Desember-gjafirnar teknar til baka

Undir lok fjárlagagerðar í desember sl. gerðist það næsta óvænt að ríkisstjórnin tilkynnti óvænt um kjarabót til eldri borgara og öryrkja sem nam um 700 milljónum króna. Þessi fyrirheit voru gefin án umræðu við þingið og sett inn í fjárlög milli umræðna. Þau vinnubrögð voru vítaverð.

En nú kemur í ljós að aldraðir og öryrkjar greiða þetta til baka á útmánuðum og þá margfalt. Þannig er mál með vexti að við nýgerða kjarasamninga var horft til þess að hækka mest laun hinna lægstlaunuðu. Um þetta var mikil samstaða og bótaþegar í landinu horfðu til þessara samninga hafandi gert samkomulag við síðustu ríkisstjórn sem átti í raun og veru að tryggja þeim sambærilegar kjarabætur og fengjust á almennum vinnumarkaði.

En þá ber svo við að stjórnvöld bera nú fyrir sig að þessi hópur þurfi nú ekki að fá eins ríflegar bætur og ella hefði verið þar sem þeim var skenkt ríflega í desember síðastliðnum. Þannig notar ríkið það lag sem kjarasamningarnir skapa til að innheimta 700 milljón króna kjarabótina með 3,6 milljarða sparnaði. Sparnaði sem kostar hvern bótaþega um 10 þúsund á mánuði og þá sem ekki hafa mikið handa í milli munar um minna.

Málið var rætt í þinginu í vikunni að frumkvæði Guðna Ágústssonar og þar viðurkenndu fulltrúar Samfylkingarinnar svikin en forsætisráðherra hélt sig við að tala niður til stjórnarandstöðunnar og sýndi eins og fyrr einstaka meðferð á íslensku máli þegar hann sló um sig með afbökuðum orðatiltækjum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Þú ert kominn á rétta leið Bjarni haltu bara áfram.

Þorkell Sigurjónsson, 9.5.2008 kl. 14:29

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sókn er alltaf besta vörnin.

Sigurgeir Jónsson, 9.5.2008 kl. 15:33

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Þetta er skömm Bjarni.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 10.5.2008 kl. 03:22

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er nú ekki fallegt að taka til baka jólagjafirnar, Bjarni minn.

Þorsteinn Briem, 10.5.2008 kl. 11:58

5 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Sæll Bjarni

Í þessari stuttu grein þinni er svo mikið af rangfærslum að maður trúir vart sínum eigin augum. Að þingmaður skuli láta svona frá sér er þungbærar en tárum taki.

Þér og grandalausum lesendum þínum til fróðleiks er rétt að fram komi að  þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bæta kjör lifeyrisþega sem þú vísar til munu kosta ríkissjóð 2.700 milljónir á þessu ári og 4.300 milljónir á því næsta en ekki 700 milljónir eins og þú heldur fram.

Áður, á vormánuðum 2007 hafði ríkisstjórnin ákveðið að afnema frítekjumark lífeyrisþega 70 ára og eldri. Útgjöld ríkissjóðs vegna þeirrar ákvörðunar nema um 700 milljónum. Heildarútgjöld ríkissjóðs vegna þessara aðgerða til að bæta kjör lífeyrisþega nema því uþb 5 milljörðum á heilu ári.

Ítarlegri útlistun má lesa á meðfylgjandi slóð

Þá heggur þú í sama knérun og samflokksmenn þínir undanfarna daga og vænir núverandi stjórn um svik við samninga fyrri stjórna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Meint svik eiga að felast í því að hækkanir lífeyris hafi ekki fylgt hækkunum almennra kjarasamninga og er þá iðulega vísað til 18000 kr grunnhækkunar lægstu taxta eða viðmiðunar við dagvinnutekjutryggingu.

Staðreyndin er sú að EKKERT í samningum, yfirlýsingum eða lögum frá fyrri ríkisstjórn framsóknarflokks og sjálfstæðisflokks ber með sér slík loforð - EKKERT ! Eina tryggingin sem lifeyrisþegar höfðu um kjarabætur eftir hinn langbæra framsóknaráratug, var sú trygging sem til staðar er í lögum um almannatryggingar og eftir þeim lögum hefur að fullu verði unnið.

Dragir þú þessa fullyrðingar mínar í efa, skora ég á þig að vísa beint í texta máli þínu til stuðnings.

Staðreyndin er einnig sú, að þann 1. ágúst nk. þegar þeir ellilífeyriþegar sem ekkert hafa fengið greitt úr lífeyrissjóðum fá einskonar lífeyristryggingu að andvirði kr. 25.000 á mánuði, verða þeir elliífeyrisþegar sem verst eru settir með hærri tekjur en þeir hafa nokkru sinni haft, undanfarin 12 ár. Þessi hópur hefur þá hækkað umtalsvert meira en þeir lægst launuðu gerðu hjá ASÍ í kjölfar síðustu samninga.

Allt þetta eiga þingmenn að vita og þetta vita þingmenn Framsóknarflokksins sjálfsagt einnig þó þeir haldi öðru fram. Ég skil það reyndar vel að það svíði þeim sárt að sjá ríkisstjórn Safmylkingar og Sjálfstæðisflokks standa myndarlegar að kjarabótum til lífeyrisþega, ekki síst þeirra verst settu á fyrsta starfsári sínu, heldur en fyrri ríkisstjórnum Framsóknarflokksins tóks á síðastliðinum 12 árum, en það fríar Framsóknarmenn ekki undan sannleikanum.

Kveðja,

Hrannar Björn Arnarsson, 12.5.2008 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband