Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Somewhat bizarre þyrnirósarsvefn

Það er ljóst að íslensku bankamir, Kaupþing og Glitnir alveg sérstaklega hafa stefnt sér og það sem verra er, íslensku fjármálalífi í mikla hættu, jafnvel í hreinar ógöngur, með ábyrgðarlausri framgöngu á undanförnum árum. Hættulegt er að hafast ekkert að í þeirri von að markaðir opnist óvænt og allur vandi verði þá úr sögunni. Nauðsynlegt er að hefjast þegar handa við að vinda ofan af stöðunni svo hún verði ekki óleysanleg.

Þetta er plagg dagsins, sem allir ættu að lesa frá upphafi til enda enda stutt skýrsla og gagnorð. Það að Seðlabankinn hafi sent frá sér afdráttarlausar aðvaranir fyrir ári síðan er grafalvarlegt mál en kemur ekkert á óvart. Það staðfestir að vísu að ráðherrar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sváfu á verðinum og vildu ekkert gera. Við sem vorum í stjórnarandstöðu stóðum fáliðaðir á götuhornum og fengum litla áheyrn hjá fjölmiðlum með okkar varnaðarorð á þessum tíma.

Sjálfur skrifaði ég í mars 2008 um það sem Blómberg kallaði þá  "somewhat bizarre" þyrnirósarsvefn og sagði m.a.:

Það er beinlínis háskalegt að Seðlabanki og ríkisstjórn gangi ekki í takt á viðsjártímum. Þar ber ríkisstjórnin mikla ábyrgð, einkanlega þegar hér var farið fram með gassaleg og ábyrgðarlaus fjárlög á haustdögum. Þjóðin öll sýpur nú seyðið af þeirri eyðslustefnu sem ný ríkisstjórn ákvað að framfylgja þvert á alla skynsemi en fjárlög hafa ekki hækkað viðlíka milli ára síðan fyrir tíma þjóðarsáttar.

Fjárlögin voru þannig andstæð markmiðum Seðlabanka, andstæð ráðleggingum hagfræðinga og andstæð ráðum stjórnarandstöðu. En þau gengu líka þvert á kosningastefnur stjórnarflokkanna beggja þar sem m.a. var gert ráð fyrir jafnvægi og ábyrg í hagkerfinu til þess að vextir og verðbólga gætu lækkað. Við fjárlagagerðina í desember síðastliðnum varð hver stjórnarliði að fá að leika hinn gjafmilda og ábyrgðarlausa jólasvein og það veldur miklu um hversu erfið staðan er í dag.

Sjá nánar, http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/month/2008/3/

Svar til Palla sem er ekki einn í heiminum...

Er ekki ráð að sameina Borgarahreyfinguna og L-listan, þá er smuga að þið komist á þing og getið barist þar gegn EBS aðild? (Komment á blogginu: Palli (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 11:02)

Palli sá sem sendi mér komment er alls ekki einn í heiminum því það hafa margir spurt mig þessa sama. Afhverju eru fullveldissinnar og Borgarahreyfingin ekki saman. Afhverju að dreifa kröftunum?

Svarið er einfalt. Við sem stöndum að L-listanum stöndum gegn því að Ísland gangi til aðildarviðræðna um ESB og erum skýr valkostur fullveldissinna bæði frá hægri og vinstri. Borgarahreyfingin hefur ekki stefnu í þessu stærsta deilumáli þjóðarinnar þó svo að fjölmargir af frambjóðendum O-listans tali skýrt fyrir aðild og kannski einhverjir á móti líka (ég hef þó ekki hitt þá.)

Ef þessir tveir listar rugla saman reitum þá gæti þetta jú áfram verið valkostur gegn gamla flokksræðinu en ég hef ekki sannfæringu fyrir að það sé nægilegt erindi inn í kosningabaráttuna. Ég tel að öll framboð eigi að taka skýra afstöðu í þessu máli.


Mánuðum of seint en samt fagnaðarefni

Þegar ENRON svikamyllan hrundi voru forstjórar leiddir út í járnum. Við hrun Royal Bank of Scotland hafi bankastjórinn þar látinn sæta stofufangelsi fyrst á eftir til að hagsmunum væri ekki spillt.

Hér á landi líða margir mánuðir með mörgum stórum millifærslum áður en það kemur yfirlýsing frá þingnefnd að hún áformi að heyra aðeins í bankamönnum - í næstu viku.

En betra seint en aldrei!


mbl.is Bankastjórar yfirheyrðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG orðinn að ESB-flokki!

Við megum ekki gleyma af hverju við erum í ríkisstjórn. Við erum í ríkisstjórn vegna búsáhaldabyltingarinnar, af því að fólkið krafðist lýðræðis. Við hljótum því ævinlega að styðja tillögur sem efla lýðræðið í landinu, líka tillögur um ESB.

Svo bregðast krosstré sem önnur og þetta hér að ofan er ekki tilvitnun í Árna Pál í Samfylkingu eða Valgerði Sverrisdóttur heldur Guðfríði Lilju Grétarsdóttur þingmannsefni VG. Flokkur hennar samþykkti í dag tillögu sem gengur nákvæmlega í sömu átt og tillögur bæði Framsóknar og Samfylkingar,- Ísland skal á ESB-hraðlestina. Sú lest hefur skilað öllum inn-nema Norðmönnum sem  eru tvisvar búnir að segja nei og nú er talað um að þeir kjósi bara aftur, -þannig er ESB-lýðræðið. Kosið aftur og aftur þar til "rétt" niðurstaða fæst fram.

Steingrímur J. svarar engu í Silfrinu núna áðan nema að það sé vont að fara í ESB-kosningar og tapa þeim!!!

Ég hef áður rökstutt að kosning um ESB aðild er ekki hluti af lýðræði Íslendinga heldur kosning á móti lýðræðinu þar sem við kjósum þá um að börn okkar og barnabörn verða valdalaus um löggjöf á Íslandi, henni verður stjórnað af útlendingum. 

Ef það er raunverulega ætlan Alþingis að afnema fullveldið sem hér var barist fyrir þá er lágmarkskrafa að Stjórnarskrárbreyting  um fullveldisafsal verði samþykkt af þremur fjórðu kjósenda enda um að ræða afnám þess lýðræðis sem Íslendingar búa nú við þar sem stjórnmálalegu valdi verður deilt með milljónum. Fullveldi okkar þar verður ámóta og vald Grímseyjar á Alþingi.


ESB-undanlát VG

Aðalfundur VG segir lítið um ESB og Steingrímur J. reyndir að skjóta sér undan málinu í viðtali við Fréttablaðið fyrir helgi, -segist hvergi berum orðum vera á móti en tekur fram að stefna flokksins liggi fyrir. Síðan segir Steingrímur:

Okkur er jafnframt ljóst að það þarf að leiða þetta mál til lykta á uppbyggilegan og lýðræðislegan hátt; af eða á. Við göngum því ekki til viðræðna með fyrirfram ákveðnum skilyrðum. Okkar útgangspunktur í þessu máli, og mörgum öðrum stórum málum, er að íslenska þjóðin á sjálf að ákvarða örlög sín.

Orðið viðræður vísar hér líklega til ríkisstjórnarviðræðna en ekki ESB-viðræðna. það er þó ekki gott að segja og ljóst að Steingrímur J. mun líkt og Halldór Ásgrímsson teygja sig langt til að fá að verða forsætisráðherra. En það hafa margir sviðnað illa í þeim stól...


Af hverju er 20% hugmyndin svo slæm

Fjármálahrunið hefur valdið okkur öllum miklum búsifjum. Lán hafa hækkað, vöruverð sömuleiðis, laun dregist saman, yfirvinna minna og sömuleiðis aðrir tekjumöguleikar. Að því ógleymdu að fjölmargir hafa tapað stórfelldum eignum sínum í peningamarkaðs- og hlutafélagasjóðum og svo mætti áfram telja.

Það var kallað að tala upp í eyrun á fólki þegar einhver reynir að lofa því sem fólk vill helst heyra. Almenningur sem séð hefur bæði verðtryggð lán og myntkörfulán sín hækka óheyrilega er ósáttur við þá eignaskerðingu og vitaskuld er mikill meirihluti fullveðja landsmanna í þeim hópi. Af hverju ekki að lofa þeim að taka hækkunina bara til baka og skuldsetja ríkissjóð fyrir því,- hann er hvort eð er orðinn að botnlausum skuldapytti.

En hvar er réttlætið mætti þá spyrja. Gagnvart til dæmis þeim sem ekkert skulda. Ég hef sjálfur horft í þessu efni á dæmi af kunningja mínum sem vinnur á lægstu launum og hefur enn ekki lagt í að kaupa sér íbúð. Hann geymdi fé sitt að hluta til í peningamarkaðssjóði og tapaði heilmiklu þar en nú eiga jafningjar hans að fá fé frá ríkissjóði. Að vísu ekki sömu upphæð allir, heldur fær sá sem keypti sér 10 milljóna íbúð 2 milljónir og sá sem keypti sér 200 milljóna höll 40 milljónir.

Þannig tekst vel stæðum forstjóra í Garðabæ að fá úr ríkissjóði með einu pennastriki hærri upphæð heldur en tekst að kría út handa mikið fötluðum manni alla hans lífstíð.

Látum okkur ekki detta í hug að það sé hægt að lækka skuld um milljón án þess að það kosti milljón. Sú hugsun að ríkissjóður bæti öllum búsifjar af kreppunni er mjög hættuleg og ávísun á að við hin gráðugu aldamótabörn ætlum að henda skuldaböggum á bök barna okkar, barnabarna og þessvegna þeirra barna líka, allt til næstu aldamóta!


Montni bóksalinn og draumur dalastúlkunnar

Ég verð alltaf montnastur þegar ég stend vaktina í bókabúðinni okkar. Nú barst hingað tímarit Hekluumboðsins þar sem kaffibarþjónninn Unnsteinn Jóhannsson gefur leiðarvísi fyrir þá sem eru á leið um landið. Hann mælir með sex kaffihúsum á landsbyggðinni og okkar er eitt þeirra. Kærar

draumur_smalastulku.jpg

þakkir.

 Og fyrst ég er nú hérna í búðinni má ég til með að blogga aðeins um tvær perlur hér úr hillunum. Í gömlu skræðunum er margt skemmtilegt og fallegt. Ég var spurður um daginn hvað væri elsta bókin hér inni og ég held ég fari rétt með að það sé frönsk guðsorðabók frá árinu 1886 (ekkert mjög gamalt) en bók þessi er svo einstök í fegurð sinni að það er hrein nautn að handfjatla hana. Sjálfur kann ég ekki frönsku og veit þessvegna ekki hvernig beri að þýða heiti bókarinnar, Le Parossien Romian. Hér voru til skamms tíma nokkrar eldri bækur en 19. aldar prent er yfirleitt fljótt að fara.

 Önnur perla hér í búðinni er frá árinu 1951 og heitir Draumur dalastúlkunnar. Lítið kver og yfirmáta rómantískt, þjóðlegt leikrit. Myndskreytt af Halldóri Péturssyni. Á baksíðu stendur:

Fyrir mörgum, mörgum árum var til fólk, sem bjó í sátt við Guð og menn, á litlum bæ, í litlum dal, langt, langt upp til fjalla... Þetta fólk er þjóðin okkar.

Útgáfan er tileinkuð Bárðdælingum.

 


Gróði eða glópagull gulldrengja

...Höfum einnig í huga að við yfirfærslu lána til nýju bankanna er lykilatriði að mögulegar afskriftir í framtímiðinni verði ekki á kostnað þeirra. Það á sem sagt ekki að vera neitt tap í því fyrir ríkisbankana að fella niður skuldir...

Þetta er ekki tilvitnun í Spaugstofuna heldur tilvonandi formann Sjálfstæðisflokksins sem er greinilega haldinn sömu fyrru og 20% glóparnir Tryggvi Þór Herbertsson og Sigmundur Davíð.

Semsagt, ríkið yfirtók billjóna skuldasúpu íslenska viðskiptalífsins í gegnum bankana. En vegna þess að það mun aldrei borga allar skuldirnar er sjálfsagt að reikna allar tapaðar kröfur næstu ára og áratuga sem ósýnilegar afþví að það má kvitta þeim á móti því sem ekki verður greitt af viðskiptaskuldum gömlu bankanna og braskarana. 

Ég ætla að prófa að segja þetta við bankamennina hér úti í Landsbanka að þeir geti hætt að innheimta hjá mér- þeir muni  ekki tapa neinu á því,- við segjum bara að gamli bankinn hafi verið að tapa.

Það að þessir þrír menn -sem allir eru stórríkir og tengjast íslenskum stórkapítalisma sterkum böndum- eru svona mikið blindir á gangverk peninga skýrir mjög margt í íslenska fjármálahruninu. 


Sjálfstæðisflokkurinn á ESB-línunni

"Ég er talsmaður þess að við tökum afstöðu til Evrópusambandsaðildar."bjarni_ben

Þetta segir tilvonandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson í ítarlegu viðtali við Fréttablaðið. Lengi vel í vetur talaði nafni minn þannig að hann vildi alls ekki ganga í ESB en samt fara í aðildarviðræður. Nú er kominn nýr og "bjartari" ESB tónn í þessa orðræðu þar sem formannsefnið segist telja að "...í gjaldmiðilsmálum sé enginn valkostur við krónuna jafn sterkur og evran með ESB-aðild."

Bjarni talar nú í þátíð um þá daga þegar hann var  efasemdarmaður um ESB aðild og telur nú að  sjávarútvegshagsmunirnir einir geti staðið í vegi fyrir ESB-aðild. Allt annað er harla gott í sæluríkinu suður þar...


Bjargarleysi fjórflokksins

Fjármálakreppan á Íslandi hefur leitt fram algert bjargarleysi allra gömlu íslensku stjórnmála-flokkana og getuleysi þeirra til að takast á við hin raunverulegu vandamál sem fram hafa komið. Segja má að verkefnin séu einkum tvö. Það er að stöðva tafarlaust undanskot auðmanna á peningalegum eigum og að koma skuldsettum heimilum til bjargar. Í stað þess að ganga hiklaust til þessara verka hafa tvær ríkisstjórnir týnt sér í jagi um aukaatriði.

Að ráðast að sínum velgjörðamönnum

Varðandi fyrra verkið eru hinir gömlu íslensku stjórnmálaflokkar mjög vanhæfir til verka vegna margra áratuga tengsla þeirra allra við viðskiptalífið. Flokkarnir hafa allir reitt sig á fjárframlög frá öllum helstu fyrirtækjasamsteypum í landinu. Þar eru því að verki sjálfvirkar bremsur þegar kemur að því að færa til yfirheyrslu þá menn sem nú eru með réttu eða röngu grunaðir um stórfelld undanskot eigna inn í skattaparadísir heimsins. Til viðbótar við tengsl flokksvélanna kemur svo bein aðkoma margra forystumanna stjórnmálaflokkanna að viðskiptalífinu.

Engan þurfti að undra að gamla stjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins héldi hér hlífiskildi yfir sínum mönnum en meiri vonbrigði urðu þegar ný ríkisstjórn var í burðarliðnum. Þá tók nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins að sér það hlutverk að kveða upp úr með að ekki kæmi til greina nein kyrrsetning eigna eða önnur aðför að velgjörðamönnum flokkanna. Samfylkingin var fljót að taka hér undir og saman tókst þessum flokkum að skapa, með hjálp VG, enn lengri frest til handa auðkýfingunum.

Raunar er þetta sambærilegt því og ef ekki mætti færa neinn til gæsluvarðhalds eða yfirheyrslu í meintu sakamáli fyrr en sök hefði sannast í málinu. Hætt er við að rannsóknarlögreglum þætti erfitt að vinna við slík skilyrði.

Flækjustig stjórnmálaflokkanna

Ráðaleysið í málefnum heimilanna er óskiljanlegra og ber allt merki þess að flokkarnir hafa tilhneigingu til að gera einfalda hluti flókna. Frambjóðendur L - listans hafa ítrekað bent á þá leið að hér verði horft til fyrirmyndar frá kreppunni miklu 1930 þegar Kreppulánasjóði var heimilað að kaupa eignir af skuldugum einstaklingum og leigja þeim þær síðan til afnota.

Allar viðbárur um að slík yfirferð á hverju einstöku máli sé tímafrek og mannaflsfrek er brosleg í ljósiþess að nú þegar þarf ríkið að halda í smánarlegri bótaframfærslu hundruðum fyrrverandi bankamönnum og fasteignasölum. Þar eru komnir þeir menn  sem vel kunna til þeirra verka að fara yfir fjármál einstrakra manna. En í stað þess að ráðast þannig að vandanum eyðir þingið tíma sínum í að þrasa um breyttar kosningareglur og stjórnarskrárbreytingar meðan heimilin brenna.

(Birt í Morgunblaðinu 19. mars 2009)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband