Guðinn Shiva í Seðlabankanum

Ef ég man indverska goðafræði rétt þá er það guðinn Shiva sem er í senn guð sköpunar og guð tortímingar og svosem alveg skiljanleg fræði. Sá sem ætlar að skapa mikið verður auðvitað að tortíma einhverju inn á milli til að rýma til fyrir sköpunarverkinu en heldur eru þetta nú samt grótesk trúarbrögð. En gleymum ekki að guð þessi er sá sem hindúar elska mest allra guða!Sivakempfort

Sjálfur er svo fyrir löngu ofandottinn yfir stefnu Seðlabankans að það er helst að ég leiti í þessi gömlu austurlandafræði til að skilja upp eða niður í hvað Seðlabankinn er að gera. Árás bankans á fasteignamarkaðinn nú kórónar samsvörunina við guðinn mikla ...

Og það er auðvitað ekki nokkurt vit að hækka stýrivexti í samdráttarskeiði eins og því sem nú ríkir og raunar ekkert hagfræðilegt samræmi í málflutningi bankans. Lengi vel dugðu stýrivextir til þess að halda hér uppi háu gengi sem aftur þýddi að verðbólgunni var haldið niðri á kostnað útflutningsatvinnuveganna. Og þýddi líka að bílar, snjósleðar og hárþurrkur voru hér á útsölu misserum saman og neyslan eftir því. Það má líkja þessu við niðurgreiðslur á innfluttum varningi sem fólk keypti jafnvel með erlendum lánum, ósnortið af stýrivöxtunum við Kalkofnsveg. Og þar í musterinu skildi enginn neitt í neyslufylleríinu. Sem var einfaldlega búið til með því að kolröng gengisskráning vó þyngra á metunum en háir vextir.

Nú þegar neyslan fer niður berja Seðlabankamenn sér á brjóst og segja, stefnan virkar, stefnan virkar. Sem eru hrein öfugmæli því einmitt vegna þess að nú þegar stýrivextirnir hættu að virka í þá veru að halda uppi gengi og það hrundi þrátt fyrir gengisfall þá skrúfaðist fyrir niðurgreiðslurnar og neyslan hrundi. Semsagt, loksins þegar stefnan hætti að virka þá hætti útsalan og þá hætti fylleríið. (Fyrir utan að bankarnir lokuðust sem hafði líka áhrif).

Seðlabankanum er löngu óhætt að hefja lækkunarferli vaxta en ef hann gerir það ekki - þá gerist það sem ég spáði raunar fyrir í pistli hér í haust - það verður banki þessi sem rekur þjóðina inn í evrusamfélag og jafnvel inn í Evrópusambandið. Er það meiningin, Davíð!?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ef satt skal segja hef ég aldrei skilið hvorki upp né niður í efnahagsmálum hér á landi. Mér hefur fundist þeir nokkuð lunknir við að snúa öllu á haus og það er sama sagan nú. Hvernig sem allt veltur í henni versu herðist sultarólin hjá launafólki en hinir maka krókinn.

Steingerður Steinarsdóttir, 11.4.2008 kl. 10:07

2 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Bjarni er ekki krónan ónýt sem gjaldmiðill og hagstjórnartæki? 

G. Valdimar Valdemarsson, 11.4.2008 kl. 10:43

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

"Creative destruction" er í rauninni grunnur kapítalismans (sem reyndar ætti að kallast debtism í stað capitalism). Síðan hafa pólitískir síkópatar með tímanum yfirfært þetta í stríð og styrjaldir sem að sjálfsögðu skapa risabísness, einkavinavæðingu og ekki síst eru hin fullkomna afsökun fyrir hallarekstri og skuldasöfnun. Frá þessum sækóum kom td. áhugi Davíðs á "uppbyggingunni í Írak". Það er ekki von á góðu þegar hugmyndafræði frá siðvillingum kemur í haus þeirra sem hafa fremur naumt skammtaða vitsmuni og takmarkað innsæi af náttúrunnar hendi, eins og dæmin hafa sannað.

Baldur Fjölnisson, 11.4.2008 kl. 11:05

4 Smámynd: Hallur Magnússon

Heill og sæll félagi Bjarni!

Snilldarpistill - og allt satt og rétt.

En talandi um Shiva - þá hefur mér reyndar stundum dottið í hug Kalí!

Reyndar veitir Seðlabankanum ekki af mörgum höndum Kalí - því bankinn er ekki að vinna með einn íslenskan gjaldmiðil - eins og bankinn virðist halda. 

Gjaldmiðlarnir eru í raun þrír eins og fram kemur í bloggi mínu í gær:

Þjóðarnauðsyn að taka upp gjaldmiðil 21.aldarinnar!

Hallur Magnússon, 11.4.2008 kl. 11:26

5 Smámynd: Dunni

Sæll Bjarni.

Það var gaman að detta inn á þennan pistil þinn um leið og ég hafði lokið við að skrá hugsanir mínar á bloggið.

Ég veit ekki fyrir hverju við getum treyst Seðlabankanum lengur.  Kanski til að geyma krónuseðla. Varla meira en það meðan við höfum leikmenn við stjórnvölinn í musterinu við Kalkofnsveg.

En allt í einu datt mér í hug garðyrkja þegar bloggið þitt birtist mér núna. Þá varð mér líka hugsað til Peter Sellers og bíómyndarinnar" Being There"

Garðyrkjufólk veit hvernig það á að fá hluti til að gróa og vaxa og verða að yndi fyrir þá sem njóta.  Væri ekki ráð að fá garðyrkjumann til að taka að sér Seðlabankan í framtíðinni??

Bið að heilsa í Laugarás ef þú átt leið þar framhjá.

GÞÖ

http://orangetours.no/ 

Dunni, 11.4.2008 kl. 12:35

6 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Síðan er að sjálfsögðu nánast útilokað að losna við seðlabankastjóra vegna þess að hér á landi búa stjórnmálamenn til sín eigin vistunarúrræði og nota hiklaust gúmmístimpla á álþingi til þess. Þetta er helv. ósvífið en eins og ég sagði þá er ekki á góðu von þegar menn hafa sína hugmyndafræði frá erlendum siðvillingum.

Lögin sem þessir fuglar setja sjálfir eða láta aðra setja vernda sem sagt þá sjálfa í stöðu (vistunarúrræði) sem þeir skipa sjálfa sig í þegar þeir eru orðnir ónothæfir í pólitík vegna málefnalegs gjaldþrots.

Baldur Fjölnisson, 11.4.2008 kl. 16:42

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mæltu manna heilastur Bjarni/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 11.4.2008 kl. 17:44

8 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Góður pistill Bjarni. Held reyndar að miðað við allt og allt sé það engin neyð að ganga til frekara samstarfs við Evrópuþjóðir. Ekki fyrir almenning og heldur ekki fyrir sjálfstæði þjóðarinnar.

Á minni síðu er ég að velta því fyrir mér hvort það verði hlutskipti laugvetnskra sveitapilta að halda lífinu í Framsóknarflokknum. Vona að þú takir því vel. Mbk,  G.

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.4.2008 kl. 18:27

9 Smámynd: Andrés Magnússon

Hvaða della, Bjarni kær! Davíð er augljóslega avatar Ganesha.

Andrés Magnússon, 11.4.2008 kl. 19:48

10 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Satt segirðu Bjarni.

Það er reyndar skrítið, þegar á allt er litið, hvernig skipað er í hæstu stöður í Seðlabankanum, að pólitík skipti meira máli en þekking.

Þannig lítur þetta út frá mínum bæjardyrum, en ég hef kannske ekkert vit á þessu...... frekar en......

Linda Samsonar Gísladóttir, 11.4.2008 kl. 22:18

11 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Það er einstakt afrek að ná að þurfa að múlbinda eigin hálfvitablaður með því að skipa sjálfan sig í seðlabankann og gjöreyða síðan snarlega trúverðugleika seðlabankans. Og herskari rugludalla á sama stigi kóar endalaust með ruglinu. Geðlæknafélag Íslands þarf alveg endilega að úrskurða um þetta.

Baldur Fjölnisson, 11.4.2008 kl. 23:06

12 identicon

Don Corleone Íslands var eitt sinn bankastjóri í Seðlabankanum,hver er hann?==Finnur Ingólfsson framsóknarmaður,en líklegast eru framsóknarmenn búnir að gleyma því eða vilja ekki muna það.

jensen (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 23:11

13 Smámynd: Bergur Thorberg

Ertu viss? Hvort var það aftur Guðinn Shiva eða Guðni Shiva? Svar óskast.

bestu kveðjur

með kaffinu.

Bergur Thorberg, 11.4.2008 kl. 23:18

14 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Forsætisráðherra skipar bankastjóra seðlabankans. Hver ætli skipi guðföður mafíunnar? Einu sinni var sérstakur agent NATO starfandi á pravda afsakið mogganum en síðan stofnaði Jón Ásgeir blað og Stalín afsakið Davíð missti fljótlega vitið. Þekking er vald.

Baldur Fjölnisson, 11.4.2008 kl. 23:24

15 identicon

Heilmikið til í þessu Baldur.

jensen (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 23:35

16 identicon

Kæri Ingó, þú ferð ekki með rétt mál. Davíð réð sig sjálfan í Seðlabankann og fékk síðan bara Halldór Ásgrímsson til að gúmmístimpla þá ákvörðun. En auðvitað átti Halldór að afsanna þau orð manna að hann hafi verið strengjabrúða DAO og neita að ráða hann, heldur auglýsa eftir hæfasta einstaklingnum í stöðuna.

Ég treysti evrópska seðlabankanum betur en þeim íslenska, gott að Bjarni er farinn að sjá vit í ESB-aðild og evru.

Hins vegar ósammála Bjarna að ESB-aðild sé neyðarúrræði. ESB-aðild er nauðsynleg áframhaldandi sjálfstæði og að lífskilyrði séu í lagi á Íslandi.
Ráðamenn á Íslandi virðast ekki átta sig á þig að ungt fólk í dag sættir sig ekki við þetta bull lengur en flytur bara erlendis þar sem kjör eru mun betri.
Ísland er kært í hugum allra Íslendinga en fólk lætur ekki pína sig á klakanum þó að fólki sé annt um Ísland, það einfaldlega fer, líkt og vesturfarar gerðu á þarsíðustu öld.

Hannes (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 20:08

17 identicon

Mánudaginn 14. apríl, 2008 - Innlendar fréttir

Ungir framsóknarmenn vilja í ESB

Í ÁLYKTUN á endurstofnfundi Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík var eftirfarandi ályktun samþykkt.

Í ÁLYKTUN á endurstofnfundi Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík var eftirfarandi ályktun samþykkt. Millifyrirsagnir eru blaðsins:

„Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík kallar eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að endurheimta þann stöðugleika í efnahagslífi þjóðarinnar sem ríkti í ríkisstjórnartíð framsóknarmanna. Mikilvægt er að glutra ekki árangri síðustu ára niður með aðgerðarleysi og dauflyndi. Því telja ungir framsóknarmenn í Reykjavík brýnt að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefjist nú þegar handa við að tryggja að hér verði ekki brotlending í atvinnulífinu með tilheyrandi gjaldþrotum, atvinnuleysi og landflótta. Ljóst er að stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og aðgerðir Seðlabankans í peningamálum vinna ekki saman nú um stundir og telja margir afleiðingu síðustu stýrivaxtahækkunar þá að íslenskt atvinnulíf innleiði evru án aðkomu ríkisvaldsins. Lokadagar íslensku krónunnar séu því í nánd.

Hefji viðræður nú þegar

Ungir framsóknarmenn í Reykjavík hvetja ríkisstjórnina til að hefja nú þegar aðildarviðræður við Evrópusambandið með inngöngu í huga. Ljóst er að staða íslensks efnahagslífs og hagsmunir þjóðarinnar kalla á að það verði gert.

Kröftugt og framsækið atvinnulíf ásamt öflugu velferðarkerfi er forsenda þess að Ísland sé samkeppnishæft við aðrar þjóðir hvað varðar aðlaðandi búsetu fyrir ungt fólk. Ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til aðgerða verður hún að biðjast lausnar og fela ábyrgum aðilum að taka hér við stjórnartaumunum. Framsóknarflokkurinn mun ekki skorast undan í þeim efnum.

Guðmann (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 18:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband