Gamla kratastefnan í ESB málum samþykkt í öllum fjórflokknum!

Nú hefur ESB-sinnum tekist að berja í gegnum allan fjórflokkinn þá stefnu að efnt skuli til ESB kosninga. Það er smá útfærslumunur á því hvenær og hvernig þær kosningar skuli haldnar en allir flokkarnir hafa gert að baráttumáli sínu þá gömlu draumsýn esb-krata að byrja á kosningaferli sem aðeins getur endað á einn veg. Þegar lýðræðishugsunin er sú að kosið skuli þar til "rétt" niðurstaða er fengin þá er alveg ljóst að ESB-sinnar hafa sigrað um leið og menn samþykkja að byrja leikinn. Það  breytir engu þó að þjóðin segi einu sinni nei, bara smá töf á ferlinu. 

Framan af síðasta kjörtímabili var það einmitt stefna Samfylkingarinnar að knýja fram atkvæðagreiðslu um það að senda sendinefnd út til Brussel. Þessa sömu stefnu tók ESB sinninn Birkir Jón upp í Framsóknarflokknum á síðasta vetri og varð upphaf að þeim klofningi sem endaði með afsögn Guðna Ágústssonar síðastliðið haust.

ESB andstæðingar í bæði Sjálfstæðisflokki og VG hampa því að þeir hafi unnið mikla sigra vegna þess að í flokkssamþykktunum er jafnframt tekið fram að flokkar þessir telja að hagsmunum Íslands "hafi verið" betur borgið utan ESB en athygli vekur að þetta er þátíðarsögn í ályktunum beggja flokka. 

Sjálfstæðisflokkur gengur reyndar heldur lengra í að tefja málið en hinir flokkarnir en það er töf sem getur orðið afar dýrkeypt eins og ég bloggaði um í morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Því miður er útlit fyrir að Samfylkingin verði í næstu ríkisstjórn. Ég er voðalega hræddur um að Samfylkinguni takist að þvinga annað hvort Vg eða Sjálfstæðisflokkinn til aðildarviðræðna. Líkt og henni var nærri búið að takast áður en búsáhaldabyltingin bjargaði okkur frá þeim ófögnuði.

Offari, 27.3.2009 kl. 18:10

2 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll Bjarni.

Reyndu nú að opna augun fyrir stöðunni eftir samþykktir VG og nú Sjálfstæðisflokksins. Mitt mat er þetta:

Eftir samþykkt landsfunda þessara stóru flokka (VG og D) um ESB-mál, þar sem báðir tala skýrt, er augljóst að ekki kemur til aðildar Íslands að Evrópusambandinu í fyrirsjáanlegri framtíð. Hver sem úrslit alþingiskosninga verða eftir mánuð má telja útilokað miðað við fylgiskannanir að mynduð verði ríkisstjórn að þeim loknum sem sæki um aðild að ESB.

Skoðanakannanir undanfarið sýna líka að ekki er meirihlutafylgi við umsókn, hvað þá um aðild að ESB. Nú fyrirliggjandi afstaða VG og D veldur því líka að afar ósennilegt er að til þjóðaratkvæðagreiðslu komi um aðildarumsókn á næsta kjörtímabili.

Taktu eftir orðalaginu í ályktun Sjálfstæðismanna þar sem segir: "Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild ..." skuli fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun. Slíkt skref verður auðvitað ekki stigið fyrir atbeina þeirra stjórnmálaflokka sem andvígir eru aðild og þannig stendur Samfylkingin nú sem fyrr einangruð með þetta áhugamál sitt.

Hjörleifur Guttormsson, 27.3.2009 kl. 18:16

3 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Finnst nú hart að segja að stefna sem gengur út á að flokkurinn er á móti ESB en ef að meirihluti alþingis vilji fara í aðildarviðræður þá skuli það borið undir þjóðaratkvæði hvort að það skuli farið í viðræður' Þetta er í raun engin stefna.

Magnús Helgi Björgvinsson, 27.3.2009 kl. 18:41

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég tek undir það sem Hjörleifur segir, eftir að hafa setið landsfund Sjálfstæðisflokksins í gær og dag. Drögum að ályktum landsfundarins var snúið á haus með endanlegri samþykkt. Það sem er þó merkilegra er viðsnúningur Bjarna Ben. og Kristjáns.

Báðir þessir frambjóðendur eru nú opinberlega andvígir inngöngu í Evrópusambandið. Það verður ekki létt fyrir þingmenn flokksins að ganga á bak þessum afdráttarlausu yfirlýsingum. Við skulum samt vera vel á verði.

Loftur Altice Þorsteinsson, 27.3.2009 kl. 19:04

5 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Magnús hefur flýtt sér um of við lestur ályktunarinnar. Þarna segir:

Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það krafa Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna.

Þessi krafa Sjálfstæðisflokksins tekur gildi ef Alþingi eða ríkisstjórn ætlar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Með öðrum orðum mun Sjálfstæðisflokkurinn beita afli sínu til að ekki verði farið í viðræður við ESB, nema með samþykki þjóðarinnar.

Jafnframt skal fara fram umræða um samningsmarkmið, þannig að almenningi sé fullkomlega ljóst um hvað er verið að kjósa. Er þetta ekki heiðarleg og sanngjörn krafa, ef til dæmis VG og Samfylking ætla að ganga til samninga við ESB ? Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki hafa forustu um inngöngu í Evrópubandalagið, eins og skýrt kemur fram í ályktuninni.

Loftur Altice Þorsteinsson, 27.3.2009 kl. 19:47

6 identicon

Bjarni. Hættu nú að afflytja það sem VG segja um ESB málin. Farðu nú að snúa þér að krötunum og reyna að fá þá á okkar band. 

" Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins"

Bls. 11 í ályktun fundarins sem finna má á www.vg.is og þarna stendur ekkert  "hafi verið".

Þarf að misskilja þetta eitthvað ?

Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 19:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband