Baugshringnum lokað

Það er tvítekning að tala um Baugshring því baugur þýðir hringur og starfssemi Baugsfeðga hófst undir slagorðinu Bónus ekkert bruðl en lauk með því mesta versta bruðli sem þjóðin hefur horfst í augu við. Hér fer saman spilling, hófleysi og græðgi í áður óþekktum stærðum.

Við bankahrunið var ljóst að fjölmiðlaveldi Baugsfeðga, 365 miðlar, gætu illa staðið við skuldbindingar. Greinilegt var samt að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni var þá mikið í mun að halda í eigin hendi þeim hluta rekstrarins sem hefur mest áhrif á skoðanir fólks. Hann stofnaði þá fyrirtæki sem fyrst hét Rauðsól og síðan ef til vill öðrum nöfnum og náði að kaupa til sín í einkaeigu Fréttablaðið og Stöð tvö út úr rekstri 365 miðla og skildi miður spennandi eignir eftir í fyrirtækinu.

Mikil umræða fór á þessum tíma fram um það hvaðan fyrrverandi eigandi Glitni fengi fé til að ganga inn í hið nýja ríkisbankakerfi og kaupa þrotabú af sjálfum sér. Nokkrum vikum síðar kom fram að fjármögnunaraðili þessa sérstæða verkefnis var Sparisjóðurinn Byr sem hafði þá skömmu áður greitt stórfé út í arð til eigenda sinna.

Jóni Ásgeiri var vitaskuld mikið í mun að halda fjölmiðlaveldi sínu enda er það rekið sem blygðunarlaus áróðursmiðstöð fyrir fjármálaveldi Baugs og fyrir ESB aðild. ESB aðildin er alger forsenda þess að auðmönnum Íslands takist að fara annan hring á þjóðarverðmætum og því mikið í húfi.

Sem fyrr segir var það bankastofnunin Byr sem fjármagnaði kaup Jóns Ásgeirs -og greiddi líka arð út til eigenda Byrs. Nú örfáum vikum síðar kemur sami banki fram, segist vera félagslegur sparisjóður og vill ríkisstyrk. Fari svo að núverandi ríkisstjórn greiði af almannafé til að halda lifandi þessari síðustu bankastofnun Baugsveldisins þá skal ég aldrei aftur nota orðið Baugsflokkur- í eintölu. Það er þá orð sem nota á í fleirtölu um alla ríkisstjórnarflokkana þrjá.

(Birt í Mbl. 24. mars 2009)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband