Ísland og umheimurinn

Útrás Íslendinga, samskipti okkar við aðrar þjóðir og þjóðabandalög hafa verið fyrirferðarmikið umfjöllunarefni í íslenskum stjórnmálum undanfarin ár og allt frá gildistöku EES samningsins 1994 sem nokkur átök urðu um bæði á þingi og í þjóðarumræðunni. Því er á stundum haldið fram að hér kallist á einangrunarsinnar og alþjóðasinnar. En í þeirri mynd er fólgin mikil einföldun og ekki ljóst hvað er hvurs ef sú mynd er greind til hlítar.

Evrópusambandið er tilorðið sem samstarf fullvalda ríkja en markmið þess hefur engu að síður verið samrunaþróun í átt að sambandsríki, líku því sem varð til með Bandaríkjum Norður Ameríku á 18. öld, Þýskalandi nútímans á 19. öld og á 20. öld í Júgóslavíu og Sovétríkjunum, svo dæmi séu tekin. Indland og Kanada eru líka dæmi um sambærileg ríkjabandalög. Sum þessara bandalaga hafa orðið farsæl, önnur ekki

Af fullveldi og ríkjasambandi

Innan Evrópusambandsins eru vitaskuld skiptar skoðanir um það hversu langt eigi að ganga í samruna en raunar enginn ágreiningur er um að ESB skerðir að einhverju leyti fullveldi þátttökuþjóða. Þannig hafa þjóðirnar ekki fulla heimild til milliríkjasamninga í dag og lagasetning er í mörgum veigamiklum tilvikum sameiginleg. Hluti ESB - þjóðanna eru svo saman um myntsláttu sem þýðir að efnahagsleg stjórn er að stórum hluta sameiginleg með þeim þjóðum. Söguleg og menningarleg rök kalla engu að síður á að við lítum enn á lönd eins og Frakkland, Þýskaland og Pólland sem sjálfstæð ríki án þess að velta fullveldishugtakinu allt of mikið fyrir okkur í því samhengi.

 Nú eru hugtökin fullveldi og sjálfstæði vitaskuld mjög teygjanleg og engin ein fullkomin skilgreining til á því hvað þau merkja. Flestir munu til dæmis viðurkenna að ríkisvald er aldrei algerlega fullvalda til að gera hvað sem er og takmarkast þar alltaf að einhverju leyti af alþjóðlegum samningum og eigin stjórnarskrá. Í tilviki Evrópusambandsins snýr spurningin um sjálfstæði Evrópuríkja að því hvort t.d. Belgía standi nær Kaliforníu eða Japan í þeim efnum. Kalifornía á sér sitt eigið þing, löggjafarvald og innanlandsstjórn en fer ekki með nein utanríkismál. Lagasetning lýtur að stórum hluta þeim ramma sem ákveðinn er í Washington DC. Japan er fullkomlega sjálfstætt í innanlandsmálum og sinni utanríkispólitík en Belgía er hér mitt á milli og stendur líklega nær Kaliforníu nú hin seinni ár. Belgía hefur t.d. töluvert minna sjálfstæði heldur en Íslendingar höfðu á tímabilinu 1918 til 1944 þegar við töldum okkur fullvalda en vorum enn hluti af Danska konungsveldinu.

Annað sem gerir Evrópusambandið sérstætt sem ríkjasamband í hinum vestræna heimi er hin flókna og viðamikla stjórnsýsla þess og tilhneiging þess til alræðis á öllum sviðum samfélagsins. Í þeim efnum líkist sambandið meira ríkjasamböndum austan járntjaldsins án þess að stefna að ríkiseinokun atvinnulífsins.

Sjálfræði þjóða og lýðræðið

Hugtökin lýðveldi og lýðræði eru nátengd þjóðahugtakinu. Fram yfir miðaldir töldu konungar sig langt yfir þegna sína hafna og fráleitt af sömu tegund. Nánast guðlegar verur og töluðu því oft annað tungumál og lifðu í annarri menningu. Þýsku við danska hirð en frönsku við þýska o.s.frv. Með tilslökun einveldis, þróun í menntun  og auknum kröfum borgaranna um frelsi óx jafnframt áhugi ráðandi afla á menningu sinna þjóða og þjóðahugtakið varð til. Allt frá lokum miðalda hefur þjóðhyggja og hverskyns sjónarhorn útfrá þjóðríkinu mótað þróun heimsins. Bandaríska félagsvísindakonan Lilah Greenfeld hefur í bók sinni „Nationalism, five roads to Modernity,"  leitt sannfærandi rök að því að þjóðhyggjan hafi aldrei verið sterkari en nú og vegur hennar fari vaxandi. Enginn vafi er á að sjálfræðisbarátta þjóða og þjóðarbrota er alltaf nátengd lýðræðishugmyndum og fjöldahreyfingu.

Það breytir ekki því að um nokkuð langt skeið hafa verið til stjórnmálastefnur sem talið hafa þjóðhyggjuna frumstæða, úrelta og deyjandi. Trotskíistar, sem voru angi af heimskommúnismanum, töldu þetta og sömuleiðis margir af spámönnum alþjóðavæðingar á síðari áratugum. Á síðustu áratugum eru þó fleiri sem átta sig á að þjóðhyggjan er hið heilbrigða og lýðræðislega mótvægi gegn markaðsmenningu hins alþjóðlega kapítalisma. Innan ESB hafa hugmyndir andstæðar þjóðhyggjunni verið ríkjandi en reka sig nú illilega á þar sem meira að segja heimaland sambandsins, Belgía logar í þjóðernisdeilum. Sannast þar líkt og á Balkanskaganum að bæling þjóðernishugmynda brýst um síðir út í átökum.

Samstaða og sameining þegna hvers lands um það sem greinir þá frá öðrum hefur þannig verið aflvaki þess að þeir láti sig samfélag sitt einhverju varða. Þannig hafa ríkjabandalögin í Norður Ameríku, Kanada og Bandaríkin, skilgreint fjölmarga þjóðlega sameiginlega hluti í stjórnarfari sínu sem svo aftur eru aflvaki lýðræðisvitundar í þeim löndum. Á sama hátt má benda á að stórveldisstjórnir sem lagt hafa áherslu á að bæla lýðræðið  hafa ýmist afneitað hinu þjóðlega eða lagt ofuráherslu á sundrungu innan ríkisins með afskræmilegri áherslu á einn kynþátt í ríkinu og hans eigindir á kostnað hinna. Skýrast er þetta í hinum illræmdu alræðisríkjum 20. aldar sem flest eru nú liðin undir lok.

Tilraun Evrópusambandsins til þess að skapa sameiginlega vitund allra Evrópuþjóða hefur fram til þessa átt örðugt uppdráttar sem lýsir sér meðal annars í áhugaleysi evrópsks almennings með það hvað gerist í stofnunum ESB, misheppnaðri sameiningu evrópsks vinnumarkaðar og ótölulegum fjölda af kærum ESB á hendur aðildarríkjunum fyrir að brjóta og hundsa lagasetningu sambandsins en sambærileg mál eru fátíð hjá öðrum ríkjasamböndum. Hin samevrópska þjóðarvitund hefur enn sem komið er lítt  náð út fyrir elítu embættis- og stjórnmálamanna. Eitt af því sem gerir þessari djörfu tilraun erfitt fyrir er að samhliða fer fram sífelld útþensla sambandsins. Önnur ástæða er svo vitaskuld neikvæð afstaða ESB hugmyndafræðinnar til þjóðahugtaksins.

Ísland og EES

Með aðild EFTA ríkjanna þriggja, (Íslands, Noregs og Lichtenstein) að EES skapast margvísleg tækifæri innan Evrópusamstarfsins. Sömu samningsmarkmið tók Svisslendinga mörg ár að fá fram í tvíhliða samningum. Fylgismenn samrunaþróunar telja EES samninginn um margt betri en þann tvíhliða samning sem Sviss náði við ESB en mat á því hvor samningurinn er betri er vitaskuld pólitíkst. Hér skal þó ekki dregið úr nauðsyn þess að Íslendingar eigi greiðan aðgang að mörkuðum og viðskiptalífi Evrópu.

En augljóst er að EES samningurinn er um margt íþyngjandi þegar kemur að innleiðingu laga sem eiga takmarkað erindi í íslenskt samfélag og samningurinn hefur orðið til að takmarka samskipti landanna við þjóðir utan Evrópu. Skýrasta dæmið um það er hvernig lokast hefur fyrir allan innflutning á verkafólki frá löndum utan hinnar gömlu álfu enda skapar samningurinn evrópskum borgurum forgang til allrar vinnu á öllu svæðinu. Gildir þá einu hvort leitað er að pitzasendli eða eðlisfræðiprófessor, af báðum er yfrið í atvinnuleysinu í gömlu Evrópu.

Kostir EES umfram ESB

Meðal kosta samningsins er þó að hann innleiðir aðeins mjög lítinn hluta af löggjöf Evrópusambandsins (um 7%) og aðeins á mjög afmörkuðu sviði sem lýtur að  markaðsviðskiptum og svokölluðu fjórfrelsi milli þjóða. 50-80% af þeim reglum sem innleiddar eru á EFTA svæðinu koma frá framkvæmdastjórn ESB. Í Evrópuskýrslu forsætisráðuneytisins sem er þverpólitísk og var m.a. unnin í ráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar og opinberuð árið 2007 kemur fram það mat að EES ríkin „...hafa formlega sömu tækifæri og aðildarríki ESB til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og hafa áhrif á mótun gerða ESB meðan þær eru á mótunarstigi hjá framkvæmdastjórninni." Þetta kann að koma mörgum heldur spánskt fyrir sjónir en helgast af því að meðlimum framkvæmdastjórnarinnar er óheimilt að taka við fyrirmælum frá nokkurri ríkisstjórn eða öðrum aðilum.

EES samningurinn hefur einnig þann mikilvæga kost sem ekki fylgir fullri aðild að halda opnum möguleikum íslensku þjóðarinnar til margskonar utanríkisviðskipta og fríverslunarsamninga við lönd utan Evrópu og raunar eru flestir fríverslunar- og tollasamningar okkar við Evrópu sjálfum EES samningnum óviðkomandi. Íslenska útrásin í viðskiptum og margskonar landnám okkar í viðskiptum nær þannig langt út fyrir Evrópu og helstu vaxtabroddar framtíðarinnar kunna að verða í löndum eins og Indlandi og Kína. Því fer fjarri að útrás íslenskra fyrirtækja á undanförnum áratug verði eignuð EES samningnum eða þeim breytingum á lagaumhverfi sem hann hefur leitt yfir íslenskt samfélag. Slíkt hlyti enda að flokkast undir það sem miðaldamenn kölluðu jarteiknir þar sem sömu breytingar á lagaumhverfi hafa á sama tíma ekki leitt sambærilegar framfarir yfir Evrópu.

Staðreyndin er að hagvöxtur undanfarinna ára á Íslandi er í fyrsta lagi eðlilegt framhald þess hagvaxtarskeiðs sem ríkt hefur í landinu frá seinna stríði og á sér samfellu allt frá 19. öld. Velsældarskeiðið síðustu 12 árin verður fyrst og fremst skýrt með þeim stöðugleika í stjórnarfari sem einkenndi stjórnartímabil fráfarandi ríkisstjórnar. Það er engin ástæða til að sjá umrætt hagvaxtarskeið í ýkjulitum enda vafamál að lífskjarabylting þjóðarinnar t.d. síðustu 20 ár, frá 1987 - 2007 sé meiri heldur en á 20 ára tímabilinu sem kemur þar á undan, 1967-1987. Framfarir í lífskjörum hafa á Íslandi hafa verið stórstígar allt frá því landið hlaut sjálfstæði og að meðaltali hafa vergar þjóðartekjur á mann vaxið um 2,5% á ári á þessu tímabili. Því fer fjarri að tímabilið eftir EES samning hafi hér meiri sérstöðu í hagtölum heldur en til dæmis fyrstu árin eftir stríð eða fyrstu árin eftir viðreisn.

Einangrun eða alþjóðavæðing

En víkjum aðeins að viðskiptasvæðinu sem EES samningurinn nær til. Lönd Evrópusambandsins telja nú um hálfan milljarð íbúa en til samanburðar eru íbúar allrar jarðarkringlunnar tæplega 7 milljarðar. Í Indlandi einu er liðlega milljarður en Íslendingar undirrituðu nýlega tvísköttunarsamning við Indverja og samningaviðræður um fríverslun standa yfir við Kínverja sem telja nær hálfan annan milljarð.

Nú er það vitaskuld svo að í hinum harða heimi kapítalismans þarf nokkra Kínverja til að mæta einum Evrópuborgara í neyslu en bilið þar á milli fer þó ört minnkandi. Hagvaxtarspá öflugustu landa Evrópu, Þýskalands og Frakklands, gerir ráð fyrir um 1% hagvexti en reiknað er með að hagvöxtur í Kína og Indlandi verði sá mesti í heiminum á næstu árum og áratugum. Hinn hægi vöxtur í Evrópu skapar fá sóknarfæri og mun trauðla duga þeim fyrirtækjum sem þar eru fyrir á fleti til framfærslu. Nýsköpun atvinnulífs í Asíulöndunum mun aftur á móti opna gáttir viðskipta og tækifæra.

Í fyrrnefndri Evrópuskýrslu kemur skýrt fram að aðild Íslendinga að ESB myndi sjálfkrafa útiloka og afnema þá fríverslunarsamninga sem þjóðin hefur gert utan ESB Það er m.a. á þeim forsendum sem íslenskir útrásarmenn hafa varað við aðild Íslendinga að Evrópusambandinu að óbreyttu. Orðrétt segir Björgólfur Thor Björgólfsson í Viðskiptablaðinu:

"...Ég tel að það myndi takmarka okkur. Við eigum að halda í þann sveigjanleika sem við höfum í dag. Við erum með margvíslega fríverslunarsamninga og við höfum möguleika á því að verða fjármálamiðstöð til langs tíma eins og margoft hefur verið talað um. Þannig getum við tekið við af Lúxemborg og Ermasundseyjunum, kjósum við svo. Það gerist hins vegar ekki ef við erum komnir inn í ESB."

Hér hljóma varnaðarorð viðskiptalífsins gegn einangrunarstefnu einstrengingslegra Evrópusinna.

Þjóðhyggjan og Evrópusamstarfið

Jón Sigurðsson fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins skrifar athyglisverða grein á heimasíðu Framsóknarflokksins fyrr í vetur um samspil þjóðhyggju og Evrópusamstarfs. Það er ástæða til að taka undir með Jóni í þeim efnum að aðild að Evrópusambandinu verður seint raunhæft útspil gegn tímabundinni hagsveiflu og að sjónarmið þjóðhyggjunnar eru grundvallaratriði þegar við metum kosti og galla alþjóðasamninga.

Það er einnig rétt hjá Jóni að það er engin ástæða til að útiloka um alla framtíð aðild Íslendinga að Evrópusamstarfinu. En eins og Evrópubandinu er varið í dag með skilyrðislausu afsali þjóða þess að samningagerð við útlönd og víðtæki löggjafarvaldi í innanlandsmálum er fólgin í aðildarviðræðum mikið fullveldisafsal og einangrunarstefna. Fullveldisafsalið sem liggur fyrir með aðild að ESB er ekki einasta andstætt þjóðhyggju Framsóknarmanna, það er í alvarlegri andstöðu við efnahagslega langtímahagsmuni þjóðarinnar.

Talsmenn aðildar að Evrópusambandinu hafa sjálfir kallað sig Evrópusinna en eðlilegra er að tala um sambandssinna í þessu tilviki þar sem mjög er komið undir pólitískri sýn á Evrópusambandið. Hvort eru það hvort sambandssinnar eða þeir sem vilja halda í fullveldi þjóðríkjanna teljist sem vinveittari Evrópu og íbúum hennar,. Sambandssinnar hafa margir lagt áherslu á að Íslendingar geti náð hagstæðum samningum í aðildarviðræðum og benda þar m.a. á sérákvæði ýmissa eyþjóða og íbúa í norðlægu strjálbýli.

 Af fyrrnefndri Evrópuskýrslu forsætisráðuneytisins sem unnin var af fulltrúum allra flokka má þó ráða að fæst ef nokkuð af þeim sérsamningum eiga við á Íslandi. Þannig snúa sérákvæði Maltverja í fiskveiðimálum eingöngu að verndun fiskveiðistofna en ekki hverjir nytja þá og flest í byggðaaðstoð Evrópu miðar að aðstoð við byggðir þar sem meðaltekjur eru miklu mun lægri en í okkar landi. Almennt hafa Íslendingar innleitt meira frjálsræði í viðskiptum en tíðkast í þeim löndum sem sótt hafa um undanþágur til Evrópusambandsins og sambærilegar undanþágur hér á landi væri afturhvarf til haftastefnu sem fáir hafa talað fyrir hér á landi hin seinni ár. Í þessu samhengi má nefna ýmislegt í sérreglum eyþjóða um húsakaup, sumarhúsareglur dana o.fl.

Þjóðhyggjan og einangrunarstefnan

Það er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart hverskyns einangrunarstefnu í viðskiptum og samskiptum við aðrar þjóðir. En varðveisla fullveldis þarf ekki að vera andstæð opnun viðskipta. Þvert á móti bendir margt til þess að með inngöngu Íslands í Evrópusambandið eins og það er núna gerðum við tvennt, - að fórna miklu af dýrmætu fullveldi okkar og einangra okkur í alþjóðlegum viðskiptum.

(Birtist í miðopnu Mbl. mánudaginn 28. janúar 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband