Lýðræðið og flokksræðið

Gunnar Karlsson ritar athyglisverða grein um lýðræðið í Fréttablaðið fyrir skemmstu og tekur þar til varna fyrir margt í okkar kerfi. Þó að ég sé sammála ýmsu sem Gunnar segir um ágæti fulltrúalýðræðisins langar mig að gera athugasemd við hugmyndir hans um flokksræðið sem er tvímælalaust mikill áhrifavaldur um ógöngur okkar Íslendinga í dag.

Innan gömlu flokkanna er því á tyllidögum haldið fram að flokkarnir sjálfir séu lýðræðislegar stofnanir enda geti hver sem er tekið þátt í starfi þeirra. Staðreyndin er aftur á móti sú aðeins prósentubrot kjósenda tekur raunverulegan þátt í starfi stjórnmálaflokka og þeir sem reynt hafa vita að ótrúleg hending, baktjaldamakk og hrossakaup ráða niðurstöðum stofnana flokkanna. Þetta á jafnt við um þá alla.

Stjórnmálaflokkanna er í engu getið í stjórnskipan Íslands og þar er gert ráð fyrir að alþingismenn séu engu háðir nema samvisku sinni og standi kjósendum einum reikniskil gerða sinna. Staðreyndin er allt önnur. Stjórnmálamenn eru með fáeinum undantekningum í starfi hjá sínum flokkum og þurfa raunar ekki að hafa áhyggjur af því að þeir séu að gera eitthvað rangt, þeir geta stutt sig við flokkinn. Þeir eru að spila í liði, hluti af heild og beygja sig undir „lýðræðislega" ákvörðun flokksins.

Um leið er hið raunverulega lýðræði fótumtroðið þar sem fólk kýs sér fulltrúa til þingsetu sem það treystir. Þegar svo sömu fulltrúar eru frjálsir frá eigin samvisku og eigin sannfæringu er sú kosning til lítils. Gott dæmi um þetta flokksræði er umræða vetrarins um að bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur breyti ESB afstöðu þingmanna sinna með flokksþingum. Þar með breyta flokkarnir í raun og veru niðurstöðu kosninganna þar sem tiltekinn fjöldi ESB andstæðinga var kosinn til þings en flokkarnir geta fækkað þeim svo um munar!

Annað dæmi um flokksræðið er þegar tveir menn, Jón Baldvin Hannibalsson og Davíð Oddsson, sömdu um það á fundi úti í Viðey að Ísland tæki þátt í EES. Ákvörðun sem hefur orðið þjóðarbúinu dýrkeypt. Eftir Viðeyjarfundinn var aðkoma Alþingis að EES ákvörðuninni meira skuespil heldur en raunveruleg málstofa valdastofnunar.

Flokksræðið er einnig stór þáttur í óförum okkar þjóðarbús í dag þegar kemur að gagnrýninni hugsun á Alþingi Íslendinga. Í stað þess að alþingismenn starfi eftir samvisku sinni og beiti sér til að komast að niðurstöðum um flókin mál er þeirra hlutverk að rugga ekki viðkvæmum bát vinsælda og tískustrauma. Þessvegna var það illa séð að nokkur þingmaður væri að agnúast út í útrásarvíkingana sem voru, eins og Gunnar Karlsson bendir á, vinsælir meðal þjóðarinnar. Þingmenn sem vinna hjá stjórnmálaflokkum verða að læra að haga sér. En þjóðin hefur í raun og veru ekkert við þannig þingmenn að gera.

(Birt í Fréttablaðinu fyrr í vikunni.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Félagi !

 Gamli " komminn" Gunnar Karlss., hefði liðið best, væri Ísland sem Kúba !!

 " Aðeins prósentubrot kjósenda tekur raunverulega þátt í starfi stjórnmálaflokka"

 Hvað ??

 Er það sök flokkanna ??

 " Sjálfstæðisflokkurinn breyti afstöðu þingmanna sinna til ESB"

 Bull og þvæla !

 Sjálfstæðisflokkurinn mun á komanda Landsfundi samþykkja með miklum atkvæðamun, NEITUN á aðildarviðræðum við ESB.

 Flokkarnir eru ekki sökudólgarnir.

 Afskiptaleysi alls almennings um málefni þjóðarinnar er orsökin - hreint og klárt !

 Segi sem Rómverjar.: " Crede experto" - þ.e. " Trúðu þeim sem hefur reynsluna" !!

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 18:17

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Sæll Bjarni: mér finnst þú líta svolíti framhjá náttúrulegri hjarðhegðun mannsins. Þegar þing tók fyrst til starfa í Bandaríkjunum, var Washington D.C. lítið meira en móar og melar. Bröggum var hróflað upp og þar gistu þingmenn hinna mismunandi ríkja, svo ólíkir sem þeir voru. Tófubanar og tedrykkjumenn.

Á þeim tíma voru engir flokkar, engu að síður leið ekki á löngu að sambýlingar tóku til við að greiða atkvæði eins og aðrir sem deildu með þeim brauði. Þeir sem tóku sig út úr hópnum voru ekki bara sniðgengnir heldur voru þeir jafnvel hraktir úr kofanum.

Það má tína til dæmi þar sem lína flokks er keyrð ofan í kok á fólki og kannski liggja þingmenn vel fyrir slíkum brögðum, en kjósendur þurfa ekki að fylgja því. Gjörningaveður, eins og gekk yfir þjóðina vegna fjölmiðlalaganna hefur nú sýnt sig að hafa verið þjóðinni skaðlegt. Búsáhaldabyltingin er nú að sýna sig að vera kokkuð upp í eldhúsi VG. Samfylkingin sem er fyrirmunað að horfast í augu við vandamál stökk á vagninn. 

Sem góð og gegn sjálfstæðisskrugga tek ég mínar eigin ákvarðanir. Mín lífssýn finnur hljómgrunn í sjálfstæðisstefnunni. Enginn getur haft bjargfasta sannfæringu um öll mál, en manni ber að nota eigin vit til að mynda sér skoðun. Ég hef myndað mér skoðun um aðild að ESB og taki minn flokkur ákvörðun um að leggjast með ESB liti ég á það sem skilnaðarsök.

Valið er mitt.

Ragnhildur Kolka, 6.3.2009 kl. 18:47

3 identicon

Merkilegt að sjá skrifin eftir þig í dag Bjarni.  Þú notar mikið orðin lýðræði og flokksræði.

Það er yfirlýst stefna þeirra, sem hafa talað fyrir framboð L-listans,  að það sé bara ein stefna í framboðinu fyrir ESB aðild, það er að vera á móti aðild .  Einhver hefði notað orðið flokksræði !  Fyrst það er svona mikið flokksræði , er þá lýðræði hjá L-listanum ?

Bjarni, eru það ekki mistök hjá þér að notast við þessi hugtök ?

Þú hefðir getað farið aðra leið við að boða fagnaðarerindið .

Hvers vegna tekur þú ekki orðið ,,NEI"  upp ?

Eða var það upptekið hjá Steingrími J og VG ?

JR (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 20:10

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

 Bjarni! Þú hugsar mikið um lýðræðið eins og fleiri. Mér finnst því rétt að senda þér þessa hugleiðingu sem ég skrifaði inn á bloggsíðu mína í gær. Reyndar segi ég ýmislegt fleira um lýðræði í Þjóðmálagreininni "Eyja Sanch Panza", sem líka er nú að finna á vefsíðunni.

Kveðja, Vilhjálmur Eyþórsson 

Hvað er lýðræði? Aristóteles segir það vera "stjórn hinna mörgu heimsku á hinum fáu vitru". Þetta hugtak hefur verið afbakað, teygt og togað meira en flest önnur í seinni tíð ekki síst af alræðissinnum, en bæði Lenin sjálfur og erlendir, þar á meðal íslenskir, áhangendur hans voru farnir að beita þessu orði í tíma og ótíma um sjálfa sig strax snemma á 20. öld. Í seinni tíð er orðið algengt, einkum meðal vinstri manna, að setja lýðræðið á stall með Guði almáttugum og ljá því einhvers konar yfirnáttúrulegan töfraljóma. Með lýðræði megi lækna öll mannanna mein og stofna fyrirmyndarríkið, útópíuna, hið endanlega himnaríki á jörðu. Málið er ekki svo einfalt.

Það er gömul bábilja, sem enn heyrist, að Forn- Grikkir hafi fundið upp lýðræðið, en í Aþenu ríkti einhver allra vitlausasta úfærsla á lýðræði sem um getur, en þar voru menn valdir til ábyrgðar- og stjórnunarstarfa með hlutkesti.
Lýðræði hentar vel frumstæðum þjóðfélögum, þar sem verkaskipting er lítil, en þegar þörf verður á samstarfi og sameiginlegu átaki hentar einræði best. Þetta skildu Grikkir og Rómverjar og afnámu því lýðræðið og tóku sér einvalda um stundarsakir, þegar ógn steðjaði að ríkinu. Ekki er hægt að stjórna her með lýðræðislegum aðferðum, fremur en skipi eða skólastofu. Það er gömul saga og ný, að “margir kokkar eyðileggja sósuna”. Stundum verður að taka af skarið og í rauninni er einræði miklu betra stjórnarform en lýðræði, þ.e. ef einvaldurinn er starfi sínu vaxinn. Því miður er slíkt allt of sjaldgæft. Auk þess eru valdaskiptin miklum erfiðleikum bundin. Mjög oft er vitnað til Acton lávarðar, sem benti á að “vald spillir, og algert vald spillir algerlega”. Því hafa menn á Vesturlöndum þróað fram þá blöndu af einræði og lýðræði, sem nefnist fulltrúalýðræði.
í fullltrúalýðræði eru tilteknum mönnum falin völdin um stundarsakir, með vissum takmökunum þó, en umboð þeirra er síðan endurnýjað í almennum kosningum á nokkurra ára fresti. Með þessu móti fá valdhafar einræðisvöld að mestu í nokkur ár í senn, sem er nauðsynlegt. Til dæmis mundi enginn fjármálaráðherra í nokkru landi fá starfsfrið, ef allar ákvarðanir yrði að bera undir almenning jafnóðum. Í fulltrúalýðræði gegnir almenningur hlutverki ráðningarstjórans. Hann ræður tiltekinn mann, eða (oftast) flokk manna til að annast stjórn ríkisins í vissan tíma, að mestu án frekari afskipta kjósenda.

Þetta eru sjálfsagðir hlutir. En það ætti að hafa í huga að lýðræði er einungis stjórnunaraðferð, og meingölluð sem slík. Mig minnir að það hafi verið Churchill, sem benti á að lýðræði væri “aðeins hin skásta af mörgum vondum aðferðum til að stjórna ríki”.


Ein er sú kenning, að mikil kosningaþátttaka sýni styrk lýðræðis. Einfeldningar vitna oft til lágrar kosningaþátttöku í Bandaríkjunum, sem dæmi um vont lýðræði. Lægsta kosningaþátttakan er þó ekki í Bandaríkjunum, heldur í elsta og traustasta lýðræðisríkinu, nefnilega Sviss. Þar fer hún sjaldan mikið yfir 40% og hangir oft í kringum 30-35%. Í báðum þessum löndum er það kosningalöggjöf og fjöldi kosninga sem mestu veldur, og ég ekkert viss um að það sé til bóta, að hver sótraftur sé á sjó dreginn í kosningum. Samkvæmt slíkri kenningu ætti Norður- Kóera að vera mesta lýðræðisríki í heimi, því þar er kosningaþáttaka nálægt 100%. Stjórnvöld fá þar 98-99% stuðning kjósenda, og þessar tölur eru örugglega ófalsaðar.

Iðulega heyrist hrópað eitthvað um að skortur sé á “beinu lýðræði”. Rödd almennings heyrist ekki nægilega vel. “Grasrótin” eigi að ráða.
Meira er um svokallað “beint lýðræði” í Sviss og Bandaríkjunum en annars staðar. Í síðarnefnda landinu einskorðast þó beint lýðræði aðallega við réttarkerfið. Í Sviss fær maðurinn á götunni, Jón Jónsson, hins vegar að taka ákvarðanir í hinum aðskiljanlegustu málum og þar, eins og í Bandaríkjunum kemur oft vel í ljós, að almenningur, svonefnd “grasrót” hefur iðulega allt aðrar skoðanir en eru í tísku meðal þeirra (yfirleitt vinstri sinnuðu) gáfumanna, sem í fjölmiðlum og menntakerfinu reyna að stýra hugsun Vesturlandabúa.

Frægt var fyrir nokkrum árum, að Íslendingi einum var neitað um svissneskan ríkisborgararétt í kosningum í kantónu nokkurri. Ástæðan var einföld: Hann var samkynhneigður. “Pólitísk rétthugsun” gáfumanna hefur nefnilega afar lítinn hljómgrunn meðal svissneskra bænda. “Grasrótin” sagði nei. Þeir veittu ekki konum kosningarétt fyrr en 1971, með semingi þó, og enn telja sumir, að það hafi verið hrapalleg mistök.

Annað dæmi, þar sem skoðanir almennings og gáfumanna fara ekki saman er um dauðarefsingar í Bandaríkjunum, en afdráttarlaus stuðningur almennings við þær hefur verið uppspretta linnulausra árása Amnesty, fréttastofu hljóðvarps og annarra þrýstihópa vinstri manna á “bandarísk stjórnvöld” í áratugi. Þessir dauðadómar eru þó ekki kveðnir upp af bandarískum stjórnvöldum eða mönnum á vegum þeirra, eins og tíðkast víðast annars staðar, heldur af (afar misvitrum) kviðdómum, skipuðum almennum borgurum, m.ö.o. "beint lýðræði" í framkvæmd. Dómarar (sem eru kosnir) geta ekki fellt dauðadóm, samkvæmt úrskurði Hæstaréttar fyrir nokkru, en áður gátu dómarar í sumum ríkjum fellt dauðadóm, þegar sektardómur kviðdóms lá fyrir.

Í flestum löndum heims er aðeins ein löggjöf og eitt þjóðþing. Stjórnvöld geta víðast hvar lagt fram frumvarp á þessu eina þingi og afnumið dauðarefsingar með einu pennastriki. Svo er ekki í Bandaríkjunum. Þeir aðilar, sem slíka ákvörðun þurfa að taka eru alls 52, þ.e. ríkisþingin 50, alríkisþingið í Washington og herinn.

Bandaríkjaforseti gæti hugsanlega, sem yfirmaður heraflans afnumið dauðarefsingar þar. Það yrði óvinsælt og mundi nánast engu breyta. Slíkar refsingar eru mjög sjaldgæfar, fara fram á áratuga fresti. Þetta er þó það eina, sem ríkisstjórnin í Washington gæti hugsanlega gert. Hann gæti raunar látið leggja frumvarp fyrir alríkisþingið í Washington um afnám. Það yrði örugglega fellt, en þó það yrði samþykkt yrðu áhrifin afar lítil því aftökur á vegum alríkisins eru sárafáar. Þá eru eftir ríkin 50, en þing hvers og eins þeirra þarf að taka slíka ákvörðun. 13 ríkisþing hafa afnumið dauðarefsingar, nú síðast New Jersey, en það kemur afdráttarlaust fram í öllum könnunum, að þar hafa þingmennirnir brotið gegn lýðræðinu og farið gegn vilja kjósenda sinna, því í öllum ríkjum Bandaríkjanna er yfirgnæfandi stuðningur við dauðarefsingar, líka þar, sem þær hafa verið afnumdar. Litlar líkur eru til að fleiri ríkisþing bætist í þennan hóp. Að meðaltali í öllum ríkjum er stuðningur almennings við dauðarefsingar um 77%. Þannig er lýðræðið í framkvæmd. “Lýðurinn” ræður. Því fer fjarri, að ég sé einhver aðdáandi þessa kerfis eða stuðningsmaður dauðarefsinga, en þetta er bara svona.

Margir innan réttarkerfisins eru andvígir dauðarefsingum, en hafa ekki hátt um það. Ástæðan er einföld: Óttinn við almenning, þ.e. lýðræðið. Á Íslandi, Bretlandi, Kúbu, Kína og nánast öllum öðrum löndum heims eru dómarar, saksóknarar og lögreglustjórar valdir af stjórnvöldum og í raun verkfæri þeirra, að vísu í mjög mismiklum mæli. Þessir embættismenn eru hins vegar kosnir til starfa í Bandaríkjunum og eiga þannig að vera óháðir fulltrúar almennings. Frambjóðandi til slíks embættis, sem lýsti sig andvígan dauðarefsingum, mundi ekki hljóta kosningu eða hljóta frama í réttarkerfinu. 

En er dómari, saksóknari eða lögreglustjóri, sem er kosinn, betur vaxinn starfa sínum? Það er alls ekki víst. Slíkur embættismaður lifir í sífelldum ótta við næstu kosningar. Almenningur heimtar árangur og stundum, blóð. Það er við slíkar aðstæður sem mistökin gerast, eins og Íslendingar ættu að þekkja, m.a. úr Geirfinns- og Hafskipsmálunum. " En svona er lýðræðið.



Sjálfur kjarni lýðræðis er einfaldur: meiri hluti kjósenda á að ráða.
"Fái þjóðirnar að kjósa milli harðstjórnar og stjórnleysis, velja þær alltaf harðstjórann," sagði Aristóteles fyrir margt löngu. Það er algeng þráhyggja einfaldra manna og góðviljaðra, að allir aðrir séu eins og þeir sjálfir og hugsi eins og þeir. Slíkt fólk ímyndar sér, að með lýðræði megi lækna öll mannanna mein til dæmis í þriðja heiminum, þar sem helsta vandamálið sé skortur á lýðræði. Óskandi að svo væri. Í mörgum löndum er "lýðræði" aðeins annað orð fyrir aðgerðarleysi, spillingu og upplausn og það er alls ekki sjálfgefið að almenningur kjósi lýðræði, fái hann að velja. Í Weimar-lýðveldinu höfðu andstæðingar lýðræðis, kommúnistar og nasistar, meiri hluta atkvæða samanlagt. Í Alsír reyndi herforingjastjórn að koma á lýðræði og halda frjálsar kosningar, en þá kom í ljós að yfirgnæfandi meiri hluti þegnanna vildi kjósa andstæðinga lýðræðis sem einnig hugðust afnema flest það sem við nefnum grundvallarmannréttindi. Kosningarnar voru ógiltar og eru "mannréttindafrömuðir" síðan með böggum hildar út af öllu saman. Hvert eiga þeir að snúa sér með vandlætingu sína og fordæmingu? Eiga þeir að býsnast út í herforingjana sem vildu koma á lýðræði og vestrænum gildum, eða á að fárast út í lýðræðislegan vilja kjósenda sem vildu afnema allt sem heitir lýðræði og mannréttindi?


Að lokum:

Ástæða þessara skrifa minna er, að mér er farið að hundleiðast allt talið um “flokksræði” eða “beint lýðræði”. Það ber vott um algenga, barnalega ofurtrú á almenningi, Jóni Jónssyni í Breiðholtinu. Staðreyndin er, að Jón hefur sára- sáralítinn áhuga á því að stjórna landinu. Þótt Jón sé vænsti maður, hefur hefur hann meiri áhuga á klámi, ofbeldi og boltaíþróttum, helst við undirleik ærandi blikksmiðju-mannætu- síbyljumúsíkur. Hann vill bara lifa lífi sínu í friði.

Jón Jónsson er hópsál og vill vera í flokki með öðrum hópsálum og kjósa á nokkurra ára fresti. Annars vill hann bara rækta garðinn sinn. Hann hefur engan áhuga á málum eins "tekjustofnum sveitarfélaganna" eða öðru slíku. Hann ræður menn til að fást við slík mál og þannig á það að vera.





Vilhjálmur Eyþórsson, 7.3.2009 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband