Tíbetar eiga ekki talsmenn í stjórnarliðinu

Baráttumenn Tíbeta eiga ekki liðsmenn í stjórnarliðinu á Íslandi. Þetta kom ítrekað fram í þingumræðu í gær þar sem sá sem hér skrifar gagnrýndi málflutning utanríkisráðherra og kallaði einnig eftir afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins.tibet_map

Sjálfur hefi ég ekki verið róttækur í þessum efnum en tel engu að síður að Íslendingar eigi með afdráttarlausum hætti að lýsa yfir stuðningi við hina undirokuðu þjóð Tíbeta og baráttu þeirra við ógnarstjórn kommúnista. Engin slík yfirlýsing fékkst frá stjórnarliðum í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Eini liðsmaður okkar Framsóknar í þessu var fyrrverandi félagsmaður í Sjálfstæðisflokki, Jón Magnússon. Ingibjörg Sólrún vitnaði reyndar að hafa lýst yfir við Kínverja að þeim bæri að virða mannréttindi í Tíbet og það er vissulega skref í rétta átt en við þurfum að gera betur. Kínverjum ber að hlusta á réttmætar kröfur Tíbeta.

Umræðan um Tíbeta, áratuga kúgun þeirra og réttindabaráttu er mikil nú um allan heim. Það er mikilvægt að vestrænar þjóðir noti þetta lag til þess að þoka baráttu þessarar þjóðar fram á við hvort sem að lokaáfanginn er settur við aukna sjálfstjórn innan Kínverska alþýðulýðveldisins eða algert sjálfstæði. Reynslan kennir okkur að mikilvægasta vopnið í baráttu sem þessari er þrýstingur á viðkomandi stjórnvöld og það er eftir þeim þrýstingi sem ég kallaði í þingsölum í gær.

Reyndar held ég að þrýstingur af þessu tagi frá Bandaríkjamönnum og fleirum hafi þegar skilað okkur fram á veg en betur má ef duga skal. Ástandið í Tíbet er vitaskuld margfalt betra en það var á Maótímanum og það sama á reyndar við í Kína öllu þar sem mál hafa þokast fram á veg en því fer samt fjarri að mannréttindi og málfrelsi sé með þeim hætti að viðundandi sé.

Ísland getur komið fram af reisn í málum sem þessum og gagnrýnt án þess að horfa endalaust í stórlaxapólitík risaveldanna. Það læðist að mér að hér skipti máli að Pekingstjórnin hefur atkvæði þegar kemur að því að kjósa í öryggisráðið - en það hefur Tíbet ekki!

Nánar má lesa um þessa umræðu hér - sjá m.a. andsvör undirritaðs við ræðum Ingibjargar Sólrúnar, Jóns Gunnarssonar og Guðfinnu Bjarnadóttur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætla að vinka hér að öðru.Í blaðagrein í dag Bjarni er haft eftir þér að Ríkissjóður sé sameign allra landsmanna.  Mikið rétt hjá þér,en Bjarni hvað með fiskin í sjónum-kvótann,ég veit ekki betur en það að Framsóknarflokkurinn hafi farið þar fremstur í flokki með ráni á honum frá dreifðum byggðum landsins,fremstur í þeim flokki var aðalkvótaeigandi landsins: HALLDÓR ÁSGRÍMSSON. Hafi Framsókn ÆVARANDI skömm fyrir.

jensen (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 10:06

2 identicon

Lítið heyrist frá núverandi stórkvótaeigandanum Halldóri,hafið skömm.

jensen (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 10:08

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er búinn að lesa færsluna en hef ekkert að segja.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 9.4.2008 kl. 12:00

4 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Heill og sæll Bjarni,

mikið er ég ákaflega ánægð með þig. Þú átt stórt hrós skilið fyrir þennan pistil.

Þú sýnir mikinn kjark og dug að taka upp málefni Tíbet á þingi í gær. Það þarf einhver að brjóta ísinn og það gerðir þú. Ég vona að sá stóri hópur sem þegir þunnu hljóði fari að vakna til lífsins og sýna viðbrögð.

En það er sorglegt að Tíbetar skuli ekki hafa stuðning stjórnarliða. Þeir ættu að íhuga það hvort þeir tækju sömu afstöðu sem stjórnmálamenn stæðum við Íslendingar í sporum Tíbeta í dag. Það hefur reynst okkur dýrkeypt að reyna að kaupa okkur velvild stjórþjóða gegn sannfæringu okkar. Ég vona svo innilega að menn geri ekki þau mistök aftur.

Innilegar þakkir Bjarni fyrir þetta mikilvæga skref.

Kristbjörg Þórisdóttir, 9.4.2008 kl. 12:05

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Sammála þér Bjarni. Ísland á einnig að standa vörð um og virða mannréttindi og mótmæla harðlega líflátsdómum, sem eru skýlaus mannréttindabrot.

Júlíus Valsson, 10.4.2008 kl. 09:27

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þýski rithöfundurinn Günther Wallraff sagði að sá undirokaði hefði ALLTAF rétt fyrir sér! Íslenska ríkisstjórnin virðist vera bæði ráðlaus og rökþrota þegar alvarleg mál bera á góma. Nú stefnir flest til að næstu Olympíuleikar verði mjög hliðstæðir áróðurssýningunni sem haldin var í Berlín 1936 þar sem ágæti eins kynþáttar og þjóðar var hampað á kostnað annarra.

Ásamt Tíbetum þá er önnur þjóð sem hefur verið illa undirokuð. Það eru Kúrdar sem Tyrkir eru svo óforskammaðir að nefna „Fjallatyrki“. En það nær ekki nokkurri átt því Kúrdar búa á landsvæðum sem í dag tilheyra a.m.k. 4 „frjálsum“ ríkjum. Ef Íslendingar ætla sér að gerast e-ð gildandi meðal þjóða heims í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þurfa þeir að móta sína eigin stefnu í utanríkismálum sínum og koma frá sér taumnum frá Bush stjórninni. Íslendingar eiga ekkert erindi þangað ef þeir ætla sér að vera undir hæl þessarar umdeildu stjórnar sem eru með allt niðrum sig í utanríkismálum.

Svo vona eg að þessir punktar nýtist þér í þínum praxís Bjarni.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 10.4.2008 kl. 11:46

7 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Mér þykir það undarlegt að hæstvirtur utanríkisráðherra okkar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, skuli ekki hafa rúmað málefni Tíbeta innan sinnar 10 mínútna ræðu og ekki minnst á þessi mál fyrr en þú kallaðir eftir þeim í annan stað. Að mér læðist sá grunur að hún hafi ætlað að humma þetta fram af sér eins og virðist vera orðin venja þessarar ríkisstjórnar í mörgum mikilvægum málum.

Mál sem er fyrirferðarmikið hjá flestum öðrum Vesturlandaþjóðum og einnig í fjölmiðlum.

Þetta er kona sem ég hafði einu sinni trú á sem stjórnmálamanni.

Sú trú er farin.

Kristbjörg Þórisdóttir, 10.4.2008 kl. 12:20

8 identicon

Sæll Bjarni

Ég er sammála þér, af hverju ætli vesturveldin fari ekki gegn Kína í þessu máli, getur verið að dollara - eign Kína komi í veg fyrir að tekið sé á þeim á alþjóðavettvangi. Kína gæti í einum vettvangi gengisfellt dollara niður úr öllu valdi, mér skilst að dollara birgðir þeirra séu stjarnfræðilegar.

Eysteinn Jónsson (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 12:33

9 identicon

Halló Halló.

kv.

Strákur

Cactus

Bróðir.

Cactus Buffsack (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 15:36

10 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Sammála þér Bjarni.

Guðjón H Finnbogason, 10.4.2008 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband