Leiðari Mogga 18. maí: Hugsum okkar ráð

Þriðjudagur, 18. maí 2010 Hvorki eru það ný tíðindi né óvænt að Ísland sé í vanda um þessar mundir. Daglega birtast dæmi um slíkt.

Eitt merkið er viðvarandi og hefur á sér fleiri en eina hlið. Ísland þarf fjárfesta inn í landið. Það ætti að vera kjörlendi slíks núna því fjárfestirinn sem kemur með erlent fé fær keypt nærri tvöfalt fyrir sitt fé miðað við það sem gerðist ef landið og efnahagur þess hefðu rétt sig af. Og fjárfesting erlendis frá er reyndar eitt af því sem flýta mun slíkri endurreisn. En jafnvel svo ákjósanlegt efni hefur á sér aðra hlið.

Um leið og við eigum að fagna margvíslegri fjárfestingu verðum við að hafa þrek til þess að láta ekki frá okkur auðæfi til langs tíma á gjafvirði dagsins. Við höfum bognað aðeins en við höfum ekki brotnað. Þjóðin hefur ekki samþykkt að eignir hennar séu falboðnar af kæruleysi á brunaútsölu. Og við megum enn síður láta frá okkur að taka efnislega afstöðu til hvers máls. Það fer til að mynda ekki á milli mála að það stríðir gegn anda gildandi laga að lauma erlendum fjárfestum inn í orkugeirann í gegnum skúffufyrirtæki í Svíþjóð. Og þó er líklegra að slík sniðganga við lögin sé beint brot gagnvart þeim sjálfum. Við eigum að taka okkar eign ákvarðanir um hvernig við viljum skipa eignarhaldi á meginauðlindum okkar.

Það munaði hársbreidd á sínum tíma að leikflétta undir sama nafni og nú er í forsvari nýs leiðangurs heppnaðist fyrir fáeinum árum. Sex hugrakkir borgarfulltrúar komu í veg fyrir það. Nú er hins vegar í landinu svo liðónýt ríkisstjórn að í henni er ekkert hald. Ráðherrarnir kvaka um sorglega atburði og hafast ekki að. Líklegast er að ríkisstjórnin komi saman og setji niður nefnd sem fari yfir það hvort setja megi nýjar reglur sem taki með óljósum hætti á málum eins og þessum. Það eru hin háttbundnu og þekktu viðbrögð hennar við öllu sem upp kemur. Meðvitað stjórnleysi er vissulega einn af kostunum sem fyrir hendi eru um leiðsögn í landsmálum og geta við ýmsar aðstæður reynst prýðilegar. En á þeirri aðferð eru undantekningar. Núverandi ríkisstjórn er hins vegar skipuð fólki sem aðhyllist stjórnlyndi og miðstýringu en það er hins vegar svo óhæft til verka að jafnvel þegar ókostir þess gætu komið að gagni þá bregst það og bilar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband