Lítið er eftir hægri grænt...

Markaðurinn birtir í dag athyglisvert viðtal Björns Inga Hrafnssonar blaðamanns við erfðaprinsana tvo í Sjálfstæðisflokki, þá Illuga Gunnarsson og Bjarna Benediktsson. Þar rekja þeir félagar hagstjórnarmistök Sjálfstæðisflokksins, ógöngur vaxtastefnu Seðlabankans og eru í þessu mjög samdóma því sem við Framsóknarmenn höfum verið að segja í heilt ár. Vaxtastefnan drepur atvinnulífið og mun að lokum fella krónuna. Rétt strákar!

Einhverjir hefðu kannski ætlað blaðamanninum að vekja athygli á þessari samsvörun en til þess að sanngirni blaðamanns sé gætt gagnvart kollega,- þá er það ekki raunhæft. En víst er að Geir Haarde, Seðlabankinn og fjármálaráðherrann fá það í raun og veru óþvegið í þessu viðtali við framtíðarleiðtoga Sjálfstæðisflokksins. Allir löðrungaðir hægri vinstri.

En það eru önnur stórtíðindi í viðtalinu. Fyrir kosningar hampaði Sjálfstæðisflokkurinn grænum fálka, ekki þó af því að slegið hafi í fiðurfénað þann heldur til að vekja athygli á umhverfisvænni línu flokksins. Fyrir kosningar kom fyrrnefndur Illugi Gunnarsson fram sem talsmaður hægri grænna sjónarmiða. Það er harla lítið eftir af þessum græna lit í dag og greinilegar engir fyrirvarar við neinar stóriðjuframkvæmdir lengur á borðinu. Hvergi skal gefið eftir og langt síðan jafn grímulaus stóriðjustefna hefur sést á prenti eins og einmitt í ummælum Illuga þegar hann segir í umræddu viðtali. Fyrir nú utan þá stefnu að stóriðjan skuli tosa okkur úr kreppunni segir hinn hægri græni talsmaður flokksins:

Síðan skulum við ekki gleyma því að fjárfesting í orkuöflun og orkufrekum iðnaði er ekki einungis varnaraðgerð til að brjótast út úr núverandi vanda. Við Íslendingar erum orkuframleiðendur, heimurinn hrópar á orku, og við höfum það fram yfir flesta aðra að orkan er ekki flutt út í tunnum eins og olía, þeir sem vilja nýta hana verða að fjárfesta á Íslandi. Orkan okkar er hrein og endurnýjanleg og engin þjóð lætur annað eins tækifæri fram hjá sér fara.

Hér er spilað eftir þeirri gömlu og margrispuðu plötu að við orka okkar Íslendinga sé svo hrein og óspillt að okkur beri eiginlega að virkja sem mest og þegar kemur að umræðu um Bitruvirkjun eru þeir félagar algerlega sammála um að hana hefði alls ekki átt að slá af.

Mér virðist svoldið sem Sjálfstæðismenn í Hveragerði séu hinir einu sem í dag varðveita hægri græna stefnu íhaldsins og fara kannski að verða einangraðir þar í álgráum sölum...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll og blessaður Bjarni.

Alltaf jafn gaman að lesa eitthvað eftir þig og heyra frá þér!

Öðruvísi mér áður brá. Nú er annað hljóð í strokknum hjá Framsóknarflokknum en fyrir síðustu kosningar. Þá fannst mér þið vera á nákvæmlega sömu línu og við sjálfstæðismenn varðandi stóriðjuna og orkuverin.

Hafið þið breytt um kúrs eða varðar þetta einungis ummælin vegna Bitruvirkjunar?

Hvað segir Valgerður Sverrisdóttir, Birkir J. Jónsson og Höskuldur Þórhallsson um þessa gagnrýni þína á stóriðju á Norðausturlandi.

Eruð þið Guðni þingmenn okkar Reyknesinga kannski á móti álveri í Helguvík?

Ég veit svo sannarlega ekki hvernig ég á að skilja þessi orð þín?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 23.7.2008 kl. 20:27

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það er greinilegt að þingmaðurinn Bjarni Harðarson þarf ekki að hafa áhyggjur af næsta málsverði.Enda á föstu kaupi hjá ríkinu næstu þrjú árin.Á hvaða leið er Framsóknarflokkurinn með slíkan þingmann.Því miður er það svo að það eina sem þingmenn og formaður Framsóknarflokksins hafa lagt til málanna er að slegnir verði 500 miljarðar, sama hvað það kostar, sem síðan verði hent í bankana sem að sjálfsögðu nota þá til útlána erlendis til að bjarga andlitinu.Það hefði verið skiljanlegt ef þú Bjarni hefðir gagnrýnt að ráðinn hefði verið bankastjóri eins bankans til að stjórna atburðarásinni við efnahagsstjórnina.Það er merki um manndóm að skipta um skoðun, þegar menn þurfa að bjarga málum.Þann manndóm hefur Illugi Gunnarsson en þú ekki.Þú ert með málflutningi þínum að útiloka Framsóknarflokkinn frá stjórn ríkisins næstu tíu árin, það er að segja ef þér tekst ekki að þurka hann út áður.Kv.

Sigurgeir Jónsson, 23.7.2008 kl. 21:44

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég hef sjaldan deilt skoðunum með Illuga og man ekki allt það græna sem hann talaði um á sínum tíma. því er þó ekki að neita að orka sem virkjuð er á þann hátt er við gerum hér á landi, vatns- og varmaafl, er líklega sú grænasta sem þekkist. engin aðferð til virkjunar orku er algerlega græn. ekki einu sinni sólarorkuvirkun. framleiðsla sólarsella er mengandi. líklega er virkjun vindorkunnar einnig í flokki grænnar orku og furðulegt að við íslendingar skulum ekki gera meira í að virkja vindinn, búandi í þessu rokrassgati sem Ísland er.

Brjánn Guðjónsson, 25.7.2008 kl. 23:26

4 identicon

Ég held ég myndi barasta gefa þér atkvæði mitt í næstu kosningum... ef þú værir ekki í Framsóknarflokknum,

ásta (IP-tala skráð) 27.7.2008 kl. 12:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband