Rassgatsmegin að öllum málum

 Vinkona mín Sigríður Jónsdóttir skrifar merka grein í Bændablaðinu sem kom út í síðustu viku. Fjallar þar um vinnulag við riðuniðurskurð í Tungunum og segir að þar sé farið rassgatsmegin að öllum málum. Eins og reyndar vinnubrögð við niðurskurði sem þessa um land allt. Bætur koma seint og eru umtalsvert lægri en nemur tjóni bænda. Reikningsvillur og staðleysur ganga eins og draugar í gegnum samningsferli og þegar bóndinn ber sig upp undan tjóni af því að hafa ekki fengið að reka á fjall er viðbáran að bann við upprekstri hafi komið frá ómarktæku embætti! Gagnvart öllu þessu stendur bóndinn hjálparvana og einn. Og eins og venjulega hittir Sigga naglann á höfuðið þegar hún fjallar um þá erfiðu stöðu sem einstaklingurinn er í þegar kemur að samningum við hið opinbera:

“Það ætti að vera ófrávíkjanleg regla að maður frá Búnaðarsambandi, eða annar óháður aðili með fagþekkingu, komi bónda til aðstoðar um leið og þreifingar hefjast um aðgerðir vegna riðu eða annarra búfjársjúkdóma…”

Minnir reyndar á alþekkta reglu úr löggusápum (sem betur fer þekkir maður hana bara þaðan) að engan má yfirheyra af löggu nema lögfræðingur viðkomandi sé viðstaddur. Þetta er í raun og veru regla sem ætti að yfirfæra meira og minna á öll samskipti þegnanna við kerfið. Þegar öryrki þarf að leita réttar sins, skattgreiðandi að svara fyrir óvissa útreikninga, rekstraraðili að kljást við leyfisveitingavaldið eða foreldri að glíma við skólayfirvöld,- í öllu þessu er sú hætta fyrir hendi að yfirvöld tali þá latínu sem hinn óbreytti borgari á litla sem enga möguleika á að botna í. Félagsráðgjafar koma á stundum til hjálpar í aðstöðu sem þessari en alls ekki nærri alltaf og oft án þess að vera afdráttarlausir talsmenn borgarans.

Læt þetta duga í bili enda afar vesæll flensuræfill hér við tölvuna. Þetta er fjórði dagur í bælinu og síst betri hinum. Hefði viljað vera heima í Laugarási í dag þar sem mér bauðst að vera með í uppákomu. Og vitaskuld á Norðurvegarfundi í Hótelinu en hvorutveggja verður að sigla sinn sjó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband