Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Að notfæra sér glundroðann...

Það er ekkert ofsagt um þann vanda sem steðjar að þjóðarbúinu öllu þessa dagana þó vitaskuld eigi jafnt sérfræðingar sem stjórnmálamenn að láta það vera að benda á einstakar kennitölur og segja þessi fer, þessi er kominn í þrot. Um þau leikslok veit enginn með vissu. 

En vondir tímar kalla fram bæði það versta og besta í okkur. Ömurlegast er að sjá lýðskrumara notfæra sér þessar aðstæður sem nú eru til að knýja fram með ofbeldi yfirlýsingu um inngöngu í ESB. Fjölmiðlar hafa í morgun gert að því skóna að bæði einstök hagsmunasamtök og einstaka stjórnarþingmenn hafi gert þá kröfu að yfirlýsing um ESB aðild sé inni pakkanum um lausn efnahagsmála. Leiðarahöfundur Fréttablaðsins birtir sömu skilaboð í pistli sínum í dag.

Það er mikilvægt að skynsamir og sanngjarnir forystumenn bæði úr hópi ESB - sinna og hinna geri sér grein fyrir að hverskyns yfirlýsing í þessa veru mun ekki verða til að þjappa þjóðinni saman heldur þvert á móti - kljúfa hana í tvær andstæðar og það mjög andstæðar fylkingar. Slíkt mun ekki auka tiltrú á markaði heldur verða til þess að von um árangur í baráttunni verður að engu.

Það sem skiptir máli núna þegar botn krónunnar er uppi í Borgarfirði er sterk og samhent ríkisstjórn og vinnufriður.

Við sem erum í stjórnarandstöðu erum því komin í það einkennilega hlutverk að vera eins og stuðningsmannalið á áhorfendapöllum sem hvetur sitt lið til dáða en gætir þess að skapa hvorki aukna ringulreið né heldur að ala á ótta við komandi daga. Ef okkar liðsinni getur orðið til að einangra þá fáu sem vilja nota sér aðstæðurnar og glundroðann í karp um ESB þá er vel. Ef slík glundroðaöfl ná yfirhöndinni í bakherbergjum ríkisstjórnarinnar á þessari helgi þá förum við inn í stjórnmálalegt borgarastríð í næstu viku og það er örugglega ekki það sem þessi þjóð þarf.


Bitist um ríkisbankann...

Er Glitnir ríkisbanki - eða er það bara hugmynd sem Jón Ásgeir og Þorsteinn Már geta hent útaf borðinu? Ef marka má orð Péturs Blöndal í Kastljósinu í gær hefur stjórn Glitnis nú tímann fram að hluthafafundi til að selja norsku íbúðalánin sín og íslensku bílalánin sem þeir vildu leggja að veði fyrir 600 milljóna evru láni hjá ríkinu - og eru þá lausir við ríkisvæðingu bankans og afskipti ofan úr Svörtuloftum.

Pétur Blöndal er formaður efnahagsnefndar Alþingis og því talsmaður stjórnarflokkanna í þessu máli. Því ætti í raun og veru að taka það sem hann segir alvarlega. En það þýðir að ríki og Stoðir muni bítast um bankann fram að nefndnum fundi og kannski lengur því hver segir að slíkum slag lyki á slaginu þar. Yfirleitt þarf dómstóla til að skera úr um ágreining, allavega þegar gullasnar eru annarsvegar. Og reyndar sagði fjármálaráðherra sama kvöld að ef til þessa ágreinings kæmi yrði að loka bankanum.

Það læðist að mér að þetta sé einhverskonar fyndni hjá hinum annars grafalvarlega formanni efnahagsnefndar sem telur þarmeð algerlega fráleitt að Glitnismenn komi pappírum sínum í verð - en ég efast um að slíkir brandarar séu viðeigandi við þessar aðstæður. Allavega er ekki að sjá að Jón Ásgeir sjái þetta eins og Pétur - hann stæði þá ekki í stælum við meinta bankaræningja í Seðlabankanum.

En hvernig svo sem allt málið er vaxið er lágmark að talsmenn ríkisstjórnarinnar tali hér fyrir einni stefnu, allavega þeir sem samflokks eru...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband