Talaði dómsmálaráðherra af sér!?

"Það verður að skoða réttarstöðu hvers og eins sem kemur hingað til landsins og taka afstöðu til hennar," sagði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í samtali við Mbl.is í dag aðspurður um málefni flóttamannsins Paul Ramses og annarra sem snúið er við hér á punktinum. Þetta er athyglisverð yfirlýsing í ljósi þess að það er einmitt þetta sem við sem stóðum við dómsmálaráðuneytið í hádeginu erum að fara fram á - að stjórnvöld skoði hvert mál í stað þess að heimfæra öll möguleg tilvik óskoðuð upp á Dyflinarsamninginn. Kannski verður Björn bara með okkur utan við Dómsmálaráðuneytið í hádeginu á morgun.

Eftirfarandi birtist eftir mig um málið í Morgunblaðinu í dag:

Íslandi lokað Afríkumönnum
Árið 1982 aðstoðaði ég félaga minn frá Nígeríu við að fá atvinnu og atvinnuleyfi á Íslandi. Þetta var dáldið staut í símanum og bréfaskriftum en allt saman framkvæmanlegt. Anthony vinnufélagi minn úr uppvaski við Rauða Hafið kom til Íslands og vann hér um misserisskeið í fiski austur á landi og farnaðist vel.

Liðlega 20 árum síðar var ég spurður hvort ég kynni ekki enn á þessi vélabrögð kerfisins og gæti hjálpað ungum Kenyamanni. Hann hafði þá þá dvalið hér sem einhverskonar skipitnemi og vildi framlengja dvöl sína enda bauðst honum vinna í Reykjavík. Það er fljótsagt að við sem þá knúðum dyra fyrir Paul Ramses komum víðast að þeim læstum og mest fyrir það að ekki var fullvíst nema einhver annar innan Evrópska efnahagssvæðisins kærði sig um vinnu þá sem Keníamaður þessi var þá ráðinn til. Gilti þá einu þó pizzasalinn hefði gert heiðarlegar tilraunir til að auglýsa starfið laust á alþjóðlegum vefsvæðum,- í þeim efnum voru eyðublöðin aldrei rétt út fyllt.

Miskunnarlausir hreppaflutningar
Í liðinni viku gerðist það svo að sami maður var kominn aftur til Íslands og nú eftir ofsóknir í heimalandi sínu. Í millitíðinni hefur hann bæði tekið þátt í stjórnmálum og starfað með íslenskum hjálparsamtökum í heimalandi sínu. Og aðstoðað Íslendinga sem heimsótt hafa Kenýa. Síðan Paul kom til Íslands í vetur hefur hann beðið hér afgreiðslu síns erindis í liðlega hálft ár. Svarið sem hann fær er fyrirvaralítil handtaka íslenskrar lögreglu. Áður en við er litið hefur ungum manni verið stíað frá konu og nýfæddu barni og hann fluttur í ítalskar fangabúðir. Næst liggur fyrir að móðirin og barn verði send til Svíþjóðar. Kannski geta Svíar svo sent barnið aftur til Íslands til fósturs enda ku það fætt í okkar landi.
Harðneskja þessara hreppaflutninga er algjör og öllum sem að honum koma til vansa.

Sérreglur hörundsdökkra?!
Þau svör kerfiskalla að svokallaður Dyflingarsamningur kveði á um að íslensk stjórnvöld séu knúin til mannréttindabrota af þessu tagi byggja á útúrsnúningi. Okkur er vitaskuld heimilt að senda pólitíska flóttamenn til þess lands sem þeir komu frá en það er ekkert sem skyldar okkur til þess.

Forstjóri útlendingastofnunar kom fram í sjónvarpi á föstudagskvöld og bar þar brigður á að umræddur maður hefði tengsl við Ísland. Þær dylgjur sýndu hvernig embættishroki getur skorið á tengsl einstaklinga við raunveruleikann. Sami forstjóri gerði í löngu máli grein fyrir tengslum Pauls við lögbrot þar sem barnsmóðir hans hefði ekki fyllilegar heimildir fyrir veru sinni hér á landi. Síðan hvenær tókum við upp þá réttarreglu að menn beri ábyrgð á hugsanlegum lögbrotum eiginkonu sinnar. Kannski á sú réttarregla aðeins við þegar hörundsdökkir menn eiga í hlut.

Þá er ljóst að hin mikilvæga meðalhófsregla réttarfarsins (sbr. 12. gr. Stjórnsýslulaga ) hefur verið brotnar þegar beitt er handtöku í máli þar sem einföld og vinsamleg tilmæli hefðu gert sama gagn og verið við hæfi. Enn læðist að þeim sem á horfa að hér sé um að ræða framkomu sem embættisvaldið hefði hikað við að bjóða hvítum manni!

Gott er að vera vanhæfur
Sá maður sem ber pólitíska ábyrgð á málinu, Björn Bjarnason ber því nú við að hann geti ekki tjáð sig um efnisatriði þess þar sem þá verði hann vanhæfur til að úrskurða ef svo færi að nokkur maður vildi kæra úrskurð Útlendingastofnunar. Með sömu viðbáru getur ráðherra í raun alltaf komið sér undan því að tjá sig um málefni síns ráðuneytis.

Viðbáran er haldlaus því vitaskuld er það enginn héraðsbrestur þó annar ráðherra verði að úrskurða í deilumáli. Hitt er mikill brestur í lýðræðinu ef ráðherra notar sér mögulegt og hugsanlegt vanhæfi til að skjóta sér undan pólitísktri ábyrgð.

Í upphafi þessarar greinar minntist ég á komu Nígeríumannsins Anthony til Íslands fyrir aldarfjórðungi. Þá voru hörundsdökkir menn enn fásénir á Íslandi og sumum varð jafnvel á að kalla þennan vin minn blámann sem okkur báðum þótti kímilegt. En ekki man ég nokkursstaðar eftir að þessum félaga mínum þá hafi verið sýnd lakari gestrisni en öðrum.
Í þeim efnum boðar fautaskapur stjórnvalda nú mikla stefnubreytingu og afturför.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Rétt hjá þér Bjarni, allt þetta mál er okkur íslendingum til skammar og Björn Bjarnason ber fulla ábyrgð á þessu öllu.  Það er hinsvegar alveg rétt hjá Birni Bjarnasyni að hann er vanhæfur og ekki bara í þessu máli, heldur er hann vanhæfur til að vera ráðherra.

Jakob Falur Kristinsson, 8.7.2008 kl. 17:09

2 identicon

Þetta er aldeilis frábær röksemdafærsla.  Gott þegar skynugir þingmenn láta að sér kveða í málum af þessu tagi.  Ég vil aðeins benda á að kæra vegna þessa máls þarf fyrst að berast til Útlendingastofnunar þ.e. þess kærða se, síðan sendir kæruna til ráðuneytisisn eftir ca 2 - 3 vikna meðhöndlun og skoðun.  Ég þekki málið,  hef farið þennan veg, og fékk svar frá ráðuneytinu eftri 6 mánuði.

Þórhallur V Einarsson (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 19:14

3 identicon

Semsagt, af því að maðurinn er ekki vaðandi í forræðishyggju og þar af leiðandi með puttana ofan í öllu, þá er hann "vanhæfur til að vera ráðherra". Spurningin er eiginlega, er ekki í lagi með þig Jakob? Svo er ég búinn að fá leið á fórnarlambsvæðingu landans. Það að spila kynþáttaspilinu er ekki mönnum bjóðandi. Áður fyrr hafði ég miklar mætur á þér Bjarni, en nú er ég farinn að efast. Hér eru engin rök á ferðinni, bara höfðað til tilfinninga og reynt að kalla fram einhverskonar bligðun hjá fólki, skamm!

Jón Bóndi (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 23:45

4 identicon

Björn Bjarnason hefur aldrei nokkurn tímann axlað pólitíska ábyrgð á einu né neinu.  Miðað við málflutning hans undanfarinna daga er mjög gott að vera stofnun undir dómsmálaráðuneytinu vegna þess að Björn getur aldrei tekið neina efnislega afstöðu til þess sem að undirmenn hans gera né heldur er honum kunnugt um þau mál sem að stofnanir hans eru með á sínum snærum.  Þannig var honum alls ókunnugt um mál Ramses og getur ekki tekið afstöðu til þess.  Þetta heitir að skjóta sér undan ábyrgð í stað þess að athuga hvort að einhverjir af hans undirmönnum hafi farið á skjön við reglur.  Held að hann gleymi því æði oft kallinn að hann er kosinn á þíng, eins og alþingismenn allir, til þess að gæta hagsmuna almennings.  Það eru hagsmunir almennings að flóttamenn fái í það minnsta sanngjarna málsmeðferð og ekki sé brotið á réttarstöðu þeirra sem að þeir hafa bæði samkvæmt Schengen og Dyflinarsamkomulaginu.  Björn Bjarnason og Útlendingastofnun gleyma þeim parti nefninlega alltaf á mjög fagmannlegan hátt.  Dyflinarsamkomulagið skyldar Íslendinga til þess að virða réttindi og skyldur flóttamanna sem að hingað leita.

JHJ (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 05:43

5 identicon

Það væri betra fyrir Ísland að allir ráðherrar og ÞINGMENN störfuðu eins og Björn Bjarnason. þe. af heilindum. Ég verð að taka undir orð Jóns bónda : Ég hafði álit á þér, Bjarni, en framganga þín í þessu máli og mörgum öðrum er smám saman að breyta áliti mínu á þér. Þú varst efnilegur og verður sennilega aldrei annað en efnilegur.

Þú gerir þér grein fyrir því að þetta táknar aðeins eitt :

Árangur þinn er enginn !!!

P

Palli (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 08:21

6 Smámynd: egvania

Bjarni, þakka þér fyrir góð skrif, okkar landi er skömm að því hvernig farið var að í máli þessa manns.

egvania, 9.7.2008 kl. 10:10

7 identicon

BARA(!) að "höfða til tilfinninga til að vekja blygðun", segir einn svarenda. Jæjahhh!

Líf án tilfinninga, samkenndar og skilnings er ekki líf, heldur ábyrgðarsnauð vélvirkni að hentugleikum.

Þetta mál er þjóðinni til sársauka og skammar. Punktur.

 Heiður þeim sem enn vilja "draga vosklæðin af ferðalúnum og frostbörðum", bera þeim heitan drykk og grautarspón.

H. Ág.

Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband