Nýjan Herjólf, lægri gjaldskrá og eðlilegar jarðgangarannsóknir!

Ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur verið farsælt. Þó eru þar hnökrar á og einn sá stærsti hvernig staðið hefur verið að samgöngumálum Eyjamanna.

Góðar samgöngur til Eyja eru hagsmunamál allrar þjóðarinnar og um leið mikilvægar fyrir ört vaxandi ferðaþjónustu. Gossagan, jarðfræðin og náttúrufegurð skapa þar þá veröld að í reynd ætti enginn erlendur ferðamaður að sleppa Eyjum úr ferð sinni um landið. Það gera þó margir þeirra í dag og kemur þar tvennt til. Annarsvegar lélegt flugveður og hinsvegar vont sjóveður. Þá er bílaþilfar Herjólfs upppantað marga mánuði fram í tímann. Með bættum samgöngum eiga Vestmannaeyjar gríðarlega framtíð fyrir sér en til þess að svo geti orðið þurfa ferðamálayfirvöld landsins að taka undir með heimamönnum í markaðssetningu og samgöngumálunum.

Eyjarnar eiga það inni!Vestmannaeyjar

Þegar býsnast er yfir miklum kostnaði gleymist í umræðunni að Vestmannaeyjar sem ein stærsta verstöð landsins á gríðarlega stóran þátt í þeirri velmegun sem Íslendingar búa við í dag. Á þeim tíma þegar þjóðin braust frá sárri fátækt til bjargálna lögðu verstöðvar á borð við Heimaey grundvöllinn undir þjóðarbúið. Nú er komið að íslenskri þjóð að endurgreiða þá skuld og enn sem fyrr munu Eyjarnar góðu greiða þá fjárfestingu margfaldlega til baka. Byrjum á ferjunni.

Því fer fjarri að bílaþilfar núverandi Herjólfs anni samgöngum milli lands og Eyja og skip þetta svarar heldur ekki kröfum samtímans um siglingahraða. Ferðin tekur góða þrjá tíma en það er vel mögulegt að stytta ferðatímann í tvo.

Í umræðu um samgöngumál Eyjamanna hafa núverandi samgönguyfirvöld látið hrekja sig til án þess að ljúka nokkru máli farsællega. Rætt hefur verið um nýjan Herjólf en tillögum þar um síðan stungið undir stól og bæjaryfirvöldum svarað því máli með óskiljanlegum hætti.

Jarðgöng gætu verið ódýrasta leiðin

Þegar rætt hefur verið um framtíðarsamgöngur við Vestmannaeyjar er því líkast sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sé fyrirfram ákveðinn í að ekki megi einu sinni kanna málið til hlýtar. Það er umhugsunarefni hvort flokksbræðrum Árna Johnsen sé svona mikið í mun að gera ekki það sem Eyjamaðurinn söngelski leggur til. Þegar svo er komið er brýnt að aðrir taki við keflinu.

Rannsóknir á möguleikum á jarðgangagerð hafa strandað í miðju kafi og sumar verið unnar með hangandi hendi. Slett er inn fráleitum tölum um kostnað sem miða meðal annars við gangagerð eins og þá sem þarf fyrir milljónaborgir.

Eitt það mikilvægasta í jarðgangaumræðunni er þetta: Það er möguleiki að jarðgangagerð sé framkvæmanleg fyrir sama fé og kostar að halda úti siglingum til Eyja í aldarfjórðung eða innan við 30 milljarða króna. Ef það er tilfellið er ekki áhorfsmál að leggja göngin. Þau munu margborga sig fyrir þjóðarbúið og stórefla byggð bæði í Eyjum og Rangárþingi. Ef göngin kosta miklu meira en það þá verður að leggja gangagerð á hilluna um sinn og horfa til annarra leiða. Við þær aðstæður er Bakkafjöruhöfn vænlegasti kosturinn.

Bakkafjöruhöfn notuð til að tefja!

En í stað þess að ljúka þessum rannsóknum reynir núverandi samgönguráðherra að slá á jarðgangaumræðuna með frekar flausturslegri ákvörðun um Bakkafjöru. Það er góðra gjalda vert að vilja með þeim hætti koma til móts við samgönguþarfir Eyjamanna en mér býður í grun að þetta sé leikur í óformlegu stríði Sturlu Böðvarssonar við jarðgangahugmyndina og fyrrnefnt þingmannsefni Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Það er eitthvað í undirstöðu þessa máls sem lyktar undarlega.

Ef að Bakkafjöruhöfn á að fylgja sá böggull að fram að opnun ferjulægis þar sem verður í fyrsta lagi 2011, skuli Eyjamenn notast við gamla Herjólf þá er það algerlega óviðunandi staða. Eyjamenn eiga kröfu á að fá strax í sumar nýjan og hraðskreiðari Herjólf. Málið má leysa hratt og örugglega með leiguskipi en til þess þarf pólitískan vilja.

Lækkun fargjalda

Að lokum skal hér nefnt viljaleysi samgönguráðherra í gjaldskrármálum Herjólfs. Sem þingmannsefni í kjördæminu hef ég farið oftar út í Eyjarnar fögru í vetur en áður samanlagt á ævinni og kynnst gjaldskrám Herjólfs. Hef að vísu í öllum ferðum sparað mér að taka bílinn með en borgað nóg samt. Það er lágmarkskrafa að ferðalag með Herjólfi kosti fjölskylduna ekki meira en sem nemur kostnaði við að aka frá Þorlákshöfn austur í Vík en nú er kostnaðurinn margfaldur. Um þetta gildir hið sama og nýjan Herjólf. Hér þarf pólitískan vilja og sá vilji er til innan Framsóknarflokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir mjög góða grein. Ég er innilega sammála þér. 

Ein úr Eyjum. (sem er mjög illa við að ferðast með Herjólfi)

Sigríður Gísladóttir (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 00:40

2 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Vel mælt frændi!

Ester Sveinbjarnardóttir, 18.4.2007 kl. 02:20

3 identicon

Allt rétt kjá þér Bjarni.Þú minntist á sjávarútveginn í Vestmannaeyjum og mikilvægi hans,bæði fyrir eyjarnar og þjóðina.Allt rétt,en þú gleymdir að minnast á þau niðurrifsöfl sem vilja eyðileggja íslenskan sjávarútveg á þann hátt að hann verði þjóðnýttur af Ríkinu.Ferðaþjónusta og sjávarútvegur verða framtíðaratvinnuvegir Vestmannaeyinga Þessar atvinnugreinar styðja hvor aðra.Ef önnur fer eða missir rekstrargrundvöll,vegna þess að stoppobobböfl komast til valda, þá er hin í hættu.

Sigurgeir Jónsson (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 08:01

4 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Nú kannast ég við þig Bjarni. Viðurkennum mistökin og þá eigum við möguleika á að verða betri menn.

Tómas Þóroddsson, 18.4.2007 kl. 08:47

5 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Ég hef áður sett spurningarmerki við það að fara með jarðgöng í gegnum virka eldstöð, en látum það liggja á milli hluta.

Ef rannsóknir fara í gang í haust, þá getum við reiknað með því að ekki verði fullrannsakað fyrr en eftir svona 2-3 ár.  Eftir að rannsóknarvinnu lýkur tekur við úrvinnsla og pólitískur umþóttunartími sem getur verið frá einu ári upp í 4.  Ef að niðurstöður rannsókna og pólitíkusa eru jákvæðar þá þarf að fara fram forval og útboð sem getur tekið frá 1 ári uppí tvö. 

Þá tekur við sjálf vinnan og ef göngin eru 15 km þá erum við að tala um 3 ár en meira eftir því sem þau eru lengri.

Samtals gerir þetta um 12 ár og ég held að ég sé frekar bjartsýnn.

Það má heldur ekki misskilja mig varðandi þessi göng, ég er sammála því að þennan kost þarf að rannsaka og það sem fyrst, en miðað við hraðan í jarðgangagerð á Íslandi þá eru 12 ár (3 kjörtímabil) lágmarks tími áður en Vestmanneyingar geta keyrt milli lands og eyja.

Vilja menn bíða svo lengi eftir úrbótum??  Ég myndi ekki vilja búa við ábreytt ástand svo lengi.

Eiður Ragnarsson, 18.4.2007 kl. 12:45

6 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Hárrétt athugasemd hjá Eiði um að Eyjamenn vilji ekki bíða í 12 ár eftir samgöngu úrbótum. Þess vegna þarf nýjan Herjólf strax í gær, og rannsóknarvinna varðandi göng þarf að hefjast á sama tíma.

Það er í raun óþolandi að það sé upp pantað á þjóðveginn ár framí tímann (eins og reyndin er í kringum verslunarmannahelgar) og að bílaþilfarið sé jafnframt notað undir gámaflutninga, og þess vegna sé jafnvel fullbókað fyrir bíla.

Hugsið málið uppá landi og reynið að setja ykkur í spor Eyjamanna. Bjarni Harðar er einn af fáum frambjóðendum sem hafa raunverulegan skilning á samgöngumálum Eyjamanna (utan við þá frambjóðendur sem koma úr Eyjum) þó ég sé fjarri því að vera sannfærður um ágæti Bakkafjöru eftir samtöl við marga sjómenn (ég hef nefninlega tilhneigingu til þess að taka mark á mönnum sem þekkja hlutina af eigin raun)

Guðmundur Örn Jónsson, 18.4.2007 kl. 14:40

7 identicon

Af því Eyjamenn græddu helling á sjósókn fyrr á árum þá skuldum við hinir þeim göng fyrir grilljón. Með svona lógik er nú hægt að sanna hvað sem er.

Atli (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 15:12

8 Smámynd: Gústaf Níelsson

Bjarni, mér er ekki kunnugt um það að einhver ágreiningur hafi verið um samgöngur til Eyja á milli stjórnarflokkanna. Er þér kunnugt um það? Þú kallar þetta að vísu hrökra. En ertu nokkuð að detta í pólitískt yfirboð?

Gústaf Níelsson, 18.4.2007 kl. 21:14

9 Smámynd: Jakob

hehehe... ég held að það sé ekki óformlegt stríð á milli þeirra, en góð pæling engu að síður! 

Ég er samt efins með Bakkafjöru. En þetta tekur tíma!

Jakob, 18.4.2007 kl. 21:15

10 Smámynd: Ingólfur Kjartansson

Sæll Bjarni minn og afsakaðu að Vestfirðingur skuli vera að skipta sér af þessu puði ykkar Sunnlendinga með Eyjarnar. Fjölskyldan ákvað að dvelja í þínu nágrenni um páskahátíðina. Ókum hina hefðbundnu ferðamannaleið á gamlar slóðir um Laugarvatn, sem er nú svipur hjá sjón, að Gullfossi um Geysi. Við Gullfoss er greinilega drift. Og síðan niður Tungur og Skeiðar. Gaf mér ekki tíma að kíkja í Bræðratungu. Koma tímar. Ókum síðan niðurúr og vestur sem leið lá um Árborg og Suðurströnd. Mér finnst nú meira liggja á með sæmandi veg milli Þorlákshafnar og Grindavíkur en göng til Eyja. Hefur einhversstaðar slegið saman eða hafa menn ekki lesið jarðsögu svæðisins síðustu árþúsund. Það yrði fljótt um þá sem ækju um Vestmannaeyjagöng í jarðskjálfta trúi ég. Veljið því ferjuleiðina og við hér vestra fáum göngin. Suðurstrandarvegur er alger nauðsyn fyrir þetta svæði að mínu viti.

Bestu kveðjur frá Tálknafirði og taka svo á þessu XB.

Ingólfur Kjartansson, 19.4.2007 kl. 00:01

11 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Eitt af skilyrðum sem Vegagerðin ætti að setja í Herjólfsútboðið, ætti að vera að fraktflutningar færu fram á næturnar, allavega á háannatíma.  Það myndi létta töluvert á og liðka um fyrir umfrðinni.

Ég held að Bakkafjara sé vænlegur kostur, því að ferðatími í hafi styttist talsvert og með þeirri styttingu og betra skipi yrði hægt að vera með mun tíðari ferðir en nú er.

Eiður Ragnarsson, 19.4.2007 kl. 11:23

12 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Alveg hjartanlega sammála þér og fleirum hér Bjarni. Hef sagt það alveg síðan fyrst var minnst á þessa "Bakkafjörudellu" að þetta er bara til að drepa málinu á dreif. Nýjan öflugan Herjólf ekki seinna en strax.

Fyrir mína parta mundi ég frekar vilja sitja um borð í góðri ferju í 2 tíma, en að vera hent í land þarna í sandauðninni eftir 1/2 tíma siglingu, (með öllu) til að berjast í lífshættu á þjóðveginum til Reykjavíkur, (þangað sem flestir eru að fara og koma) í 1-1 1/2 tíma, samtals 2 tímar hvora leiðina sem farin verður...???

Fyrir nú utan alla þá daga sem ófært yrði á Bakkafjöru og göng væru endanlega úr myndinni.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.4.2007 kl. 12:48

13 Smámynd: Grétar Ómarsson

Ég held að Bjarni sé meiri Vestmannaeyjingur en þeir Eyjamenn sem við höfum haft á Alþingi síðustu 50 árin, ég fagna því að við Eyjamenn séum komnir með möguleika á að koma manni á Þing sem gæti barist fyrir því óréttlæti sem hefur viðgengist gagnvart Eyjamönnum í samgöngumálum og öðrum málum, Það er ekki eðlilegt að fjölskylda sem fer ca 15 sinnum að meðaltali á fastalandið á ári þurfi að greiða hátt á þriðja hundrað þúsund í ferðir með Herjólfi milli Lands og Eyja, okkar eina þjóðveg.

 þetta er ekkert annað en mannréttindabrot.

 Með þessu er verið að stýra byggðarþróun gegn Eyjamönnum.

  Með þessu er verið að hækka vöruverð í Vestmannaeyjum meira en þörf er á.

 Hafsteinn, Ég reikna með að þú sért ekki einn af þeim sem kannast við það sem kallast sjóveiki, ég hef stundað sjóinn og vann á Herjólfi í nokkra mánuði, ég þekki hversu erfitt það er fyrir sumt fólk að ferðast með Herjólfi, þó held ég að erfiðast sé fyrir ferðafólk sem ákveður að sækja okkur Eyjamenn heim, sumt af því fólki sem kemur til okkar fer til baka með hræðilegar minningar af  rándýrri Herjólfsferð sem engan endi ætlaði að taka.

Grétar Ómarsson, 21.4.2007 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband