Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Hugsjónir Framsóknar

Mannvitsbrekkur úr krataliðinu hafa á undanförnum árum haldið fast fram þeirri fullyrðingu að Framsóknarflokkurinn eigi sér engar hugsjónir aðrar en völdin. Ekkert er fjær sanni.


Framsóknarflokkurinn er í raun og veru eini íslenski hugsjónaflokkurinn. Beggja vegna við hann eru flokkar sem hafa tekið til láns misjafnlega ólánlegar og ósannfærandi útlendar hugsjónir sem mér er oft og einatt til efs að nokkur fullvita maður hafi minnstu sannfæringu fyrir. Gildi þá einu hvort um er að ræða hina óheftu markaðshyggju hægri manna, vargagang Samfylkingarkrata eða ójarðneska grænfriðungan hjá Steingrími J. Innan allra þessara flokka er ástand svo þannig að forystumenn glíma við það seint og snemma að halda í skefjum hálfvitlausum öfgamönnum.

Hugsjónir framsóknarflokksins eru þessu öllu ótengdar og raunar óháðar til dæmis hægri og vinstri hólfaskiptingum. Af því leiðir að afstaða flokksmanna til atriða eins og þess hversu langt eigi að ganga í félagslegri samhjálp eða markaðshyggju getur verið svolítið mismunandi. Sömuleiðis vitum við vel að innan Framsóknarflokksins eru skiptar skoðanir um vatnsaflsvirkjanir og hvalveiðar.
En límið sem heldur flokki þessum saman er þjóðleg umbótahyggja fyrir allt landið, sáttahyggja milli landsbyggðar og höfuðborgar, landbúnaðar og launafólks. Þessu fylgir sú sannfæring að Ísland eigi að vera þjóðríki með byggð í öllum landshlutum, ekki borgríki við Faxaflóann einan. Og það jafnt þó að það kosti okkur eitthvað að viðhalda byggðinni í landinu, menningu landsins og atvinnuvegum. Markaðshyggjumenn og tæknikratar eru oft og einatt samdóma í því að þessi stefna sé vitleysa og hafa margreiknað að það borgi sig að leggja bæði landbúnað og landsbyggðina niður. Með sömu reiknikúnstum mætti finna út að Íslendingar hljóti að vera fátækastir allra þjóða, svo mjög sem óhagkvæmt er að vera í stóru köldu landi. Það skemmtilega er að bæði raunveruleikinn og framsóknarflokkurinn hafa fyrir löngu gefið reiknikúnstum þessum langt nef. Við vitum að fé til jöfnunar á aðstöðu landshluta og atvinnuvega skilar sér margfalt til baka, hvað sem reiknikúnstum líður.


Framsóknarhugsjónin er líka ættjarðarást blandin hæfilegu íhaldi í það gamla. Ég skrifaði einhverntíma að pólitík Hriflu Jónasar hafi hálft í hvoru einkennst af því að vilja snúa við hjóli tímans. Og það er rétt enda ekkert til að skammast sín fyrir. Ég held að hver sá sem ekki hefur í sér nokkurn vilja til að fikta þannig í tímahjólinu hljóti að vera fullur sjálfsfyrirlitningar. Það sem á útlendum málum er kallað nostalgía einkennir aðeins fólk sem elskar lífið, bæði það liðna og það ókomna. Og sýnir þessa ást með því að vilja öðru hvoru teygja sig til baka, rifja upp það gamla og góða úr fortíðinni og njóta þess. Með því er ekki sagt að við eigum að loka augunum fyrir því að margt var aflaga í þessari fortíð rétt eins og nútíðinni. En harðlífi þess sem ekkert vill af sínum uppruna vita og helst ekki smæla framan í heiminum, það harðlífi getum við eftirlátið krötum og nýfrjálshyggju þessa heims.


Meintum Alþýðubandalagsþingmanni svarað

Það er vont hlutskipti að standa upp frá ströngu og erfiðu verki og finna að það er forgefins unnið. Þannig er þó líðan margra íslenskra sósíalista sem mann fram af manni hafa unnið að sameiningu allra svokallaðra vinstri flokka landsins en standa ævinlega í sömu sporum.

einar_mar_allaballiMér varð það á í grein hér í Blaðinu að benda á það sem hverju mannsbarni er raunar ljóst að Samfylkingin er að verða alveg eins og gamli Alþýðuflokkurinn meðan Vinstri grænir gegna með prýði uppreistarhlutverki Alþýðubandalags og þar áður Sósíalistaflokks Íslands. Einar Már Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar á bágt með að kyngja þessum veruleika og gerir tilraun til að svara greinarkorni mínu í síðustu viku en ferst það heldur óhönduglega. Þingmaðurinn gerir byrjar grein sína á að mæra sagnagleði mína sem ég sé ekki alveg að komi þessu máli við en þakka hólið. Hann hnýtur svo um þá setningu mína sem er raunar hálfgert aukaatriði þessa máls að síðustu Alþýðubandalagsþingmennirnir eru nú á förum úr þingflokki Samfylkingarinnar. Einar hendir hér það sama og margt barnið í lestrarprófum í gamla daga að lesa fullhratt og orðið Alþýðubandalagsþingmaður skreppur saman í Alþýðubandalagsmaður og hann rifjar síðan upp að margir af núverandi þingmönnum Samfylkingar hafi verið í Alþýðubandalaginu. Sleppir reyndar í þeirri upptalningu Össuri sem þó var háttsettastur allra núverandi Samfylkingarþingmanna í Alþýðubandalaginu en gekk reyndar yfir í Alþýðuflokkinn áður en nafninu var breytt! Það að einhverjir núverandi þingmenn hafi á æskuárum tyllt fæti í Alþýðubandalaginu eins og til dæmis Hjálmar vinur minn Árnason gerði líka, breytir engu í veraldarsögunni. Við ritun greinarinnar var mér reyndar fullkunnugt um að Einar Már var um skeið varaþingmaður Alþýðubandalagsins en ég hef einfaldlega ekki litið svo að varaþingmenn tilheyri þingflokki með sama hætti og alþingismenn.Í umræddri grein um Samfylkinguna vakti ég fyrst og fremst athygli á að Samfylkingin hefur smám saman fært sig yfir á margt það versta sem gamli Alþýðuflokkurinn stóð fyrir og Alþýðubandabandalagið barðist enda hatrammlega gegn. Þetta á við um þá stefnu fráí vor að vilja rústa íslenskum landbúnaði með einu pennastriki. Í Evrópumálum er flokkurinn löngu orðinn jafn kaþólskur og harðasta liðið í kringum Jón Baldvin Hannibalsson á sínum tíma. Flokkur þessi stendur fyrir grímulausri borgríkisstefnu þar sem engin áhersla er lengur lögð á viðgang landsbyggðarinnar. Stefnan er köld raunhyggja reiknistokksins og helsta mótvægi innan flokks við þessa stefnu er sem fyrr heiðurskonan Jóhanna Sigurðardóttir. Það hefur einfaldlega ekkert breyst.

Ég vakti athygli á að nýleg ræða Ingibjargar Sólrúnar væri staðfesting á þessari hægri sinnuðu stefnu flokksins. Þar er á mannamáli boðað að Samfylkingin eigi nú að láta af öllum óstjórntækum Alþýðubandalagsstælum en verða ábyrg og hægri sinnuð eins  gamli Alþýðuflokkurinn var. Um þennan hluta greinar minnar vill fyrrverandi Alþýðubandalagsvaraþingmaður auðvitað ekkert tala!

(Birt í Blaðinu í Reykjavík 18. des.)


Alþýðuflokkurinn endurborinn

Sómakonan Margrét Frímannsdóttir hélt veglega útgáfuhátíð æviminninga sinna í Hólmarastarhúsinu á Stokkseyri um síðustu helgina. Um leið var samkoman nokkurskonar kveðjuathöfn þessarar mætu þingkonu sem lætur af þingmennsku á vori komandi. Þau starfslok marka tímamót í íslenskri stjórnmálasögu. Með brotthvarfi þeirra Margrétar Frímannsdóttur og Jóhanns Ársælssonar eru síðustu Alþýðubandalagsþingmennirnir horfnir úr Samfylkingunni. Þar með má segja að íslenska flokkakerfið hafi náð sér af þeim hringlanda sem nafnbreytingar á vinstri vængnum ollu fyrir 8 árum. Stofnun Samfylkingarinnar var heiðarleg tilraun til að sameina alla vinstri menn í einn flokk en mistókst líkt og fyrri tilraunir sem gerðar voru með stofnun Sósíalistaflokksins á sínum tíma og síðan Alþýðubandalagsins árið 1968. Torræð og skrýtin ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á þessari sömu helgi tók af öll tvímæli í þessum efnum. Ingibjörg lofar þar að Samfylkingin muni láta af ábyrgðarlausri vinstri stefnu og verður vart um villst að hér er hægri kratastefna gamla Alþýðuflokksins afturgengin.Um leið skapast svigrúm fyrir Vinstri græna til að sameina undir einn hatt þau öfl sem áður tilheyrðu Alþýðubandalaginu. Margt af þeim var aldrei fyllilega stjórntækt og sama virðist því miður ætla að verða uppi á teningnum í flokki Steingríms J. En aftur að Alþýðuflokknum sem nú heitir Samfylking.Eins og marga rekur minni til var flokkur þessi ekki bara minnstur allra flokka í atkvæðamagni heldur einatt líka heldur smár í sniðum og hugsun. Gaf út minnsta blaðið og stóð fyrir hægri kratastefnu sem einhvern veginn sló aldrei í takt við alþýðu þessa lands.Hörð Evrópuhyggja einkennir flokk þennan í fortíð og nútíð og á liðnum vetri hafa gægst fram fleiri angar þeirrar stefnu sem sterkust var í Alþýðuflokki Jóns Baldvins. Líkt og hjá Jóni er afstaðan til landbúnaðarins nú harðari og óvægnari en áður þannig að þar á Samfylkingin helst samleið með frjálshyggjudrengjum Sjálfsstæðisflokksins. Í byggðamálum stendur flokkurinn fyrir skeytingaleysi af svipaðri gerð og fyrrnefndri drengir. Það er auðvitað alltaf erfitt að bera saman afstöðu tveggja flokka til málefna þegar áratugur skilur að í tíma. En það blasir samt við að viðhorf Samfylkingarinnar í landbúnaðar- og byggðamálum eru mjög fjarlæg því sem gamla Alþýðubandalagið hefði nokkru sinni leitt hugann að.

Út yfir tekur svo þegar stærsta byggðaaðgerð sögunnar, bygging Fjarðaráls, er nú fordæmd. Þar seilist flokkurinn reyndar svo langt að fordæma eigin gjörðir en slíkan tvískinnung muna miðaldra menn vel úr sögu Alþýðuflokksins gamla.


Tungnamaður skrifar um Eyjamenn

Að vera eða vera ekki - Eyjamaður. Það er spurning dagsins!
Eitthvað þessu líkt gæti hljómað í farsa um umræðuna sem nú á sér stað og vinkona mín Eygló Harðardóttir hratt af stað. Í nýlegum pistli benti hún á að Eyjamenn hefðu verið mun færri í prófkjöri Samfylkingarinnar en af er látið og færði um margt góð rök fyrir máli sínu.

En umræðan varð mér, Tungnatittinum á Selfossi, nokkuð umhugsunarefni. Ég er nefnilega með þeim ósköpum að geta aldrei litið á mig sem annað en Biskupstungnamann og eru þó áratugir síðan ég hleypti þar heimdraganum. Átti reyndar til skamms tíma foreldra þar efra. En það er einmitt þessi skilgreining okkar á eigin sjálfi sem er svolítið skemmtileg og litar mannlífið. Flestir skilgreina sjálfa sig útfrá æskustöðvunum og halda  fast í þá skilgreiningu ævina út. Hafa fyrir vikið meiri áhuga á því sem gerist í gömlum dal fyrir norðan eða vestan heldur en atburðum í eigin heimaranni.


Og við skulum aldrei láta okkur detta í hug að taka þessa skilgreiningar af hvort öðru enda í henni fólginn mikill kraftur og liðsemd við byggðarlög úti á landi. Þegar rætt er um samgöngubætur til Vestmannaeyja eða göng undir Reynisfjall og Lónsheiði munar miklu um burt flutta menn frá þessum byggðum. Ekki bara áhrifamenn í stjórnkerfinu heldur ekki síður hina sem tala málinu í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni, svo dæmi sé tekið.


En á þessu eru samt tvær hliðar og ég fékk sjálfur í eitt sinn að heyra það frá gamalli vinkonu í Tungunum. Þá stóð fyrir dyrum að sameina Tungurnar Laugadal í því sem síðar varð Bláskógabyggð og ég var nærri eins hrifinn og þeir sem nú byggja Tungurnar. En var fljótlega bent á að hafa mig hægan,- svo lengi sem ég hefði þá svikið mína heimasveit og sofið hjá henni "Árborgu" í neðra.
Og vissulega getur það verið þreytandi fyrir íbúa byggðarlags að hafa utan þess löngu burt flutta menn sem telja sig seint og snemma í stakk búna til að tala máli sinnar gömlu sveitar á opinberum vettvangi. Hér gildir öðru fremur meðalhófsreglan að við megum aldrei ganga of langt í því að eigna okkur æskustöðvarnar sem við höfum löngu yfirgefið. Stjórnun þeirra og umboð úti í frá verður auðvitað að vera í höndum þeirra sem þar búa,- sem sumir eiga svo kannski æskustöðvar einhversstaðar allt annarsstaðar.


Það er eftir "Árborguskammirnar" sem ég fór aðeins að venja mig við að segjast vera Selfyssingur og hef reynt að gera það síðan. En skjöplast samt oft og svara þá galvaskur að ég sé úr Tungunum eins og ég hafi aldrei farið þaðan!


Þar ku steinsteypa...

Hlustaði um daginn á giska athyglisvert viðtal við ekkjufrú Yoko Ono sem hrifist hefur mjög af Íslandi og hinni ósnortnu náttúru landsins. Taldi það nú eitthvað annað en hennar þéttbýla Japan sem allt væri komið undir blokkir, steinsteypu og asfalt. Eitthvað þótti fréttamanninum aðdáun listakonunnar fara yfir strikið og skaut því þessvegna að í næstu spurningu að á Íslandi væri nú líka steinsteypa eða hvort hún hefði ekki heyrt af stíflunni fyrir austan?

Nei Yoko Ono hafði ekki heyrt af neinni stíflu fyrir austan en treysti Íslendingum vel til að standa þar vel að verki.


Þetta broslega samtal sem vafalaust hefur átt sér stað í miðbæ Reykjavíkur er næsta dæmigert fyrir þá sefjun og endaleysu sem Kárahnjúkaumræðan hefur leitt þjóðina. Blaðamaður sem trauðla fer austur fyrir Elliðaár leitar í hugskoti sínu að því hvort að það sé nú ekki einhver hluti okkar fagra lands sem líkist þéttbýlinu í Japan. Jú, vitaskuld, Austurland og Kárahnjúkar. Ekki nokkra ferkílómetra asfalt við Faxaflóann, ekki blokkirnar í Breiðholti enda allt það hluti af náttúrulegu umhverfi borgarbarnsins. Það ónáttúrulega í þessu landi er að íbúar annarra landshluta skuli voga sér að nota það land sem guð gaf þeim.


Sneypulegast að japanskættaða listakonan skyldi ekki hafa áhuga á þessum helgispjöllum. En þegar að er gáð er Kárahnjúkastíflan ógurlega kannski eitt mikilsverðasta framtak þjóðarinnar til verndunar á náttúru landsins. Nokkuð sem bæði við Yoko og aðrir Framsóknarmenn í heiminum teljum mikilvægt.


Gegndarlaus sóun nútímamannsins og tilhneiging hans til myndunar borgríkja er það tvennt sem mest ógnar jörðinni og möguleikum hennar til að ala sín börn til framtíðar. Fólksflótta úr dreifðum byggðum fylgir augljóslega sú sóun og borgríkið Ísland er ekki sú framtíðarsýn sem æskilegust er fyrir umhverfi og náttúru landsins. Landið þarf á vissulega á öflugri höfuðborg að halda en höfuðstaður sem er það fyrst og fremst yfir sjálfum sér slær holum tón. Land sem þjóðin ekki vill byggja eða nýta verður skamma stund það land sem hún elskar.


Vissulega er eftirsjá í því landi sem nú hverfur um sinn undir vatn undir norðurjaðri Vatnajökuls. En það hefur ekki tapast. Ekki horfið eða farið neitt. Við getum hvenær sem er endurheimt með því að tæma lónin aftur. Reyndar er oftast talað um lón þessi þannig að ætla mætti að þau væru full af ætandi eiturefnum og sýrum en ekkert er fjær sanni. Jökulvatnið íslenska mun ekki hér fremur en endranær eyðileggja náttúrumyndanir í stórum stíl. Raunar er mest af því landi sem nú lendir undir vatni gömul lónstæði frá náttúrunnar hendi. Orkunni sem framleidd er með Kárahnjúkastíflunni er heldur ekki stolið frá náttúrunni með líkum hætti og þegar jarðefnum er dælt eða mokað úr jörðu. Þar er notuð orka sem móðir jörð sér sjálf um að endurnýja. Og verði menn duglegir að nota leiðir sem þessar í orkuöflun eru minni líkur en ella á að ósonlagið þynnist til muna.


Einu raunverulegu umhverfisverndarrökin á móti blessaðri Kárahnjúkastíflunni liggja í því að þar með sé stöðvað flæði jarðefna til sjávar og það muni hafa áhrif á fiskistofna. Um það veit þó enginn en sjálfsagt er að náttúruvísindamenn kanni þetta efamál til hlítar. En það gefur ekki tilefni til stöðvunar framkvæmda enda ættum við þá með sömu rökum að stöðva allt landgræðslustarf í landinu svo mjög sem það hamlar vindi í að bera jarðefni á haf út.


Af rasistum og einangrunarstefnu

Það er gott að Frjálslyndi flokkurinn skuli hafa fundið sér eitthvað málefni. Og enda greinilegt að flokkurinn fitnar um sinn. Það er greinilegt að fordómar Jóns Magnússonar gagnvart múslimum fellur víða í kramið. Verst er fyrir þá félaga, Jón og Magnús Þór að þetta er of snemma framkomið. Fylgisbólan sú arna verður hjöðnuð þegar kemur að kosningum.

En er það þá virkilega þannig að ekki megi tala um málefni innflytjenda á Íslandi og vandamál sem því tengjast án þess að vera úthrópaður sem rasisti? Von að spurt sé því ég hef í raun og veru ekki heyrt Magnús Þór Hafsteinsson alþingismann okkar Sunnlendinga segja nokkuð það berum orðum sem túlka má sem rasisma. Það er ekki nema með því að leggja saman málflutning þeirra flokksbræðranna að Frjálslyndi flokkurinn fær á sig óskemmtilegan svip hægri öfgahyggju.


Fordómar gagnvart útlendingum eiga sér vissulega hljómgrunn á Íslandi og það sem verra er, þeir eru þegar verulegt vandamál. Kennarar heyra óm þeirra daglega í berorðum blótsyrðum unglinga. Í fréttatíma útvarps var því nýlega slegið upp að hópur manna af tilteknu þjóðerni hafi gert tilraun til að nauðga konu á öldurhúsi. Þar væri þó aldrei sagt hópur Jökuldælinga braust inn á Dekkjaverkstæði eða þrír Eyfirðingar veittust að gamalli konu í Austurstræti. Við erum einfaldlega sammála um að það skipti minnstu máli hvaðan ólánsfólk er upprunnið og engin ástæða til að ata heil héruð auri þó einn eða fáir þaðan misstígi sig. Það sama á að gilda gagnvart samborgurum okkar af erlendum uppruna.


Verstur er þó rasisminn í íslenska stjórnkerfinu. Og þar er að nokkru leyti við EES samninginn að sakast sem hefur galopnað landið fyrir fólki frá Evrópu. Ég hef sjálfur ekkert á móti þeirri opnun enda stríðir það mjög á móti minni réttlætiskennd að banna fólki að fara milli landa.
En þessari miklu opnun til Evrópu fylgir illu heilli alger lokun landamæranna fyrir fólki frá þriðja heiminum. Ég hef sjálfur kynnst því þar sem fjölskylduvinur frá Kenía reyndi að fá stutt atvinnuleyfi hér á landi en mætti allsstaðar vegg. Úkraínsk kona sem lengi bjó hér á Selfossi reyndi að fá aldraða móður sína og bróður í jólaheimsókn og gekk ekki. Hjá Útlendingaeftirliti var það bjargföst sannfæring embættismanna að um glæpsamlegan innflutning á vinnuafli væri að ræða. Sambærileg dæmi eru fjölmörg. Á heimasíðu sinni segir Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður frá hliðstæðri baráttu við kerfið vegna suðuramerísks fóstursonar íslenskra hjóna.


Á sama tíma og landið er þannig harðlokað fyrir fjölmörgum vinum og ættmennum þeirra sem landið byggja í dag eru að myndast í landinu útlendingagettó austantjaldsmanna. Sjá má í landinu gámasvæði þar sem erlendu vinnuafli er hrúgað niður. Með algerlega frjálsu flæði vinnuafls frá Evrópulöndunum skapast skilyrði til að hér myndist lokuð samfélög erlendra ríkisborgara. Slík þróun hefur verið áberandi í Evrópu á undanförnum árum. Stórir hópar sem komið hafa inn í löndin á þensluárum hafa þar einangrað sig frá ríkjandi þjóðskipulagi og menningu sem fyrir er. Þessir hópar hafa hafnað siðferðisgildum nýja landsins en innleitt afskræmda mynd af eigin heimalandi. Oft með öfgakenndu feðraveldi, kúgun og misrétti sem síðan er viðhaldið með skipulagðri einangrun og vaxandi fordómum þeirra sem fyrir eru. Af þessari öfugþróun þurfum við Íslendingar að læra.
Það er mikið rætt um íslenskunám nýbúa og það er vissulega mikilvægt. En við þurfum að gera meira. Okkur ber skylda til að mennta hina nýju íbúa landsins í siðum og venjum okkar samfélagsins. Fræða konur og karla um þau réttindi og skyldur þau hafa í samfélaginu og að hvaða leyti okkar samfélag er frábrugðið því samfélagi sem viðkomandi byggði áður. Aðeins þannig getum við stuðlað að farsælli þróun þessara mála.


En við þurfum ekki að láta okkur detta í hug að Frjálslyndi flokkurinn eða nokkur annar geti lokað landinu fyrir innflutningi nýrra íbúa. Slík einangrunarstefna hefur enda fleira illt en gott í för með sér.


Um verndun og mannvonsku III


"...látum illskuna blómstra þar sem hún gerir engum mein í gerviheimi afþreyingarinnar."


Ég hef í tveimur undanfarandi greinum undir sama heiti gert að umfjöllunarefni grein Þórunnar Valdimarsdóttur um dýravernd og fleira. Ástæða þess að grein hennar verður fyrir valinu er að þar túlkar einn af færustu og bestu rithöfundum okkar lands sjónarmið sem hafa komið fram í skrifum fjölmargra á undanförnum misserum. Ég hef hér á undan fjallað aðeins um hvalveiðar og Kárahnjúka en langar að fjalla almennt um firringuna í þessum síðasta pistli.


Ég er algerlega ósammála því að maðurinn megi gera sér að leik að rækta með sér öfuguggahátt og illmennsku inni í tilbúnum gerviheimi. Slík iðja er ekki útrás á einhverju sem við erum þá laus við á eftir heldur miklu frekar fallin til að gera okkur móttækileg fyrir álíka hegðun í raunheimi.


Veiðiþörf mannsins er ekki útrás fyrir illmennsku eða kvalalosta heldur eðlileg og nauðsynleg tenging við náttúruna. Veiðimaður sem ber virðingu fyrir bráðinni kvelur hana ekki að óþörfu og lætur sér annt um dýrin með sama hætti og bóndi sem hengir læri af vænum og kærum sauð upp í reyk. Ég geri mér grein fyrir að þetta hljómar mótsagnakennt fyrir þeim sem aldrei hefur reynt og svo er um mikinn meirihluta Íslendinga í dag. Þeir hafa firrst uppruna sinn.


Það er svo hluti af þessari firringu frá upprunanum að sumir fá útrás fyrir kvalalosta og stjórnlausa drápsfýsn við veiðar. Og í sumum landbúnaði sjáum við því miður dæmi um firringu frá eðlilegri meðferð búsmala sem við dýravinir þurfum vitaskuld að láta til okkar taka.


Karl gamli Marx skrifaði nokkuð um firringu iðnsamfélagsins og margt af því sem þar er sagt mætti oftar koma til umræðu. Með firringu vinnunnar og samfélagsins er maðurinn slitin úr því náttúrulega sköpunarferli og framleiðsluferli sem honum er eiginlegt. Til þess að lifa þessa firringu af hafa menn ýmsar leiðir og ein er fólgin í sköpunarmætti skáldsins. Önnur í fæðuöflun veiðimannsins. En ekki held ég að Marx hafi órað fyrir því að skáldin ættu eftir að nota þessa útrás sína til fjandskapast út í veiðiþörf okkar sem ekki getum ort. En Marx skjöplaðist líka oft!


Um verndun og mannvonsku II


"Við erum hluti af heiminum"
Setningin hér að ofan er heiti greinar Þórunnar Valdimarsdóttur þar sem hún skrifar um dýravernd, náttúruvernd og mannvonsku. Ég hef í fyrri pistli fjallað aðeins um hvalveiðihlutann í umfjöllun Þórunnar. En hún kemur að fleiru í stuttri og vel skrifaðri grein sem mig langar til að velta áfram.
Undir þessari fyrirsögn víkur Þórunn lítillega að umdeildu lóni þar sem heitir í Kárahnjúkum. Nokkur hluti þjóðarinnar hefur það fyrir satt að verri framkvæmd hafi ekki verið unnin gagnvart náttúruvernd í landinu. Í reynd eru þetta hrein öfugmæli.


Við erum nefnilega hluti af heiminum, eins og Þórunn greinilega veit. Það þýðir að okkar skylda í þessum heimi er að leggja okkar að mörkum til þess að draga úr mengun og varanlegum skemmdum á lífríki jarðarinnar. Af vatnsaflsvirkjunum stafar engin mengun, engin teljandi röskun á lífríki og ekkert við þær er ekki afturkræft. Kárahnjúkalónið er einfaldlega uppistöðulón uppi við stærsta jökul Evrópu sem hefur þúsund sinnum í sinni sögu búið til slík lón sjálfur, landinu að skaðlausu. Lónið er meira að segja í gömlu náttúrulegu lónstæði. Í lóni þessu eru engar eiturgufur, engin bráðdrepandi efni. Það er rétt að taka þetta fram því nokkur hluti landsmanna virðist hafa bitið eitthvað allt annað í sig. Og þeir vöskustu reisa svo álsúlur tjalda sinna á öræfunum þar við og drekka öl úr sínum áldósum þar innfrá um leið og þeir mótmæla því hástöfum að álver sé byggt í austfirskum firði. Vilja það kannski frekar í landi þar sem orkan kemur frá kolum eða kjarnorku. Eða reyna með Tuborgdósina í hendi að telja okkur trú um að allt ál sé óþarft.


Auðvitað gæti maðurinn notað eitthvað annað en ál í tjaldsúlur, flugvélar og öldósir en þetta annað kostar líka verksmiðjur sem yrðu engu minni eða vinsælli. Með nýtingu endurnýjanlegra orkulinda á Íslandi leggjum við fram okkar mikilvægasta skerf til umhverfisverndar í heiminum.


Með byggingu álverksmiðju á Reyðarfirði komum við í veg fyrir að heill landsfjórðungur dragist upp og verði að eyðibyggðum líkt og Jökulfirðirnir vestra. Það getur vel verið að einhversstaðar á kaffihúsum syðra sé til fólk sem helst vill sjá landið austan Elliðaáa allt sem eina stóra rómantíska eyðibyggð. Rétt eins og það hafa verið til í sögum geðvondir sveitamenn sem óskuðu Reykjavík norður og niður. En hvorugur hópurinn er mjög gæfulegur.


Eitt stærsta viðfangsefni umhverfisverndarinnar er að draga úr hömlulausri sóun og ofneyslu hinna vestrænu samfélaga og þar eigum við Íslendingar nóg verkefni. Það að leggja heilar byggðir í auðn af hégómaskap er hluti af svo gegndarlausri sóun að engu tali tekur.


Um verndun og mannvonsku I

"Þegar ég var barn hugsaði ég eins og barn."
Þessi fleygu orð komu mér í hug þegar ég las nú um mánaðamótin grein Þórunnar Valdimarsdóttur rithöfundar þar sem hún fjallar um hvalveiðar, náttúruvernd og mannvonsku. Var satt að segja nokkuð brugðið því Þórunn er einn sá rithöfundur núlifandi sem ég hef hvað mest dálæti á. Veit líka að hún misvirðir ekki við mig skoðanaskiptin.

En ég semsagt var mjög fastur fyrir með sjálfum mér í bernsku minni að drepa aldrei nokkurt dýr og vinna að því að heimurinn yrði þannig að engin dýr yrðu drepin. Menn gætu étið grænmeti. Þessi móður rann þó mikið til af mér um 10 ára aldurinn þegar ég fyrst kom nálægt því verki að sjóða beðin í gróðurhúsum föður míns uppi í Biskupstungum. Þá hugsaði ég af meðaumkun til allra smávinanna ofan í moldinni sem myrt væru með svo hryllilegum hætti. En morð af þessu tagi voru nauðsynleg svo rækta mætti blóm, tómata, gúrkur og annað góðgæti gróðurhúsanna. Mörg líf fara þar fyrir hverja magafylli. Aðferðirnar til að dauðhreinsa mold fyrir ræktun eru sumstaðar aðrar en var í minni bernsku, en alltaf næsta hryllilegar fyrir þá sem í henni lifa.


En þó svo að þessi barnalega afstaða mín til lífsins hafi breyst í einu vettvangi er ég alltaf eins í þeirri afstöðu að telja mig í senn dýravin og náttúruvin. Á ennþá afskaplega erfitt með þræða maðk á öngul eða snúa fugl úr hálsliði en hef samt gert hvorutveggja.


Þórunn Valdimarsdóttir telur eins og vel flestir hvalavinir að hvalafriðun sé "tákn betri heims" og gengur raunar svo langt að nefna saman hvaladráp við morð á börnum. Ég er henni algerlega ósammála en ég fagna því að einhver hreyfi við umræðu um dýravernd á opinberum vettvangi.
Það er í raun og veru algerlega útilokað að maðurinn geti storkað náttúrunni með þeim hætti sem ég ætlaði mér fram að 10 ára aldri. Það er að lifa án þess að drepa. Mannúðar og dýraverndarsjónarmið okkar verða því að snúa að hinu að allt sé þetta gert án óþarfa grimmdar og með sem minnstum sársauka fyrir dýrin. Þar getum við ekki leyft okkur að flokka dýr í góð og vond, vitur og heimsk, þróuð eða vanþróuð. Dýravinir sem átt hafa nagdýr, slöngur, skjaldbökur og fiska að vinum vita fullvel að þau líf taka út þjáningar ekki síður en til dæmis kettir og hvalir sem kannski njóta hvað mestrar virðingar í dýraríkinu nú um stundir. Eða dettur einhverjum í hug að það sé minni synd drepa heimskan mann en vitran, svo dæmi sé tekið. Við getum heldur ekki skýlt okkur bakvið sálarleysi dýra nú á 21. öldinni þegar trúin á tilvist mannssálarinnar er mjög á flökti.


Í þessum efnum er hvalafriðun ekki til marks um betri heim heldur firrtari og að því skapi verri. Ef einhver dráp á dýrum eru sómasamleg þá er það að drepa þau í sínu náttúrulega umhverfi. Við eigum auðvitað að gera þá kröfu á hvalveiðimenn að þeir noti eins mannúðlegar aðferðir við hvalveiðar og unnt er. En svokallaðir hvalavinir um heim allan sitja á kjúklingastöðum og graðga í sig hænum sem kvaldar hafa verið allt frá því þær komu úr eggi. Verksmiðjulandbúnaður, bæði hér á landi og erlendis, hefur fyrir löngu brotið allar þær góðu reglur sem landbúnaðarsamfélögin gerðu sér um mannúðlega meðferð búpenings. Þar eigum við dýravinir verk að vinna og ef okkur er alvara að vilja komast í gegnum lífið með sem fæst líf á samviskunni ættum við aldrei annað að éta en hvali og síst tómata!


Magnús, Eyjólfur og ég

Framsóknarflokkurinn státar ekki bara af því að vera elsti stjórnmálaflokkur landsins, níræður á næstu dögum. Hann er líka sá hallærislegasti.


Einhverjum kann að bregða í brún við svo opinskáa játningu frá manni sem nýlega hefur boðist til að sitja á Alþingi fyrir þennan sama flokk og halda nú ég sé hættur við. Hafi snúið við blaðinu á kjördæmisþingi framsóknar um helgina. En hallærisháttur minn stendur dýpri rótum en svo að aftur verði snúið.

Ég held aftur á móti að það sé mjög mikilvægt að Framsóknarmenn viðurkenni að þeir eru svolítið hallærislegir. Svoldið púkó, sveitó og upp til hópa nokkurskonar landsbyggðarnördar. Breytir þá engu hversu oft sjálfur Guðjón bakvið tjöldin og allir hinir fara í litgreiningu og ný föt. Þið fyrirgefið mér bersöglina.


En einhversstaðar í 101 eða 109 handan við heiðina er lítill hópur tískulöggu landsins sem gætir þess vandlega að fara aldrei upp fyrir Norðlingaholt og það er þessi hópur sem ákveður öðru fremur hver er hallærislegur. Ekki með því að sýna okkur hvernig eigi að vera flottur enda er það mjög flókið. Eiginlega miklu frekar með ótal birtingamyndum hins íslenska afdalamanns.


Íslenskur kvikmyndaiðnaður, skemmtanaiðnaður, sjónvarpsauglýsingagerð o.fl. í afþreyingu okkar dregur upp sömu myndina aftur og aftur af okkur framsóknarmönnum. Hún er einna skýrust í líki þeirra vina minna Magnúsar og Eyjólfs í Spaugstofunni. Þeir eru holdgervingar þessarar 1000 ára framsóknarmennsku íslensku þjóðarinnar. Tafsandi, klaufalegir og vitaskuld svolítið ýktir í sínum spéspegli.


Ég fæ stundum þessa tilfinningu, bæði þegar ég heyri þá uppstríluðustu við kvikmyndavélarnar fyrir sunnan tala við Guðna eða Ísólf og ekkert síður þegar ég mæti þeim sömu sjálfur, - að nú eru þessir teinóttu drengir að tala við þá Magnús og Eyjólf. Og það er gott að leyfa þeim það. Ef við tökum það frá þeim verða þeir pirraðir þessir menn, eins og þeir urðu svo oft framan við selskinnsjakkann hans Halldórs.


Þetta er auðvitað alveg bilað ástand. Hluti af firringu þessa pínulitla hluta þjóðarinnar sem einangrast hefur í malbiksafdal fyrir sunnan. Ég hef hlustað á Framsóknarmenn kveina undan þessu einelti jafnhliða því baksast í litgreiningum og ímyndarpælingum. En allt verður það forgefins. Við verðum þá í ofanálag brjóstumkennanlegir og leiðinlegir. Við munum engu breyta frekar en Þingeyingur sem hreykir sér upp á hól og þrætir fyrir að vera montinn.


Miklu, miklu nær er að hafa gaman af öllu saman og vera þess minnugir að það eru ekki bara við framsóknarmenn sem eru svolítið hallærislegir. Töffararnir eru aldrei mikið meira en 1% þjóðarinnar og í ofanálag leiðinlegir. Leyfum álitsgjöfunum að brosa í kampinn nýsnyrtum,- þjóðin er fólk eins og ég, Magnús og Eyjólfur!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband