Þjóðleg alþjóðasýn - Framsóknarleg framtíðarsýn III

Ég talaði um það hér í fyrri grein að Ísland væri afdalur og það er svo. En það er líka nafli alheimsins ef við viljum svo horfa. Við sem glímt höfum við rekstur fyrirtækja vitum að lykilatriði er að snúa sértækum aðstæðum upp í styrkleika. Breyta því sem kann að vera veikleiki í möguleika.

Það sama á við í rekstri okkar þjóðarbús og þó einkum og sér í lagi þegar kemur að alþjóðapólitík okkar. Við erum einir í ballarhafi, lengst frá öðrum þjóðum Evrópu og höfum orðið viðskila við þær flestar í þeirri samrunaþróun sem þar er nú efst á baugi. Mín skoðun er reyndar sú að sá viðskilnaður sé okkar gæfa en um það eru menn ekki sammála. Aðalatriði er þó að viðskilnaðurinn er staðreynd og við erum sér á báti. Spurningin er hvað gerum við með það.

Við getum eins og atvinnurekandi í uppgjöf hent öllu frá okkur og gengið hinu Evrópska skrifræði á hönd að fullu og öllu. Eftir það verður til lítils að vera í pólitík á Íslandi. Við getum fetað hina leiðina, litlir og sjálfstæðir. Og gáð hvaða möguleika það gefur okkur.

Þegar skyggnst er um bekki hinna alþjóðlegu viðskipta er nefnilega mjög líklegt að okkar bíði tækifæri sem sjálfstæð eyþjóð mitt á milli Evrópu og Ameríku. Og ekki bara það. Með opnun nýrra leiða í siglingum og flugi erum við einnig mitt á milli hins rísandi efnahagsveldis Asíu og hinna vestrænu þjóða. Þeirri stöðu geta fylgt ótrúlegir möguleikar.

Við eigum hér á Miðnesheiðinni vaxandi alþjóðaflugvöll og við hann heilt kauptún til ráðstöfunar. Það er mjög misráðið að ætla að koma því þorpi inn í íslenskt hagkerfi eins og hverju öðru stríðsgóssi. Við eigum að horfa á hina yfirgefnu herstöð sem möguleika til að skapa hér frísvæði fyrir alþjóðlega skiptistöð milli heimsálfa. Ef við svo sköpum alþjóðafyrirtækjum skilyrði til að setja upp starfsstöðvar hér á landi getur það orðið þeim mikilvægur hlekkur í markaðssetningu milli heimsálfa. Það þarf ekki að ræða hversu mikill ávinningur slíkt væri fyrir okkar eigið hagkerfi.

Það sem við getum einmitt smæðar okkar vegna boðið þessum fyrirtækjum umfram það sem þeim býðst í flestum eða öllum vestrænum löndum er einfalt og skilvirkt stjórnkerfi með stuttar boðleiðir. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að við flækjumst ekki í net þess skrifræðis sem jafnan einkennir stórveldi, hvort sem er austan hafs eða vestan.

Þetta er sú þjóðlega alþjóðasýn sem okkur ber að tefla fram gegn trúarhita Evrópusinna. Og þessi mynd er því aðeins möguleg að við völd í landinu séu stjórnmálamenn sem ekki eru logandi hræddir við útlendinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þetta er bara vel mælt Bjarni eg stend með þer i þessu við eigum að gera svona við þetta svæði /Halli Gamli XD

Haraldur Haraldsson, 7.3.2007 kl. 10:59

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hvernig væri að við hefðum VÖLD innan EB?....í stað ESB þar sem við bara tökum upp reglugerðir?


Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 7.3.2007 kl. 23:16

3 Smámynd: XXL Cranium

En Bjarni, af hverju stígum við ekki skrefið til fulls og gerum allt landið að frísvæði. Fríhafnir og frísvæði eru  hvorttveggja hugtök sem eru upprunnin löngu áður en internetið reif niður öll landamæri. 
Verðmæti framtíðarinnar eru falin í frjálsu flæði hugmynda, sem enginn getur tollað eða skattað. Af hverju ættu ekki hefðbundin verðmæti að lúta sömu lögmálum.  Skattvaxtaverðtryggingarpíningin í þessu landi er engu lagi lík.

XXL Cranium, 8.3.2007 kl. 00:14

4 identicon

Í Sænautaseli bjuggu skötuhjúin herra Sjálfstæður og hans ektafrú til 12 ára, Framsóknarmaddaman, og sögðust hvergi fara úr kotinu meðan bæði libbðu. Þau væru sjálfstætt fólk í sjálfstæðu landi. Karl og kerling áttu tvær dætur en þær lentu í ástandinu á Kárahnjúkum og segir ekki meira af þeim, nema hvað þær búa núna í Kína. Ektaparið bjó með eina kú og 100 kindur með 19 milljarða styrk frá bróður Framsóknar. Þrenn hjú voru á bænum, Samfó hét eitt, Vinstri annað og Frjálslyndur það þriðja. Frjálslyndur var blindur og var því ekki mikið gagn af honum á búinu, enda drukknaði hann fljótlega í bæjarlæknum. Samfó var forkunnarfögur og feit, enda leit herra Sjálfstæður hana hýru auga. Framsókn varð þess vör og skipaði karli sínum að reka Samfó er vistinni, "því engin hornkerling vil ég vera á mínu eigin heimili". Nú nú, er þar komið sögunni að einungis eitt hjú var eftir í kotinu og getiði nú krakkar mínir hver það var. Jú rétt til getið, Vinstri var það heillin. Fer þá ekki herra Sjálfstæður að gera hosur sínar grænar fyrir Vinstri!

"Ja, nú þykir mér týra á skarinu og skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Er þá karlinn ekki sódómískur eftir allt saman!" tautar þá Framsókn si svona, heldur önug og snýr upp á sig. "Þetta er örugglega allt saman Evrópusambandinu að kenna og þessu bévítans reglugerðarfargani frá þeim þar í neðra! Megi hann Brussell aldrei þrífast! Ég veit varla hvernig ég á að mjólka kúna lengur!" Er þar skemmst frá að segja að frú Framsókn skilur þar við karl sinn og arkar til byggða en verður úti á leiðinni vegna langvinnra gróðurhúsaáhrifa á heiðinni. En í Sænautaseli búa nú saman herra Sjálfstæður og Vinstri með 50 milljarða styrk frá Evrópusambandinu. Barnlausir eru þeir náttúrlega en buru eiga þeir gríðarstóra og geyma í henni allir reglugerðirnar frá Evrópusambandinu. Lýkur þar með sögunni af Sænautaseli, krakkar mínir, og farið nú út að leika ykkur!

Steini Briem (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 14:07

5 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Þetta er staðan í dag og okkur ber að nýta þessa stöðu okkur í hag á þann hátt sem þú lýsir. Við skulum sjá hvert það ber okkur. Við Íslendingar erum svo klofnir (ekki í herðar niður heldur erum við eins og geðklofi, svart og hvítt o.s.frv.) að við getum vel fótað okkur áfram og nýtt tækifærin sem bjóðast eða bíða eftir að við nýtum okkur þau.

Ragnar Bjarnason, 8.3.2007 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband