Að halda ró sinni

Úr minni heimasveit er til saga af bændum tveimur sem gengu yfir Tungufljót á ís og brast þá undan öðrum þeirra, Ingvari heitnum R. á Hvítárbakka sem var líkt og sá sem hér skrifar skrollmæltur. Félagi hans stendur spölkorn frá vökinni og horfir á þar sem bóndinn heldur sér í vakarbarminn, hálfur ofan í ísköldu vatninu, ráðalaus en segir þó;geirharde

  • - Rólegur, rólegur!
  • - Rrrrólegur, segir þú, rrrólegur. Það er auðvelt að segja það og standa á bakkanum, svaraði hinn snöfurmannlega og þótti nóg um tómlæti félaga síns við að sækja hjálp í þessum válegu aðstæðum. Sá skildi þá sneiðina og sótti hjálp þannig að allt fór vel að lokum.

Verr er farið í viðskiptalífi landsmanna þar sem forsætisráðherra stendur nú hugsi á einnættum ís hagkerfisins og hefur það eitt til ráða í efnahagsmálum að segja mönnum að halda ró sinni. Á sama tíma eru kollegar í hinu bandaríska hagkerfi á stöðugri vakt til beitingar allra þeirra tækja sem hagkerfið hefur upp á að bjóða. Hrun á hlutabréfamörkuðum vestanhafs er þó fráleitt líkt því eins og í hagkerfinu hér heima, munar þar rífum helming. Og engum þar vestra dettur í hug að með því að vinna að málum séu stjórnvöld að tala ástandið niður.

Í umræðu um málið sagði Pétur H. Blöndal alþingismaður fyrir nokkrum dögum að ef ekki kæmu til versnandi utankomandi aðstæður þyrfti ekkert að gera. Það má rétt vera en nú er það margfaldlega staðfest að hin alþjóðlega bankakreppa ríður yfir í íslensku hagkerfi. Utanaðkomandi aðstæður fara stöðugt versnandi og það þarf ekkert að ræða hvernig við gætum hagað okkur ef veruleikinn væri með öðrum hætti.

Einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokks spurði undirritaðan í umræðu um málið hvað ætti að gera. Því verður ekki svarað í stuttri blaðagrein en eins og jafnan þegar stór vandamál eru framundan þá eru orð til alls fyrst. Og skiptir miklu að einhver tilraun sé til samhljóms og festu við stjórnun.

Viðskiptaráðherra og aðrir talsmenn Samfylkingarinnar leggja reglulega til að brugðist sé við með inngöngu í ESB sem ekki getur talist vitrænt eða ábyrgt innlegg í umræðuna. Síst þegar stjórnarsáttmálinn gerir einmitt ráð fyrir að því máli sé alls ekki hreyft.

Fyrir nokkrum dögum boðaði viðskiptaráðherra svo að Seðlabankinn hlyti nú að lækka vexti og vissulega hefði það mikil áhrif í hagkerfinu þó vaxtabreytingar séu vandmeðfarið stjórntæki við núverandi aðstæður. Mestu skiptir þó að í þessari yfirlýsingu kveður við mjög holan tón. Útfrá þeim reglum um verðbólgumarkmið sem ríkisstjórn setur Seðlabanka er ósennilegt að hann lækki vexti að svo stöddu. Það er ríkisstjórnarinnar að taka verðbólgumarkmiðin til endurmats enda í reynd fráleit miðað við ríkjandi aðstæður.

Viðskiptaráðherra ræddi málið lítillega í þingræðu í vikunni og lofaði þar íslenskum bönkum að ríkissjóður myndi hlaupa undir bagga ef á bjátaði! Slík ráðherrayfirlýsing er einstök í vestrænu hagkerfi. Undir þessu sitja mæddir menn, forsætisráðherra og fjármálaráðherra og aðhafast ekki. Valdþreyta og starfsleiði einkenna mjög þessa gamalreyndu stjórnmálamenn.

Það er orðið augljóst að samstaða stjórnarflokkanna í efnahagsmálum er engin og samræður um þau mál í ábyrgðarlausu lágmarki. Samstaða ríkisstjórnar og Seðlabanka er heldur ekki til að dreifa og þar eru samræður um málið einnig í lágmarki og sama er raunar að segja um tengsl Seðlabanka og stjórnvalda við viðskiptalífið. Nýlega sagði einn af færustu hagfræðingum Landsbanka að þjóðin þurfi að búa sig undir verstu kreppu frá stríðslokum. Íslenskt stjórnkerfi mætir þeirri kreppu með tómlæti þess sem leiðir ekki einu sinni hugann að því hvort eitthvað sé til bjargar en stendur á vakarbarminum þar til allt brestur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ekkert að óttast. Blöndalinn galdrar eitthvert trix við þessu. fyrst hann gat fundið leið til að lifa af níutíuþúsundkalli á mánuði, hlýtur hann að geta allt.

Brjánn Guðjónsson, 6.2.2008 kl. 14:24

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ríkisstjórnin hefur verið mjög fámál við þessi tíðindi af hlutabréfamarkaðnum. Spurning hvort hún taki hendur úr vösum þegar í óefni er komið. Kannski Geir & Co snúi sér bara við og þegar gengið verður á þá hvort ekkert standi til að taka sér fyrir hendur. Verður það ekki eins og með bóndann sem horfði á heyið sitt fjúka út í buskann: farið hefur forgörðum meiri verðmæti en þetta!

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 6.2.2008 kl. 18:26

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni þú verður að svara hverju þú vilt breitta,það þarf ekki að vera heil  blaðagrein,mer finnst i þessari stöðu betra að huga vel að málum en að gera bara eitthvað sem ekki er gott,það er ekkert skrítið þó þessir flokkar seu ekki alltaf á sömu linu,þeir eru svo ólíkir,En komdu með þina tillögur/kannski Geir læri eitthvað af þeim????Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 6.2.2008 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband