Davíðs-innsogið og fúkyrði DV-ritstjórans

Það hafði skemmtanagildi að hlusta á Vikulokin hjá Hallgrími Thorsteinssyni í morgun þar sem rifist var á innsoginu yfir ráðningu Davíðs Oddssonar til Morgunblaðsins.

Þátturinn endaði skemmtilega á umfjöllun DV um Björgólfana þegar Reynir Traustason var spurður að því hvort þar yrði sambærileg umfjöllun um aðra útrásarkónga. Í stað þess að svara hreytti ritstjórinn fúkyrðum að spyrjandanum, Sigurði Kára Kristjánssyni sem kynnti sig reyndar sem óbreyttan lesanda sem ekkert vissi meira um mál Björgólfa en allur almenningur.

Sigurður Kári er aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem ber ábyrgð á vafasömu veldi Björgólfanna. Og aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins er ekki bara einhver úti í bæ.

Reynir Traustason er í vinnu hjá hinni útrásarklíkunni og DV ber þess merki. Fúkyrði breiða ekkert yfir þá staðreynd.

Davíð Oddsson verður auðvitað prýðilegur ritstjóri, enda pennafær og skemmtilegur. En Morgunblaðið tapar auðvitað heilu áratugunum í þeim árangri að verða blað allra landsmanna. Og mér er til efs að spenningur fyrir leiðaraskrifum þessa magnaða penna dugi til að vinna á móti því tapi. En það er mál Moggans. 

Mér er líka til efs að ráðning Davíðs sé endilega svo hagstæð okkur sem erum skoðanabræður hans í ESB-málum. Líklegast er að umræðan flytjist nú enn meira í skotgrafir og verði ómálefnalegri en ætti að vera.ESB-andstæðinar græða mest á rökfastri, hógværri og málefnalegri umræðu. Reyndar fer Davíð vel af stað með leiðaranum í dag og guð láti gott á vita. 

Já og talandi um Sigurð Kára. Hann er aðstoðarmaður Bjarna Ben. Ef það er einhver sem ætti að hafa raunverulegar áhyggjur af ráðningu Davíðs þá er það Bjarni og klúbburinn sem hann veitir forstöðu. Sú harka sem nærvera Davíðs hleypir í alla umræðu gæti orðið til að einangra Sjálfstæðisflokkinn um langa hríð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni tvíræðið eykst i þinum skrifum að mínu mati,það verður ekki bæði sleppt og haldið /Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 26.9.2009 kl. 15:29

2 identicon

Félagi Bjarni !

 Í dag 26.september 2009, er " Davíðs-syndrómið" hreint og beint barnalegt aukaatriði.

 Í dag horfumst við Íslendingar hinsvegar í augu við algjört hrun vegna ICESAVE.

 Stöndum einir.

 Jafnvel Norðmenn rétta ekki hjálparhönd.

 Allt þetta vegna hryllilega gallaðs regluverks í bankarekstri .

 Aldrei fyrr hafa ALLIR bankar einnar þjóðar, hrunið á einni viku !

 Vart að hægt sé að horfast í augu við framtíðina.

 Framundan efnahagsleg ísöld - landflótti - hrun !

 Verður erfitt að framfylgja sem Rómverjar sögðu.: " Acquam memento rebus in arduis servasre mentem" þ.e. " Að halda höfði" !

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 16:26

3 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Bjarni segir: "Sú harka sem nærvera Davíðs hleypir í alla umræðu"

Ég mundi setja þetta í þátíð, Bjarni. Reyndar ertu í færslunni þegar búinn að ljá máls á því að Davíð geti tjáð sig án þess að gjörvallur vinstri kanturinn fari á hliðina.

Þetta er reyndar maðurinn sem kom bæði Ólafi Ragnari Grímssyni og Steingrími Sigfússyni úr jafnvægi svo að eftir er munað. En menn geta breytst - einkum ef þeir horfast í augu við það  að á sjötugsaldri er mönnum hollt að leggja af háttu hrekkjusvínsins

Flosi Kristjánsson, 26.9.2009 kl. 18:27

4 identicon

"Sigurður Kári er aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem ber ábyrgð á vafasömu veldi Björgólfanna. Og aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins er ekki bara einhver úti í bæ."

Ekki ætla ég að fara að verja Íhaldið en þetta er ekki alkostar rétt hjá þér Bjarni því að Björgólfarnir hefðu ekki fengið Landsbankann nema fyrir það að Frammsóknarmenn samþykktu  og fengu Búnaðarbankan í staðinn sem sagt helmingareglan í gildi.

Annars er ég mjög ánægður með að Davíð sé orðin ritstjóri  Moggans þá fer hann fyrr á hausinn og við erum laus bæði við Moggan og Davíð.

Viðar Magnússon (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 19:38

5 identicon

Er Sigurður Kári ekki bara bílstjóri hjá Bjarna Ben?

GlG (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 22:25

6 Smámynd: Bjarni Harðarson

Þakka góða umræðu. Þykir vænt um komment Haraldar vinar míns því það lýsir einmitt því andrúmi sem við lifum í þar sem menn verða annaðhvort að halda með Davíð eða vera á innsoginu. Ég geri hvorugt og tel líka bæði barnalegt og rangt að skipa þjóðinni þannig í fylkingar. Varðandi það að Framsókn hafi stutt yfirtöku Björgólfana á Landsbanka gegn því að S-hópurinn fengi Búnaðarbankann, þá er það hárrétt. Þessvegna tel ég líka að hvorugur þessara flokka eigi sér málsbætur og styð hvorugan þeirra, nú eftir að ljóst er hvernig bankarnir voru gefnir en ekki seldir.

Bjarni Harðarson, 26.9.2009 kl. 23:05

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Kæri Bjarni - Þó þú sést ekki alveg til í að flokka sjálfan þig í ákveðið lið eða herbúðir að öðru leyti en því að vera með Davíð í andsnúna ESB liðinu, þá hikar þú ekkert við að raða Sigurði og Reyni í sitthvort liðið. Þú talar líka iðulega um hið auma pakk "kratana". Og leið og að það er búið að raða mönnum í lið er hægt að afskrifa þá.

En í raun er allt breytingum háð og Evrópusambandi sem þér finnst nú vera afsprengi djöfulsins gæti orðið eitt af hinum bestu og mestu sköpunarverkum heimskringlunnar. Í raun ekki hægt að fastsetja það til eilífðar að gallar sem að einhverjum finnast á sambandinu í dag verði þar til frambúðar. Þvert á móti má gera ráð fyrir að það slípist til og að það séu líka hagsmunir annarra landa að sníða af því helstu agnúana.

Þannig var ég alveg búin að afskrifa DV en keypti blaðið í gær eftir langt hlé. Mér fannst blaðið fullt af áhugaverðu efni. Þar á meðal var úttekt Halldórs Halldórssonar á gróða þeirra í Pétursborg áhugaverð lesning. Er það sanngjarnt að gera hana ómerkilega með því að hliðstæð úttekt verði ekki gerð á Jóni Ásgeiri? Sem sagt ég er búin að skipta um skoðun varðandi DV og finnst það hafa temprað ýktasta form fyrirsagnastíls, en hafi meira inntak. Áfram beinskeytt í skrifum, sem að er ágætt á þessum tímum.

Ég skrifaði pistil í dag um tortryggnina sem að er eitt af einkennum íslenskrar þjóðarsálar og í meira lagi um þessar mundir. Það er reyndar helsta vopn andstæðinga Evrópusambandsins, án þess að ég fjallaði um það sérstaklega. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.9.2009 kl. 00:21

8 Smámynd: Andspilling

Ótrúlegt, málefnalegur moggabloggari OG andstæðingur ESB. Bjarni hlýtur að vera einsdæmi á þessum vettvangi.

Andspilling, 27.9.2009 kl. 01:00

9 identicon

Ég er viss um að hagur Morgunblaðsins vænkast verulega.  Þeir sem í sýndarmennsku sinni sögðu blaðinu upp með hávaða og látum hætta ekki að lesa það en verða nú á kaupa það fullu verði  í lausasölu og helst í laumi í sjoppum í fjarlægum hverfum, fara með það rétt eins og þeir væru að leigja eina bláa.  Þeir sem spá blaðinu öllu illu í speki sinni, vegna Davíðs, verða svo rétt eins og Ragnar Reykás að bla... bla... blaðra sig út úr því, en það vefst ekki fyrir mönnum eins og þér Bjarni, enda alvanur.  Hvenær er blað annars „blað allra landsmanna“?

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 09:37

10 Smámynd: Andspilling

Það er til lausn Sigurjón Pálsson, sjálfstæðsiflokksdýrkunin er ekki ófrávíkjanleg bölvun. Þú þarft eingöngu að hætta að setja X við D og þá mun samviskan byrja að hreinsast.

Andspilling, 27.9.2009 kl. 11:13

11 identicon

Sæll félagi Bjarni. Þætti vænt um að þú skilgreindir nánar hvað þú átt með að ég hafi veist að þeim ágæta Sigurði Kára með ,,fúkyrðum". Hver voru þau orð?

Veit að þú vilt hafa eftir það sem satt reynist. Færslan gerir út á fúkyrðin. Fékk ekki tækifæri til þess í þættinum að svara spurningunni um úttektir á öðrum útrásarvíkingum. Þar geta menn skoðað blaðið og séð að enginn fjölmiðill hefur fjallað að eins miklu marki um hina fjölbreyttu flóru manna, útrásarvíkingana. Jón Ásgeir þeirra á meðal. DV sagði fyrst fjölmiðla frá því að 365 þyrfti ekki að borga af skuldum sínum. Auðvitað má gagnrýna okkur og það er hollt. En sanngirnin verður að vera til staðar.

Reynir Traustason (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 11:18

12 Smámynd: Bjarni Harðarson

Kæri Reynir, takk fyrir innlitið. Þegar Sigurður spurði frekar vinsamlega hvort það yrðu sambærilegar úttektir á öðrum útrásarvíkingum þá varðst þú frekar önuglyndur og svaraðir einfaldlega:

- Gallinn við þig Sigður Kári er að þú upplýstir áðan að þú værir ekki áskrifandi að DV...

Því spyr ég og vona að mér leyfist það þó ég kaupi DV bara í lausasölu: 

Verða í framhaldi af Björgólfsúttektinni sambærilegar úttektir á öðrum útrásarvíkingum,- alveg burtséð frá einstökum fréttum sem þegar hafa birst?

Bjarni Harðarson, 27.9.2009 kl. 11:46

13 identicon

Sæll aftur hrútavinur. Það er ekkert nýtt að við séum með úttektir á útrásarmönnum. Það höfum við samviskusamlega gert síðan ég hóf störf á DV. Á því verður ekki breyting. Þessa dagana erum við að fjalla um aðdraganda að að einkavæðingu Landsbankans. Veit að þú ert sammála því að það er skoðunar virði og þá ekki síst í ljósi IceSave málsins. Svo þurfum við eftir efnum og ástæðum að skoða einkavæðingu Valgerðar og félaga á Búnaðarbankanum. Tel að einkavæðing ríkisbankanna skýri í mörgu það sem á eftir kom og hvernig þjóðin lenti í forarvilpunni.

Finnst sárt að þú sért ekki áskrifandi en hef að öðru leyti ekkert við það að athuga. Getum við ekki verið sammála um að ég hafi ekki notað ,,fúkyrði" á Sigga Kára. Frekar ,,önugur". Hélt samt að þetta hefði verið í léttum dúr. Sammála þér um að Bjarni Ben og Siggi Kári munu finna til tevatnsins hjá frænda þínum.

Hlakka til að mæta á kaffihúsið þitt til að deila um landsins gagn og nauðsynjar. Kom að luktum dyrum um daginn,  

Reynir Traustason (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 12:08

14 identicon

LAndsspilling: Samviska mín er hrein og fín enda situr sú stjórn sem nú er við völd ekki í mínu umboði (reyndar andstaðan ekki heldur)

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 14:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband