Hvor okkar er aftur í stjórnarandstöðu!!!

Sat í morgunkaffi á Útvarpi Sögu í morgun sem telst varla til tíðinda. Með mér þar í beinni útsendingu var Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar. Það sem gerði umræðuna merkilega en um leið fáránlega var að ég lenti hér ítrekað í að verja stjórnarathafnir sitjandi ríkisstjórnar og valdastofnana. arnipallarnason

Nei, Árni við erum ekki komin að fótum fram, nei, gjaldeyrisviðskipti hafa ekki öll stöðvast, nei það er ekki rétt að grípa til varagjaldeyrissjóðs þjóðarinnar, jú hann er víst til o.s.frv.

Raunar er allur málflutningur Samfylkingarinnar í því háskalega ástandi sem nú ríkir fyrir neðan allar hellur. Við stjórnarandstæðingar gerðum óformlegt samkomulag við ríkisstjórnina um að stilla málflutningi í hóf og gefa ráðherrum sem bestan vinnufrið. Töldum það einfaldlega réttara heldur en huga að pólitískum keilum. Á móti höfum við farið fram á samráð og daglega upplýsingagjöf.

Þar með er ekki sagt að aðhaldshlutverki okkar sé lokið en við teljum að það hafi það sem af er mánuði ríkt slíkt ástand að rétt sé að slíðra sverðin og standa saman að aðgerðum. Því studdum við Framsóknarmenn neyðarlög ríkisstjórnarinnar og yfirtöku bankanna þó auðvitað megi gagnrýna margt í því ferli.

En það hafa mörg mistök verið gerð og þeim verður haldið til haga nú þegar um hægist. Bæði of mikið verið sagt og of lítið gert. Stærstu mistökin eru vitaskuld hversu seint er gripið til allra ráðstafana og varnarorðum ekki sinnt.

En á sama tíma og við slíðrum sverðin halda Samfylkingarmenn uppi látlausu blaðri og jafnvel árásum á valdastofnanir samfélagsins sem allar þurfa á öllu sína að halda. Flokkur þessi hefur líka ítrekað sent óheppileg skilaboð inn á afar viðkvæmt samningaborð Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Það ótrúlega gerist nú hér í stjórnmálalífi landsmanna að jafnvel í stjórnarþátttöku tekst Samfylkingunni að einangra sig pólitískt með innihaldslitlu og stundum miður greinarlegu gaspri...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Bjarni: Eruð þið ekki svolítið að dingla augnhárunum í áttina að Geir.  Ponsu daður til hægri?

Þannig kemur það mér fyrir sjónir.

Takk fyrir pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.10.2008 kl. 16:52

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

sammála Jenný.. daður framsóknar til íhaldsins er orðið ansi augljóst. 

Óskar Þorkelsson, 16.10.2008 kl. 17:51

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Bjarni, þetta hlýtur að hafa verið skemmtileg lífsreynsla

SF hefur beðið með "öndina í hálsinum" eftir að foringi þeirra næði heilsu og snéri heim til þess að setja þeim reglurnar.  Það hlýtur að hafa komið flokksmönnum á óvart hvað Björgvin hefur staðið sig vel, alveg hjálparlaust...

Kolbrún Hilmars, 16.10.2008 kl. 20:02

4 identicon

Sæll Bjarni

Sjaldan hef ég verið sammála ykkur framsóknarmönnum(nema stundum Sigrúnu) en nú ertu hreinn og beinn.

Kv.

Sveinbjörn

sveinbjörn (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 21:57

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Bjarni.

Þetta er sérkennilegt ástand sem þú þarna lýsir en þetta er alveg rétt hjá þér, Samfylkingin leikur einhvern sóló póló leik, viðkomandi lítt til álitsauka.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 17.10.2008 kl. 00:19

6 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Mér sýnist nú fleiri vera smátt og smátt að einangrast þessa dagana. Þeim fækkar allavega dag hvern, virðist mér, sem tilbiðja krónuna af jafnmiklum trúarhita og þú . Svo dæmi sé tekið.

Heimir Eyvindarson, 17.10.2008 kl. 00:38

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ég held það sé nú ætíð æskilegt að halda málfrelsinu. Íhaldið tók það af Framsóknarmönnum í ríkisstjórn í tvö kjörtímabil og flokkurinn varð vart mælanlegur örflokkur. Það sem að er þó alvarlegra er að fylgið hefur lítið aukist þó að þeir séu lausir úr vistarbandinu.

Samfylkingin gekkst greinilega ekki undir neinn þrælshátt og mælist endurtekið stærsti flokkurinn í landinu. Ég held að Jóhanna Sigurðardóttir og Björgvin G Sigurðsson séu miðað við aðstæður að spila sannfærandi úr miklum vanda þessa dagana.

Ég held að það sé hollast fyrir lýðræðið að hver þingmaður fylgi heiti sínu um að láta persónulega sannfæringu ráða för, óháð meirihlutasamstarfi í ríkisstjórn. Stjórnin hefur það sterkan meirihluta að það er alveg svigrúm á grósku í skoðunum og orðræðu. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.10.2008 kl. 00:48

8 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ég hlustaði á ykkur og tók eftir stjórnarandstöðu Árna. Málið er að margir Samfylkingarmenn hafa sífellt opnar flóttaleiðir og varast að axla ábyrgð.

Þeir hinir sömu vilja gjarnan sjá samstarfsflokkinn sitja eftir í súpunni. Hvort þeir uppskera í kosningum eins og þeir telja núna er mikið vafamál. 

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.10.2008 kl. 08:06

9 Smámynd: Þórhallur

Það hefur verið augljóst í talsverðan tíma að framsókn ætlar sér að komast í ríkisstjórn með D. en í hvaða umboði, og hvernig ætla þeir að hafa áhrif þar. Það er alveg ljóst að flokkur sem er vart til, nema þá aðeins vegna nokkurra þingmanna sem enn hanga í flokknum, á engan rétt á að fara í ríkisstjórn. Það er líka ljóst að Þeir hafa enga samningsstöðu gagnvart D, Þannig að það er aðeins eitt í stöðunni. framsókn vill eins og venjulega komast að kjötkötlunum, ná í einhver embætti handa vinum og kunningjum, og hugsanlega einhverja peninga úr bönkunum. Þetta má ekki gerast. Staðan er ekki beisin núna, en það er beilínis öllu lokið ef að þeir ætla að redda D út úr þessu. Það eina sem er eftir eru bænir.

Þórhallur, 17.10.2008 kl. 08:48

10 identicon

Maður þakkar guði fyrir að þið framsóknarmenn skuluð ekki vera í ríkisstjórn þá fyrst væri ástandið skrautlegt. Ég held að það sé leitun að ömurlegri stjórnmálamönnum heldur en þér og Guðna formanni þínum. Með málflutningi ykkar að undanförnu eru þið að reka síðasta naglann í líkkistu ykkar framsóknarmanna og haldiði endilega áfram að gera ykkur að fífli því það er bráðnauðsynlegt fyrir okkur íslendinga að losna við ykkur úr stjórnmálum.

Peðersen (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 09:10

11 identicon

Sæll Bjarni.

Eitt sinn orti Þórarinn Eldjárn:

Ég kann ekki við krataflón

sem koma valds í hallir.

Þeir meiga ekki sjá míkrafón

þá mígleka þeir allir.

Mér sýnist þessi vísa vera að sanna sig, einu sinni enn.

Jóhann Zoëga (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 09:59

12 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Nú vona ég, að Geir endurlifi ekki ástandið sem varð í  Viðeyjarstjórninni, að óðara og eitthvað var tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi, vildi það einhverra hluta vegna ,,leka" í fjölmiðla en BARA ef það hentaði Krataliðinu (hérna hefði ég skrifað lýðnum, væri ég ekki svona vel upp alinn og kurteis.)

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 17.10.2008 kl. 14:32

13 identicon

PEÐERSEN:   Mundirðu eftir  að þakka fyrir þig í gærkvöldi áður en þú fórst að sofa? Fórstu með bænirnar þínar í morgun? 

                                             Gissur Jóhannesson.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 08:14

14 Smámynd: Sigurður Jónsson

Takist ekki að finna einhverja lausn til bjargar í vikunni og nærtækast virðist vera að horfa til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins held ég að stjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sé í mikilli hættu.

Sigurður Jónsson, 19.10.2008 kl. 22:27

15 identicon

Fín mynd af Árna. Davíð talar um óreiðumenn, þú um óróamenn. Eru þeir í þínum ranni?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 10:15

16 identicon

Ef árni er stjórnarandstaðan og þú ert þá leiðbeinandi stjórnvalda. Þá væri gaman að þú settir fram í smá pistli hvað það væri sem íslensk stjórnvöld ættu að gera í nánustu framtíð til að koma ró og "uppsveiflu"  á það ástand sem nú ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar

bragi (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband