G. i reynd/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 23.9.2009 kl. 17:32

2 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þetta er ekki boðleg afstaða Bjarni, að snúast gegn Helguvík en mæla með Bakka. Þér er væntanlega ljóst að bygging álversins við Helguvík er nú þegar hafin. Hvernig dettur þér í hug að hesthúsahverfi í 3 km fjarlægð geti haft áhrif á álverið eða öfugt ? Að auki er atvinnuleysi á Suðurnesjum mest á landinu og því knýjandi þörf á öllum mögulegum störfum. Hvað varðar hjólfarið sem VG er búið að koma sér ofaní, þá fæ ég ekki séð að upp úr því verði komist. Þegar öllum baráttumálum VG hefur verið fórnað fyrir stjórnarsetu, mun fórnar-kostnaðurinn sjá til þess að síðasti kjósandinn hverfur á braut. Að auki mun þjóðlega þenkjandi fólk aldreigi fyrirgefa VG, að leiða Sossana til öndvegis í Íslendskum stjórnmálum. Það er beinlínis glæpsamlegt við núverandi aðstæður.

Loftur Altice Þorsteinsson, 23.9.2009 kl. 18:06

3 Smámynd: Baldur Már Róbertsson

(Stóra prófraun flokksins nú er álverið við Húsavík. Það er algerlega óásættanlegt fyrir okkur landsbyggðarsinnaða og skynsama kjósendur VG ef flokkurinn ætlar að stoppa Bakka við Húsavík en hleypa Helguvík áfram.)

eru til skynsamir kjósendur VG ?? Er skynsamlegt að kjósa flokk sem segir eitt og gerir annað ?? Vaknaðu Bjarni minn

Baldur Már Róbertsson, 23.9.2009 kl. 18:09

4 Smámynd: Guðbergur Egill Eyjólfsson

Komdu sæll Bjarni

Ég held að við norðlendingar ættum bara að vera fegnir að fá ekki þennan ósóma í nágreni við okkur og ef ekki er hægt að koma í veg fyrir bæði álverin að þakka bara fyrir að það rísi fyrir sunnan.
Þeim mun lengur sem við náum að draga það að fleyri álver rísi því meiri tími fyrir stóriðju sinna að átta sig á að það er hægt að gera margt skinsamlegra heldur en að byggja álver.
Við eigum að stefna að sem sjálfbærustu samfélagi og höfum góða möguleika til þess ef við komum okkur bara upp úr hjólförum einhæfni og afturhaldssemi. Þá er spurt hvað á að koma í staðinn.
Strax kemur tvennt upp í hugann, aukin matvælaframleiðsla og ferðaþjónusta. Hvoru tveggja er gjaldeyris og atvinnuskapandi og hvert starf í þessum greinum kostar ekki nema brota brot af því sem hvert starf í áliðnaði kostar. Síðan varðandi áliðnaðinn. Hann stefnir alltaf í að auka tækni og fækka störfum eða hvað hefur ekki störfum í straumsvík fækkað frá stofnun álbræðslunnar þar þrátt fyrir mikkla framleiðslu aukningu.

kveðja
Guðbergur í Hléskógum

Guðbergur Egill Eyjólfsson, 23.9.2009 kl. 19:43

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér finnst ekki hægt að vera með öðru álverinu en á móti hinu vegna þess að þau eru nákvæmlega sama marki brennd.

Þau eru alltof stórir orkukaupendur að takmarkaðri orku og það á eftir að koma okkur í koll, fyrst þegar aðrir, hagkvæmari og smærri kaupendur birtast, og síðar þegar við þurfum orku á bíla- og skipaflotann.

Í lokin, þegar orkan á langstærstum hluta jarðvarmasvæðanna á Suðvesturlandi verður uppurin, ætlum við að skilja barnabörnin okkar eftir uppi á Hellisheiði og láta þau fara að leita að 600-1000 megavatta orku annars staðar.

Á sínum tíma var ég fylgjandi álverinu í Straumsvík vegna þess að það jók fjölbreytni í einhæfu atvinnulífi.

Nú er ég andstæður risaálverunum sem krefjast allrar orku heilla landshluta og koma í veg fyrir fjölbreytni.

Ómar Ragnarsson, 23.9.2009 kl. 21:03

6 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Röksemdin með hesthúsahverfi Keflvíkinga gerir útslagið! Ók þarna um gær. Það er  hárrétt, þetta  gengur auðvitað ekki upp.

Eiður Svanberg Guðnason, 23.9.2009 kl. 23:08

7 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Fram að þessu, hafa álverin ekki hamlað fjölbreytni atvinnulífsins. Hægt er að hugsa sér að að því komi einhvern tíma, að ekki verði næg orka fyrir hendi. Eins og er virðist orkan hins vegar óendanleg fyrir okkar þarfir.

Okkur er ekki við bjargandi, ef við nýtum ekki alla möguleika til sköpunar atvinnu, á dögum atvinnuleysis og efnahags-kreppu. Höfum í huga að núverandi ástand, með tvö álver í start-holunum, er einstakt. Eftir 3 ár er hugsanlegt að engin álver verði í boði.

Bygging og rekstur tveggja nýrra álvera mun skipta sköpum fyrir atvinnulífið, í þeirri þröngu stöðu sem við erum í núna. Að hafna þessum verksmiðjum vegna barnalegra fordóma, jafnast á við beitingu hryðjuverkalaga Bretanna.

Almenningur myndi taka slíkum mistökum ákaflega illa, enda þolinmæði fólks á þrotum. Dáðleysi Icesave-stjórnarinnar er farið að segja til sín í skoðanakönnunum.

Loftur Altice Þorsteinsson, 23.9.2009 kl. 23:10

8 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Mér hugnaðist betur ef orkan okkar gæti nýst við eitthvað annað en álver enda ekkert sniðugt að hafa öll sín egg í sömu körfunni. Bæði þessi fyrirhuguðu álver mættu missa sig mín vegna.

Mætti ekki skoða eitthvað annað eins og til dæmis framleiðslu lífeldsneytis, rekstur gagnavera, matvælaframleiðslu og svo mætti lengi telja.

Reynið að fá fjölbreyttari hugmyndir og komið þeim á framfæri.

ÁFRAM ÍSLAND
NEI við ESB  -  NEI við Icesave
Styðjum Samtök Fullveldissinna
http://www.fullvalda.is
http://fullvalda.blog.is/blog/fullvalda/

Ísleifur Gíslason, 24.9.2009 kl. 01:59

9 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

Ég vinn í álveri.

Þetta er fín vinna,ágætis laun og góð frí á milli vinnutarna.

Ég get sagt það að ég væri löngu farinn af landi brott ef ég væri ekki í þessari góðu vinnu þar sem allt er gert fyrir fólk.

Ég vil að landið byggist upp og að fólk hafi mannsæmandi laun þess vegna er ég enn þá staddur hér á þessu landi, þessu landi sem er gjör spillt og búið að eyðileggja hvað orðspor varðar á erlendi grundu.

Að hlusta endalaust á þetta hundasúru kjaftæði að við eigum að gera eitthvað annað þá á fólk að skilgreina hvað það er og koma því í framkvæmd.

Það sjá það allir sem vilja sjá að ef við gerum ekkert og nýtum ekki okkar auðlyndir þá erum við farin á hausinn.  Ég mun doka við og sjá til hvort ég verð áfram hér eða fer eitthvað annað.  Það fer allt eftir misvitrum stjórnmálamönnum.

En það hljóta allir að sjá að það þarf að nýta öll tækifæri með grettistaki til að lyfta þjóð okkar upp úr þessu volæði.

Í þessu árferði verðum við að nýta öll okkar tækifæri ef erlendir fjárfestar vilja enn þá fjárfesta hér?  

Ég held að við fælum þá alla frá okkur með okkar lélegu stjórnsýslu?  Drekasvæðið er nýjasta dæmið.

Skora á alla að hugsa jákvætt og taka vel á móti öllum þeim sem vilja hjálpa okkur að reisa landið okkar upp úr þessum rústum.

Árelíus Örn Þórðarson, 24.9.2009 kl. 02:08

10 Smámynd: Guðbergur Egill Eyjólfsson

Sæl aftur

Loftur og Árelíus það er málfluttningur eins og ykkar sem AGS og erlend risafyrirtæki vilja heyra. það er að þegnar lands sem alheimskapítalisminn er að hertaka falli í grifjuna og bjóði allt falt í landinu. Þessi álfyrirtæki eru ekki hér af góðmennsku, þau eru hér á meðan ódýra orku er að hafa og þegar þau hafa þurkað upp auðlyndirnar þá eru þau farin. Hvað verður þá um allan þann infrastrúktúr sem byggst hefur upp í kringum álframleiðsluna. Hvernig verður fyrir byggðarlög eins og á Reyðarfyrði og Húsavík að rífa sig upp úr þess lags áföllum.
Málfluttningur ykkar byggist á 19. aldar hugsun þegar eina lausnin var fleiri verksmiðjur og verksmiðjur ofan.
Árelíus þú talar um hundasúru kjaftæði, er ekki bara betra ef hægt er að draga fram lífið af hundasúrum heldur en áli? Hvers lags fordómar eru þetta?
Ég vil bara endurtaka að það eru til lausnir og þær geta auðveldlega falist í aukinni matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu.
Þið viljið byggja álbræðslu til þess að bjarga atvinnulífinu, jú það myndi hjálpa til í byggingar og verktakabransanum á meðan álbræðslan væri í byggingu en hvað svo. Getur ekki verið að þessar greinar hafi verið orðnar of stórar einmitt vegna of margra stórframkvæmda undanfarin ár. Það er ekki bara hægt að framkvæma til þess að halda lífi í ákveðnum atvinnugreinum heldur verður atvinna fólks að ráðast af þörfinni en ekki að búa til þörf til þess að viðhalda atvinnu. Þjóð eins og okkar getur ekki verið í eilífum stórframkvæmdum.
Eitt enn Árelíus ef þú ert þreittur á Íslenskum stjórnmálamönnum þá held ég að þeir séu ekkert betri annarsstaðar. Og þá kem ég inn á það að Loftur kallaði þessa ríkisstjórn ICESAVE ríkisstjórn, þá vil ég minna á að það var ekki þessi ríkisstjórn heldur ríkisstjórn undir forystu sjálfstæðisflokksins sem skapaði þær aðstæður að þetta mál gæti komið upp.

Kveðja Guðbergur í Hléskógum

Guðbergur Egill Eyjólfsson, 24.9.2009 kl. 08:21

11 Smámynd: Katrín

Sjálfbær þróun, hugtak Brundtland ætlar heldur betur að leiða landann á villigötur.  Hvað er framleiðsla áls á Íslandi annað en sjálfbær þróun?  Orka fallvatna /  jarðar notuð til framleiðslu.  Eru menn orðnir svo heilaþvegnir að þeir sjái ekki kostina við slíka nýtingu orkunnar?   Það má örugglega gagnrýna að verð á rafmagni til slíkrar framleiðslu hafi verið í lægri kantinum og mætti að ósekju hækka, en að halda því fram að álframleiðsla á Íslandi sé ekki umhverfisvæn er hrein og klár heimska.

Katrín, 24.9.2009 kl. 09:01

12 identicon

Pælir enn í Pólitík

prakkari utan garna

hesthúsin í Helguvík

helgidómur Bjarna

GlG (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 14:02

13 identicon

Síðast þegar ég gáði var gífurlegt tap á orkusölu til álbræðslu. Og ekki veit ég betur en að þjóðin þurfi að taka á sig lántökur til að auka við sig í því. Sé ég því enga skynsemi með álver þessi.

Nú og ...umhverfisvænt....það er umdeilt á tvennan hátt. Það er ekki verið að tala um virkjun jökulánna sem langtímalausn, þar sem þær fylla sínar uppistöður af aur á ákveðnum tíma, - ef að jöklarnir verða á annað borð ennþá til staðar svo lengi! Og háhitasvæðin ætla að reynast örlítið erfið viðureignar og skila af sér sæmilegri mengun eins og t.d. á Hellisheiði.

Álið endar svo að mestu leyti á ruslahaugum hinna betur megandi þjóða, - á meðan það er nógu "ódýrt".  Það fer meira ál á haugana árlega heldur en bundið er í flugflota jarðarbúa.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 14:04

14 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Guðbergur, þú misskilur málið gjörsamlega. Ég deili líklega með þér andúð á AGS, en erlend fyrirtæki á sviði álbræðslu sækja ekkert til AGS. Þetta eru fyrirtæki sem við semjum við og veitum aðstöðu, orku og mannafla. Þetta er ekki dæmi eins og Icesave-kúgunin. Álverin þurrka ekki upp endurnýjanlegar auðlindir, heldur nýta orku sem annars væri engum til gagns. Það vatn sem rennur óbeislað til sjávar verður ekki notað einhverntíma síðar til framleiðslu á raforku. Í skjóli álveranna vex upp önnur starfsemi sem eftir 50-100 ár getur staðið sjálfstætt, ef álverin verða lögð niður. Þá losnar líka orkan til annara nota og venjulega er langur aðdragandi að lokun álvera. Álver eru líklega traustustu fyrirtæki sem völ er á, meðal annars vegna þess hversu fjárfrek þau eru í byggingu. Eigendur álvera hlaupa ógjarnan fyrirvaralaust frá fjárfestingum sínum. Icesave-málið er alfarið á ábyrgð og í boði Sossanna, fyrst í Alþýðuflokknum með inngöngunni í EES 1994 og síðan í Samfylkingunni. Allir vita að óheilindi Sossanna stafar af sjúkri undirgefni þeirra við nýlenduveldi Evrópu. Enginn annar flokkur í landinu hefði skrifað upp á Icesave-samninginn, eða reynt að þvinga fram ábyrgð á honum. Mikilvægasta verkefni samtímans er að koma Samfylkingunni frá völdum.

Loftur Altice Þorsteinsson, 24.9.2009 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband