Blaðamannastéttin lofti út

Mér líst ekki á það. Þú veist það sjálfur að þá er ég ekki með lengur í umræðunni, sagði ungur stjórnmálamaður við mig fyrir nokkrum mánuðum þegar við ræddum um ESB málin og ég hvatti hann til að fylgja þar sannfæringu sinni og vera á móti öllum tilraunum til að þoka okkur þar inn.

Viðkomandi sem er nýsestur í eftirsótt ábyrgðarstarf talaði um það sem sjálfsagt og sjálfgefið að stjórnmálamaður sem ekki taki með einhverjum hætti þátt í því að mæla með næstu skrefum í ESB aðild væri sjálfkrafa dæmdur úr leik. Hann yrði útmálaður og hann yrði sniðgenginn. Þessvegna ákvað þessi byrjandi í faginu að sigla milli skers og báru, slá úr og í og hefur fyrir vikið orðið sæmilega ágengt.

Ég hafði greinilega rangt fyrir mér þegar ég varaði hann við því að tala tungum tveim, - ég hélt í barnaskap mínum að fjölmiðlar myndu tortryggja slíka umræðu og vefja honum í gildrur mótsagna en það er öðru nær. Þegar kemur að ESB umræðunni eru þeir einir tortryggðir af hinni íslensku elítu sem ekki vilja syngja með í ESB möntrunni sem hefur verið dyggilega ræktuð af útrásarvíkingum og þeirra pólitísku snötum.

Víkingar þessir höfðu meðan þeir voru lífs mikið og vel þjálfað starfslið blaðamanna, rithöfunda og talsmanna, að ógleymdum fulltrúum meðal samtaka atvinnulífs og stjórnmálaflokka. Nú þegar veldin eru hrunin sitja talsmennirnir enn á greinunum og reyna að kyrja hluta af útrásarsöngnum.

Sami blaðamaður og skrifaði fyrir nokkrum árum lofbækur um íslenska auðmenn skrifaði nú á hrunvetri langlokur um það að ef Ísland ekki gangi í ESB þá fari landið aftur á hausinn, líklega aftur og aftur að eilífu!

Íslenska elítan er lítil og hefur merkilega lítið stækkað þó svo að íbúafjöldi í landinu hafi tvöfaldast. Á mínum barnsárum mátti enginn yrkja nema vera vinstri maður og sama þröngsýnin ræður því að nú má enginn vera marktækur nema hann hafi að minnsta kosti einhverja „evrópuvitund" eins og fylgispekt við ESB er kölluð í lærðum ritgerðum háskólasamfélagsins í dag. Allt er þetta hluti af brjóstumkennanlegri heimóttakennd þeirra manna sem halda sig hafa séð hafa ljósið.

Í þjóðsögum okkar Íslendinga eru þeir draugar taldir verstir sem reyndu að gera það dauðir sem þeim ekki tókst lifandi. Útrásarvíkingarnir reyndu leynt og ljóst að grafa undan fullveldi og lýðræði á Íslandi en hvorutveggja varð tafsamt fyrir gangstera. Svo er að sjá sem hvorki veldi Jóns Ásgeirs eða Bakkabræðra lifi það af að sjá þennan kaldranalega draum verða að veruleika. En þetta getur engu að síður gengið eftir og er þá draumur hinna dauðu.

Gegn þessari vá er aðeins ein vörn en hún felst í því að siðferði í stjórnmálum, blaðamennsku og viðskiptum verði lyft á hærra plan. Afsagnir og uppsagnir verði viðurkennt almenn leið til betri tíðar.

Nú þegar gerðar eru húsleitir hjá lánlitlum áhættufíklum er tímabært að þeir sem vörðu sömu menn og lærðu hjá þeim söngvana geri upp sína fortíð.

Blaðamannastétt sem ætlar að gera siðlegar kröfur á viðskiptalífið verður sjálf að standa undir því sama. Þeir sem harðast gengu fram í að lofa maurapúka liðinna daga eiga að segja af sér, hvort sem þeir sitja í ritstjórastólum eða fréttamanna. Fyrr verður ekki loftað út á Íslandi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband