Framkvæmdir bannaðar austan við 101

Af Kjalvegi og hægri grænum ráðherra

Stam hæstvirts samgönguráðherra og raus Morgunblaðsins gegn fyrirhugaðri vegagerð yfir Kjöl staðfestir enn og aftur að hugtakið hægri grænn vísar fyrst og fremst til þess að taka undir með því vitlausasta sem komið hefur fram í íslenskri umhverfisverndarumræðu.

Þessi stefna er best lýst með því að tala eigi móti öllum framkvæmdum utan við stórhöfuðborgarsvæðið og líta á landsbyggðina á Íslandi sem einn stóran þjóðgarð. Með allri virðingu fyrir þjóðgörðum þá nær vitaskuld ekki nokkurri átt að aðeins megi veri framfarir og hagvöxtur á einu horni landsins.

Hlutafélagið Norðurvegur ehf. hefur að undanförnu kynnt frekar eðlilegar hugmyndir um að malbika Kjalveg. Helmingur þeirrar leiðar er nú þegar sæmilega byggður malarvegur, hinn helmingurinn troðningur af þeirri gerð að það ógnar bæði gróðurfari og ekki síður öryggi vegfarenda. Verkefnið er í samræmi við langtímaáætlanir í vegagerð á Íslandi og að langstærstum hluta um að ræða endurbyggingu á núverandi vegi. Með uppbyggðum vegi væri byggðum í bæði uppsveitum Árnessýslu og á öllu Norðurlandi gefinn nýr vaxtamöguleiki.

Það er á engan hátt verið að ráðast á náttúru hálendisins með vegalagningu sem þessari. Þannig verður ekki séð að sæmilegur vegur inn að Vatnsfelli við Sprengisand hafi orðið til að spilla umhverfi þar í grennd nema síður sé. Bættar samgöngur á þessa staði auka vissulega ferðamannastraum og þar þarf á sumum stöðum að gæta hófs vegna viðkvæmrar náttúru. En leiðin að þeim umhverfisverndarmarkmiðum eru ekki vondir vegir og bann við uppbyggingu.

Slíkt afturhald er álíka gáfulegt eins og vondir vegir til að halda aftur af aksturshraða. Framlag til umhverfisverndar á hálendinu er mikilvæg og hún er fólgið í betri landvörslu, merkingu og kortlagningu vega og markvissum undirbúningi landsins til að taka við auknum fjölda ferðamanna. Þegar talað er um að ekki megi framkvæma neitt á hálendi Íslands af því að það sé heildstætt ósnortið víðerni þá tala menn af mikilli vanþekkingu. Hálendi Íslands er ekki samfellt ósnortið víðerni og hefur raunar ekki verið um langt árabil. Um aldamótin þarsíðustu átti það kannski við, en þá mátti nánast segja það sama um landið í heild. Síðan þá hafa menn byggt ótal vegi, virkjanir, hús, raflínur og uppgræðslugirðingar á þessu sama hálendi. Náttúruvernd þar lýtur þessvegna alveg sömu lögmálum og náttúruvernd annarsstaðar á landinu. Afréttir landsins eru hluti af íslensku héruðunum og það er fráleitt að leggja þær byrðar á íslenskt landsbyggðarfólk að vera eins og uppstoppaðir frumbyggjar í landi sínu svo hagvaxtarfólk við Faxaflóa geti friðað vonda umhverfissamvisku.

En það er nákvæmlega sem er að gerast þegar Morgunblaðið sem kallar sig blað allra landsmanna ræðst að Kjalvegarverkefninu með offorsi og birti meðal annars áróðursgrein um málið á forsíðu sl. þriðjudag undir yfirskini fréttar. Að kvöldi þessa sama dags máttu landsmenn svo hlusta á samgönguráðherra stama um málið í margar mínútur án þess að hlustendur yrðu annars vísari en að ráðherra teldi fulla ástæðu til að tefja málið sem lengst.

Afstaða Morgunblaðsins kom engum á óvart. Blaðið hefur margoft lýst andstöðu sinni við hálendisvegi og að undanförnu einnig við uppbyggingu ferðaþjónustu á hálendinu eins og þeirri sem fyrirhuguð er í suðurhlíðum Langjökuls.

En ef þetta er sú hægri græna stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn vill marka sér mega landsbyggðarmenn vara sig. Og gæta að því hvað þeir kjósa yfir sig!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður Bjarni;  Það er komið meira en nóg af öfgum hvað umhverfismálin varðar.  Það má ekki hreyfa við grjóti, þá rís "græna" liðið í Reykjavík upp á afturfæturnar og geltir eins og það eigi lífið að leysa.    Hvernig væri að leyfa mannfólkinu sem byggir þetta land fyrir utan höfuðborgarsvæðið að njóta vafans, frekar en urði og grjóti.  

Og hvers virði er náttúran ef við fáum hennar ekki notið?  Með Kjalarvegi styttum við ekki aðeins leiðir og bætum samgöngur, heldur opnum fyrir ný tækifæri í ferðaþjónustu.   Draumur væri t.d. að geta nýtt Kerlingafjöllinn sem skíðasvæði, nú þegar til vandræða horfir með skíðasvæði í nánd við strandlengjuna.

Þetta s.k. "græna" lið í Reykjavík, hvort sem það er til hægri eða vinstri sýnir landsbyggðarfólki þvílíka vanvirðingu.  Það getur vel verið að það sé þennsla á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi og fólk sé orðið satt þar.   Og á þá að segja hingað og ekki lengra, kælum hagkerfið, stöðvum allar framkvæmdir o.s.frv.   Nei, við eigum að stuðla að því að næsta uppbyggingarhrina fari nú af stað, á þeim svæðum, þar sem neikvæður hagvöxtur hefur verið undanfarin ár.   Virkjum hina náttúruvænu, sjálfbæru orku sem við eigum, í sátt við umhverfið og nýtum orkuna í heimabyggð.  

Sigurður J. (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 18:59

2 Smámynd: GK

Hvernig geta menn fundið að því að það sé til fólksbílafær vegur yfir hálendið?

GK, 7.2.2007 kl. 19:49

3 identicon

Ingolfsfjall:  Málflutningur, sem byggist á vísvitandi rangtúlkunum og/eða útúrsnúningum og vanþekkingu kemur þér ekki langt.

Ég sagði aldrei að Reykvíkingar væru verra fólk.  Vísaði aðeins til ákveðins hóps, sem stundum sem vilja eigna sér græna litinn og eru fyrirferðamiklir í dag, þó svo að hópurinn sé ekki ýkja stór.  

Rykspúandi vegaslóðinn sem fyrir er, er þegar uppbyggður að talsverðu leyti, þannig að umhverfisáhrifin yrðu ekki mikil frá því sem þegar eru.   

Á veturna er eðlilega um enga ferðamennsku þarna að ræða, fyrir utan nokkra jeppakalla.   Þú færð ekki erlenda ferðamenn í e-a vosbúðaraðstæður, a.m.k. ekki ferðamenn sem eiga e-n pening og vanir eru gæðum.    Ég vil ekki uppnefna þig sem e-n "Hillibilly" eða það af verra, þó svo að þú virðist engan veginn átta þig á hvað nútíma ferðamannaiðnaður gengur út á.

Ef ferðamannaiðnaður er málið, þá þurfa aðstæður að batna all verulega.   Það er alveg hægt að byggja þjónustumiðstöðvar og aðra aðstöðu í sátt við náttúruna.   Það má einnig bæta þær sem fyrir eru, t.d. aðstöðu gamla skíðaskólans í Kerlingafjöllum.

Sigurður J. (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 21:40

4 identicon

Ég hef orðið stórar áhyggjur af fólki.

Áhyggjur mínar stafa fyrst og fremst af því hvað mér finnst fólk orðið heimskt og illa upplýst, sérílagi þegar kemur að umræðu er varðar náttúru landsins, verndun, nýtingu og umgengni almennt.

Þessi umræða sem hér fer fram er gott sýnishorn um ástæður þessa ótta míns um heimskuna.

Fólki finnst það sumsé í lagi, að Jóhannes í Bónus og félagar eigi og reki þjóðveg á Íslandi!

Jóhannes er sjálfsagt mætur maður en fyrr má nú aldeilis fyrrvera.

Af hverju ekki bara gefa þeim hringveginn? Er það ekki hið besta mál, þá gætu þeir rekið þetta vegakerfi á sinn reikning, myndu að sjálfsögðu bjóða lægsta verðið, jafnvel lægra heldur en í Hvalfjarðargöngin, Ríkið myndi hagnast heil ósköp og ætti meiri pening til að lögsækja Jóhannes, Jóhannes fengi meiri pening til að verja sig, og við hin borgum!

?????????????

Það versta við þessi skrif (flest), er að fólk hefur enga sjálfsvirðingu lengur. Því finnst á lagi að eyðileggja allt sem ekki kemur því beint við, hefur bara skoðanir á hlutum ef það hentar, Ísland og náttúra þess er einskis virði ef ekki er hægt að selja pakkann!

90% af fólki sem svona skrifar hefur aldrei komið upp á Kjöl, nema hugsanlega í 10 miljóna Porse sem fór yfir Kjöl á mettíma (shitt maður, ég þurfti að þrífa Porsinn geðveikt á eftir!!)

Sem betur fer er til fólk sem stendur vaktina og gefst ekki upp, en ég bara spyr: "Hvar klikkuðum við í uppeldinu?"

Er von?

Ævar Sigdórsson

Ævar (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 21:40

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Já uppstoppaðir frumbyggjar er ágætis vangavelta Bjarni he he.

góð pæling.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 8.2.2007 kl. 00:22

6 identicon

Þú segir réttilega „Helmingur þeirrar leiðar er nú þegar sæmilega byggður malarvegur, hinn helmingurinn troðningur af þeirri gerð að það ógnar bæði gróðurfari og ekki síður öryggi vegfarenda“

Málið er að hugmyndir Norðurvegar ganga út á að leggja nýjan veg frá Hveravöllum og til Skagafjarðar. Þessi sæmilega uppbyggði malarvegur sem þú talar um er ekkert inni í myndinni.  Það er of mikill krókur að fara niður í Blöndudal til að vegagerðin borgi sig og því þarf að fara beinustu leið í Skagafjörðin, þvert yfir ósnortin svæði.

Þorleifur Þór (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 09:13

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Tek ekki afstöðu til þess, hvort eigi að byggja upp veg þarna.  Að mörgu þarf að hyggja þegar slít er gert og að vanda, orkar nokkuð af því tvímælis ef ekki meir.

Það er gersamlega galið, að afhenda einhverjum mönnum svona land til tollheimtu langt inn í framtíðina.  Nauðsynlegt, að hafa þar einhver ,,sólsetursákvæði".  Öngvum ætti að leyfa tollheimta á almenningsvegum til allrar framtíðar, frekar en eignarhald á infrastrúktúr okkar þjóðar til langframa.

Gjör rétt þol ei órétt.

Bjarni

Miðbæjaríhald

Bjarni Kjartansson, 8.2.2007 kl. 11:22

8 identicon

Góðan daginn Bjarni.

Góður og snyrtilegur, uppbyggður, nægjanlega breiður og malbikaður heilsársvegur yfir Kjöl og niður í Skagafjörð eða kannski ennþá frekar um Sprengisand og niður í Bárðardal, svo að veruleg stytting til Ausurlands náist einnig, er bara hið mesta þarfaþing.

Einkaframkvæmd í þessu skyni getur verið hið besta mál.

Hins vegar kemur ekki til greina að þeir einkaaðilar sem gerðu veginn í einkaframkvæmd mundu eiga veginn eftir að hann hefði verið uppgreiddur á eðlilegum tíma, t.d. 10/15 árum, þá á slík framkvæmd í vegagerð og slíkur vegur að sjálfsögðu að vera í eigu þjóðarinnar, annað kemur ekki til greina.

Bestu kveðjur

Guðm. R. Ingvason

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 11:42

9 identicon

Hmm... Afhverju finnst mér eins og öll helstu landsbyggðamálin hverfist um það að stytta leiðina til Reykjavíkur...

IJ

IJ (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 15:04

10 identicon

Grænn-grænn og verðandi þingmaður.

Mæl þú manna heilastur Bjarni. Meira þessu tagi.

Róbert Trausti Árnason (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 15:14

11 identicon

þetta er komment barst mér í meili og birt hér með leyfi bréfritara: 

Afréttir landsins eru hluti af íslensku héruðunum og það er fráleitt að leggja þær byrðar á íslenskt landsbyggðarfólk að vera eins og uppstoppaðir frumbyggjar í landi sínu svo hagvaxtarfólk við Faxaflóa geti friðað vonda umhverfissamvisku.”Finnst þér svona tungutak viðeigandi hjá manni sem er að bjóða sig fram til alþingis og á allt undir að hagvaxtarfólkið við Faxaflóann kjósi þig í maí nk. Bjarni? Heldur þú ekki Bjarni að Suðurnesjamönnum gæti fljótt farið finnast það undarlegt að með yfir 40% atkvæðamagns í Suðurkjördæmi séu einhverjir fírar sem við gætum þá kallað einhverjum orðskrípum en gerum ekki sína sér slíka lítilsvirðingu? Veit að suðurnesjamenn geta ekki kennt neinum nema sjálfum sér um að í 10 manna þingliði kjördæmisins geti staðan hugsanlega verið sú að enginn suðurnesjamaður sé inni á þingi!!!! Finnst annars gaman að lesa frá þér pistlana. Þeir eru jákvæðir og nokkuð skemmtilegir. Held það fari þér best og sé líklegast til árangurs að vera á þeim nótunum en ekki taka tæplega helming þess hóps sem fyllir kjördæmið og gera lítið úr honum.Bestu kv.
Jón Einars.

bjarnihardar (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 17:06

12 Smámynd: Bjarni Harðarson

ég veit að mannanafnanefnd er ótrúlegt stjórnvald en vil samt ekki trúa að neinn maður heiti ingólfsfjall - hver bloggar undir því nafni?

Bjarni Harðarson, 8.2.2007 kl. 22:22

13 Smámynd: GK

Ég vil vita hvenær Ævar Sigdórsson ætlar að byrja að keppa aftur í ralli.

Annars er þetta á köflum gríðarlega málefnaleg umræða. Ég hef nokkrum sinnum ekið yfir Kjöl og hef rétt á mínum skoðunum... :)

GK, 9.2.2007 kl. 00:25

14 identicon

Þú gleymir alveg stóru spurningum í þessu máli Bjarni. Spurningum sem stjórnmálamenn, alls staðar á landinu þurfa að svara áður en þeir fara að taka umhverfisumræðu. Reyndar mæli ég ekkert sérstaklega að menn sem sjá umhverfisvernd sem eitthvert stríð á milli Reykvíkinga og landsbyggðarinnar tjái sig mikið um heildarstefnu í umhverfisvernd. Sérstaklega ekki þegar þeir vilja virkja fossa fyrir austan en ekki í túninu heima. En það er annað mál. Að stóru spurningunum.

Í fyrsta lagi. Er það eðlilegt að fyrirtæki geti fengið landssvæði eins og Kjöl til atvinnureksturs? Gæti ég þá fengið Langjökul takk. Ég get alveg séð góðan bissness í því að byggja þar upp smá veg og aka þar um með ferðamenn og rukka síðan alla hina sem vilja fara á jökulinn. 

Í öðru lagi.  Er eðlilegt að fyrirtæki eins og Norðurvegur geti haft áhrif á samgönguáætlun ríkisins? Það þarf enginn að segja mér það að Norðurvegur ehf. ætli að standa að þeim vegbótum sem þarf að gera á veginum frá Selfossi og að Gullfossi. Hvað með hina leiðina Norður? Eigum við þá bara að láta breikkun brúa bíða á meðan verið er að byggja undir aðkomuna að Kjalvegi? Eða á ég kannski bara að bjóðast  til þess að breikka allar brýr á þjóðveginum gegn því að menn borgi svona 100-500 kr. fyrir að fara yfir? 

Í þriðja lagi verður að svara spurningunni um það hvort og þá með hvaða hætti menn geta ferðast um Kjöl án þess að fara um þennan veg í einkaeigu. Eina fordæmið sem við höfum um veg í einkaframkvæmd sem er borgaður með veggjöldum eru Hvalfjarðargöngin og þar hefur maður fullkomið val um að nota þau. 

Það er mjög vafasamt að stilla umræðunni um Kjalveg upp sem einhverri tilvistarkreppu í 101 Rvk. Það eru einfaldlega miklu stærri spurningar sem wannabe stjórnmálamenn eiga að vera að ræða, vilji þeir láta taka sig alvarlega. Og hananú. 

Tryggvi Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 10:06

15 identicon

Gleymist ekki eitt í þessu öllu? Mér heyrist að þessi vegur eigi að vera heilsársvegur. Er ekki allt í lagi með fólk? Hvernig í ósköpunum ætla þeir að fara að því að halda honum opnum yfir vetrartímann? Þessir menn hafa greinilega ekki verið að ferðast þarna á veturna, paufast yfir Bláfellshálsinn í 16 tíma í snarbrjáluðu veðri í lok október. Veðurhamurinn á Kili er ekkert grín!

Soffía (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 14:15

16 identicon

Eru ekki mörg ár síðan sæmilega skynsamt fólk hætti að taka mark á ristjórnarstefnu Moggans. Ég held að í augum flestra Sjálfstæðismanna sé hún svona álíka merkileg og stefna Samfylkingarinnar: vaðall út og suður sem breytir um stefnu eftir því hvernig vindurinn blæs. 

Atli (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 22:33

17 identicon

Það er nú bara verið að tala um Kjalveg í þessu sambandi, elsku dúllurnar mínar. Ég veit ekki til þess að nokkur meirihluti sé á móti Sundabraut, eða tvöföldun þjóðvegarins á milli Selfoss og Akureyrar. Bættir vegir hafa hins vegar leitt til þess að margt fólk á landsbyggðinni keyrir nú mun lengri vegalengd en áður til að kaupa í matinn og fleira, til dæmis frá Hvammstanga til Reykjavíkur, Dalvík til Akureyrar og Húsavík til Akureyrar. Verslun á minni stöðunum hefur því minnkað mikið vegna bættra samgangna og ekki eru nú allir hrifnir af því. Og ekki eykst verslunin á Blönduósi ef þjóðvegurinn yrði styttur í Húnavatnssýslunni, enda hafa margir á þeim bæ sett sig upp á móti þessum samgöngubótum, mýslurnar mínar.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 15:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband