Pólitík og lágkúra og fleiri ráðherrar

Birti um daginn stutta grein í Morgunblaðinu um þann dæmafáa málflutning Össurar Skarphéðinssonar og Björns Bjarnasonar að telja fáránlega fatamálið dauðadóm yfir Framsóknarflokknum. Fannst svo eiginlega að greinin væri að verða full gömul til að ég endurtæki hana á blogginu en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerir gamla vísu nýja með helgarræðu sinni. Tal hennar um að Framsóknarmenn séu að kála sjálfum sér er ósmekklegt bull og ekki ráðherra sæmandi. ossur_skarpbjorn_bjarnasonthorgerdur

Það rétta er að fáfengileg deila milli fárra manna í Reykjavík hefur þróast yfir í mannlegan harmleik. Allt það hefur vitaskuld haft einhver örlítil áhrif á fylgi flokksins en þeirra áhrifa gætti raunar bara í örfáa daga eins og munurinn á Gallup og Fréttablaðskönnun sýna. Það að virðingaverðir ráðherrar í stórum flokki noti sér tækifæri eins og þetta til að sparka í Framsóknarflokkinn segir meira um þann sem sparkar en þann sem sparkað er í. Í forystusveit Framsóknar, þingliði og allri annarri forystu ríkir eindrægni og afleikir fráfarandi þingmanns eða annarra breyta þar engu um.

En hér að neðan birti ég svo moggagreinina sem var skrifuð fyrir réttri viku og birtist líklega á fimmtudaginn síðasta.:

-------------------------------------------------------------

Stjórnmál á Íslandi hafa lifað eina af sínum verstu vikum og víst er að við Framsóknarmenn höfum þar ekki farið varhluta af ómálefnalegri og rætinni umræðu. Umræðu sem kemur stjórnmálum í raun og veru ekki við. Flest var þar að vonum ef frá er talin þátttaka nokkurra kjörinna þingmanna í sjónarspili sem í reynd var langt fyrir neðan þeirra virðingu.

Skrif hæstvirts byggðamálaráðherra Össurar Skarphéðinssonar komu ekki stórlega á óvart enda varðveitir hann sína unglingslegu uppreisnarsál með
næturbloggi sínu og slettir þá jafnt á eigið stjórnarráð og annarra verk.
Vitaskuld eru fullyrðingar hans um að vinnubrögð örfárra framsóknarmanna í Reykjavík séu á ábyrgð Framsóknarflokksins ekki svaraverð og sambærileg sumu því versta sem birtist hér í síðdegispressu.

En fyrr hélt ég að fiskar gengju á land en að ég sæi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason skipa sér í þennan flokk í umræðu um fatamál Framsóknarflokksins. Björn hefur í senn verið og er í mínum huga einn besti ráðherra ríkisstjórnarinnar og í röð fremstu bloggara landsins. Það er því með miklum ólíkindum að lesa inni á síðu dómsmálaráðherrans í pistli 19. janúar að hann telji endemisumræðu Guðjóns Ólafs Jónssonar sýna að Framsóknarflokkurinn eigi ekki lengur pólitískt erindi á Íslandi. Í framhaldi af því rifjar ráðherrann upp öll ummæli helstu leikenda í Reykjavík, þeirra Guðjóns, Björns Inga og Önnu Kristinsdóttur. Með myndskreytingum gæti pistillinn sómt sér vel á síðum Séð og heyrt en stingur í stúf á hinni um margt góðu heimasíðu ráðherrans.

Í pistlinum 19. janúar vitnar Björn í áramótapistil um pólitíkina þar sem hann ræðir um meint erindisleysi Framsóknarflokksins í stjórnmálum. Öll er sú umræðu lituð af sárindum vegna meirihlutans sem sprakk á síðasta ári og hvergi vikið að málefnum. Með sömu rökum mætti taka undir með æstum sósíalistum sem segja atburði síðustu daga í borgarmálum sanna að Sjálfstæðisflokkurinn í heild sé ómerkileg valdaklíka. Kannski er hann það en gjörðir einnar sveitarstjórnar í landinu sannar ekkert né afsannar í þeim efnum. Sjálfstæðisflokkurinn er stærri en svo.

Sá sem hér skrifar hefur margoft skrifað um hugsjónir Framsóknarflokksins, skilin milli stjórnmálaflokkanna á Íslandi og nauðsynlegt hlutverk Framsóknarmanna í þeirri mynd. Miðjuflokkarnir á Íslandi eru tveir, Framsóknarflokkur og Samfylking. Framsókn er ábyrgt stjórnmálaafl með þjóðlega taug og tengsl við bæði landsbyggðina og atvinnulífið í landinu. Björn Bjarnason og félagar hans í Sjálfstæðisflokki komast nú að því fullkeyptu að allt þetta eru eiginleikar sem skortir á í Samfylkingunni þar sem áhuginn á efnahagslífi einskorðast við evrópska nauðhyggju og tengsl þess flokks við atvinnulífið eru jafnvel minni en var í gamla Alþýðubandalaginu. Ekkert er nú gert í efnahagsmálum í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og það eitt sýnir þá þörf sem er fyrir ábyrgan og traustan miðjuflokk. Tímabundin fylgislægð er ekki dauðadómur í lífi stjórnmálaflokks.

Framsóknarflokki verður ekki skákað út úr þessari mynd með lágkúrulegri umræðu um fatareikninga og það flokkast undir pólitíska lágkúru að notast við slíkan málflutning. Það er nöturlegt að jafnvel ráðherrar annarra flokka skuli að þarflausu óhreinka sig hér á þarflítilli fataumræðu.

PS: 4.feb.08: Tók eftir að Björn Bjarnason svarar mér og það málefnalega eins og hans er háttur á síðu sinni í síðustu viku. Um svar hans er ekkert meira að segja en ég birti það hér í heild svo öllu sé nú til haga haldið:

Framsóknarflokkurinn kemur að þessu sinni verst út úr flokkakönnuninni hjá Gallup. Augljóst er, að meirihlutaskiptin í borgarstjórn koma illa við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Er það enn og aftur til staðfestingar á því, hve misráðið var hjá Birni Inga Hrafnssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, að hverfa frá samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í október sl.

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, skrifar grein í Morgunblaðið í dag og telur mig hafa farið ómaklegum orðum um flokk sinn hér á síðunni, þegar ég lýsti skoðun minni á fatavanda framsóknarmanna. Í greininni er þessi gullvæga setning: „Fyrr hélt ég að fiskar gengju á land en ég sæi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason skipa sér í þennan flokk með umræðu um fatamál Framsóknarflokksins.“

Eftir að hafa setið með framsóknarmönnum í ríkisstjórn í 12 ár og unnið að framgangi margra góðra mála, vil ég síður en svo gera á hlut þeirra. Svik Björns Inga við sjálfstæðismenn voru hins vegar á þann veg, að þau eru ekki hafin yfir gagnrýni. Í fatamálinu hafa framsóknarmenn  verið sér sjálfum sér verstir - sjálfskaparvítin eru alltaf verst. Ég er viss um, að Bjarni Harðarson samsinnir því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er reyndar alveg sammála þér Bjarni, þótt ég sé ekki framsóknarmaður, þetta hlýtur alltaf fyrst og síðast að vera ákvörðun flokksins og einskis annars

Guðmundur Baldursson (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 01:44

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Nafni minn!

Það sem gerir Framsókn afar lasna er, bullið í Valgerði og Evrópu daður hennar.

Ekkert er þeim sem eftir eru í Framsókn, jafn sárt og að horfa uppá og hlusta nú í svartasta skammdeginu, á mærðarvaðalinn í henni um berti tíð og blóm í haga EB.

Þessvegna hrynar af ykkur fylgið og kemur ekki aftur, fyrr en þessu sífri léttir.

Hitt er svo umhugsunarefni fyrir okkur í mínum ástsæla Flokki, að varaformaður okkar skuli vera með eitthvað opnunar-kjaftæði um Evruuppgjör banka og slíkt.

Í forsendum stofnunar míns þjóðlega og fróma Flokks er einmitt fastmælum bundið, að til hans sé stofnað ,,til að koma í veg fyrir uppágáttvæðingu og óheftan innflutning útlendra manna"  því til sannindamerkis bendi ég á blogg Þryms um sama efni undir fyrirsögninni   ,,sagan endurtekur sg..."

Loftbólu-hagkerfi fær ekki saðist og viðmið við erlenda mynt ekki að heldur.  Ef mönnum er alvara með, að Krónan sé of lítill gjaldmiðill og svið hennar of þröngt, er ekkert annað að gera en taka upp annann gjaldmiðil.  Mín tilfinning er, að svissneskur Franki, með aðferðafræði þeirra einnig, sé okkur affarasælastur gjaldmiðla.

Helst er þar um, að ekki er á jarðríki til rórri gjaldmiðill, né traustari og því sveiflujöfnun auðsæ.

Miðbæjaríhaldið

býður nafna sínum til setu og húsmennsku fyrir sinn fróma Flokk Sjálfstæðisflokkinn, þar sem honum mun ekki veita af stuðningi GEGN Evrusinnum þar innandyra.

Bjarni Kjartansson, 4.2.2008 kl. 13:14

3 Smámynd: Steinn Hafliðason

Þau eru að dreifa athyglinni frá eigin vandamálum

Steinn Hafliðason, 4.2.2008 kl. 16:08

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Kvitt /Bjarni Harðarson þú lætur ekkert standa uppá þig,það gott/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 4.2.2008 kl. 22:23

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Bjarni.

Það hefur nú minni skandall komið fram en þviumlíkt írafár sem Guðjón Ólafur setti fram í beinni útsendingu. Til happs fyrir flokkinn drukknaði það í borgarstjórnarskiptunum.

Hvað er annars að gerast með Valgerði ?

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 5.2.2008 kl. 02:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband