Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Nautshúðin klár og tilhlökkunin ólýsanleg...

Sem betur fer er lífið fleira en pólitík og samhliða því að lesa ályktanir Framsóknar erum við vinirnir að undirbúa ferðalag um frönsk fjöll á enduromótorhjólum. Förum eftir 5 daga og 21 tíma segir umhverfisfræðingurinn Guðmundur Tryggvi og er held ég búinn að koma sér upp almanaki eins og börn hafa til að telja niður til jóla. Í pökkunum eru skrúfur og olíusíur...

Sjálfur fór ég ofan í kjallara nú í vikunni og hreinsaði hnausþykkar leðurbuxur sem hafa marga fjöruna sopið og orðnar vægast sagt sjoppulegar af ótal skrens um íslensk fjöll. Nú fá þær að þorna og verða svo bornar bývaxi þannig að þær stenst ekkert kvikt þegar til frans kemur. Það jafnast ekkert á við það að ganga í nautshúð, er aldrei kalt og aldrei of heitt heldur. Nútíma enduromenn vilja reyndar vera í goretexi sem er óttalega karakterlaust.

Nógu slæmt er að þurfa að vera í vægast sagt göróttum netbol með brjóstahaldara og lífstykkjum en franskar skræfur sem leigja torfæruhjól gera kröfu um að menn klæðist slíku. Ferðinni er svo heitið upp í kalkfjöll í frönskum þjóðgörðum sem sérstaklega eru gerðir fyrir skakstur af þessu tagi...

Óskapleg tilhlökkun!


Ræktum menningarbyltinguna!

Grundvöllur hvers samfélags er frumframleiðsla. Hér á Suðurlandi er einkanlega landbúnaðurinn sem leggur grundvöll samfélagsins og hefur gert frá öndverðu. Í sjávarþorpunum í Flóanum var þorskurinn þessi grundvöllur.

Utan í frumframleiðslunni vex svo margskonar þjónustu- og úrvinnslustarfssemi. Og tímarnir breytast. Það er fyrir löngu af að þorskur sé veginn í land í Flóanum og lengi voru plássin tvö, Eyrarbakki og Stokkseyri í nokkurri kreppu og ekki séð hvort þau næðu að vaxa eðlilega.

Þær áhyggjur eru nú að baki. Stokkseyri og Eyrarbakka hafa að nýju eignast sinn aflahlut og geta staðið keik frammi fyrir öðrum byggðum landsins. Þar eru nú byggð ný hús og ekki að sjá annað en að byggðin sé að taka vaxtakipp.

Einhver kann að halda að þessu ráði einvörðungu nálægðin við höfuðborgarsvæðið. En það kemur fleira til. Vaxtakippur sjávarbyggðanna við ströndina tengist menningarbyltingunni sem þar hefur orðið á undanförnum árum. Listaspírur í hverri götu, fjölmörg gallerí og greiðasölur eru allt samstíga skref í því að gera þessi litlu þorp að aðlaðandi og öflugum samfélögum. Að ógleymdri Menningarverstöðinni í gamla frystihúsinu.

Þorskur þessara samfélaga í dag eru skilirín frá Sjöfn Har., Elvari Guðna, Halldóri forna og fjölmörgum öðrum skapandi einstaklingum. Þessi skilirí ásamt humardiskum og djöflatertum draga fé og fólk inn á svæðið. Ef vel er á málum haldið getur þessi starfssemi margfaldast á næstu árum og langt í að kvóti verður þar lagður á.

Undanfarin ár hefur Sveitarfélagið Árborg lagt þessari uppbyggingu ómetanlegt lið með vorhátíð sinni, Vor í Árborg. Nú hefur verið ákveðið í sparnaðarskyni að sleppa slíku hátíðahaldi. Það er miður og þó svo að það komi ekki mikið við atvinnulíf á Selfossi er þetta áfall fyrir grundvallar atvinnuveg sjávarþorpanna. Að því þarf að huga nú fyrir vorið.

(Birt í Sunnlenska 1. mars 2007)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband