Icesave er reikningur fyrir vonda pólitík

Seinni og skrumkenndari umferð í Icesave málum stendur nú sem hæst og er raunalegt að sjá menn þar hreykjast yfir eigin ráðkænsku, sjálfum sér og flokkum sínum til framdráttar án þess að skeyta í nokkru um þjóðarhag. Við bankahrunið fyrir ári síðan var nokkuð tekist á um það hvort hleypa ætti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum inn í landið og við vorum fjölmargir meðal stjórnmálamanna sem vöruðum við þeirri tillögu þáverandi utanríkisráðherra.

Í Framsóknarflokki lentum við Guðni Ágústsson tveir í algerum minnihluta með þann málflutning okkar að hvergi ætti að hleypa sjóði þessum að landsstjórninni og svipuð staða varð upp í Sjálfstæðisflokki þar sem meirihluti flokksins ákvað að láta undan kröfu Samfylkingarinnar í þessum efnum.

Mér er minnisstætt að Ögmundur Jónasson talaði þá sem jafnan síðan mjög gegn því að AGS yrði hleypt inn í landið og hefur verið sjálfum sér samkvæmur í þeim málflutningi. Nú eru „hvað ef" stjórnmálafræði ekki mjög frjó umræða en það fer þó ekki milli mála lengur að sjóður þessir gætir ekki hagsmuna Íslendinga í deilu okkar við Breta, Hollendinga og aðrar Evrópuþjóðir. Þvert á móti hefur hann starfað hér sem handrukkari fyrir hin gömlu nýlenduveldi.

Staðreyndin er aftur á móti að íslensk stjórnvöld skrifuðu undir samstarfssamning við AGS og tvær síðustu ríkisstjórnir hafa skuldbundið íslenska þjóð til að standa skil á Icesave skuldum íslenskra óreiðumanna. Hókus pókus pólitík sem miðar að því að láta eins og ekkert af þessu hafi átt sér stað er ekki til þess fallin að þjóna íslenskum hagsmunum þó að ef til vill telji einstakir framámenn stjórnarandstöðu að þeir geti slegið sig til riddara með slíkum málflutningi. Raunalegast er þar að hlusta á málflutning Sjálfstæðismanna sem stóðu að því að skuldbinda íslenska ríkið í Icesavemálinu fyrir ári síðan og eru einnig stærstir í þeim gerningum sem leiddi til íslenska bankahrunsins og Icesaveskulda. Hvað sem um núverandi Icesave samning verður sagt er hann hagstæðari en þeir samningar um málið sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði drög að þegar hann var við stjórnvölinn.

Sjónarspil um risalán frá Norðmönnum er okkur heldur ekki til framdráttar og hefur raunar þegar valdið íslensku orðspori nokkrum skaða. Algerlega að óþörfu eru íslensk stjórnvöld komin í hlutverk beiningamanna gagnvart norskum stjórnvöldum. Það hefur lengi legið fyrir að Norðmenn ætla sér ekki að ganga hér gegn samstarfi Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Hefðum við aldrei hleypt þeim sjóði inn í landið hefði staða þeirra til að neita okkur nú um aðstoð verið allt önnur.

Það er deginum ljósara að Ísland á við núverandi aðstæður engan kost annan en að ganga frá Icesave samningum við Breta og Hollendinga og allt tal um að við getum á elleftu stundu boðið öllum heiminum byrginn er álíka stórmennskuhjal og einkenndi bankaútrásina. Þegar Icesave er frá er aftur á móti vel mögulegt að ekki taki nema nokkra mánuði að koma krónunni á flot aftur og málum í þann farveg að íslenska ríkið geti komist á þær lappir að samstarfi við AGS ljúki senn.

Það er mikil bölsýni að halda að Icesave eða aðrar skuldbindingar bankahrunsins leiði íslenska þjóð til örbirgðar um næstu áratugi. En þjóðin sleppur vitaskuld aldrei skaðlaus frá því að hafa leyft stjórnmálamönnum að gefa íslensku bankana ævintýramönnum sem tóku lán hver hjá öðrum fyrir kaupunum. Við getum með réttu kallað þessa menn óreiðumenn en í raun erum við öll að axla ábyrgð af vondri pólitik við einkavæðingu bankanna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband