Hvað sér Samfylkingin?



Hvað sér Samfylkingin þegar hún horfir yfir samningaborðið í stjórnarmyndunarviðræðum við Vinstri græna? Sér hún það sem aðrir sjá? Sér hún að hún er í viðræðum við flokk sem er mesti afturhaldsflokkur sem nú á sæti á þingi?

 

Nei, sjálfsagt sér Samfylkingin ekki þetta. Það hentar henni ekki núna að horfast í augu við raunveruleikann. En sá tími mun koma að Samfylkingin verður að horfast í augu við þá staðreynd að hún fór í bandalag við flokk sem hún á enga samleið með.

 

Fæstir virðast hafa mikla trú á því að samstarf Samfylkingar og Vinstri grænna verði lífseigt. Ekkert bendir til að Vinstri grænir séu stjórntækari nú en þeir voru í upphafi þegar þeir mynduðu sinn litla þjóðlega afturhaldsflokk. Samfylkingin á bara ekki um annað stjórnarmynstur að velja nú um stundir. Sjálfstæðisflokkurinn er hruninn og þarf að fara í stórfellt innra uppgjör og endurbyggingu. Þjóðarinnar vegna er rétt að óska þess að frjálslyndari armur Sjálfstæðisflokksins nái að snúa af sér litlu harðlínuklíkuna sem lagði sitt af mörkum til að leggja flokkinn nánast í rúst, meðal annars með því að berjast gegn lýðræðislegum umræðum um Evrópusambandið.

 

Samfylkingin ætti einnig að horfa vonaraugum til Framsóknarflokksins. Formaður þess flokks er mætur maður sem á skilið að leiða flokk sinn á sigurbraut. Það hlýtur að vera eftirsóknarvert fyrir jafnaðarmenn að eiga samstarf við frjáslyndan miðjuflokk þar sem skynsemi er í forgrunni. Vonandi verður Framsóknarflokkurinn þannig flokkur.

 

Svo eitthvað jákvætt sé sagt um Vinstri græna verður að telja þeim flokki til tekna að þar hugsa menn alltaf upphátt. Maður veit því alltaf hvað þeir meina. Þegar ráðherra flokksins segist korteri fyrir kosningar vera á móti olíuleit þá getur enginn efast um að einmitt það er skoðun ráðherrans. Reyndar reynist mörgum erfitt að átta sig á því hvernig hægt sé að vera á móti olíuleit en Vinstri grænir eru á móti svo mörgu sem öðrum þykir sjálfsagt að þarna er bara enn eitt skringilega dæmið.

 

Þegar út úr frambjóðendum Vinstri grænna skoppuðu setningar um skattahækkanir, launalækkanir og eignaskatta þá var heldur ekki hægt að efast um að þeim var hjartans alvara. Og allir vita að flokksforystan hefur sömu andúð á ESB og litla harðlínuklíkan í Sjálfstæðisflokknum. Auðvitað ættu þessi litlu öfl að fallast í faðma og einangrast saman.

 

Samfylkingin er nú stærsti flokkur landsins og hefur ýmis tækifæri til að koma góðum hlutum í verk. Því miður er hætta á að stöðnun blasi við meðan Vinstri grænir eru hafðir með í farteskinu. En svo hlýtur að koma betri tíð - án Vinstri grænna. kolbrun@mbl.is

 

(Ritstjórnargrein Kolbrúnar Bergþórsdóttur blaðamanns á Mbl. í miðopnu í dag, sunnudaginn 3. maí)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband