Sökudólgurinn er Alþingi...

Hver er ástæða þess að fámennum hópi tókst að kollsteypa íslensku hagkerfi. Víst skipti máli offar einstakra útrásarvíkinga og ennþá frekar ef rétt er að menn hafi skotið milljörðum undan til skattaparadísa suður í heimi. En þegar þeir ósvífnustu hafa verið metnir og einstaka óhappaverk tekin til skoðunar sjáum við líklega að ekkert af þessu breytir heildarmyndinni.

Óhappaverk 1993

Hinn raunverulegi sökudólgur alls þessa er vitaskuld löggjafarvaldið og þeir sem þar eru í forsvari. Ekki vegna sértækra verka einstöku ráðherra eða rangra ákvarðanatöku framkvæmdavaldsins. Það er mjög hrópað á eftirlitsiðnaðinn í fjármálalífinu en sjálfum er mér til efs að eftirlitsiðnaðurinn einn hefði getað betur. Sökin liggur hjá Alþingi sem ákvað í maí 1993 að fela Evrópusambandinu hluta af því valdi sem fram til þess tíma var Alþingis og þjóðarinnar. Þetta var gert með EES samningnum. Enginn þingmanna Framsóknarflokksins studdi þann gerning.

Við sem lýstum á þeim tíma andstöðu okkar við EES samninginn gerðum það einkanlega á forsendum fullveldis og frelsis þjóðarinnar. Engan okkar óraði þá fyrir að kerfi sem smíðað var af hundruðum þúsunda skriffinna í Brussel gæti verið svo ófullkomið sem raun ber vitni. Á annan áratug hafa þjóðir ESB og EES móttekið tilskipanir frá Brussel og gert að lögum sínum.

Missmíði á fjórfrelsinu

Nú kemur í ljós að í lagaumhverfi og tæknilegri útfærslu á svokölluðu fjórfrelsi eru slíkar missmíðir að jafnvel formaður Sjálfstæðisflokksins er farinn að vísa í EES samninginn sem orsök. Kerfi þetta gaf allskonar ævintýramönnum lausan tauminn í viðskiptum milli þjóðríkja eins og engin landamæri væru til. Þegar kemur að ábyrgð og uppgjöri sjáum við að eftirlit innan hins evrópska skrifræðis einkennist af magni en ekki gæðum.

Engin trygging er fyrir því í kerfi þessu að sá sem er ábyrgur viti af ábyrgð sinni og raunar eru lagaóvissur í þessum efnum svo miklar að þegar hefur kostað milliríkjadeilur, fleiri en bara þær sem eru milli Íslands og Bretlands. Á undan okkur deildu t.d. Írar og Danir um hliðstæða hluti. Verst er að ekkert þjóðríkjanna tók á sig að bera almennilega ábyrgð á að hlutirnir væru í lagi. Allir treystu skriffinnunum sem eru líka um 700 þúsund í einni borg.

Kerfi sem enginn skildi

Vissulega hafa allar smáþjóðir farið þá leið í lagasetningu að taka mið af lögum stærri nágranna sinna. Það gerðum við Íslendingar um aldir og fluttum um Skandinavísk lög allt frá árinu 930 og til okkar daga. En slík yfirfærsla var gerð með þeim hætti að íslenskir yfirvöld þurftu í hvert sinn að gæta að hvernig ein flísin félli þar að annarri.

Með innleiðingu EES - var sú aðgætni ekki lengur fyrir hendi enda um að ræða yfirfærslu sem gilti í senn um heila álfu þar sem við teljumst nokkur prómill af heildinni, náum ekki tíunda hluta af prósenti. Kerfið er í ofanálag svo flókið og risavaxið að í reynd var útilokað að nokkur hér heima gæti haft yfirsýn yfir það og reyndar ekki heldur svo í sjálfri London að nokkur hafi skilið það til fulls. Að minnsta kosti ekki Gordon Brown. Þannig hafa sérfræðingar, erlendir og innlendir, talið allt þar til í haust að innan evrusvæðisins væri samábyrgð Evrópska Seðlabankans fyrir hendi en nú kemur í ljós að hún er alls ekki til. Og við hefðum því í engu verið betur staddir innan evrusvæðis.

Allt bar því að þeim sama brunni að allir treystu í blindni á kerfi sem enginn gat skilið til hlítar. Nú reka Evrópuþjóðirnar sig illa á og Icesave dæmið íslenska er aðeins dropi í þeirri mynd. ESB þjóðirnar deila um ábyrgð á bönkum og draga sig sífellt meir að eigin hagsmunum.

Hagsmunir þjóða og hagsmunir stjórfyrirtækja

Í reynd hefur ríkisstjórnum allra Evrópuríkjanna verið kippt til þess raunveruleika að verða að gæta að eigin hagsmunum og sínu eigin fólki. Þau draga sig því í fleiri og fleiri atriðum frá heildarhagsmunum Evrópu. Og eðlilega vaknar spurningin, hverjir voru þessir heildarhagsmunir. Voru það ekki hagsmunir fólksins.

Þegar að er gáð hefur ESB einkanlega tekið mið af hagsmunum stórra efnahagsheilda, stórfyrirtækja og einokunar og engin tilviljun að hér heima höfum við einnig þokast nær einokunarkapítalisma allan EES tímann. Á erfiðleikatímum verða allar ríkisstjórnir að gæta hagsmuna sinnar eigin þjóðar og allt gildismat færist nær raunverulegum hagsmunum kjósenda.

Vegna EES samningsins gátum við ekki tryggt dreifða eignaraðild bankanna sem með öðru stuðlaði að þeirri óskemmtilegu mynd viðskiptalífsins sem við blasir. Við gátum ekki gengið gegn fjórfrelsinu og bannað bönkum að starfa utan Íslands. Það var mögulegt að stöðva opnun nýrra útibúa en útilokað að stöðva það sem í gang var komið.

Hendur Alþingis til að hafa áhrif hafa verið bundnar og tíska samfélagsins, mótuð af fjölmiðlum tískuauðvaldsins hefur stutt alla þá reginfirru.

(Birt í Mbl. 30. okt.2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

bla bla bla. Þú gagnrýnir EES og allt í lagi með það. EES samningurinn er ekki hafinn yfir gagnrýni. Hún verður þó að vera málefnaleg. Sá samningur hallar kannski á þessa litlu meðvirku þjóð að einhverju leiti.

EES er bara efnahagssamningur og nær ekki til allra hinna atriðanna sem búa í aðild að ESB, svo sem mannlega þættinum.

Aðild að ESB snýst ekki bara um krónu vs evru. Það er svo miklu miklu meira í pakkanum og ekki síst að losna undan þessu moldarkofaregluverki sem hér ríkir.

Brjánn Guðjónsson, 31.10.2008 kl. 20:43

2 identicon

   Ekki verður sagt um þig en að þú gerir ekki þitt besta til að draga Framsóknarflokkinn á bólakaf oní fjóshauginn til þín og Guðna.

Villi Gunnarsson (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 21:06

3 identicon

Sæll Bjarni Harðarson úr Laugarási.

Þessi grein hjá þér er þvílíkt góð ádrepa og greining á ástandinu heima að mann setur bara hljóðan. 

Þú bara verður að halda áfram í pólítíkinni og berjast eins og ljón Bjarni. Þetta er svo rosalega mikið hárrétt hjá þér og vel og hreinskilnislega greint. Þó Flokkurinn sem þú hefur því miður kosið að fara fram fyrir sé meira og minna liðónýtur og margsekur í vitleysunni þá stið ég þig með ráðum og dáð og nú í fyrsta sinn í mjög langan tíma gæti ég hugsað mér aftur að styðja Framsóknarflokkinn ! En hjá Samfylkijngunni helgar enn meðalið eitt tilganginn og ekkert annað þeim er nákvæmlega sama um allt svosem smáatriði eins og sjálfstæði þjóðarinnar eða fullveldið skiptir þar engu máli bara ef þeir geta komið fram sínum þrjóskuvilja um skikyrðislausa aðild okkar að Evrópusambandinu og Evruaðild. Samfylkingin er því landráðaflokkur hinn versti og alls ekki treystandin til eins eða neins og Fromaðurinn þéirra og fleiri foryswtumenn margsekir og brennimerktir nýfrjálshyggunni, enda hlupu þau glottqandi framan í þjóðina upp um hálsið á Sjáslfstæðisflokknum og voru svo æðislega flott og staffirugu á fullri ferð um heiminná a SAGA CLASS og í einkaþotum Greifanna, enn með glott á vör or segjandi þjóðinni og ALHEIMINUM að bankakerfið á ÍSLANDI VÆRI 100% og pottþétt og að þeir og Þjóðin og Ríkiskassinn ÍSlenski stæði 200 prósent að baki þessum góðu gæjum.

Þetta er nú lið'ið sem var að stjórna landinu okkar og heimntaði skilyrðislaust að ALÞJÓÐA GJALDEYRISSJÓÐURINN TAKI landið yfir og þeir óska okkur líka í faðm ESB í BRUSSEL. ÉG SKAL segja þér það Bjarni Harðarson að þessu liði er alls ekki treystandi, þetta er þvílíkt landráðahyski !  Stattu þíg STRÁKUR !   

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 21:29

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er eins og mig grunaði alltaf, Framsóknarflokkurinn kom hvergi nærri að öðru leiti en því að reyna koma vit fyrir liðið.  Það var gott að sjá þessa sönnun fyrir því að það hefði verið Alþingisárgangurinn frá því 1993 að frátöldum Framsóknarmönnum sem eiga sök á ástandinu í dag ásamt ljótu köllunum í Brussel.

Nú þarf bara að finna út hvaða óþverrar komu fiskveiðistjórnunarkerfinu á sem er búið að stórskerða fiskistofnana og leggja líf margra sjávarbyggða í rúst.  Það kæmi mér ekki á óvart að þar ætti Brusselvaldið stærstan hlut að máli ásamt kvenfélaga sambandi Íslands.

Magnús Sigurðsson, 31.10.2008 kl. 21:58

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

EES er vandamál sem kemur kvótamálunum ekkert við.

Fiskveiðikvótinn er innanlandsvandamál, sem hefði auðvitað aldrei átt að samþykkjast á Alþingi.   Sem er þó  barnaleikur miðað við EES sem bauð upp á óútfyllta tékka til ævintýramanna "útrásarinnar". 

Kolbrún Hilmars, 31.10.2008 kl. 22:50

6 Smámynd: Heimir Eyvindarson

......jafnvel formaður Sjálfstæðisflokksins er farinn að vísa í EES samninginn sem orsök

Það þarf nú ekki að koma á óvart, maðurinn hefur bent á alla nema sjálfan sig.

......við hefðum því í engu verið betur staddir innan evrusvæðis.

Ætlarðu enn að halda þessu fram Bjarni? Skilurðu það virkilega ekki að það að við höfum hér ónýtan gjaldmiðil, sem við höfum í raun aldrei ráðið við, hefur orðið til að auka enn á þau vandræði sem á okkur hafa dunið? Ég á ekki orð!

Heimir Eyvindarson, 1.11.2008 kl. 00:11

7 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

En Bjarni, af hverju banna Bretar, sem eru í EES, sínum bönkum að reka reikninga fyrir fólk búsett utan Bretlands frá breskum bönkum ef þetta er allt EES að kenna? Er Bretland ekki í EES og ESB?

Bretar banna sínum bönkum og útibúum þeirra hvar sem þau eru að opna reikninga fyrir aðra en íbúa Bretlands með þeim rökum að Bretar hafi ekki fjárhagslega burði til að standa undir ábyrgðum innlána fyrir fólk sem ekki er búset í Bretlandi. - Þetta er ein ástæðan fyrir velgengni Icesave að Bretar búsettir erlendis geta ekki skipt við breska banka en gátu nýtt sér Icesave og Kaupthig Edge. - Hvað við EES gerir það að verkum að við urðum að leyfa en bretar ekki? - Upplýst svar við þessu er mjög mikilvægt fyrir umræðuna.

Helgi Jóhann Hauksson, 1.11.2008 kl. 22:04

8 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það hentar auðvitað öllum að kenna einhverjum öðrum um - ekki síst hentar það þeim sem réðu þegar lög og reglur um málaflokkinn voru mótuð að halda því fram að þeir hafi ekki getað neitt annað og svo er bent útá haf til útlanda og fínt einmitt 15 ár aftur í tímann því þar er enginn til svara. Ef einhver sem fór með völd sl. 15 ár hefði bent á þetta vandmál og reynt að stoppa uppí gatið hverjum sem um er að kenna að það væri þarna gæti sá fríað sig einhverri ábyrgð - annars bera þeir hana sem settu lögin og reglurnar og þeir sem aldrei reyndu að breyta þeim en hefðu getað gert það/(reynt það).

Helgi Jóhann Hauksson, 1.11.2008 kl. 22:16

9 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Bjarni ætlar greinilega ekkert að svara þessu með Bretana......

Heimir Eyvindarson, 2.11.2008 kl. 16:10

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Kolbrún. Hefur þú góðar heimildir fyrir því að kvótalögin hafi verið barnaleikur miðað við regluverk EES? Minni á að það lítilræði sem kvótagreifarnir tóku út úr auðlindinni og fóru að leika sér með var einn stærsti bitinn sem spilafíklarnir nýttu sér til að setja allt fylliríið í gang.

Árni Gunnarsson, 5.11.2008 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband