Friðmar í Tungu (1935-2014)

Í gær var jarðsunginn kær vinur minn austur á Fjörðum, Friðmar Gunnarsson bóndi í Tungu í Fáskrúðsfirði.

fridmar

Ég kom fyrst í Tungu 19 ára strákur þeirra erinda að hitta þar ömmubróður minn sem var ævilangt vinnumaður Tungufeðga. Ég kynntist þá heiðurshjónunum Friðmari og Jónu, sem og foreldrum Friðmars þeim Gunnari og Önnu og á um þau kynni öll ljúfar minningar. 

Seinna hlotnaðist mér að komast á skrall með Nonna, Friðmari og fleiri Fáskrúðsfirðingum. Það var skemmtilegt þó skrall eigi sér alltaf tvær hliðar eða fleiri. Það var í hlaðinu í Tungu sem heyrði þau sannindi einmitt fyrst sögð með þeim hætti að það jafnvel hvarflaði að mér að taka mark á því. Enda var það sjálfur Nonni frændi sem talaði og fyrir honum bar ég barnslega lotningu sem hékk utan í leit minni að uppruna og rótum. 

Í ársbyrjun 1985 komu þeir Kiddi frændi og Friðmar saman til mín í Skildinganes þar sem ég leigði þá með nokkrum ungmennum. Í poka voru þar tvær sjeneverflöskur og innan skamms lá í ritvélinni hjá okkur fullbúin minningagrein um Nonna frænda og við vorum bara dáldið montnir af greininni. Svo opnuðum við seinni sjenever flöskuna og fannst einmitt á þeirri stundu svoldið súrt að Nonni væri ekki með okkur. Hann hafði dáið á aðventunni. 

Þegar við Friðmar hittumst hin seinni ár drukkum við ekkert sterkara en kaffi og dugði alveg. Sjeneverinn hafði sinn tíma, kaffið líka. Samtöl við Friðmar voru mér alla tíð ánægjuleg og þar fór maður sem hafði miklu að miðla í sögum en ekki síður gamalgróinni og sígildri lífsskoðun hins austfirska sveitabónda.

Blessuð sé minning Friðmars í Tungu. 


Að svíkja kosningaloforð

Nokkur umræða fer nú fram um Evrópustefnu sitjandi ríkisstjórnar og ekki öll mjög hófstillt. Með pólitískum loftfimleikum er því haldið fram að ríkisstjórnarflokkarnir svíki gefin kosningaloforð ef þeir fylgja stefnum og fundasamþykktum flokka sinna og slíta aðildaviðræðum við ESB.

Í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga voru umræður um aðild að ESB ekki miklar og svolítið ruglingslegar. Vinstri flokkarnir sem hrökkluðust frá völdum eftir að hafa sett allt sitt afl og sína æru í ESB aðild voru áhugalitlir um þessa umræðu þar sem hún var þeim síst til frama. Hægri flokkarnir tveir sem nú sitja að völdum vonuðust til að halda innan sinnan raða bæði já og nei sinnum ESB málsins og vildu því heldur ekkert um málið tala.

Sá sem hér skrifar var í hópi andstæðinga ESB aðildar sem tefldu fram lista til þess að skerpa á þessari umræðu og standa vörð um fullveldisbaráttuna. Flest komum við úr VG en sá flokkur var þá fyrir löngu genginn í björg heimatrúboðs ESB sinna. Með því að bjóða upp á kost þar sem í enginn afsláttur væri gefinn frá einarðri kröfu um tafarlaus slit ESB viðræðna töldum við okkur þrýsta á stóru flokkana að hvika ekki frá eigin samþykktum. Það er fljótsagt að við höfðum þar algerlega erindi sem erfiði.

Þrátt fyrir hik og margskonar orðagjálfur véku hvorki Framsóknarflokkur né Sjálfstæðisflokkur frá þeim stefnum sem markaðar höfðu verið í grasrótum flokkanna og samþykktar á þingum að aðlögunarferli ESB skyldi stöðvað og það tafarlaust.

Sú ríkisstjórn sem nú situr er ekki líkleg til afreka í þágu almennings. Gjafir til handa heimilunum í landinu eru nú framkomnar í ríflegum skenkingum til þeirra heimila sem halda á kvóta í sjávarútvegi. Það eru vissulega fjölskyldur líka og kannski þær einar sem flokkarnir voru samstíga um að fá ættu gjafafé.

En í ESB málinu voru ríkisstjórnarflokkarnir algerlega samstíga. Það er lágmarkskrafa okkar allra sem studdum að því að koma hinn óvinsælu ESB-stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur frá völdum að þeir sem nú ráða standi hér við gefin loforð.

(Birt í Morgunblaðinu 15. mars 2014) 


Kafkasaga af Selfossi

Í dag var ég persóna í sögu eftir Kafka. (Það var hann sem skrifaði hryllingssögur fyrir fullorðna þar sem fórnarlömbin voru læst í rugli stjórnsýslunnar.)

Ég rölti upp á sýsluskrifstofu með bunka af pappírum í innanverða jakkavasanum, hægra megin. Þar voru skjöl sem ég hafði með nokkurra tíma stauti við aðskiljanleg yfirvöld þvælt blýantsfólki til að láta af hendi. Sum við fé, við önnur dugði mér auðmýkt og sú lipurð sem við Tungnamenn erum annálaðir fyrir.

Ég hafði hér eitt skjal frá sjálfu manntalinu fyrir sunnan sem sannaði að ég væri til, annað sem sannaði að ég byggi í húsinu mínu og það þriðja sem sannaði að húsið þar sem ég segist reka kaffihús er til og enn viðurkennt sem hús af bæjaryfirvöldum. Sem er vel í lagt því þetta er nú gamalt.

Loks voru svo í þessu sérstakir pappírar sem sýndu að virðisaukanúmerið mitt væri raunverulega mitt virðisaukanúmer en ekki bara gamalt símanúmer hjá úreltri hjásvæfu tekið úr velktu gulu símabókinni hjá frænda mínum. Og svo pappírar sem sýna að ég hef alltaf átt góð og farsæl samskipti við lífeyrissjóði enda aðeins kjánar sem skapa sér fjandskap bófa.

Þegar ég kom á sýsluskrifstofuna keypti ég af mínum borðalagða sýsselmand sakavottorð til þess að gefa sama sýslumanni. Og annað vottorð til sem ég líka gaf sýslumanninum. (Svosem enginn til að kvarta yfir þessu, ég hef séð fólk kaupa bók í búðinni hjá mér og svo seinna tekið við sömu skræðu sem gjöf til mín.)

Þegar öllum þessum kaupskap var lokið var komið að því að afhenda sýslumannsfulltrúunum allt pappírsklandrið og það var ánægjulegt. Bæði af því að þá vissi ég að nú fengi ég senn að fara út úr þessari sögu og svo eru stúlkurnar þarna á neðri hæðinni hjá sýsla bæði geðugar og fallegar. Kappsvo mikið eins og húsið sem er eitt það fegursta á Selfossi.

Allt snerist þetta um pappír sem heitir umsókn um starfsleyfi I í flokki B eða eitthvað. Samskonar og ég fékk fyrir fjórum árum og í hvert sinn færi ég sýslumanni opinbera staðfestingu á því að ég sé til, húsið sem ég sýsla í sé til og að allt hitt sem stendur skýrum stöfum á tölvuskjám sýslumanns sé með einhverjum hætti rétt og satt. Séu áhöld um að þessar sannanir fylgi með er allt ógilt og leikamaður er sendur á byrjunarreit eða í fangelsi. Þannig er kaffihús sem er rekið í húsi sem ekki tekst að sanna að sé til, slíkt kaffihús er umsvifalaust innsiglað.

Það er vitaskuld mikilvægt og sálræn bót fyrir illa launaða opinbera embættismenn að fá staðfestingu á því utan úr bæ að þeirra heimur sé til. En fyrir mér er það hálfvegis fyrirkvíðanlegt að þurfa að leggja í sömu Pílatusargönguna eftir fjögur ár. Og hvað veit ég nema að þá hafi einföldunarnefndir hins opinbera og EES stjórnir bætt því við ég skuli nú einnig sanna að sýslumaðurinn sé til, en slíkt gæti hæglega riðið mér að fullu. 


Þór Vigfússon 1936-2013

Þennan morgun er af með glennulæti sólarinnar. Þess í stað er nú suddalega þungbúið. Við Flóamenn sem alla jafna göngum álútir gerum það af enn meiri festu þennan dag en aðra, horfum ofan í moldina sem nú verður heimkynni okkar besta manns. Hér duga engin orð og einhvernveginn skuldum við meistara Þór að sjúga ekki upp í nefið. Hann var sá maður sem á það skilið að við höldum geði okkar og gleði.

IMG_8283 (2)

Fyrir liðlega mánuði síðan kom hann síðast í heimsókn til mín, aldrei þessu vant ekki í bókakaffið heldur hingað heim og þó var það ekki andskotalaus ferð. Hann hafði hringt og ég sagt honum að ég yrði úti í skúr hér bakvið að raga í bókum. Þór og unglingskonan Þórhildur Kristjánsdóttir fóru fyrst bakvið búð og leituðu að skúr þar en komust um síðir hingað heim á hlað á Sólbakka. Vitaskuld fyrirvarð ég mig svolítið fyrir að hafa vísað honum svo rangt til og sagnameistarinn var ekki laus við að vera móður þar sem hann heilsaði okkur Guðmundi Brynjólfssyni djákna.

Segir svo við guðsmanninn til afsökunar á þreytu sinni og kannski vegna orða sem féllu um hið óþarfa ferðalag í bakgarða við Austurveg:

-  Það er ekkert að mér, ég er bara að drepast!

Svo var ekki meira um það rætt og með sjálfum mér neitaði ég að trúa orðum meistarans. Kannski í eina skipti sem ég ákvað svo blákalt að Þór færi með staðleysur.

Nokkrum vikum seinna átti ég ánægjulega stund heima hjá þeim Hildi á Straumum og það var bjart yfir. Þá leyfðum við okkur að trúa því að Þór væri að hafa þetta, hann var málhress og sagði okkur sögur. Enginn okkar komst með tærnar þar sem Þór hafði hælana í sagnamennsku. Kom þar allt til, frábært næmi og minni, raddstyrkur sem lagði hvaða skvaldur sem var að velli, orðfæri og skopskyn sem öllu tók fram.

Röddin, sagnagáfan og þekkingarbrunnur Þórs var íslenskari en allt sem íslenskt er. En það kom til af því einu að meistarinn var alþjóðasinni í bestu merkingu þess orðs. Á kráarrölti um Brusselborg fyrir áratug fengum við ferðafélagar úr Drauga- og tröllaskoðunarfélagi Evrópu að kynnast sýn þess sem víða hafði farið og margt numið. Allt verður það okkur ógleymanlegt - já, allt það sem utan er endimarka þess óminnishegra sem býr í ölstofum Brusselskum.

--- 

Ofan á allt þetta var meistari Þór Vigfússon Tungnamaður, sonur þess Fúsa-Fells sem hét Hallæris-Fúsi eftir að hann kom í Flóann. Og það var við Tungnamanninn Þór sem ég átti erindi í janúar síðastliðnum í puði við að draga upp löngu týnda ættarsögu sem enginn þekkir lengur. Ekki fyrr en á Straumum var upp lokið fyrir mér dyrum þegar Þór tók glaðlega undir og sagðist hafa skrifað niður eftir föður sínum frásögn af Halldóri ríka á Vatnsleysu og Einari húsmanni sem voru forvitnilegar en gleymdar persónur í sögu okkar sveitar.

Fyrir það sem þá komst á þurrt er sá sem hér ritar þakklátur en ennnú meir fyrir þá kennslu sem Þór gaf okkur öllum í því að segja sögur og því að vera til. Þakklæti fylgir gleði og gleði er það sem minning um einstakan mann skilur eftir í hjörtum vorum. 

(Myndina hér að ofan tók Elín mín síðastliðinn öskudag í Bókakaffinu.)


Mæðradagsblogg 2013

hor_ur_og_ingibjorg.jpgMeð því að orð þetta er í fleirtölu verður hér að blogga um margar mæður en móðir mín sem fædd er á Drumboddsstöðum í Biskupstungum 1940 ól þar á bæ sinn aldur í fá misseri en síðan tvo áratugi í Hveragerði og eftir það næstum fjóra í Tungum þar sem við þrjú komumst á legg og áttum barnæskuleiki breksama en síðar okkar afspringir þrefalt fleiri og var þá oft kátt í höllinni en þegar nóg var um hoppulæti þau og ofvöxt jafnt fólks sem trjáa settust þau hin gömlu hjón í steinenda þar sem heitir Heiðarbrún í Hveragerði sem er hið sama landspláss og átti lengstum heimili móðir minnar móður sem Sigurrós hét og tók hérmegin við fjöllin sjö öllum fram í kleinubakstri og flatköku svo engar eru nú nema hálfsæt minning þeirra sem hún gerði og var af þeim bakstri góður rómur ger og rekið um hann kaupfélag í Hveragerði að allir mættu njóta en list sína hafði hún vísast numið í sínum hrakningssama uppeldi í Þykkvabæ þar hennar móðir var lengstum húskona og stutt bóndi í Gvendarkoti en sú hét Jórunn og almennilegast kölluð Stóra Jóka enda meira en hálf þriðja alin á hæð meðan bóndanefna hennar var varla nema tvær og eru af konu þeirri sögur um dugnað og sjálfræði en hennar móðir var Þorbjörg frá Háarima sem lengstum bjó í Gvendarkoti og átti föður göldróttan af ætt Ragnheiðar-Daða og var móðir þeirrar Þorbjargar hún Elín í Háarima sem var eins og flestar þessar kerlingar Jónsdóttir og móðir þeirrar konu var Sigríður í Norður Nýjabæ dóttir Ragnhildar í Búð sem átti Ólöfu þá sem bjó í Hábæ fyrir móður en sú hafði fyrir sinn karl þann sem Árni hét en hann strauk til Hollands og er þar vísast enn á röltinu, karlskömmin.


Krónustjórnin - en eru strákarnir ekki að villast...

Það er vonandi að ríkisstjórnin sem er að fæðast einhversstaðar uppi í Borgarfirði beri þetta nafn sitt með rentu. Það sem þessa þjóð vantar einmitt er ríkisstjórn sem byggir undir hagkerfi krónunnar og skapar þessum ágæta gjaldmiðli okkar tiltrú og traust. 

Alla þessa öld höfum við haft við völd ríkisstjórnir sem hafa sparkað í krónuna og talið henni allt til foráttu. Jafnt þó að nær öll afrek og allt erfiði ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms hafi verið unnið af sömu krónu. Þegar við tókum gjaldmiðil þennan í brúk vorum við fátækastir allra í Evrópu en höfum þrátt fyrir skrens og pus siglt framúr flestum á íslenskri krónu. 

En af þeim Bjarna og Sigmundi - auðvitað sárnar okkur austanfjallsmönnum dulítið að þessir kónar sem báðir rekja ættir sínar hingað í sveitir skuli ekki hafa farið austur yfir fjall til funda. Kannski eru þeir bara að villast, -átti þessi fundur ekki að vera á Móeiðarhvoli!


mbl.is Fóru saman í Krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakkir frá Framsóknarkomma!

He he

Einhverjir kunna að leggja það út sem kokhreysti að flytja þakkir eftir útreið í kosningum. En mér eru engu að síður þakkir í hug því þrátt fyrir andstreymi sem allan tímann lá fyrir þá mætti okkur Regnbogamönnum engu að síður velvild og margskonar aðstoð í kosningabaráttunni og fyrir það er ég þakklátur.

Ekki síður þakklátur þeim sem lögðu á sig nokkuð í baráttunni og þeim fjölmiðlum sem sýndu okkur sanngirni þar sem hæst ber RÚV og Morgunblaðið. Fyrir það ber að þakka enda mikils virði að búa í samfélagi þar sem þúsund blóm fá að spretta og þúsund skoðanir að heyrast. Við sem aldir erum upp í garðyrkju vitum svo að stundum fer svo að ein planta vex óðfluga og nær þá mjög að kæfa annan gróður.

Staðreyndin er að mörg okkar urðu undir í þeim mikla skriðþunga sem var á mínum gamla flokki Framsókn í þessum kosningum. Í mér bærist vitaskuld gleði yfir að hafa þó frekar orðið undir þeim ofvexti en ef verið hefði frá krötum eða íhaldi.  

Við J-listamenn fórum seint á fætur á þessari baráttu og nokkuð tvíátta framan af vetri hvort fara skyldi. Tókum til verksins aðeins sex vikur og vorum þó flestir í fullu starfi með. En það er langt því frá að hér sé eftir nokkru að sjá. Þetta var skemmtilegur tími, skemmtileg umræða og okkur tókst með afgerandi hætti að koma ESB baráttunni á dagskrá. Enginn þarf þó að ætla að fylgisleysi okkar sé mælikvarði á stöðu þeirrar baráttu enda guldu allir þeir flokkar sem höfðu beina ESB aðild á stefnuskrá sinni algert afhroð. 

Nú gæti ég haft á orð á að við höfum í þessu ekki búið við jafnræði í fjárráðum eða annarri aðstöðu en ég tel það þó ekki hafa skipt sköpum. Staðreyndin er að skriðþungi sveiflunnar í samfélaginu var okkur einfaldlega of þungur og fyrir henni hlutum við að falla. Nú stöndum við brosandi upp eftir glímina og mætum baráttunni á öðrum vettvangi, tvíefld að afli og reynslu. 

Bókabéusinn í mér hlær nú og fagnar, því glaðastur að fá að vera hér innan um dýrðlegar skræður fremur en að vera vistaður á stofnun fyrir sunnan. 


Umsátur um fullveldi

Eftir Jón Bjarnason, Atla Gíslason og Bjarna Harðarson 

Kjósendur sem vilja standa vörð um fullveldi Íslands hafa val í komandi Alþingiskosningum. Óskastaða innlimunarsinna er að sem flestir fari nú inn á þing með þá blekkingu í farteskinu að það sé rétt að kíkja í pakkann, klára ferlið, ljúka meintum samningum Íslands og ESB.

Ef litið er á heimasíðu stækkunardeildar ESB kemur aftur á móti fram að það fara engar samningaviðræður fram. ESB gengur svo langt að kalla slíkar fullyrðingar „misleading". Það sem fer fram á milli Íslands og ESB er aðlögun eða með öðrum orðum hægfara innganga okkar í sambandið. Eftir svokallaðar viðræður í heilt kjörtímabil geta aðildarsinnar ekki bent á eitt atriði sem hefur verið „samið" um enda ekkert slíkt í boði. Aftur á móti hafa verið gerðar umtalsverðar, dýrar og afgerandi breytingar á mörgu í stofnanakerfi Íslands, t.d. öllu innra skipulagi skattstjóra og tollstjóraembætta. Sömuleiðis í sjálfu Stjórnarráði Íslands. Allt er þetta í fullu samræmi við það sem upplýst er á heimasíðu ESB um málið, sjá t.d.  http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/20110725_understanding_enlargement_en.pdf og http://ec.europa.eu/enlargement/policy/steps-towards-joining/index_en.htm

Af umræðuþætti Ríkissjónvarpsins síðastliðið þriðjudagskvöld er ljóst að Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og VG gæla nú allir hver með sínum hætti við drauma pakkakíkis. Enginn þessara flokka þorir lengurað standa á þeirri skoðun að loka eigi hinni evrópsku áróðursstofu né að taka af skarið um að viðræðum skuli tafarlaust slitið. Þetta er mjög miður og vekur ugg um það sem framundan er. Vitaskuld eru í öllum þessum flokkum einlægir andstæðingar ESB aðildar en aðildarsinnar eru þar einnig margir á fleti fyrir.

Án þess að gert sé lítið úr öðrum málefnum þessarar kosningabaráttu þá varðar ekkert eitt mál jafn miklu um framtíðarhagsmuni Íslands eins og vörn fyrir fullveldinu. Meðan samningaviðræðum hefur ekki verið slitið, áróðursskrifstofur ESB starfa hér óáreittar og mútufé ESB flæðir óhindrað inn í landið ríkir umsátursástand. Því umsátri verður að ljúka. Við sem stöndum að Regnboganum bjóðum fram krafta okkar til varnar fullveldinu. Setjum X við J á kjördag.

(Birt í Morgunblaðinu 26. apríl 2013) 


Veljum íslenskt og exum við joðið

Þó flest sé nú fallega boðið
þá finnst mér það óskýrt og loðið.
Og ættjarðarást
má víst alls ekki sjást.
Veljum íslenskt og exum við joðið.

(Haraldur Kristjánsson í Hólum á Rangárvöllum)

Verjum fullveldið, ex við joð!

ESB situr um fjöregg íslenska lýðveldisins. Fyrir Brusselvaldið er hér eftir miklu að slægjast og nú standa asnar klyfjaðir gulli við borgarhliðin.

Þau framboð sem samþykkja áframhaldandi starf Evrópustofu og mútufé ESB inn í hagkerfið eru í raun að samþykkja innlimun okkar í ESB.

Í þessu máli hefur Regnboginn algera sérstöðu og kannanir sýna að við eigum raunhæfa möguleika í kosningunum á morgun.

Verjum fullveldið, ex við joð!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband