Að kveikja í púðurtunnu

Bandaríkjamenn héldu í vikunni áfram árásum á hryðjuverkamenn innan ættbálkasvæða Pakistana. Á annan tug meintra vígamanna féllu. Árásirnar nú eru gerðar án samvinnu eða samþykkis hérlendra stjórnvalda og vekja ekki bara reiði almennings heldur líka spurningar um tilgang meðan afleiðingar eru ljósari.

Pakistan er púðurtunna ef marka má alþjóðlega fjölmiðla á borð við Newsweek og skilgreint sem eitt hættulegasta land heims um þessar mundir. Ekki endilega hættulegt ferðamönnum heldur miklu fremur hættulegt heimsfriði og það land sem nú fóstrar flesta af alþjóðlegum hryðjuverkamönnum Íslamista. Í þessu gamla bandalagsríki Bandaríkjanna í Austurlöndum hefur Ameríkuhatur náð nýjum hæðum og er líklegt til að sameina landsmenn í landi þar sem stjórnmálin einkennast af sundurlyndi og grófum ásökunum um spillingu.

Sumt í landslaginu hér er Íslendingi harla kunnuglegt svo sem þegar forsætisráðherra og hæstiréttur takast á með stóryrðum. Það eina sem heldur hlífiskildi yfir hinum óvinsæla Yousaf Raza Gilani forsætisráðherra er að hans helsti andstæðingur kærir sig ekki um að taka við þeirri efnalegu óreiðu sem landið er í. Næstur til valda á eftir valda núverandi forsætisráðherra er ekki endilega leiðtogi stjórnarandstöðunnar eins og heima heldur herinn sem hefur fjórum sinnum á hálfri öld hrifsað völdin í sínar hendur.

Það sem helst ógnar stjórninni eru ásakanir um spillingu og peningaþvætti forsetans Alif Asif Zardari en bæði honum og forsætisráðherranum hefur verið stefnt fyrir hæstarétt.

 

Árás inn á viðkvæmt sjálfstjórnarsvæði

Héraðið Waziristan þar sem meintir vígamenn voru felldir í tveimur árásum í vikunni tilheyrir fjalllendi á mörkum Pakistan og Afganistan. Það er ekki nema að hluta undir pakistanskri stjórn. Þetta er sjálfstjórnarsvæði ættbálkahöfðingja og griðastaður jafnt hryðjuverkamanna, eiturlyfjabaróna og vopnasala. Völd pakistanska hersins birtast fyrst og fremst í möguleika hans til að loka svæðinu fyrir umheiminum en ómannaðar orustuflugvélar og flugskeyti Bandaríkjanna skeyta lítið um slíkt bann.

Ættbálkahöfðingjar þessara svæða njóta ýmissa forréttinda í Pakistan og hafa t.d. yfir sjálfskipuðum þingsætum að ráða. Þeir voru líka í eina tíð taldir helstu vinir hins vestræna lýðræðis og það má rekja stöðuna í dag til þess tíma. Vestrænir leiðtogar hafa fyrr farið flatt á íhlutun mála í heimi hinna stoltu og ósveigjanlegu Phastuna sem byggja fjöllin beggja vegna landamæra Pakistan og Afganistan. Á þessu sama svæði náðu heimamenn að auðmýkja heimsveldi bæði Rússa og Breta á 19. öld.

 

Ósama var þeirra maður ekki okkar

„Mér er alveg sama þó að Bandaríkjamönnum líki einn daginn vel við menn eins og Ósama Bin Laden og ráði hann í sína þjónustu. Eða þó að þeim líki illa við hann næsta dag. Mér líkar við ekki við þessa menn, hvorki Obama né Osama sem var upphaflega ekkert annað en málaliði CIA. Hann var þeirra maður ekki okkar," segir Rafiq Gundapur í Rawalapindi. Hann er Phastuni, fyrrverandi stjórnmálamaður og samstarfsmaður Ali Bhutto, tengdaföður Zardaris forseta.

Rafiq er einn örfárra sem fæst til að tjá sig við blaðamann Morgunblaðsins undir nafni en þessi sömu sjónarmið einkenna marga þá sem eru hófsamir í stjórnmálum í Pakistan. Hér gleymist það ekki að upphaflega var það CIA og bandalagsríki Bandaríkjanna sem komu fótunum undir mujhahedín skæruliðana og málaliða á borð við Osama bin Laden. Þetta var á þeim tíma hluti af Kalda stríðinu þar sem öllu skipti að flæma Sovétríkin út úr Afganistan. Pakistan var milliliðurinn sem sá um að koma sex milljörðum dollara frá CIA og ómældum fúlgum annarsstaðar frá til íslamistanna og skapa þeim grundvöll sem fátækt samfélag pakistana í dag kippir ekki í burtu á einni nóttu.

Þó Pakistan grundvalli tilvist sína á múhameðstrú fer því fjarri að róttækir íslamistar hafi verið eða séu sterkir í Pakistönskum stjórnmálum. Þeir hafa ekki náð lengra en að ráða yfir smáflokkum í þinginu og njóta vinsælda á afmörkuðum svæðum. Fyrir innrás Sovétríkjanna í Afganistan 1979 voru pakistanskir herforingjar nær allir veraldlega þenkjandi og fráhverfur öfgasjónarmiðum í trúmálum. Þjóðsögur segja að þeir drekki viskí á tyllidögum en slíkt er fyrirboðið af trúarástæðum og vitaskuld bannað með lögum hér í skraufþurru múslimalandi.

En hvað sem líður viskídrykkju þá hefur náið samband hersins við mujahedin skæruliða breytt afstöðu margra lykilmanna. Það mátti fyrst greina lítilsháttar breytingu í sömu átt með valdatöku klerkastjórnarinnar í Íran sem varð tæpu ári áður en Sovétmenn réðust inn í Afganistan. Zia Ul-Hag hershöfðingi sem þá réði hér, svaraði tíðindum frá Íran með því að lýsa yfir að Pakistan væri nú íslamskt ríki en alvaran bakvið þá yfirlýsingu er umdeild. Það sem fyrst og fremst grundvallaði íslamvæðingu stjórnkerfis og hers var hið vanhelga bandalag Bandaríkjamanna og mujahedin skæruliðanna.

 

Stjórnin telur herinn á bandi Al-Qaeda

Almenningur í Pakistan er tilbúinn að tjá sig frjálslega um forsetann Zardari, ekkil eftir fyrri forsætisráðherra Benazir Bhutto og þá ekki síður um forsætisráðherrann Gilani. Hér eru flestir sammála um að þeir séu spilltir og vanhæfir. En þegar kemur að hernum gegnir öðru máli. Þeim sem er illa við völd hersins eru á varðbergi því njósnarar hans geta jafnvel birst í líki bláeygra Evrópumanna. En meðal viðmælenda Morgunblaðsins hér í Pakistan eru ótrúlega margir sem telja herinn mikið skárra afl en hina spilltu stjórnmálamenn.

Óttinn við herinn er ekki ástæðulaus því leyniþjónusta hans ISI er, eins og systurstofnanir hennar víða um heim, þekkt að ógnarverkum, pyntingum og morðum. Jafnvel hátt settir diplómatar og gæðingar stjórnvalda óttast hér um líf sitt þegar stofnunin sýnir klærnar.

Það er því ekki annað hægt en að taka ofan fyrir þjóðarleiðtogunum Zardari og Gilani sem hafa nú í vetur talað tæpitungulaust um herinn. Forsetinn kallaði hann ríki í ríkinu og lét að því liggja að hann væri ekki saklaus af því að hafa hjálpað Osama bin Laden. Gagnrýnendur Gilanis í blaðadálkum hafa þó frekar viljað seta ummæli hans á reikning heimsku en hugrekkis!

 

CIA treysir ekki pakistanska hernum

Það er tæplega reiknað með því að þeir félagar Zardari og Gilanti verði endurkjörnir og sennilegasti arftaki í lýðræðislegum kosningum er talinn krikketleikarinn Imran Khan, en hann hefur lofað þjóð sinni að leysa öll hennar vandamál á 90 dögum. Það á við um verðbólguna sem er hér í hæðum, erlendar skuldir sem sliga landið, hryðjuverkaógnina og rafmagnsleysið en rafmagn er skammtað og tekið af í nokkrar klukkustundir á dag í flestum héruðum og borgarhverfum landsins. Stefna Imran Khan og flokks hans Tehreek e-Insaf er um margt hófsöm t.d. í trúarmálum en einkennist vitaskuld af lýðskrumi. Flokkurinn hefur svo að undanförnu tekið upp harða andstöðu við Bandaríkin sem er hér mjög til vinsælda fallið, bæði meðal hinna hófsömu múslima og hinna.

Eins og fyrr var rakið í pistli í Morgunblaðinu hafa samskipti Bandaríkjanna og Pakistan stórversnað á undanförnum misserum og þar ráða miklu mannvíg bandarískra hermanna og erindreka innan landamæra Pakistan.

Einhverjum kann að þykja að Bandaríkjamönnum sé nokkur vorkunn að hafa viljað vega höfuðóvin sinn, Ósama bin Laden, þar sem hann sat í náðum í klukkustundar fjarlægð frá Islamabad, höfuðborg Pakistan. Það verk var unnið í blóra við pakistanska herinn og það er enginn vafi að CIA deilir skoðunum með forsetanum að í baráttunni við hryðjuverk sé hernum illa treystandi.

 

Samsæri eða heimska

En áframhaldandi víg á meintum hryðjuverkamönnum innan viðurkenndra landamæra Pakistan þjóna engu nema því að skapa hundrað nýja fyrir hvern einn sem veginn er. Hvað sem tækni Bandaríkjamanna líður eru pakistönsk stjórnvöld þrátt fyrir allt margfalt sennilegri til að ráða niðurlögum vandans, enda raunverulegur stuðningur almennings í landinu við hryðjuverk ekki fyrir hendi.

Þegar að er gáð er stuðningur við heittrúarstefnur íslamista líklega minni í Pakistan en fjölmörgum múslimalöndum og daður herforingjanna við íslamista byggir meira á valdapólitík en sannfæringu. En hvað vakir þá fyrir Bandaríkjamönnum? Svarið er ef til vill hluti af flókinni gátu. Við getum gripið til heimskukenningar sem margir Pakistanar trúa þegar kemur að skiptum Gilanis við herinn og sagt að sama eigi við um loftárásir Bandaríkjamanna hér innan Pakistan. Árásirnar verða allavega ekki færðar í bókhald hugrekkis þegar til þeirra eru notaðar ómannaðar flugvélar.

Önnur leið er að trúa langsóttri samsæriskenningu sem mjög víða má heyra. Kasmírskur blaðamaður sem Morgunblaðið hitti í Rawalapindi hvíslar að mér grunsemdum sínum þó ekkert bendi til að nokkur utan okkar tveggja skilji ensku í litla kaffihúsinu við Zaddar markað.

„Þetta er allt hluti af samsæri CIA og heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Þeir sjá enga aðra leið út úr þessu en að skapa hér nógu mikinn glundroða til þess að geta réttlætt hernaðaríhlutun í Pakistan eins og í nágrannaríkjunum Afganistan og Írak."

 (Birt í Morgunblaðinu sunnudaginn 12. febrúar)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband