Ný skáldsaga fjölhæfs rithöfundar

Langt er síðan ég komst að því að Bjarni Harðarson er ekki allur þar sem hann er séður. Og samt tekst honum enn að koma mér á óvart. Nú sendir hann frá sér nýja bók, ,,Svo skal dansa. Skáldsaga úr veruleikanum". Sérstætt heiti á enn sérstæðari sögu.  Þessi ólæknandi ættfræðigrúskari hrekkur upp við það rétt um tvítugt að formæður föður hans, a.m.k. þrjár í beinan kvenlegg, hafa barist á þann hátt fyrir lífi sínu að saga þeirra lætur hann ekki í friði. Hann sökkvir sér niður í fornfræði og þjóðfræði, gerist mikilvirkur fræðimaður og um leið blaðamaður og ritstjóri. Hann nær slíku valdi á máli og stíl að fólk staldrar við og les vandlega þegar greinar hans birtast í blöðum innan um allt hitt flóðið sem þekur hverja síðuna af annarri. Og þrátt fyrir allt fornfræðagrúskið finnur hann svo til með samtíð sinni að fyrr en hann veit af er hann kominn á Alþingi Íslendinga og neyðist til að setja á sig hálstau. En ,,bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt" eins og á Glæsivöllum forðum og samræmist ekki hugmyndum hans um hreinskilni og heiðarleika. Hann hverfur af þingi og skilur eftir lexíu sem lengi verður í minnum höfð.

Og nú, tæpum þrjátíu árum eftir að Bjarni kynntist Nonna ömmubróður sínum austur í Tungu í Fáskrúðsfirði, fáum við í hendur fullburða ,,skáldsögu úr veruleikanum", hetjusögu formæðra hans. Hún er að hluta til saga íslensks alþýðufólks í u.þ.b. 100 ár, síðari helming nítjándu aldar og hinn fyrri þeirrar tuttugustu; vissulega saga sem ýmsir höfundar hafa spreytt sig á. En sagan hans Bjarna er meira en venjuleg lífsbaráttusaga hinna snauðu. Hún er frelsisbaráttusaga. Konurnar í sögunni lögðu allt að veði, þ.m.t. samvistir við börn sín, til að geta rétt úr sér og horfst í augu við aldarhátt sem gerði ráð fyrir skilyrðislausri undirgefni þeirra. Frásögnin er lögð í munn tveggja þessara kvenna, Sigríðar Velding (1856-1922) og Sesselju Helgadóttur (1890-1959), dóttur hennar og langömmu Bjarna. Frásögn Sesselju er því nær tvöfalt lengri en Sigríðar og nær einnig yfir sögu Kristínar (1916-1960), ömmu Bjarna. Fjöldi ættingja og annarra samferðamanna kemur við sögu og margar persónulýsingar dregnar skýrum dráttum. 

Ég þori að fullyrða að þessi óvenjulega saga ber engin merki þess að vera frumraun nýs skáldsagnahöfundar.  Hinu átakanlega og miskunnarlausa hlutskipti kvennanna er lýst af raunsæi og innlifun. Samúð höfundar með aðalpersónunum er hvarvetna milli línanna án allrar réttlætingar á þeim orðum þeirra og gerðum sem helst orka tvímælis. Blæbrigðarík brot úr þulum og þjóðkvæðum, andlegu athvarfi hinna örsnauðu, eru gerð að leiðarstefjum frásagnarinnar, sbr. heiti sögunnar. Þau bera vitni um ást höfundar á fornfræðunum og gæða söguna sérstöku lífi og hugblæ en tengsl þeirra við söguefnið mættu sums staðar vera skýrari. Staðar- og umhverfislýsingar sýna trausta þekkingu og heimildaöflun og brugðið er upp ógleymanlegum þjóðlífsmyndum. Lýsingar á snörpum átökum fólks á örlagastundum eru gagnorðar og yfirleitt lausar við grófyrði og verða þannig enn áhrifameiri en ella.

Ég leyfi mér að óska Bjarna til hamingju með stórbrotið verk. 

Kristinn Kristmundsson


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband