Guðrún frá Lundi

Dalalíf Guðrúnar frá Lundi virkar á fyrstu tuttugu blaðsíðunum eins og frekar leiðinleg bók, eiginlega eins leiðinleg og Kristmann eða Hagalín þegar þeir eru hvað leiðinlegastir. Ég áttaði mig á því þegar ég fann ofan í bókakössum fyrsta bindið af þessu mikla verki, frumútgáfu reyndar, að ég hafði byrjað á þessari bók áður og lagt frá mér.

En nú varð ég að halda áfram því einhverntíma í vetur lofaði ég vini mínum Guðjóni R. rithöfundi að mæta á ráðstefnu í sumar um þessa merku konu.

Og viti menn smám saman nær frásagnartækni Guðrúnar valdi á lesandanum, sögupersónurnar verða meira lifandi en vanalegt er í sambærilegum bókum og allur þessi dalur Dalalífsins vaknar raunverulegur og áleitinn.

Þegar bækur Guðrúnar komu út voru þær lítils metnar af bókmenntaelítum landsins en hafa smám saman hlotið meiri virðingu og viðurkenningu. Er það vel og enn skemmtilegra að nú skuli vera framundan ráðstefna um þessa merku konu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Þegar ég var smápjakkur var mamma áskrifandi að blaði sem hét, ef ég man rétt, Nýja kvennablaðið (ca. 1960). Þar las ég, nýorðinn læs, "Dalalíf" og "Sigrún í Nesi" sem ég man ekki lengur hver skrifaði. Að búa í sveit á þessum árum bauð upp á lestur alls sem að kj.... kom og ég nýt góðs af enn þann dag í dag. (Er fæddur 1954). Hver skrifaði þá fallegu sögu um Sigrúnu? Þær voru reyndar fleiri sögurnar sem ég las í þessu ágæta tímariti sem ég man ekki eftir í augnablikinu en það kemur þegar ég fer að rifja upp.

Bestu kveðjur úr Grundarfirði.

Þráinn Jökull Elísson, 6.5.2010 kl. 23:36

2 identicon

Bjarni--ég verð bara að segja þér að ég hef dáðst mikið að Guðrúnu í mörg ár--og Heiðrekur heitinn Guðmundsson skáld var mér hjartanlega sammála!  Við kunnum að meta Guðrúnu þegar hinir "lærðu" litu hana hornauga!  Njóttu þess sem best að lesa Dalalíf aftur og aftur eins og ég hef gert gegnum árin.

Jona Burgess Hammer (IP-tala skráð) 7.5.2010 kl. 00:05

3 Smámynd: Þórarinn Baldursson

Það eru margir lífs og liðnir fyrir norðan,sem lesa Dalalíf á hverjum einasta vetri.

Þórarinn Baldursson, 7.5.2010 kl. 00:34

4 Smámynd: Þórarinn Baldursson

Ég veit um fólk sem les Dalalíf á hverjum vetri,og kunna þær nánast utanað,og vitna í sögupersónurnar.Ég er upphaflega norðlendingur,enn hef aldrei lesið þessar sögur,maður verður að fara að koma sér í það.

Þórarinn Baldursson, 7.5.2010 kl. 00:40

5 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Guðrún frá Lundi var fínn höfundur.„Elítan" var henni andsnúin. En ef þú segir að Hagalín sé leiðinlegur þá hefurðu bara ekki lesið hann, - ég veit að þú hefur fínan húmor.

Eiður Svanberg Guðnason, 7.5.2010 kl. 08:39

6 identicon

Sögur Guðrúnar voru birtar í Heima er best og Ingibjörg Sigurðardóttir skrifaði söguna um Sigrúnu í Nesi og sú saga var líka í Heima er best. Held að Dalalíf hafi ekki verið þar, en man eftir Stýfðum fjöðrum eftir Guðrúnu.

Guðrún frá Lundi er fínn penni þó að elítan kynni ekki að meta hana.

Valgerður Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.5.2010 kl. 08:53

7 identicon

Mér er sama hvað elítan segir, er búin að lesa allar bækur Guðrúnar og það var mikill og góður lestur. Að vísu hefur álit nútímamanna á verkum hennar breyst. Margir gengu áður fyrr með veggjum og harðneituðu að hafa lesið þessa "vitleysu" þótt þeir næðu ekki nefinu upp úr lestrinum.

Guðlaug Hestnes (IP-tala skráð) 7.5.2010 kl. 13:21

8 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðrún frá Lundi var höfundur sem náði til fólks sem hafði hófstilltar væntingar og hugmyndir um lífið og tilveruna og gerði gleði úr því sem lítið var.

Hún var snillingur í að fá fólk til að lifa sig inn í og meta og njóta þeirrar gleði sem líf fábreytni gat gefið þeim sem minna af veraldlegum auð höfðu úr að spila.

Ég myndi vilja hafa meira af þessum gömlu og góðu afrekum ýmissa höfunda lesið í útvarpinu eins og var gert dálítið af hér áður fyrr. Sigurður G Tómasson hefur verið að lesa ýmislegt gamalt, fróðlegt og skemmtilegt á útvarpi Sögu á morgnana og þakka ég fyrir það. M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.5.2010 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband