Fíflskan í heimahlaðinu og vísitölujón á blettinum

Merkur áfangi náðist í dag hér á Sólbakka þegar sláttur hófst og þar með var bundinn endi á óvinveitta yfirtöku túnfífilsins yfir landareign vorri. Já eign því öfugt við flestar lóðir hér við Ölfusá er gamla Sólbakkalóðin 900 fermetra eignarlóð og það downtown á Selfossi. Nú var svo komið að túnfífillinn er á góðri leið með að leggja undir sig blettinn okkar og bílaplanið. Lýsir vitaskuld miklu umburðarlyndi í garðræktarmálum en skyndilega áttaði ég mig á þeim óvinsældum sem ég gæti kallað yfir mig hér í latínuhverfinu ef fíflar þessir breyttust nú allir í biðukollur og fjölguðu sér af meira kappi en svo að lóðin hér dygði þeim til landnáms. Fíflska samfélagsins er nóg þó svo að þessi gulheimski litur bætist ekki við.

Og þá var að möndla sláttuvélinni út úr bílskúrnum og að mér sækja ankanalegar kenndir. Þetta er nefnilega ákveðinn kapítuli í sálarlífi mínu. Á sínum tíma keypti ég forláta bensínsláttuvél rétt eftir að við hjónakornin fluttum á Selfoss og töldumst þá kornung, (nb: við erum ennþá ung, bara ekki barnung lengur.) Og nema hvað sem ég kem með vél þessa stoltur í karlmennsku minni yfir að eiga orðið enn eina bensínvélina í hlaðinu, fyrir voru auk bíls, mótorhjól og sláttuorf og horfi stoltur yfir eignasafnið og læt mig dreyma um að einhverntíma verði það alvöru traktor, þá, einmitt þáopnast útidyrnar og ég verð óvænt og óvarinn fyrir leiftursókn frá vinstri. 

- Þú skilar þessari vél. Við vorum með rafmagns og ég vil fá aðra svoleiðis.

Konan mín talaði með rödd sem ég hefði viljað banna og merkir aðeins eitt. Stríðið var fyrirfram tapað. Reyndi samt aðeins en lúpaðist svo til að samþykkja að skila dýrgripnum og að hún sjálf veldi forláta rafmagnsvél í staðin fyrir þá gömlu sem var einhverskonar snemmbúið erfðagóss ofan úr afdölum og mig var búið að hlakka til að gengi úr sér.

Ég má því enn sniglast um með næstum því hljóðlaust og karakterlaust rafmagnshimpigimpi um blettinn. Það er kannski ekki verst. Verst er að mér er farið að standa á sama og jafnvel farið að þykja vænt um hvað það heyrist lítið í vél þessari, feginn að þurfa ekki að skrúfa kerti og pússa af því sót eða blanda tvígengisolíu. Og svo finnst mér bara skemmtilegt að ganga hér um blettinn eins og gaggandi vísitölujón eða kótelettukarl. Þetta er skelfilegt.

Þið munið hvað segir í Hávamálum:

Svo ergist hver sem eldist!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð saga hjá þér Bjarni þetta með tvígengis bensín slátturvélina.

Ég sé þig alveg fyrir mér Bjarni en minnist þín nú líka nokkuð fyrir tíma Elínar þinnar og þá á annarri en nokkuð hávaðasamri tvígengisvél en það var eiturgræni Trrrabbinn þinn sem þú í eina tíð þeystist á um sveitir landsins og jafnvel alla leið austur á firði.

Það hefur kanski verið svona í einhverri trabískri eftirsjá sem þú fékkst þér slátturvélina.

Kveðja.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 20:57

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

nákvæmlega gulli,- mig langar enn að fá mér trapant aftur!

Bjarni Harðarson, 1.6.2009 kl. 22:08

3 identicon

Og á hvað fer hún?

ALveGsjORE (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 22:37

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Minn málskilningur á : svo ergist hver er eldist.

Er að hvar verði mýktri og síður til átaka.

Gamlast og verða sem karlæg kerling

Argur (hinsegin í homma skilningi þess orðs)

Miðbæjaríhaldið

Líkt og sá eineygi, fjarri því að vera argur.

Bjarni Kjartansson, 2.6.2009 kl. 09:23

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Skemmtileg saga, veifa í þig næst þegar ég keyri framhjá

Ásdís Sigurðardóttir, 2.6.2009 kl. 12:42

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk, skemmtileg færsla!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.6.2009 kl. 16:15

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

"Já það er mörg búmannsraunin" en þessi saga góð///Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 2.6.2009 kl. 23:22

8 identicon

Ætli gulleiti móinn á bakvið gamla bankann eigi ekki frekar sök á því að "latinuhverfið" hér við árbakkann er orðið nánast eins og gul gata, og hér höfum við Brói á næsta bæ bograð við að slíta upp fífilinn - líkt og fleiri sendir út af betri helmningnum, fullvissi ég þig um.

Minnir mig á kappreiðar á Murneyrum fyrir ca 25 árum, þar sem gall yfir áhorfendum:

"Næstur er Helgi Haraldsson á Fífli!"

-sigm. (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 08:53

9 Smámynd: Jón Sigurðsson

Þú átt samúð mína alla. Að slá með "karakterlausri" sláttuvél er mannskemmandi. Ég hef eignað mér minn reit í garðinum mínum og það er sláttureiturinn. Ég er hlýr og allt það og jafnvel tillitsamur ef nánar er kafað,  elska konuna, börnin, tengdadætur og barnabörn en afskiftasemi hvernig garðurinn er slegin er mikið áfall. Ég er sleginn

Jón Sigurðsson, 3.6.2009 kl. 20:38

10 identicon

„...og mig var búið að hlakka til að gengi úr sér.“

Æ! Æ! 

Þorvaldur (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband