Hinn stefnufasti flokkur og sigurganga hans

Steingrímur J. Sigfússon sagði í aðdraganda kosninganna að flokkur hans væri þekktur af stefnufestu. Margt bendir nú til að sú einkunn hafi átt við stjórnarandstöðuflokkinn VG en síður hinn valdagíruga flokk sem nú situr að stjórnarmyndunarborði með Samfylkingu.

 

Ummælin lét Steingrímur falla þegar spurt var hvort VG myndi ekki gefa eftir í ESB-málinu. Nú er það komið fram að það voru fréttamenn sem áttu kollgátuna bæði í undanfara kosninganna og ekki síður á kosninganótt þegar klifað var á því að ESB-sinnar hefðu unnið mikinn kosningasigur með meirihlutafylgi OSB-flokkanna, Borgarahreyfingar, Samfylkingar og Framsóknar. Af því væri augljóst að VG hlyti nú að beygja sig gagnvart ESB-sinnum Samfylkingarinnar eða verða af stjórnarsamstarfi ella. Í þessu mati var reyndar fólgin sú óskhyggja að hér væri hægt að mynda ESB-stjórn OSB flokkanna.

 

Strax á öðrum degi hins nýja kjörtímabils var ljóst að Framsóknarflokkurinn var á harðahlaupum frá því að takast á hendur ríkisstjórnarþátttöku og þurfti ekki að koma neinum á óvart. Hin dæmafáa ályktun flokksins í ESB-málum gerir formanni hans og þingflokki raunar ókleyft að taka þátt í stefnumótun um Evrópumál. Sama hvert haldið verður er nú óeirða von innan úr flokknum og sést glöggt hversu varasamt er að flokksþing leysi alvarleg vandamál með broslegum kjánagangi.

 

Þá er óvíst hversu traustur bandamaður Samfylkingarinnar Borgarahreyfingin yrði því  10 dögum eftir kosningar komu nýbakaðir þingmenn þess flokks fram og bentu á að búsáhaldabyltingin hefði ekki verið gerð fyrir ESB. En líklega var þessi yfirlýsingin of seint fram komin því þegar hér var komið sögu hafði Samfylkingunni þegar tekist að beygja í gras bæði Ögmund og Steingrím sem ekki litu með glöggskyggni út til allra átta heldur hafa frá því snemma í vor horft staðfastlega í gaupnir sér og ofan í ráðherrasessuna.

 

Það er alveg ljóst að forystumönnum VG var í lófa lagið að vísa Samfylkingunni frá sér eins og þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi lagði raunar til. Sennilegast er að það hefði síðan haft í för með sér að hinn raunsærri armur Samfylkingar hefði innan fárra daga borið hina heittrúuðu ESB-liða ofurliði og horfið aftur og nú af meiri jöfnuði til samstarfs til VG. Báðir flokkar hefðu raunar haldið höfði en í stað þessa kaus VG leið auðmýkingar.

 

VG hefur nú átt sigurgöngu í tvennum kosningum. Skoðanakannanir bentu reyndar til að sigur flokksins yrði til muna stærri nú en þurfti ekki að koma á óvart að róttækni kjósenda skilaði sér ekki öll á kjördag. Mín spá er að hinir valdagírugu ráðherrar og ráðherraefni VG hafi nú bundið snöggan endi á sigurgöngu VG í íslenskum stjórnmálum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband