Verstu varðhundar valdsins og íhaldið þess...

Varðhundar valdsins eru víða, hér á landi eins og annarsstaðar. Þaðer hægt að vara sig á þeim ef þeir eru með bindi og vera tortrygginn ef þeir eru í einkennisbúningi. Staðan er miklu mun verri þegar maður mætir þeim inni á ritstjórnum fjölmiðla. Þar þrífast hinir verstu varðhundar íhaldsvaldsins.

Fyrir nokkrum dögum,- líklega eru þeir nú orðnir einir 20 en það er aukaatriði - var ég í sjónvarpsumræðu og hélt þar fram smá gagnrýni á Sólheima. Það var semsagt verið að tala um eftirlit með stofnunum og hin sorglegu Breiðavíkur og Byrgismál. Ég hafði þar á orði og við Össur vinur minn Skarphéðinsson vorum eins og svo oft algerlega sammála (!) að eftirliti með stofnunum á Íslandi væri stórlega ábótavant. Ég benti þar á að eftirlitsleysi á einu sviði leiddi oft af sér sukk og óreiðu á öðru og þannig væri mjög bagalegt hversu lélegt eftirlit væri yfirleitt með fjárreiðum sjálfseignastofnana á Íslandi. Gott dæmi um það væru Sólheimar í Grímsnesi en ég tók jafnframt fram að ég teldi alls ekki að þar hefðu átt sér stað ósæmilegir atburðir í líkingu við það sem var í Byrginu. En að þar væri engu að síður sukkað með fé og hefði lengi verið. Ríkisendurskoðun hefði margoft bent á vandamálið og gert um það stórar skýrslur en ekkert gerðist.

Og viti menn. Strax að kvöldi þessa dags sem var sunnudagur hringdi í mig blaðamaður og var mjög áhugasamur um þetta mál. Spurði margs og tíundaði ýmislegt sem hefur komið fram í fjölmiðlum en bætti við þeirri sorgarsögu sem er af núverandi þjónustusamningi sem Árni Magnússon félagsmálaráðherra gerði. Það hefur semsagt komið í ljós að það ætlar enginn að hafa eftirlit með þeim samningi og ráðuneyti og svæðisráð vísa hvort á annað. Allt mjög áhugavert fannst blaðamanninum en þar sem klukkan var nú að ganga 10 þegar við töluðum saman fannst mér svosem ekkert skrýtið að ekkert kæmi um málið í blaðinu næsta morgun. Þetta gat beðið einn dag!

Og síðdegis þennan mánudag hringdi annar blaðamaður í mig frá öðru blaði og hafði einnig mikinn áhuga á þessum ummælum mínum og virtist í ofan á lag vera búinn að vinna talsvert mikla heimavinnu í málinu. Var vel að sér í sorgarsögu Sólheima undanfarin ár og áratugi. Ég gaf þessum blaðamanni sömu upplýsingar og tók jafnframt fram að reyndar hefði annað blað einnig spurt mig um málið. Og síðan ekki söguna meir.

Næstu daga fylgdist ég aðeins með þessum tveimur blöðum eins og ég svosem gjarnan geri en aldrei var minnst á Sólheima. Tilviljanir? Varla tvær í röð! Ómerkilegt mál! Varla heldur í þeirri gúrku sem var lengstum í febrúar. Ég er einfaldlega sannfærður um að varðhundar vesturbæjaríhaldsins hafa kippt hér í spotta enda allsstaðar nálægir.

Er ég þá orðinn vænisjúkur útaf áralangri baráttu fyrir úrbótum á Sólheimum þar sem sjálfkjörin og æviráðin hirð hefur hróflað upp 10.000 fermetrum af steinsteypu á kostnað ríkisins. Og er samt aldrei með meira en sína 40 skjólstæðinga og sinnir þeim ekki nema í meðallagi vel!

Það má kalla það hvað sem er. Ég held að ég sé samt ekkert verr haldinn af þessu máli en sumir þeir félagsmálaráðherrar undanfarinna ára sem reyndu hér á árum að hnika til málum en ráku sig allsstaðar á vegg. Og það vita allir hver á þennan vegg, hverrar ættar hann er. Össur Skarphéðinsson og aðrir eðalkratar geta gegn betri samvisku kennt framsókn um ófarir sem þeir vita að eru varðar af íhaldinu lon og don.

Hreðjatak hins hákristilega vesturbæjaríhalds á samfélaginu er nefnilega svo yfirgengilegt að við þorum varla einu sinni að tala um það. Og þegar vinstri sinnaðir bestvisserar þurfa að fá útrás fyrir reiði sína finnst þeim betra að sparka í Framsókn,- það er vissara að styggja ekki íhaldið ef það yrði dömufrí eftir næstu kosningar! Hvergi er kjarkur til að tala um alvöru vinstri stjórn.

Og innan okkar góða Framsóknarflokks gætir stundum um of einhvers samblands af tryggð og meinleysi sem líður samstarfsflokki okkar alltof alltof alltof mikið...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sæll Bjarni.

Nú veit ég ekkert hvað þú veist um þetta Sólheimamál, ég veit ekkert, en mér hefur alltaf fundist samsæriskenningar heldu klénar. Þær skapa oft mikla umræðu en yfirleitt heldur kökugerðarmeistarinn í þeim bakstri, sig til hlés eftir að kakan er komin í ofninn. Svo bakast kakan og einhverjir aðrir sjá um að skera hana og bera hana fram og enn aðrir sjá svo um að smjatta á góðgætinu. Mér finnst full ástæða til að þú fylgir þessu máli eftir alla leið, þú ert jú kominn í pólitík af fullri alvöru, er það ekki? Ef þú kemst nú á þing Bjarni, þá ber þér auðvitað skylda til, hafandi þennan áhuga á þessum málaflokki, að krefjast svara um málefni Sólheima og jafnframt að fletta ofan þeim sem skjaldborg hafi skotið utan um þetta meinta hneiksli.

Ef þú gerir það ekki, þá fá e.t.v. þessar http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/ samsæriskenningar á síðu Ómars Ragnarsonar byr undir báða vængi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.3.2007 kl. 23:13

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg er bara þarna sama  sinnis og þu Bjarni þa hefur alltaf verið eithhvað óhreint mjöl þarna i pokahorninu/Ekk ver eg mina menn þarna/HallGamli

Haraldur Haraldsson, 3.3.2007 kl. 09:10

3 identicon

Það eru semsagt KR-ingar og Heimdellingar úr Vesturbænum sem eru á bak við Sólheimasukkið. Og nú eru þeir að eyða enn meiru í reiðhallir um allt land en tekist hefur að ausa byggingar í Grímsnesinu. Ja svei.

Atli (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband