Þegar veröldin hrapar til helvítis!

Ef allir menn yrðu að einum manni, allir hestar að einum hesti, öll fjöll að einu fjalli, allir steinar að einum steini og öll vötn að einu vatni, þá skyldi sá stóri maður stíga upp á þann stóra hest, taka í hönd sér þann stóra stein, ríða með hann upp á það stóra fjall og kasta honum þaðan ofan í hið stóra vatn, þá segði mikið bullum hlunk.

Eins mun verða þegar þessi veröld hrapar til helvítis.

Góðan dag góðir hlustendur. Þetta er Bjarni Harðarson á skrollinu á Suðurland FM.

Þessi formáli er ræðustúfur átjándu aldar klerksins Þórðar Jónssonar í Reykjadal í Hrunamannahreppi sem var mikill kynjakvistur og hvort sem hann hefur nú flutt þessa ræðu eins og hér er talið eða ekki var það allavega svona sem hreppamenn fyrri aldar mundu ræðu þessa. Sú minning sýnir okkur öðrum þræði að menn hafa hent gaman af Þórði og til eru af honum fleiri sögur. Ein er af bæntekningum karlsins eða ræðustúf sem var talinn svohljóðandi og lýsir vel kumpánlegu sambandi prests og guðs:

Skundaðu nú upp að Haukholtum, Drottinn minn! og hjálpaðu gömlu hjónunum, sem þar eru i innsta rúminu að norðanverðu, og hangir skóbótakippa á stagi upp yfir þeim. Komdu um leið að Skipholtskoti og miskunnaðu barnunganum, sem þar er í laup á miðju gólfi. En varaðu þig á henni Kotlaugakeldu, hún hefur mörgum körskum á kollinn steypt...

En hvað sem hæft er í þessum gömlu munnmælum um hreppaprestinn Þórð þá gefa þær okkur innsýn inn í pólitíska umræðu fyrir 250 árum. Þá voru enn á dögum þeir prestar sem töldu sitt aðal hlutverk að hóta fátækum og hræddum almenningi með helvítiseldi og dómsdagsspá. Ræðustúfur Þórðar um þessa sérstöku umbreytingu á veröldinni í einn mann, einn hest, eitt fjall, einn stein og eitt vatn er ekki bara skopleg vitleysa heldur líka bergmál frá þessum tíma.

Presturinn byrjar hér á að ringla söfnuð sinn algerlega með myndlíkingu sem enginn almennilega nær upp í við fyrstu áheyrn og tilgangurinn er sá einn að lýsa því mikla bullumhlunki sem verður þegar veröldin hrapar til helvítis. Það er ekkert ef í þeim boðskap og ljóst að sá sem svona talar á allt eins von á að þessi ógnarlega helvítishröpun verði á allra næstu dögum, jafnvel bara um það leyti sem menn ríða framhjá henni Kotlaugarkeldu.

 

Þegar kom fram á 19. öld slaknar mjög á þeim boðskap að dómsdagur sé í nánd og það ríkir það frjálsræði að fólk sem enn man þennan fornlega klerk í Reykjadal snýr grafalvarlegum helvítsboðskap hans upp í gamanmál og rifjar um leið upp ýmislegt úr erfiðri lífsbaráttu þessa mæðumanns sem Þórður var. Hann var einhleypur og sárfátækur en bar sig jafnan vel. Einhverju sinni var með öllu matarlaust í Reykjadal á páskadagskvöld utan 7 tálkn úr þorskhausum sem prestur geymdi í altarinu í Reykjadalskirkju. Á heimilinu voru 7 manns. Gaf Þórður hverjum sitt tálknið og svo sem þumlung af kirkjukerti við. Frá þessu sagði hann og bætti svo við:

– Þá var bæði étið og hlegið í Reykjadal.

Helvítishótanir og dómsdagsspár Þórðar í Reykjadal eiga sér samsvörun á Íslandi 21. aldar. Dag hvern heyrum við viðtalsrullur með jafn óskiljanlegum röksemdafærslum eins og sagan um manninn stóra sem enda svo með því að sagt er, svo fer allt til helvítis. Það er auðvitað ekkert samræmi í þessum spám öllum enda ekki um að ræða jafn samræmd trúarbrögð í landinu og var á tímum Reykjadals-Þórðar en í reynd skiptir það engu máli.

17. aldar prestar og 21. aldar grillufangarar telja það vænlegast til að fá fólk á sitt band, til þess að skríllinn skilji að tala í stórum fyrirsögnum. Ekki tala í hálfkveðnum vísum um að kannski sé þetta nú betra en hitt. Nei, það fer einfaldlega allt til helvítis ef við ekki gerum rétt.

– Ef Ísland gengur ekki í Evrópusambandið þá fer landið til helvítis.

– Ef Ísland gengurí Evrópusambandið þá fer landið örugglega á verri stað en til helvítis.

– Ef við borgum ekki Icesave þá mun aldrei nokkur maður í útlöndum tala við okkur og hér verður áratugastöðnun.

– Ef við borgum Icesave þá verður ekkert heilbrigðiskerfi í landinu eftir fáein ár.

– Ef við tökum öll þau lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heldur að okkur þá verða svo háar vaxtagreiðslur að það verða engir skólar í landinu eftir nokkur ár.

– Ef við ekki gerum eins og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn segir þá fáum við engan pening og krónan hrapar og hrapar og hrapar og þá mun heyrast mikið bullum hlunk...

– Ef að vinstri stjórnin ríkir áfram verður bráðum ekkert atvinnulíf í landinu.

– Ef sveitarstjórnir fá ekki að fara sínu fram í virkjunum og línulögnum þá vilja stóru strákarnir í útlöndunum með öll álverin aldrei vera með okkur aftur

Og svo framvegis og svo framvegis. Röksemdafærslurnar meira og minna jafn barnalegar og kauðskar eins og þær sem Þórður í Reykjadal færði fram og verða aðhlátursefni næstu kynslóða þó svo að í nútímanum sé þetta allt þrumað yfir okkur í mesta harðlífi.

Dag hvern belgja sig fréttamenn í ljósvakamiðlum, leiðarahöfundar og einstaka sinnum fá jafnvel stjórnmálamenn að komast að, sérstaklega ef þeir kunna lagið og geta sagt einhverskonar bullumhlunk öðru hvoru í ræðu sinni. Bjartsýnir stjórnmálamenn eru afþakkaðir eins og líka blóm og krasnar á sorgarstundu.

Annars hafa íslenskir fjölmiðlamenn þá sérstöðu meðal kollega sinna að vilja helst ekkert hlusta á aðra en sjálfa sig og í einstaka tilvikum aðra fjölmiðlamenn. Það er útaf fyrir sig kostur á sparnaðartímum að fara ekki lengra en inn í næsta herbergi eftir viðmælendum og líkist í því prestum fyrri tíðar sem töluðu einir við guð og urðu honum kumpánlegir kunningjar.

 

En í staðin fyrir að þylja upp óskiljanlegar og meira og minna röklausar fabúlur um gjalddaga, stýrivexti, alþjóðasamskipti og ímyndað atvinnuleysi mæli ég með þessari þulu:

 

Ef allir menn yrðu að einum manni, allir hestar að einum hesti, öll fjöll að einu fjalli, allir steinar að einum steini og öll vötn að einu vatni, þá skyldi sá stóri maður stíga upp á þann stóra hest, taka í hönd sér þann stóra stein, ríða með hann upp á það stóra fjall og kasta honum þaðan ofan í hið stóra vatn, þá segði mikið bullum hlunk.

Eins mun verða þegar þessi veröld hrapar til helvítis.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband