Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Allir í Hótel Selfoss klukkan sex

Núna klukkan sex verður Steingrímur J. á opnum fundi VG í Hóteli Selfoss og við höfum tekið loforð af honum að hann flytji ekki langar ræður heldur verða hann, Kata Jak og við á VG listanum hér til þess að hlusta á fólk og svara spurningum.

Mætum öll.


Fíflaleg ósvífni að hækka laun seðlabankastjóra

Sú hugmynd Láru V. Júlíusdóttur að hækka þurfi laun Seðlabankastjóra er ekkert annað en fíflaleg ósvífni. Það segir sína sögu um firringu í hinum íslensku fílabeinsturnum að tillaga sem þessi komi frá fyrrum framámanni í Alþýðusambandi Íslands. 

Seðlabankastjóri er fullsæmdur með þeirri milljón sem hann fær og það að leggja til að laun hans hækki um 400 þúsund er úr öllum takti við samfélagið. 

Það er lágmarkskrafa að tillögunni verði vísað frá og alþýðuleiðtoginn Lára V. Júlíusdóttir segi af sér sem formaður bankaráðs. 


mbl.is Laun seðlabankastjóra hækki um 400 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfðingi og fræðasjór til moldar borinn

Í annríkinu fór það framhjá mér að það var í gær sem kær vinur minn Árni Magnússon frá Flögu var til moldar borinn. Árni sem var fæddur árið 1917 var mikill hafsjór að fróðleik. Þegar ég starfaði við þjóðsagnaskráningu hér í Árnessýslu fyrir áratug kynntist ég Árna vel.

arni_magnusson_flogu.jpg

Hann var þá strax sá Flóamanna sem langbest kunni skil á kennileitum, örnefnum og sögum úr Villingaholtshreppi.

Með Árna hverfur okkur mikill menningarauður þó margt af hans fróðleik hafi ratað á blað, undan hans penna og annarra.

Sigrún, börn og aðrir aðstandendur fá mínar innilegustu kveðjur um leið og ég þakka fyrir góð kynni.

(Myndin hér til hliðar er tekin í eftirminnilegri ferð okkar Árna um Villingaholtshreppinn og hann er hér staddur við leiði danska matsveinsins í gamla kirkjugarðinum í Villingaholti - en matsveinn þessi var fyrir löngu vakinn upp og hefur oft komið við sögu síðan.)


Framsóknarmaður skrifar 1. maí pistil

Fram þjáðir menn í þúsund löndum
sem þekkið skortsins glímutök ...

Upphafsorðin í gamla Internatinalnum eiga einhvernveginn betur við í dag en verið hefur lengi. Ekki svo að skilja byltingarhugsun marxismans eigi sér réttlætingu. Sú tilraun með manninn að koma á alræðisríkjum kommúnisma er fullreynd og of blóði drifin til að nokkur sómakær mannvinur mæli henni bót.

En það er blindur maður sem ekki lítur til vinstri nú þegar feyskinn, gráðugur og spilltur kapítalismi leggur lönd og álfur í rúst. Það má segja okkur að kreppur hljóti að koma og fara en sú ógeðfellda mynd sem við okkur blasir undir teppinu er utan þess. Við höfum um tvennt að velja, að endurmeta gildi okkar eða að stinga höfðinu i sand. Í vindasömu landi getur feykst frá okkur þannig að við sjáum enn og aftur sömu sýnina og það firrir okkur svefni.

Sá sem hér skrifar hefur lengi talið sig á miðju íslenskra stjórnmála og starfaði í Framsóknarflokki. Ég tel mig enn sama framsóknarmanninn enda þó ég sé nú kominn í framboð hjá VG. En ég samt  framsóknarmaður sem hefur færst til vinstri og tel það vera forpokun af verstu sort að haggast ekki í pólitískri afstöðu þegar slíkar jarðhræringar verða í pólitík og efnahag, ekki bara Íslands heldur um veraldarkringluna alla.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband