Sofið í sokkum...

Er að skríða saman eftir harða flensu sem var kannski guðleg forsjón því betra frí frá amstri er ekki til en lárétt í eigin fleti og betri dagar til þess fundust varla - nú millum prófkjörs og kosningabaráttu.

Það eina sem skyggði á í vikulangri legu var óttinn við að komast ekki á þorrablót hrútavinafélagsins þar sem ég var tilnefndur í embætti og hvaðeina. Forseti félagsins sendi mér fyrirskipun af forsetasetri sínu á Ránargrund um miðja vikuna að ég ætti að sofa í sokkum og myndi þá flensan útrekast. Og það hefur mikið til gengið eftir.

Ég get ekki sagt að mér hafi verið vel við þetta ráð því einhverntíma sá ég í amerískri kvikmynd að ekkert er talið eins fjarri öllum kynþokka eins og nakinn karlmaður í sokkum og ég var hálfvegis óttasleginn yfir að falla í áliti hjá minni fallegu konu við þessi ráð. Það bjargaði miklu að hún var yfirleitt sofnuð þegar ég skreið upp í enda fylgdi flensu þessari allskonar ónáttúra eins og að sofa á daginn og vaka á nóttunni. Á blótinu í gærkveldi fékk að vita að þrautarráð forsetans ef sokkarnir ekki duga sé að sofa með ullarvettlinga en sem betur fer kom ekki til þess enda er ég óðum að skríða saman og Elín er hérna ennþá.

En ef ég hefði farið í rúmið í ullarvettlingum...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Annie Guðbergsdóttir

Það er nú gott að þú sért að skríða saman Bjarni minn. Vonandi verður þú orðinn hress í næsta stríði ef þú veist hvað ég á við.

Margrét Annie Guðbergsdóttir, 11.2.2007 kl. 23:11

2 identicon

Stílbrot!
Mér finnst í lagi með sokkana, en hvað var þetta með jakkaföt og bindi í Silfrinu?

kv. að Westan,-sigm.

-sigm. (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband