Vonin eftir Pétur H. Blöndal

Pétur H. Blöndal Á KOSNINGAFUNDI í Gerðubergi um daginn sagði einn fundarmanna í lok fundarins: „Jæja Pétur, gefðu okkur nú von." Áður hafði verið rætt ítarlega um svartsýna umræðu manna á meðal og enn svartsýnni fréttaflutning frá því hrunið varð í október sl. Stjórnmálamenn eiga að leiða þjóð sína út úr ógöngum og ekki er gæfulegt ef þeir sjá ekki út úr augum fyrir tárum og úrræðaleysi. Og vonleysi.

Meirihlutinn í þokkalegum málum

Staðan er vissulega slæm. Tæp 9% vinnufærra manna eru atvinnulaus og er sá hópur eflaust verst settur. Atvinnuleysi eigum við ekki að þola til lengdar. Því til viðbótar má ætla að 10% til 20% hafi orðið fyrir tekjulækkun eða hafi ákveðið að taka lán til bíla- eða húsnæðiskaupa í erlendri mynt með lágum vöxtum. Þau lán hafa hækkað umtalsvert. Þessir hópar eru í slæmri eða mjög slæmri stöðu. Margt hefur verið gert til að milda hana þótt eflaust dugi það skammt hjá sumum. En 70-75% þjóðarinnar eru í þokkalegum málum. Þessi stærsti hluti þjóðarinnar hefur reyndar þurft að sæta um 10% skerðingu raunlauna vegna verðbólgu en það svarar til raunlaunahækkunar síðustu 2 til 3 ára. Þessu má líkja við það að hafa svipaðan kaupmátt og hann var 2006. Þessi hópur mun geta fleytt þeim sem eru í erfiðleikum yfir hjallann, sem mun vonandi ekki vara lengur en í 2 til 4 ár. Það er sá tími, sem það tekur að greiða út jöklabréfin með afgangi á vöruskiptum. En þetta er viðráðanlegt og gefur okkur von.

Undirstaðan er traust

Taka má líkingu af skipi, sem lendir í brotsjó. Allt dekkið er þakið braki og bramli og áhöfnin hleypur ráðvillt fram og til baka. Í brúnni deila skipstjórinn, stýrimaðurinn og kokkurinn um það hvert skuli haldið og hverjum sé um að kenna. En niðri í vélarrúmi gengur vélin eins og klukka. Þar er ekkert lát á. Skipið heldur fullri siglingu þrátt fyrir sýnilega óreiðu á dekkinu og í brúnni. Útflutningurinn hefur haldið áfram ólaskaður. Hann hvílir nú á þremur sterkum stoðum í stað fjögurra áður. Fjármálageirinn er illa laskaður en álútflutningurinn verður væntanlega um 190 milljarðar á þessu ári í stað 90 milljarða 2007 þrátt fyrir mikla verðlækkun erlendis, sem þó virðist vera að ganga til baka. Sjávarútvegur nýtur góðs af lágu gengi krónunnar og gengur þokkalega, þrátt fyrir verðlækkun erlendis. Ferðaþjónusta gengur mjög vel vegna veikrar krónu og gífurlegrar kynningar á landinu um allan heim. Sú kynning á eftir að gagnast ferðaþjónustunni um ókomin ár. Þessar þrjár stoðir útflutnings okkar eru von þjóðarinnar.

Sparnaður hefur aukist

Neysla landsmanna hefur dregist þvílíkt saman að leitun mun vera að jafn miklum samdrætti í innflutningi einnar þjóðar. Hinn neysluglaði Íslendingur hefur yfir nótt breyst í homo parcus, hinn sparsama mann. Þetta er jafnvel einum of mikil sparsemi og mætti vera dálítið minni svo verslun og viðskipti botnfrjósi ekki. Þar sem fólk gerir ekki nema tvennt við launin sín, eyðir þeim eða sparar (og þá með því að greiða upp skuldir eða leggja fyrir) er ekki að undra að sparnaður hafi aukist. Mér segir svo hugur að innlán hafi aukist í október og nóvember sl. sem aldrei fyrr í Íslandssögunni. Þó virðast upplýsingar um það ekki liggja fyrir. Í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans kemur fram að innlán hafi aukist um 250 milljarða króna frá því í ágúst. Eitthvað sé þó um tvítalningar að ræða. Þó að notuð sé talan 100 milljarðar þá eru það um 300 þkr. á hvern íbúa eða 1,2 mkr. á hverja 4 manna fjölskyldu. Þetta mikla fé lúrir núna inni í bönkunum og bíður þess að verða hleypt út í atvinnulífið. Þessi nýi sparnaðarvilji þjóðarinnar er einnig von okkar.

Í þessum mánuði er verðhjöðnun þannig að verðtryggð lán lækka sem og afborganir af þeim. Það er kærkomin tilbreyting. Ekki er búist við mikilli verðbólgu út árið. Með því að fara út í framkvæmdir við Helguvík má skapa fjölda starfa. Þegar hinn sofandi sparnaður í bönkunum verður leystur úr læðingi og ef Seðlabankinn bæri gæfu til að setja nýja stýrivexti í 4% ætti nú að lifna yfir atvinnulífinu. En það er ekki nóg að skapa ný störf. Við verðum að endurskapa atvinnulífið með gagnsæi og heiðarleika að leiðarljósi. Læra af því sem olli hruninu, refsa þeim sem kunna að hafa brotið lög og koma á góðum siðum í viðskiptum. Taka upp hugtakið „gagnsætt hlutafélag" og endurskapa traust fjárfesta og lánveitenda á fyrirtækjum landsins. Það er hin nýja sýn sem gefur okkur von til langrar framtíðar.

Uppleið erlendis

Þó að ég hafi löngum brennt mig á því að sjá teikn erlendis um að botninum sé náð er dálítið merkilegt að sjá að helstu hlutabréfavísitölur heimsins hafa hækkað frá 6. mars sl. Sömuleiðis olíuverð og álverð sem skiptir okkur miklu. Skyldi hafa orðið einhver vendipunktur þann dag? Hver veit? Hitt er vitað að í heiminum er ógrynni fjár sem er hrætt við áhættu og dormar vaxtalaust í hvíld. Þegar sá tími kemur að þetta fé fer á stað, verður samfélagið vonandi öðruvísi, vonandi hafa menn lært eitthvað af reynslunni svo að hún endurtaki sig ekki. Sú tilhugsun gefur okkur von.

Höfundur er þingmaður.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband