Keppinautum útrýmt


Björn S. Stefánsson

Eftir Björn S. Stefánsson: "Fjallað er um samkeppni í verslun, sem útrýmir keppinautum, ekki með því að hafa betri verslunarbúð, heldur með því að lama keppinaut."

Nýlega gerði hreppur einn samning um sorphreinsun við fyrirtæki á landsvísu. Áður var verkið í höndum fyrirtækis í hreppnum. Hreppurinn fékk ódýrari sorphirðu. Nú hefur komið í ljós, að þeir tveir, sem vinna við sorphirðuna, fá samanlagt í laun meira en hreppurinn greiddi áður fyrir sorphirðuna alls. Landsfyrirtækið fær því ekki frá hreppnum að fullu upp í laun starfsmannanna og ekkert upp í rekstrarkostnað. Samningurinn var því undirboð. Fljótlega mun ónýtast sá útbúnaður, sem hreppsbúar áttu. Þá kemst landsfyrirtækið í aðstöðu gagnvart hreppnum til einokunar.

Í spjalli hvar sem er má heyra dæmi um slík undirboð. Þau hljóta að hafa það eitt að markmiði að útrýma keppinautum. Annað dæmi um undirboð, sem ekki er beinlínis til að útrýma keppinautum, en getur samt útrýmt þeim, er, þegar landsverslanir matvæla tína til fáeinar bækur fyrir jól og selja þær undir innkaupsverði. Þannig er þrengt að bókaverslunum, og þær týna tölunni. Kunningi minn keypti gróna bókabúð. Hann varð fyrir þessu undirboði. Hann bar sig upp við Samkeppniseftirlitið, en var ekki ansað, kunni þó rök viðskiptafræðinnar, sem hann hafði lært í Háskólanum. Þegar hann hafði tapað fimm milljónum hætti hann.

Tvær konur ráku blómaverslun á sæmilegum verslunarstað hér á Innnesjum. Landsverslun ein hafði búð ekki langt frá, en seldi ekki blóm. Nú fréttist, að hún ætlaði að hafa þar fáeinar tegundir blóma til sölu. Konurnar fóru á fund föðurins og báðu um að verða hlíft. Þær bentu á, að ef þær misstu sölu þeirra blóma, sem mest seljast, væri ekki grundvöllur undir rekstrinum, sem fæli í sér að hafa fjölbreytta blómabúð. Faðirinn svaraði því einu, að þetta væri samkeppnin.

Verðsamkeppni á að vera til leiðbeiningar um, hvað er hagkvæmt. Það gerist ekki með undirboðum. Sem dæmi er, þegar landsverslanir taka sig til fyrir sprengidag að selja gulrófu á krónu. Það sýnist saklaus góðsemi, en getur komið verðmyndun á rófu í uppnám um nokkurt skeið, ekki aðeins á sprengidag. Rófuverð leiðbeinir um, hvað borgar sig, þegar slíkt undirboð verður.

Rannsóknarnef

Hvað er ég að fara með þessu? Ég vil, að háskólahagfræðingar setji fram fræðilegan skilning á þeirri byltingarkenndu þróun, sem orðið hefur í þessu efni. Rannsóknarefnið er, hvað hefur gerst og hversu vel hefur farið. Hafa verslunarhættir versnað, þó að landsverslanir hafi blómgast? Er eitthvað meira um það að segja? Ættu samkeppnislög að koma í veg fyrir undirboð af því tagi, sem bent er á að framan?

Þá er ekki síður merkilegt rannsóknarefni, hvernig breyttir verslunarhættir hafa breytt borgarlífi, tæmt götur íbúðahverfa fyrir lífi og umferð og þyngt umferð annars staðar á álagstímum. Ég fór á fund félags skipulagsfræðinga í fyrravetur. Þar hóf máls um borgarskipulag starfsmaður fyrirtækjasamsteypu einnar helstu landsverslunarinnar. Hann minntist ekki orði á, hverjir örlagavaldar landsverslanirnar hefðu verið fyrir borgarlífið með útrýminga hverfaverslana. Það gerði raunar enginn annar. Eru menn hræddir við að ræða þetta? Ræðumaður, sem sniðgekk viðkvæmt mál, hefur nú verið fluttur til innan fyrirtækjasamsteypunnar.

Málvinir mínir, reykvískar mæðgur, sögðu sínar farir ekki sléttar. Þær fóru út á land til að njóta sumarsins og gistu í sveit við þjóðbraut þvera og óku á daginn í þorpin á svæðinu. Þau þóttu þeim ekki skemmtileg. Þorpin voru merkt þeirri einhæfni, sem landsverslanirnar hafa mótað þorp og bæi landsins, allar verslanir eins, ef nokkur verslun er þá eftir annað en við bensínsöluna. Gerðist þetta með undirboðum?

Vel má vera, að hér hafi orðið til hinn besti heimur allra heima, eins og komist er að orði í Birtingi Voltaires, en almenningi þykir ýmislegt að. Skyldu aðfinnslurnar vera óraunhæfar? Ég spyr eftir greinargerð háskólahagfræðinga. Fyrst þeir hafa ekki gefið sig að því að rannsaka þessa byltingu í verslun og bæjarlífi, sem gengið hefur yfir landið fyrir atbeina landsverslananna, má halda, að þá hafi vantað rannsóknarnef. Má líka vera, að menn forðist að vera með nefið í málum landsverslananna. Það hefur komið sumum illa. Greinargerðin þarf að koma, áður en mikið meira verður sagt um málið. Hún yrði verkefni fyrir tugi meistara- og doktorsnema.

Höfundur er í Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga.

(Bein tilvitnun í hvítasunnumoggann 2009)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband