Að fatta misskilninginn...

Það var samstaða á Alþingi um það að halda inni í grunnskóla- og leikskólalögum ákvæðum um að kennslan skuli byggja á kristinni menningararfleifð. Það er misskilningur að með þessu sé Alþingi að leggja blessun sýna yfir trúboð í skólum eða ganga gegn trúfrelsi.cross-in-the-chapel-at-cathedral 

Sjálfur er ég trúleysingi og utan allra trúfélaga en barðist samt fyrir því í þinginu að þetta ákvæði héldist inni. Ástæðan er einföld. Með því erum við að leggja lóð á vogarskálar þeirrar hófsemi og umburðarlyndis sem ríkt hefur í trúmálum á Íslandi. Hófsemi sem er dýrmætara en allt því ekkert böl er eins vont og böl trúarofstækisins. Slíkt böl fer nú vaxandi um heim allan, ekki bara í löndum spámannsins í austri heldur ekki síður í guðs eigin landi vestra, Ameríkunni, þar sem þó ríkir lagalega algert hlutleysi í trúmálum.

Það að henda hinni kristnu menningararfleifð og hinu kristna siðgæði út úr skólastarfinu er raunverulega atlaga við þann hófsama og umburðarlynda kristnidóm sem hér hefur ríkt. Á því munu engir græða nema ofsatrúarprestar á borð við vin minn Gunnar í Krossinum.

Þar fyrir utan er okkur mikilvægt að kannast við sjálf okkur, uppruna okkar, sögu og rætur. Það getur enginn skilið vestrænar bókmenntir síðustu 1000 ára nema kunna skil á persónum á borð við Nóa, Lazarus og Golíat kallinum. Meira um þetta í þingræðu hér.

Baráttan gegn kristnidómsfræðslunni er þessvegna misskilin barátta sem mun engum skemmta nema skrattanum og þeim sem mest vilja útmála pínslir helvítis í skelfilegum eldmessum. Það ánægjulega er að þingmenn Vinstri grænna sem margir hverjir eru líkt og ég efasemdarmenn í trúmálum hafa fattað þennan misskilning. Fyrir það tek ég ofan fyrir þeim þó ég skilji vel að róttækir ungir sósíalistar og talsmenn trúleysis vilji sumir annan veg...


mbl.is Ung VG lýsa yfir óánægju með þingmenn VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér gengur ekki hnífsblað milli skoðana okkar Bjarni.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 10:08

2 identicon

Hver er að berjast gegn kristinfræðikennslu og hvernig í ósköpunum tengist þessi lagaklausu þeirri kennslu? Þarna er verið að tala um starfshætti skóla en ekki námsefni? Og hvað yfirhöfuð þýðir þessi klausa?

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 10:09

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Baráttan gegn kristnidómsfræðslunni...

Bjarni, nú er ég verulega svekktur.  Eftir fund okkar á mánudag er ekki möguleiki á að þú sért að misskilja þetta.   Hér er um hreina og klára rangfærslu að ræða af þinni hendi. 

Matthías Ásgeirsson, 28.5.2008 kl. 10:12

4 identicon

Það væri gaman að vita hvað greinargerðin, sem væntanlega fylgdi með frumvarpinu, segir um hvað af hinni kristnu menningararfleifð þjóðarinnar skuli lagt til hliðsjónar við skólastarf á Íslandi. Þar er nefnilega af nógu að taka. Bæði góðu og slæmu.

Gæti ég til dæmis vísað í Passíusálmana og krafist þess að þeir verði hafðir til hliðsjónar við umfjöllun um málefni Austurlanda nær? Eða að vinna í málefnum samkynhneigðra nemenda byggi á umfjöllun samtíðarmanna okkar í prestastétt eða bréfi Páls til Rómverja? Mér dytti það ekki í hug, en ég þekki fólk gripi tækifærið fegins höndum.

Getur verið að þetta sé bara merkingarlaus klausa sem hefur þann tilgang einn að  friða kristna og særa villutrúarmenn og vantrúaða? Ef það er engin alvara á bak við lagasetninguna, þá verð ég að benda á að svona lagatextar geta verið gífurlega skaðlegir.

Sjálfur er ég kirkjurækinn þjóðkirkjumaður sem gerir sér grein fyrir því að sérréttindi mín og minna líka standast ekki nútíma hugmyndir um jafnræði þegnanna.

Grímur (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 10:19

5 Smámynd: Jón Stefánsson

Tek undir með Óla. Hér er verið að tala um starfshætti en ekki námsefni. Við þokumst með þessari klausu nær því sem þú ert hræddur við, ekki fjær því. Sorglegt. Virkilega sorglegt.

Jón Stefánsson, 28.5.2008 kl. 10:43

6 identicon

Lesser evil is still evil.
Sagan mun dæma gjörðir ykkar og fáfræði.. sorgarstund í íslandssögunni.
Ég ætla að koma þessu út á veraldarvefinn, erlendis.. það mun vera hlegið að þessum "rökum"; íslam-d í dag

DoctorE (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 11:04

7 identicon

Bjarni hvernig byggist kennsla á kristinni menningararfleifð? Hvernig er það í framkvæmd? Hefði ekki verið markvissara að setja þetta inn í aðalnámskrá ef þetta á að snúast um námsefnið og kennsluna?

Og enn heyrir ég manna sem á að vera upplýstur um þessi mál fullyrða að barist sé gegn kristinfræðslu í skólunum. Þvílíkt og annað eins Bjarni. Var verið að fara fram á að kristinfræðslu væri hætt? Hver gerði það og hvenær?

En sem sagt með því að setja slagorð inn í lög um starfshætti grunnskóla er búið að tryggja að öfgafull trúarbrögð ná ekki fótfestu hér á landi. Engar frekari skilgreiningar á framkvæmd þessarar óljósu hugmyndar. Þessi rök þín standast ekki. Heiðarlegra hefði verið að þú segðir bara að styrkja þyrfti ríkiskirkjuna enn frekar og að börnum þessa lands verði innrætt með markvissum hætti hófsöm kristni sem á að virka sem bólusetning við trúarofstæki.

Hvað um að ganga bara beint til verks og banna trúarofstæki.  Trúareftirlitsstofnun Ísland. Stofnun hefur verið sett laggirnar fyrir minna tilefni. Ef markmiðið er að útrýma trúarofstæki að þá er rétt að ráðast bara gegn því markvisst.

Þú afeitrar ekki heróínneytanda með því að gefa honum brennivín, og þó íslenskt væri.

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 11:12

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni við erum þarna sammála kristin gyldi eru góð og þörf frá vöggu til grafar/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 28.5.2008 kl. 11:27

9 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Bjarni, hver berst gegn kristindómsfræðslu? Ekki eru það siðmennt eða vantrú. Ég veit ekki um neinn. Ég veit varla um nokkurn mann sem vill ekki kenna kristin gildi heldur.

 Ég vil að kennd séu kristinfræði. Það þýðir hins vegar ekki að skólar landsins eigi að mótast af kristinni arfleið.

Sérðu annars mikinn uppganga trúaröfga í löndum eins og Svíþjóð og Frakklandi, þar sem ríkisvaldið er ávallt sekúlar, og skilið hefur verið milli ríkis og krikju? Ætlar þú alltaf að nefna USA eingöngu til samanburðar? Þingræða þín var afleit. Mér þótti það miður, því mér hefur ávallt fundist þú lang bestur þingmanna framsóknar, og einkum hefur mér þótt gaman af því þegur þú hefur tekið VG stöku sinnum á beinið.

Sindri Guðjónsson, 28.5.2008 kl. 20:37

10 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það eru ýmsar birtingarmyndir veraldar-og guðleysishyggju sem hafa með réttu eða röngu verið kallaðar ágengar því sumir meðlima hennar vilja ýta öllum birtingarmyndum trúarbragða út úr hinu sýnilega samfélagi og þeir líta svo á að réttur til guðlasts sé sjálfsagður en það er a.m.k. á skjön við norræna lagahefð. Þessi hugmyndafræðilegi straumur er ekki nýr af nálinni en hann virðist hin síðustu ár hafa þróast og mótast og fengið á sig sína núverandi mynd í Bandaríkjunum og svo virðist sem þarlendir trúleysingjar finni í honum andsvar við ágengum boðunaraðferðum ýmissa sértrúarsafnaða og starfsaðferða þeirra þar í landi. Sumir trúleysingjarnir virðast t.d. ganga út frá því sem staðreynd að Guð sé ekki til og því sé hægt að afgreiða allt tal um guð sem bull. En á sama tíma virðast þeir ekki átta sig á að þannig eru þeir að taka afstöðu sem er sambærileg við trú að því leyti að þegar aðir játa Guði þá hafna þeir eða afneita Guði. Þetta fólk telur sig því eðlilega og alls ekki trúað þó erfitt sé fyrir það að neita því að þau taki afstöðu til Guðs.

Þessi hugmyndafræðilegi straumur liggur að sjálfsögðu líka hingað til lands og hefur tekið á sig ýmsar myndir. Að sumu leyti sver málflutningur þeirra sig í ætt við starfsaðferðir sumra sértrúarsafnaða, þ.e. að þeir byggja málflutning sinn að hluta til á því að halda á lofti  hneykslismálum í stóru trúfélögunum og ef engin ný hneyksli eru til að hamra á þá er farið aftur í aldir og fundið eitthvað þar.

Það er líka staðreynd að margt fólk hefur trúarlegar þarfir og þannig mun það verða áfram. Heppilegast er að það fólk sem hér býr finni að komið sé til móts við þær þarfir í sinni eigin menningu og sinni eigin menningararfleifð en síður í bandarísku nýtrúarhreyfingunum frá síðustu tveim öldum og alls ekki íslam eða ágengri trúleysishyggju. Þú ert því alveg á réttri leið Bjarni. Þú og þeir þingmenn sem þetta studdu hafið fetað vandrataða en alveg rétta leið.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 28.5.2008 kl. 22:06

11 Smámynd: Andrés Rúnar Ingason

Kristin arfleifð íslenskrar kirkju, er enn verri en kristið siðgæði. Jesú kom nefnilega fram með margt nýtt, sem gekk þvert gegn kenningum gamla testamentisins, svo sem um kærleika. Arfleifð kirkjunnar, þar á meðal hinnar íslensku, er hins vegar sneisafull af fordómum, dómhörku, græðgi og kúgun, þvert á nokkurn kærleika. Nægir þar að nefna Stóradóm, galdrabrennur, bannfæringar, kúgun kvenna og það hvernig kirkjan sölsaði undir sig mikið af eignum og tók margvíslegan þátt í kúgun almennings. Þetta er hluti af hinni kristnu arfleifð, sem við viljum ekki byggja skólastarf á. Rétt er að geta þess að margir þjónar kirkjunnar stunduðu kærleiksverk, en það er ekki hægt að benda bara á þau og horfa framhjá öllum hinum, þegar talað er um kristna arfleifð.

Þetta innskot um „kristna arfleifð íslenskrar menningar“ er komið frá Sigurði Kára og var samþykkt sem breytingatillaga frá meirihluta allsherjarnefndar milli 1. og 2. umræðu. Þetta er mótleikur fyrir það að menntamálaráðherra tók út „kristilegt siðgæði“ úr grunnskólalögunum. Vísun í „kristilegt“ siðgæði var fellt út til þess að standast mannréttindasáttmála Evrópu og bullið sem sett er inn í staðinn er til þess að sneiða fram hjá þeim vanda og troða trúarbrögðum inn aftur. Önnur gildi sem talin eru upp í sömu lagagrein getum við vel fallist á, þar á meðal ákvæðið um að byggja á kærleika.

„Trúarleg arfleifð“ er auðvitað bara arfleifð Ásatrúar og Kristinnar kirkju, svo það er ekki til neinna bóta að breyta þessu þannig. Þessi trúarbragða skírskotun á einfaldlega ekki við. Það er full þörf á að fræða skólabörn um okkar trúarlegu arfleifð og draga þar ekkert undan. Hins vegar á hún alls ekki að vera grundvöllur skólastarfs, eins og þarna er verið að troða inn.

Andrés Rúnar Ingason, 29.5.2008 kl. 00:18

12 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Enn undarlegra er hversu þrálátt menn vilja halda einhverjum kristilegum hugtökum nálægt börnum og skólakerfinu. Það dytti engum í hug að setja inn lagaklausu þess efnis að dómstólar landsins skyldu mótast af kristilegu siðgæði eða byggjast á kristinni menningararfleið,.

 Kæmi eitthvað þessu líkt í lög er varða t.d. lögregluna yrðu margir til að mótmæla harðlega. Deilur um "auga fyrir auga" myndur rísa þegar aðgerðir lögreglunnar yrðu metnar og hvort lögreglukórinn ætti að syngja fleiri sálma á tónleikum sínum. Vegagerð Íslands skyldi starfa skv. kristnum gildum, sem og spítalar landsins.

Hvers vegna ætti menntunarkerfið eitt að mótast af þessari arfleið? Væri ekki bara betra að sleppa þessu rugli yfirhöfuð?

Kristján Hrannar Pálsson, 29.5.2008 kl. 09:22

13 Smámynd: Freyr Bergsteinsson

Nú hafa komið fram ansi margar vel orðaðar og skynsamlegar gagnrýnisraddir. Er von á svari frá Bjarna?

Freyr Bergsteinsson, 29.5.2008 kl. 09:52

14 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Þar að auki er beinlínis villandi að bera Ísland saman við Bandaríkin þegar kemur að trúmálum og þjóðkirkju. Nær væri að bera landið saman við t.d. Frakkland eða Holland.

Kristján Hrannar Pálsson, 29.5.2008 kl. 12:42

15 Smámynd: Bjarni Harðarson

sæll freyr og þið öll. úr því að svo fallega er beðið um svar! í mínum huga er það dæmi um ofstæki að segja að afþví að kirkjan brenndi hér menn eða prestar börnuðu vinnukonur eigi ekki að byggja menntun á kristilegri menningararfleifð. við getum með sömu rökum hafnað því að vera íslendingar eða menn yfir höfuð því saga mannsins er heilt yfir frekar grimm og það á við um okkar land líka. staðreyndin er aftur móti sú að við erum menn og erum fædd inn í kristna menningararfleifð með kostum hennar og göllum. við getum valið að vera trúuð og valið að vera trúlaus en við getum ekki valið að vera ekki hluti af hinni kristnu menningararfleifð í samfélagi þjóðanna. allt slíkt er hroki gagnvart sögunni og menningunni. já og kristján, vitaskuld er allt okkar lagaumhverfi og siðgæði stofnana okkar bæði lögreglu og þessvegna vegagerðar af því að þú talar um hana - gegnsýrt af sögunni og þar með hinni kristnu menningararfleifð okkar.

Bjarni Harðarson, 29.5.2008 kl. 12:46

16 identicon

Bjarni viltu vera svo vænn að svara þessu sem ég spurði þig hér að ofan.

Bjarni hvernig byggist kennsla á kristinni menningararfleifð? Hvernig er það í framkvæmd? Hefði ekki verið markvissara að setja þetta inn í aðalnámskrá ef þetta á að snúast um námsefnið og kennsluna?

Læt þetta duga í bili.

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 13:11

17 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Aumt var það.

Bjarni, hver berst gegn kristindómsfræðslu? 

Matthías Ásgeirsson, 29.5.2008 kl. 13:24

18 identicon

Kommon Bjarni, svaraðu spurningunum.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 13:25

19 Smámynd: Bjarni Harðarson

strákar mínir - þolinmæðin er nú ekki ykkar sterkasta hlið. en svo ég svari spurningu arnolds björnssonar sem ég á einfaldlega svoldið erfitt með að taka alvarlega og þessvegna sleppti ég henni fyrr. ef semsagt ágreiningurinn snýst aðeins um það hvar í lagabókstafnum hin kristna menningararfleifð á að vera,- lögum, reglgerðum eða námsskrá,- þá erum við ekki að deila um nein grundvallaratriði. hin umdeilda lagaklásúla er svohljóðandi: Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. hvað af þessu vilja menn taka úr lögunum og setja í aðalnámskrá eða kannski reglugerðir... það er hægt að deila um þetta en frekar barnalegt að færa deiluna í sandkassaleik um það hvar í lagacorpus einstök atriði skuli vera. reyndar vildum við í stjórnarandstöðunni hafa í þessari upptalningu mannréttindi líka en það var kannski bara einhver misskilningur hjá okkur!!! ykkur finnst sjálfsagt að mannréttindin eigi bara líka að vera í aðalnámskrá. málið er að sem þingmaður kem ég ekki að samningu námskrár en get beitt áhrifum mínum við setningu venjulegra laga - og já ég beiti mér fyrir að menn kannist við sjálfa sig og sinn uppruna þar...

Bjarni Harðarson, 29.5.2008 kl. 13:37

20 identicon

Bjarni, þú hefur ekki ennþá svarað því hverjir séu að berjast gegn kristinfræðikennslu. Þú ert hins vegar búinn að staðfesta að þessi klausu um menningararfleifð er innihaldslaus.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 13:44

21 identicon

Það er algeng og endurtekin mýta að ríkiskirkjan sé eitthvað hófsöm í trúmálum. Það er hún sannarlega ekki og lítið mál að færa rök fyrir því. <a href="http://www.google.com/custom?hl=en&cof=&domains=www.vantru.is&q=r%C3%ADkiskirkjan&btnG=Search&sitesearch=www.vantru.is">Það hefur enda margsinnis verið gert</a>.

Önnur mýta er sú að ríkisrekin kirkja verði löt og sljó og allt fjármagnið sem streymir til hennar sjái til þess að þegnarnir losni við ofstæki og yfirgang í trúmálum. Þetta er ekki nema að litlu leyti rétt. Ríkiskirkjan hefur t.d. undanfarin misseri ekki verið neitt sérlega löt við að herja á grunn- og leikskóla landsins til að hirða til sín sálir og sóknargjöld. Í stað goðsagnarinnar um hófsemi og umburðarlyndi sjáum við frekju og yfirgang. Kirkjan stundar ekkert umburðarlyndi en krefst hins vegar skilyrðislauss umburðarlyndis annarra á forsendum stjórnarskrár, nánar tiltekið klausu sem er alger tímaskekkja.

Og hver eru svo svörin þegar þessi ofstækisfulla stofnun er gagnrýnd. Sjaldnast eru þau málefnaleg, miklu fremur eru reynt að gera gagnrýnandann tortryggilegan með því að gera honum upp annan málflutning en hann í raun hefur. Það er sorglegt að sjá Bjarna Harðarson taka við því kefli og bera upp á þá sem berjast gegn trúboði í skólum að það þeir séu á móti kennslu í kristnum fræðum. Enn sorglegra er að sjá hann beita þessari rökvillu aftur aftur og ítrekað þrátt fyrir að hann hafi verið leiðréttur. Því spyr ég: <a href="http://www.vantru.is/2005/05/06/00.00/">Hvort er Bjarni Harðarson lygari eða hálfviti?</a>

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 13:52

22 identicon

Þú segir í blogginu hér að ofan að "kennslan skuli byggja á kristinni menningararfleifð" Ef þetta snýst um kennslu að þá þarf þetta að vera í námskrá en ekki þessari lagaklasu í lögum um starfshætti leik- og grunnskóla. Er það ekki alveg augljóst? Það er því þú sem ert ekki með á nótunum Bjarni.

Og Bjarni, hver berst gegn kristindómsfræðslu? 

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 14:14

23 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Bjarni, þú segir að starf lögreglu og dómstóla sé hvort eð er gegnsýrt af kristinni menningararfleifð - atriði sem ég er algerlega ósammála reyndar - en þyrfti þá að taka það sérstaklega fram í lögum? Lagabókstafur á að vera skýr og án allra vafaatriða, og á þeim forsendum vil ég þetta ákvæði út úr því.

Kristján Hrannar Pálsson, 29.5.2008 kl. 14:22

24 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Í kjölfarið finnst mér rétt að benda á færslu eftir Svan Sigurbjörnsson, lækni, sem ég tel að Bjarni hefði gott af því að lesa.

http://svanurmd.blog.is/blog/svanurmd/entry/553351/

Bestu kveðjur

Kristján Hrannar Pálsson, 29.5.2008 kl. 14:25

25 identicon

Til að gæta allrar sanngirni getur auðvitað vel verið að Bjarni sé hvorki að fara vísvitandi með rangt mál (lygari) né að hann skilji ekki út á hvað barátta okkar gengur (hálfviti). Líklegast þykir mér að hann hafi einfaldlega ekki haft fyrir því að ljá málflutningi okkar eyra heldur kosið að trúa einfaldlega því sem aðrir fullyrða um okkar, t.a.m. kirkjunnar menn.

Bjarni, það er ekki góð pólitík að kynna sér ekki málflutning þeirra sem maður gagnrýnir. Það er frekar sloppí að taka bara upp á arma sína orðið á götunni og halda því á lofti án allrar rýni. Nú hafa fjölmargar greinar verið skrifaðar um þessi mál á Vantrú og því hægt að gera þá lágmarkskröfu að menn kynni sé það fyrst áður en farið er að fullyrða eitthvað um það í hverju þær skoðanir felast. 

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 14:27

26 Smámynd: Óli Jón

Ég leyfi mér að vitna í ræðu greinarskrifara sem hann flutti á Alþingi fimmtudaginn 22. maí sl., en þar sagði hann m.a.:

Hugmyndin um það að íslenskt menntakerfi taki ekki mið af kristilegri arfleifð og kristilegu siðgæði er nefnilega algjör móðgun við íslenska menningararfleifð.

Fyrst greinarskrifari er svo áfjáður að festa áhrif kristinnar arfleifðar og kristins siðgæðis í lög, þá hlýtur hann að geta útskýrt með nákvæmum hætti í hverju þessi áhrif eru fólgin og með hvaða hætti þessi ákvæði muni bæta skólastarf í framtíðinni. Ef ekki, þá er þessi lagasetning óskýr og óskýr lög eru engum til góðs. Lög sem hver og einn getur túlkað eftir eigin geðþótta eru vond lög. Eftir að hafa verið spurður í tvígang, gat Guðni Ágústsson skilgreint &#39;kristið siðgæði&#39; í Kastljósi þannig, eftir að hann hafði verið spurður í þriðja sinn; "af því það er svo fallegt!" Eftir að hafa fengið þrefalt tækifæri til að svara spurningunni var þetta svarið. Við gætum kannski fundið málamiðlun í því að lögfesta að skólastarf eigi að vera fallegt? Ég vona altént að Bjarni hafi skýrari svör en formaðurinn. Ef ekki, hvar liggur þá móðgunin?

Þá var fyndið að sjá Bjarna agnúast út í baráttu vantrúaðra og trúlausra fyrir veraldlegum leik- og grunnskólum þar sem hann sagði okkur tala fyrir hönd fárra. Samt liðu ekki nema nokkrar mínútur uns hann tók sér það leyfi að fullyrða hvernig hugur trúlausra sé stemmdur gagnvart kirkjunni:

Því það get ég fullyrt við hinn háa þingheim &#151; þó að ekki sé nú margt í salnum núna, en mér finnst rétt samt að þetta allt komi fram og mun ekki láta af &#151; að okkur sem erum heiðin, sem höfum enga sannfæringu fyrir tilvist himnafeðganna, sem höfum enga sannfæringu fyrir því að neitt meira sé til en það sem við sjáum, að okkur líður mjög vel í hinni íslensku þjóðkirkju, í hinu hófsama og afslappaða andrúmslofti þar sem allir geta verið.

Það hlýtur afar gott að hafa svona rosalega mikið rétt fyrir sér meðan allir hinir asnarnir vita ekkert í sinn haus! Hver er þarna að tala fyrir hönd annarra og fullyrða um hluti sem ekki er hægt að fullyrða um? Hvað þá að hægt sé að fullyrða að trúlausum líði vel í kirkju í "því hófsama og afslappaða andrúmslofti" sem þar er að finna. Í mínum huga eru þetta hálfgerð refhvörf. Eiginlega algjör.

Hvað varðar baráttu mína gegn kristinfræðikennslu í skólum, þá kannast ég ekki við hana meðan sú kennsla fer fram á hlutlægum og faglegum grunni í formi trúarbragðafræði. Það talar enginn gegn uppfræðslu um kristna trú eða aðra trú ... við tölum gegn kristniboði og kristilegri innrætingu í skólum.

En spurning mín hér að framan stendur. Ég hlakka til að sjá svar við henni!

Óli Jón, 29.5.2008 kl. 15:39

27 Smámynd: Bjarni Harðarson

hér vantar ekki stóru orðin og ég tel mig hvorki betri né verri fyrir það að vera af ofstækismönnum kallaður lygari og hálfviti - varðandi hina meintu spurningu þá er því einfaldlega til að svara að þeir taka hana til sín sem eiga! og hafa gert.

Bjarni Harðarson, 29.5.2008 kl. 15:53

28 Smámynd: Bjarni Harðarson

afsakið málvillu, átti að vera svona: hér vantar ekki stóru orðin og ég tel mig hvorki betri né verri fyrir það að vera af ofstækismönnum kallaður lygari og hálfviti - varðandi hina meintu spurningu þá er því einfaldlega til að svara að þeir taka til sín sem eiga! og hafa gert.

Bjarni Harðarson, 29.5.2008 kl. 16:00

29 identicon

Hvað ertu að tala um Bjarni? Þú hlýtur að geta svarða þessari spurningu. Hver er að berjast gegn kristindómsfræðslu í skólum?

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 16:09

30 identicon

Köllum þennan gjörning réttu nafni: Virðingarleysi, það er það sem þetta er, sagan mun dæmi ykkur fyrir þetta.

DoctorE (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 17:05

31 identicon

Bjarni, eru þetta einu viðbrögð þín, að draga fram gamla þreytta ofstækisstimpilinn? Segðu okkur frekar hvort:

 1. Þér sé fyrirmunað að skilja muninn á fræðslu og trúboði

2. Þú horfir viljand fram hjá því sem búið er að útskýra fyrir þér.

3. Einhver þriðja ástæða.

Endilega útskýrðu hvers vegna þú gengur fram með þeim hætti sem sjá má hér að ofan. Verðu þig gagnrýninni í stað þess að veifa gömlum skítugum druslum.

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 20:42

32 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég er ekki talsmaður Bjarna en leyfi mér að blanda mér í umræðuna í þeirri von að geta eitthvað liðkað til um sátt. Kristján Hrannar spyr:

Hvers vegna ætti menntunarkerfið eitt að mótast af þessari arfleið? Væri ekki bara betra að sleppa þessu rugli yfirhöfuð?

Vegna þess að það er hefð fyrir því að skólastarf mótist af einhverri hugmyndafræðilegri sýn ólíkt t.d. vegagerð eða slökkviliði eins og dæmi eru tekin um.

Arnold Björnsson spyr:

Bjarni hvernig byggist kennsla á kristinni menningararfleifð? Hvernig er það í framkvæmd? Hefði ekki verið markvissara að setja þetta inn í aðalnámskrá ef þetta á að snúast um námsefnið og kennsluna?

Þetta er útfærsluatriði hvers skóla fyrir sig í skólanámsskrá sem allir grunnskólar eiga núna að gera, reyndar lúta fyrirmælin í lögunum ekki að námsskrá heldur frekar að hugmyndafræðilegri sýn. Þessu þarf að gera greinarmun á.

Matthías og Arnold spyrja:

Bjarni, hver berst gegn kristindómsfræðslu? 

Ég tel að hér sé of mikið gert úr orðalagi Bjarna um fræðslu og kennslu en blessunarlega hafa veraldarhyggjumenn ekki lagst gegn henni af neinum þunga, eins og hér hefur komið fram í athugasemdum,  heldur einbeitt sér gegn trúarinnrætingu - sem er skiljanleg afstaða. Það má þó finna dæmi þar sem talað er um kristindómsfræðslu, t.d. Hér:

Að lokum kemst Guðmundur þó að þeirri niðurstöðu að hægt sé að halda kristnidómsfræðslunni innan lýðskólakerfis á Íslandi enda sé íslenskt samfélag mjög einsleitt hvað kristni varði, hér sé engin togstreita um stöðu kirkjunnar gagnvart ríkinu auk þess sem &#147;prestastétt vor er frjálslynd&#148;. Allt gæti þetta hafa átt við fyrir hundrað árum en öllum má ljóst vera að svo er ekki lengur.[Leturbr. RGB] Sjá: http://www.vantru.is/2007/12/30/08.00/

Birgir skrifar:

Nú hafa fjölmargar greinar verið skrifaðar um þessi mál á Vantrú og því hægt að gera þá lágmarkskröfu að menn kynni sé það fyrst áður en farið er að fullyrða eitthvað um það í hverju þær skoðanir felast. 

Gott og vel en Vantrú er kannski ekki endilega það sem Bjarni var að tala um. Hún er frekar einn þátturinn í málefnabaráttu trúleysingja en þeir eru ekki allir meðlimir í Vantrú. Það er vitað mál að þeim viðhorfum hefur verið haldið á lofti í umræðu undangenginna mánaða og missera að trú eigi að vera einkamál en ekki mál sem snerti samfélagið. Trúna eigi að stunda inni á heimilunum. Það þarf nú varla að leita lengi til að heyra þeim viðhorfum haldið á lofti. Vera má að Vantrú hafi ekki gengið hart fram í þeirri baráttu. Ég held að menn geri mistök með því að fara svona nákvæmlega í saumana á orðalagi þingmanna sem þurfa oft að velja orð í flýti til að tjá hugsun sína.

Óli Jón skrifar:

Fyrst greinarskrifari er svo áfjáður að festa áhrif kristinnar arfleifðar og kristins siðgæðis í lög, þá hlýtur hann að geta útskýrt með nákvæmum hætti í hverju þessi áhrif eru fólgin og með hvaða hætti þessi ákvæði muni bæta skólastarf í framtíðinni.

Lögin Óli Jón eru ekki nákvæm fyrirmæli um kennslu eða námsskrá heldur almenn sýn eins og ég hef sagt áður. En þó svo væri þá er það ekki alþingismanna að útfæra þessa sýn nánar. Það á að vera hlutverk skólanna að útfæra þessi gildi inn í sína starfsemi. Síðari hluti spurningarinnar er samt athyglisverður, þ.e. með hvaða hætti þessi ákvæði muni bæta skólastarf í framtíðinni. Ég hygg að þeir alþingismenn sem lögin sömdu geti svarað því og reyni ekki að svara fyrir þá en ég get ímyndað mér að hugmynd þeirra sé að viðurkenna meginstrauma íslenskrar menningar og rætur hennar og að þeir álíti að þessi viðurkenning muni reynast vel í þeim áskorunum sem skólakerfið þarf óumflýjanlega að mæta í framtíðinni. Hinn hugmyndafræðilegi grundvöllur á að vera akkeri og kjölfesta skólanna þegar gefur á bátinn.

Lifið heilir.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 29.5.2008 kl. 21:55

33 identicon

Bjarni, þeir sem eru ásakaðir um lygar að ástæðulausu eiga einfalda útgönguleið, þeir benda á hvernig þeir hafi í raun verið að segja sannleikann. Í þessum athugasemdiþræði er síendurtekin spurning (hver er að berjast gegn kristinfræðikennslu) sem þú gætir svarað ef þú værir ekki að ljúga en þú hefur ekki gert það.

Ég ætla á næstunni að leggja mig fram við að reyna að hitta þig í eigin persónu og þá muntu ekki komast hjá því að svara fyrir þetta. 

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 03:19

34 identicon

Þið eruð ekkert skárri en Jón Valur og Co - takið ekkert svar gilt nema ykkar eigið.

Barði Barðason (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 11:35

35 identicon

Barði, hvar hefur Bjarni svarað spurningunni?

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 12:39

36 Smámynd: Bjarni Harðarson

kæri óli - ráðlegg þér að lesa pistla á t.d. vefnum vantrú og hætta þessum barnalega malanda á minni heimasíðu.

Bjarni Harðarson, 30.5.2008 kl. 20:23

37 identicon

Bentu mér á pistil á Vantrú þar sem sagt er að eigi að hætta að fræða börn kristinfræði. Það eina sem við höfum beðið um er að trúboð sé tekið út úr skólum.

Er barnaskapurinn kannski fólginn í því að ætlast til að fá heiðarlegt svar frá þér? Þú ert orðinn innvígður og innmúraður og gerir þitt til að styðja flokkslínuna óháð réttu og röngu. Sorglegt. 

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 21:06

38 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ég held að menn geri mistök með því að fara svona nákvæmlega í saumana á orðalagi þingmanna sem þurfa oft að velja orð í flýti til að tjá hugsun sína.

Ragnar, þú gengur of langt til að verja Bjarna - þú rembist.

Ég átti fund með Bjarna Harðarsyni á mánudag.  Þar útskýrði ég ítrekað fyrir honum að trúleysingjar væru ekki að berjast gegn kennslu um kristindóm, kristinfræðikennslu.  Ég mætti til hans sem einn af "talsmönnum trúleysis".

Við vorum ósammála um margt, en ég taldi ljóst að þessi skilaboð hefðu komist til skila.  Við erum ekki að berjast gegn kennslu um kristni, enginn hefur verið að gera slíkt.  Ekki Vantrú, ekki Siðmennt og ekki nokkur trúleysingi sem ég hefði rætt við eða orðið var við á netinu.

Ég kvaddi Bjarna með þeim orðum að ég treysti honum til að leiðrétta þennan misskilning næst þegar hann heyrði þessu haldið fram.

Samt endurtekur Bjarni ósannindin hér innan við tveimur sólarhringum eftir fund okkar.

Þetta er gríðarlega óheiðarlegt af Bjarna.  Ég gat alveg fyrirgefið honum dylgjur og ósönn ummæli í þingræðu, en að hann skuli endurtaka leikinn eftir að ég hafði farið yfir málið með honum sínir einbeittan brotavilja. 

Það skiptir Bjarna  ósköp einfaldlega ekki nokkru máli hvort hér er farið satt og rétt með.  Þetta snýst um pólitík, hann er þingmaður í kristilegum flokki og hann spilar eftir flokkslínunni.  Hann afsakar sig með því að þetta séu skoðanir hans.  "Skoðanir".  Nei, þetta eru ósannindi.  Bjarni getur haft þá skoðun að rangt sé að berjast gegn kristinfræðikennslu, ég væri líka sammála honum, en hann getur ekki haft þá skoðun að slík barátta hafi átt sér stað og "talsmenn trúleysis" séu á bak við hana.

Ég gekk út af fundi Bjarna á mánudagskvöld fullviss um að hann væri maður orða sinna, traustur einstaklingur.  Ég hafði enga ástæðu til að halda annað.  Ég vissi að við værum ósammála um ýmislegt, Bjarni er sanntrúaður á mátt og mildi ríkiskirkjunnar.   Ég myndi jafnvel segja að hann væri ofsatrúaður að því leyti, því ekki hefur hann góð rök í því máli, en það er allt önnur umræða.

Í ræðu sinni á Alþingi sem Bjarni vísar í máli sínu til stuðnings talaði hann með mikilli fyrirlitningu um hroka trúleysingja sem halda því fram að Gvuð sé ekki til og vísaði þá væntanlega til Gvuðs kristinna manna, því við vitum að mennirnir hafa fundið upp ótal gvuði.

Bjarni Harðarson hefur aldrei minnst einu orði á þann hroka trúmanna sem halda því fram að Gvuð sé til.  Það segir sig sjálft að sú afstaða hlýtur að vera nákvæmlega jafn hrokafull og hin.

Nei, Bjarni drullaði bara yfir annan hópinn enda þarf hann að spila með liðinu - hinum kristna Framsóknarflokki.  Hann spilar sína stöðu vel. 

Matthías Ásgeirsson, 30.5.2008 kl. 23:23

39 identicon

Hver er að berjast gegn kristindómsfræðslu í skólum?

Sævar (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 15:08

40 identicon

Auðsvarað: Engin

Þórður Ingvarsson (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 03:58

41 Smámynd: LegoPanda

Mér sýnist af öllu að þú skammist þín fyrir það að hafa misst trúna, og sért að reyna að bæta það upp með því að tryggja kristnu trúboði aðgang að grunnskólum.

 Hvers vegna þarf ,,kristin arfleifð" að standa í grunnskólalögum? Er ekki augljóst að menning okkar hefur eitthvað mótast af kristinni arfleifð síðan árið 1000? Þarf að skrifa það í lög skólanna?

Síðan hvenær er það hófsamt að nefna sérstaklega kristna arfleifð? Er það nokkuð annað en vandræðaleg og óverðskuldug tillitsemi í garð ríkiskirkjunnar, sem vill helst hafa beint aðgengi í skólana? Persónulega finnst mér það merki um meira hóf að nefna engin trúarbrögð sérstaklega í grunnskólalögum. 

LegoPanda, 1.6.2008 kl. 13:12

42 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ef við eigum að halda í "kristna arfleið", er þá ekki allt í lagi að leggja áherslu á það í kristinfræðikennslu að aðfarirnar við að troða kristni upp á landann hafi ekki alltaf verið fallegar? Og hversu blóðug slóð kristninnar er?

Annars er hin góða arfleið okkar, manngildi og dugnaður, og hefur ekkert með kristni að gera.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 4.6.2008 kl. 01:16

43 identicon

Sæll Bjarni.

Alltaf gott að sjá að þú heldur þinni sannfæringu. Hins vegar þarf gífurlega mikla trú ,til að trúa ekki á neitt.Gruna þig um að ef ég bæði þig þá myndirðu koma með mér á samkomu, þó svo það væri einungis af forvitni. Framsóknarmennsku fylgir þó mikil þrjóska, sem er nauðsynleg og margskemmtileg oft og haltu fast í hana. Varð endilega að koma með smá komment, þar sem rifjuðust upp gamlar minningar um rökfærslu þína fyrir trúleysi þínu.

Kveðja Jenný Gísladóttir

Kveðja Jenný

Jenný Gísladóttir (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 05:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband