Allt Framsókn að kenna

Var spurður að því austur í sveitum hvað mér þætti um þá fullyrðingu borgarstjórans að ástandið í miðbæ Reykjavíkur væri allt Framsókn að kenna. Því er fljótsvarað,- mér þykir heldur vænt um þessa uppákomu. Ekki svo að skilja að mér þyki níð af þessu tagi í lagi. Það er hitt að þegar það verða svona yfirskot í nornaveiðum þá er það yfirleitt til marks um að élinu sé að linna. Sú tíska að hrauna yfir Framsóknarflokkinn fúkyrðum fer að verða úrelt og brosleg og það er gott. Afhjúpar fáránleikann. 

Grunnfærin umræða

Þessi tíska hefur ekki haft neitt með ytri veruleik eða staðreyndir að gera heldur aðeins þá tilhneigingu að grunnfærin umræða velur sér yfirleitt sökudólg og fórnarlamb eftir hentugleikum en ekki réttlæti eða eðli máls. Einfaldast er að geta notað sama sökudólginn í mörgum málum. Best að hann sé ekki of stór og hafi verið skammaður áður. Þessvegna var auðveldara að benda á Framsóknarflokkinn sem sökudólg þegar þjóðin varð þreytt á síðustu ríkisstjórn eftir 12 ára valdasetu.

Það er miklu erfiðara að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn með allri sinni magt jafnvel þó ábyrgð þeirra sé oft augljóslega meiri.  

Með höfuðið undir holöndinni

Þegar sá sem hér ritar var að byrja í blaðamennsku fyrir aldarfjórðungi var mjög í tísku að kenna bændum um allt sem aflaga fór. Alvitringar umræðuþáttanna voru vinsælastir ef þeir voru til í að kenna bændum um hátt matarverð, uppblástur á hálendinu, slæma stöðu ríkissjóðs og almenn leiðindi í samfélaginu. Það seldi.

Bændur sjálfur gengu með höfuðið undir holöndinni og sögðust vera skólabílstjórar. Það var breið almenn samstaða um að mótmæla því ekki að bændum væri ofaukið, þeir væru afætur og lífsform þeirra úrelt. Fjölmiðlar hlupu þá sem nú hratt eftir tískunni.

Þetta ástand þjappaði stéttinni ekki saman sem þó hefði þurft heldur logaði í ófriði og menn leituðu sökudólga meðal heiðarlegra talsmanna. Allir kenndu öllum um og voru vinsælir í blaðaviðtölum fyrir vikið. Svo hætti þetta og þá ber svo við að allir þakka sér. Allt í einu ganga bændur uppréttir. Skólabílstjórar sem eiga örfáar skjátur gera nú tilkall til að vera kallaðir bændur og sama gera menn á borð við forstjóra Össurar. Kratar meira að segja keppast við að skrökva því að þeir hafi aldrei verið á móti hefðbundnum bændum. 

Það styttir upp!

Hvað gerðist. Mjög margt örugglega. Kannski voru það menn á borð við Baldur Hermannsson, Jónas Kristjánsson og Jón Baldvin Hannibalsson sem sneru þróuninni við. Rétt eins og Ólafur F. kann að gera gagnvart Framsóknarflokknum því auðvitað var þetta allt vitleysa að kenna bændum um og enn meiri steypa að gera Framsóknarflokkinn að allsherjar pólitískum blóraböggli. Hann á auðvitað sitt hól og sínar skammir rétt eins og aðrir.

En það sem mestu skipti er að heimska kemur alltaf upp um sig og gengur á endanum fram af fólki. Svona eins og Samfylkingastubbarnir sem fyrir jól báru fyrir sig Framsóknarflokki því þá giltu ennþá fjárlög gömlu ríkisstjórnarinnar en gleymdu sér hinir glópskustu og spiluðu sömu plötuna eftir jól! 

En meðan hríðin stendur er mikilvægt að Framsóknarmenn haldi ró sinni - svo styttir upp!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það hefur heldur betur komið í ljós að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, hafði rétt fyrir sér þegar hann benti á fyrir nokkrum árum að huga þyrfti að stöðu krónunnar. Þá hlustuðu Sjálfstæðismenn ekki á hann.Hann benti líka á allan sinn ráðherraferil, að auka þyrfti útflutning, því sjávarútvegurinn hefði sín takmörk.Framsóknarmenn geta verið stoltir af þeim áliðnaði og öðrum framkvæmdum sem fyrst og fremst er þeirra verk og við njótum nú góðs af.Það sem hefur fyrst og fremst skemmt fyrir Framsóknarflokknum er, að  forysta flokksins var hrædd við eigin fkokksmenn og tók ekki á skemmdarverkamönnum í flokknum af festu.

Sigurgeir Jónsson, 5.4.2008 kl. 14:50

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Bjarni.

Eigum við nokkuð að fara aftur í refa, minka, laxeldisævintýrin... ?

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 6.4.2008 kl. 01:59

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

kvaddaseia! ég sem hélt að hlýnun jarðar væri runnin undan rifi framsóknarflokksins

Brjánn Guðjónsson, 6.4.2008 kl. 18:06

4 identicon

Þetta er alveg rétt greining hjá þér Bjarni með bændurna.  Þeir tóku að rétta meira úr bakinu og bera höfuðið hærra. Sem betur fer. Það er illt þegar fólk hættir að hafa trú á sér sinni sérhæfingu,sínum stað   í lífinu vegna illa ígrundaðs og stöðugs niðurtals.

Þú slepptir formanninum. Hann átti sinn þátt í að breyta viðhorfum til fyrrnefndrar stéttar. Vegna jákvæðni og sannfæringar.Það má hann eiga kallinn.

Kannski verður  þörf fyrir viðlíka jákvæðni og Guðni hefur til landbúnaðarins komi doði í efnahagslífið og mannskapinn.

Valdimar Guðjónsson (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 22:36

5 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Já þetta með Framsókn og Framsóknarmenn er að verða langþreytt klisja.

Þeir sem hæst hafa galað sjá nú eflaust að ekki urðu mikil vatnaskil við það að skipta út Samfylkingu og Framsókn í ríkisstjórn. Þau urðu í það minnsta ekki í þá átt sem fólk vonaðist eftir.

Þjóðin veit eins og við að Framsókn á nóg af góðu og efnilegu fólki. Auðvitað höfum við lent í ýmsum vandræðum eins og aðrir flokkar en það hefur bara verið tuggið meira ofan i landsmenn en það sem gengur á í öðrum flokkum.

Kristbjörg Þórisdóttir, 8.4.2008 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband