Einn gjaldmiðill og heimur án peninga

Benedikt S. Lafleur
Benedikt S. Lafleur
Eftir Benedikt S. Lafleur: "Skyldi evran verða til þess að aðrir gjaldmiðlar sameinist og loks allar myntir heims í einn gjaldmiðil – hvers vegna ekki?"

MIKIÐ er þrætt um hvort við Íslendingar eigum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Ekki ætla ég að fjalla hér enn eina ferðina um nauðsyn þess að Íslendingar rjúfi einangrun sína og hefji virkt og þróað efnahagssamband við Evrópu. Ef við hefðum haft vit á því að ganga í ESB fyrir svona 5-6 árum hefði staða okkar verið gjörólík og efnahagshrunið ekki orðið jafnafgerandi og sársaukafullt og raun ber vitni nú. Ef svo heldur fram sem horfir er mjög líklegt að Íslendingar muni að lokum ganga í ESB og ýmis önnur ríki. Þetta þýðir auðvitað ekki að allt verði allt í einu gott og fallegt og engir hnökrar á samfélagi manna, hvort heldur í Evrópu eða utan þess. Aðild að ESB fylgir hins vegar mikil ábyrgð og um leið verðum við einnig berskjaldaðri fyrir ýmsum neikvæðum öflum í Evrópu, spillingu, græðgi þeirra sem sækjast eftir því að ná hér völdum. Á sama tíma munum við eiga þess kost að taka þátt í að móta Evrópu, taka þátt í mikilvirku starfi innan Evrópubandalagsins til að uppræta spillingu og koma á réttlátara samfélagi. Markaðssvæði munu opnast handa litla Íslandi, stöðugleiki komast á í krafti öflugs gjaldmiðils og hægt í fyrsta sinn í sögu Íslands að gera framtíðaráætlanir í rekstri fyrirtækja og heimila. Hingað til hafa bæði stjórnmálamenn og kjósendur alltof oft tjaldað til einnar nætur.

Skyldi stærri Evrópa verða til þess að sameina ekki aðeins lönd í Evrópu heldur og þjóðir utan hennar um eitt sameiginlegt efnahagskerfi, þar sem ríki heims eiga ekki lengur í stríði sín á milli heldur eiga það eina sameiginlega markmið að vinna að því að byggja upp fallegra og betra samfélag í þágu allra. Skyldi evran verða til þess að aðrir gjaldmiðlar sameinist og loks allar myntir heims í einn gjaldmiðil – hvers vegna ekki? Einn gjaldmiðil sem mun smám saman þroska vitund manna og uppræta að lokum eigingirni og græðgi misviturra og heimskra manna. Einn gjaldmiðil sem mun að lokum ekki þurfa að réttlæta tilvist sína, jafnvel mega hverfa að lokum. Því af hverju þurfum við gjaldmiðil, eða peninga yfirhöfuð, ef við getum deilt öllum gæðum heims á milli okkar, skipulega og af vinnusemi án þess að gera kröfu um að fá eitthvað sérstakt á móti? Þó að flestir eigi erfitt með að ímynda sér slíkt samfélag nú og flestir jafnvel finna allt því til foráttu, mun slíkt samfélag samt verða til að lokum hér á jörð – svo fremi sem við tortímum okkur ekki áður en að slíkri vitundarvíkkun er náð. Hvenær við verðum tilbúin að vinna saman af heilum hug er í raun undir okkur komið. Kannski er rétti tíminn aldrei rétti tíminn og hugsjónir okkar sem einstaklinga alltaf til á röngum stað á röngum tíma, nema þegar við sættum okkur ekki lengur við þá staðreynd og kýlum á það – neglum niður hugsjónir okkar í múrverkið í stað þess að telja þær í hendi okkar og spá í spilin. Gleymum því ekki að hagsmunir okkar eru hagsmunir heimsins og öfugt. Svo fremi sem aðrir deila með okkur þeirri skoðun er okkur borgið. Um það þurfum við hins vegar að standa vörð.

Höfundur er listamaður, talnaspekingur og útgefandi.

(Bein tilvitnun í hvítasunnumoggann 2009)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband