Af fíflagangi og fjallagrasapólitík

"Afréttir landsins eru hluti af íslensku héruðunum og það er fráleitt að leggja þær byrðar á íslenskt landsbyggðarfólk að vera eins og uppstoppaðir frumbyggjar í landi sínu svo hagvaxtarfólk við Faxaflóa geti friðað vonda umhverfissamvisku."

Þessi setning er eftir sjálfan mig í umræðu um Kjalveg og hefur valdið miklum umræðum á bloggsíðu minni (www.bjarnihardar.blog.is/) Er verið að veitast að öllum þeim sem búa á hagvaxtarsvæðinu mikla, er spurt. Sjálfur bý ég á þessu sama horni landsins, Selfossi sem er í jaðri höfuðborgarsvæðisins.

Þegar ég tala um það fólk sem reynir að friða vonda samvisku í umhverfismálum þá á slík einkunn ekki við um neinn meirihluta, hvorki þar né hér.

En það er gikkur í hverri veiðistöð. Sjálfsskipað umhverfisverndarfólk hefur um langt árabil lagt sig fram um að hamast á móti selveiðum, hvalveiðum, frumbyggjum og allskonar lífsháttum framandi þjóða. Þó svo að öllum sé auðvitað ljóst að umhverfisógn heimsins er ekki sprottin upp hjá inúítum eða hvalföngurum heldur sóunarsamfélögum stórborga.

Eins er þessu farið hér á landi þó í smærri stíl sé. Ísland sem var næsta óspillt af öðru en torfkofum fyrir öld síðan ber nú æ meiri merki mengunar, mannvirkja og þeirrar spillingar umhverfisins sem fylgja nútímalegum lífsháttum. En þessi mengun er ekki mest áberandi á Austurlandi, ekki á Kárahnjúkum og ekki á Kili. Það vitum við öll sem augu höfum í höfðinu. Utan við fyrrnefnt Stór-Hveragerðissvæði eru menjar mannsins hóflegar og vel innan ásættanlegra marka. Landið er vitaskuld ekki eins og það sé ónumið en samt þannig að náttúran hefur yfirhöndina og við njótum hennar af því að hún er aðgengileg með vegum og húsum í hæfilegu magni.

Það að ætla að skilgreina stór svæði landsbyggðarinnar sem helgistaði þar sem samtíminn má ekki stíga fæti er fráleitt. Við Íslendingar eigum hvergi nema á Vatnajökli ósnortin víðerni sem ástæða er til að varðveita víðernisins vegna. Hvarvetna um byggð og afrétti eru einhverjar nútímalegar mannvistarleifar, s.s. vegir, hús, raflínur og fleira. Rökin fyrir varðveislu ósnortinna víðerna geta átt víða við á hinum norðlægu slóðum heims en einna síst á Íslandi. Við þurfum vitaskuld að varðveita náttúruperlur og eiga þjóðgarða. En hér á landi er aðeins hægt að tala um alvarleg umhverfisvandamál þar sem umsvif mannanna keyra úr hófi.

En þetta er hinum skinhelgu óþægilegt umræðuefni. Hér á okkar horni landsins þarf hagvöxturinn að hafa sinn gang með Sundabrautum og sorphaugum ofan í fallegum sveitanesjum, malbiki upp um Norðlingaholt, yfir Kristnitökuhraunið og niður um bakka Ölfusár. Tölum ekki um það, segir fólkið sem situr á Staksteinum Morgunblaðsins, sellum VG, ólgandi Framtíðarlandi og kannski líka hjá hinum nýlega uppdiktuðu hægri grænu. En gleymum ekki að þetta eru fámennar og mikið háværar klíkur. Alvöru grænir haga sér ekki svona.

En það er þessi spillta úrkynjun, sérgæska og skinhelgi sem ræður því að nú skal hamast á móti því að sunnlenskir og norðlenskir uppsveitamenn skoði kosti þess að tengja byggðir sínar með malbikuðum Kjalvegi. Það má auðvitað rökræða hvernig standa eigi að vegi þessum, eignarhaldi hans og staðsetningu. En að skilgreina allt svæðið millum dala í norðri og suðri sem helga reiti meðan við stígum villtan dans um gullkálfinn heima hjá okkur, það er fáheyrt. Að bera það á borð að milli þessara byggða sé betra að hafa vonda vegi til að draga úr umferð og umsvifum. Hagvöxtur landsbyggðarfólks eigi að einkennast af fíflagangi og fjallagrösum.

Hvenær náði svona fáheyrð ósvífni?

(Birt í Blaðinu laugardaginn 10. febrúar)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Heyr heyr.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 11.2.2007 kl. 23:21

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Góður. Til hvers er fögur náttúra ef einungis þeir sem eiga fjallabíla og flugvélar geta einir notið hennar. Eigum við hinir bara að láta okkur nægja að skrölta þetta á Corollunni yfir blásumarið með hljóðkútinn í snæri og rykfyllt farþegarýmið?

Halldór Egill Guðnason, 11.2.2007 kl. 23:56

3 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Eins og oft áður Bjarni, þá er ég algjörlega sammála þér....

En þetta er vonandi lítill en hávær hópur...ég vona allaveganna að það sé tilfellið...

Fólk útá landi á að sjálfsögðu bara að hafa malarvegi innanbæjar og gömlu rafmagnsstaurana í hverri götu....eða ennþá betra... afhverju förum við ekki bara í torfkofana aftur og höfnum öllum nýjungum, alveg sama á hvaði sviði það er...

Nú þegar almenningur er enn að stinga leifarnar af þorramatnum úr tönnunum.... Gætu þá hörðustu afturhaldsseggirnir í landinu kannski hugsað sér að borða þorramat í öll mál ? 

Ingólfur Þór Guðmundsson, 12.2.2007 kl. 04:16

4 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Haltu áfram á þessum nótum þér mun vel farnast. Frábært.

Ekki við neinu að bæta. Ætla að styðja sjónarmið þín með mínum litla penna þegar þess verðr þörf.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 12.2.2007 kl. 07:49

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Frábært innlegg. Ég hef beðið eftir því að einhver gæfi þessu liði undir sinn hvorn til að vekja það til veruleikans. "Snap out of it!"

Jón Steinar Ragnarsson, 12.2.2007 kl. 09:54

6 Smámynd: Ágúst Dalkvist

100% sammála

Ágúst Dalkvist, 12.2.2007 kl. 11:16

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil minna á bloggsíðu mína þar sem ég fjalla um þetta mál. Það er fjarri mér að amast við því að malbikaður vegur liggi á milli Suðurlands og Norðurlands ef það er sú leið sem getur sætt ólík sjónarmið. En það er ekki sama hvernig sá vegur er.

Fyrirmynd af því hvernig hægt er að sætta sjónarmið má sjá í erlendum þjóðgörðum og fyrir norðan Þingvallavatn. Vegurinn við Bolabás var gerður þannig að hellt var malbiki ofan í slóðann sem fyrir var og hann lagfærður þannig að hann hrindi af sé vatni og auðvelt sé og þægilegt er að fara þessa leið án stórfellds hávaða.

Vegurinn frá Tjaldmiðstöðinni um Bláskógaheiði austur að Gjábakka er þannig úr garði gerður að hann fellur vel inn í landslagið og býður upp á rólegan ferðahraða í þægilegri umferð. Þar þjóta ekki stórir flutningatrukkar um með ærandi hávaða.

Þetta fordæmi vil ég hafa í huga á Kili ef sætta þarf sjónarmið. Ef núverandi vegur yrði lagfærður og sett ofan á hann malbik sem lyftir honum ca fet upp fyrir umhverfið þar sem þess er þörf vegna vatnsrennsis yrði kominn þar svipaður vegur og norðan Þingvalla.

Kynslóðir framtíðar gætu fjarlægt malbikið ef þær vildu það. Hugmynd Norðurvegar um Kjalveg snýst um gerólíkan veg sem þyrfti að ryðjast í gegn um svæði austan Hvítár og norðaustan við Blöndulón sem nú eru að mestu ósnortin. Einnig þyngja mjög og breyta umferð um Biskupstungnabraut.  

Þetta á að verða há og fyrirferðarmikil hraðbraut með miklum umferðardyn stórra flutningabíla.

Nú er þeim  málflutningi óspart beitt að umhverfisverndarfólk við Faxaflóa vilji fá verksmiðjur og mannvirki til sín en láta landsbyggðarfólk éta það sem úti frýs eða naga fjallagrös.

Ekkert er fjær sanni. Næstu vikurnar fer fram stórorrusta um það að bægja frá áformum um risaverksmiðju í hlaðvarpa þéttbýlisins sem mun hafa í för með sér kraðak verksmiðja, háspennulína og virkjana allt frá ysta hluta Reykjanesskagans að Hellisheiði og í viðbót stórfellda umhverfisbreytingu í hjarta Suðurlands.

Þeir sem vinna við nútíma ferðaþjónustu þurfa á fjölbreyttri menntun og verkþekkingu að halda, - kunna skil á tungumálum, sögu landsins, náttúrufræði, jarðfræði, almennum samskiptum o.s.frv. landsbyggðin á stórfellda möguleika á þessu sviði.

Kjölur býður upp á fagra öræfakyrrð og dramatíska sögu Reynistaðabræðra, Höllu og Eyvindar.  Það er vel hægt að opna aðgengi að slíkri perlu og njóta góðs af þjónustu fyrir ferðafólk á þessum slóðum án þess að steypa þungri hraðaumferð á fyrirferðarmikilli hraðbraut um þetta svæði.

Ein lítil viðbót: Með því að gera veginn sléttan verður hann mun aðgengilegri en nú er fyrir nýjustu rúturnar sem eru með loftfjöðrunarbúnaði sem þolir ekki þvottabretti og miklar holur.

Raunar er Kjölur ekki heflaður nema einu sinni á sumri svo mér sé kunnugt. Þetta undratæki, hefillinn, gæti lagað mikið áður en malbik yrði sett á leiðina.   

Ómar Ragnarsson, 12.2.2007 kl. 12:11

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hjartanlega sammála þér Bjarni H. Sumir segja að þetta sé hávær minnihlutahópur og ég hef lengi verið þeirrar skoðunar. En Samt er farinn að læðast að mér sá grunur að upp sé kominn múgæsingur sem Ómar Ragnarsson og Andri Snær eru að mestu ábyrgir fyrir og að fjöldinn á bak við þá sé að verða óhugnanlega stór. Einnig segja sumir að þetta sé bara af hinu góða, þ.e.a.s. að umræðan leiði af sé góða hluti og það má vel vera. En samt tel ég að rök umhverfissinna (hvað erum við hin?) séu oft svo hrikalega hæpin og að lokum verði þau allri vitrænum umræðum um umhverfismál einungis til tjóns. Komi hreinlega óorði á umhverfissamtök og Árni Finnson er auðvitað holdgerfingur þessa. Ómar Ragnarsson gerði sjónvarps innslag fyrir nokkrum árum þar sem hann talaði af miklum eldmóð um kosti þess að gera uppbyggða hálendisvegi. Í dag segist hann vera annarar skoðunar vegna nýrra upplýsinga! Hverjar skyldu þær nú vera? Hann segir í athugasemd hér fyrir ofan að betra sé að byggja veginn bara upp um 50 cm. og veghefill sé töfraorðið.

Tlgangurinn með uppbygðum  veg með varanlegu slitlagi er að losna við snjó og minnka viðhald. Gera veginn arðbæran. Guðrún Pétursdóttir toppaði held ég bullið í Silfri Egils í gær þegar hún sagði að hávaðinn frá flutningabílunum heyrðis í fjallakyrrðinni tugi og jafnvel hundruði kílómetra.

Ég tel að uppbyggður vegur yfir Kjöl og helst Sprengisand líka, lagður varanlegu slitlagi, sé ein besta einstaka aðgerð til öryggis vegfarenda um þjóðveg 1 með því að dreifa umferðarþunganum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.2.2007 kl. 13:36

9 identicon

Sæll Bjarni,

Takk fyrir þessa umræðu sem er löngu orðin þörf. Loksins kemur þú með skynsöm rök í umhverfismálum sem eru laus við allar öfgar. Umræða umhverfisverndarsinna af höfuðborgarsvæðinu fer örugglega mjög í taugarnar á mörgum landsbyggðarbúanum enda hafa niðurstöður kannanna sýnt að ríkisstjórnarflokkarnir hafa meira fylgi í landsbyggðarkjördæmunum heldur en á suðvesturhorninu. Það segir manni það að umræða VG, framtíðarlandsfólks og annarra fellur víðar í grýttan jarðveg en fólk heldur.

Umræðan um umhverfismál er einnig of einhæf, eins og fram kom í grein eftir Unni Brá Konráðsdóttur sem skipar 5. sætið á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Umræðan snýst eingöngu um virkjanir og álver, en þeir sem upplýstir eru vita að umhverfismál er mun stærri málaflokkur en svo hér á landi. Og það sem umræðan snýst um, fyrst og fremst, eins og þú kemur inná í greininni, er sú að svæðið utan stór-höfuðborgarsvæðisins eigi að einkennast af einhvers konar kyrrstöðu - torfkofarómantík þar sem allt er friðað. Kannski erum við landsbyggðarbúar að misskilja okkar hlutverk í íslensku þjóðfélagi og ættum að dusta rykið af lopapeysum og sauðskinnsskóm, sem annars eru klæði góð .....

Það yrði menningarlegt stórslys fyrir hinar dreifðu byggðir landsins ef íhaldssöm vinstri stjórn myndi komast til valda sem stendur í vegi fyrir framförum og umbótum sökum tilfinningasemi og slæmrar umhverfissamvisku.

Og í lokin vil ég beina nokkrum spurningum til umhverfissinnaðra höfuðborgarsvæðisbúa: Flokkið þið rusl? Notið þið almenningssamgöngur (eða eru 2 eða fleiri bílar á heimilinu)? Eigið þið sparneytna bíla? Sparið þið vatn og rafmagn? Ef þið getið ekki svarað neinu af þessu játandi, byrjið fyrst á því að taka til í eigin garði áður en þið farið að hamast í umhverfisvernd á afskekktum svæðum Íslands! Til áréttingar er vert að benda á að í Bláskógabyggð, mínu heimahéraði, er mikill meirihluti íbúa sem flokkar rusl og lifir skv. þessum gildum (Vistvernd í verki). Samt erum við sökuð um að vera umhverfisterroristar með því að vilja leggja nýjan Gjábakkaveg og fá góða tengingu um Kjöl.

Á höfuðborgarsvæðinu má sundurskera allt og umróta öllu - jafnvel er ekki sagt múkk um Hellisheiðarvirkjun - hún er greinilega ekki nógu afskekkt. 

Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steini.

Sigrún Lilja Einarsdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 13:45

10 identicon

Gaman að sjá Silfrið í gær Bjarni. Makalaust hvaða bulli er hægt að ausa yfir mann s.s. að hægt sé að heyra í bíl í fleiri hundruð kílómetra fjarlægð á hálendinu. Það er svona eins og ef maður væri staddur í Nýjadal þá myndi maður bæði heyra í Akureyringum og Reykvíkingum.

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 15:27

11 identicon

Alvöru grænir eru það hinir fjölmörgu framsóknarmenn í dag,Bjarni?

Þorkell Sigurjónsson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 18:18

12 identicon

Það er nú bara verið að tala um Kjalveg í þessu sambandi. Ég veit ekki til þess að nokkur meirihluti sé á móti Sundabraut, eða tvöföldun þjóðvegarins á milli Selfoss og Akureyrar. Bættir vegir hafa hins vegar leitt til þess að margt fólk á landsbyggðinni keyrir nú mun lengri vegalengd en áður til að kaupa í matinn og fleira, til dæmis frá Hvammstanga til Reykjavíkur, Dalvík til Akureyrar og Húsavík til Akureyrar. Verslun á minni stöðunum hefur því minnkað mikið vegna bættra samgangna og ekki eru nú allir hrifnir af því. Og ekki eykst verslunin á Blönduósi ef þjóðvegurinn yrði styttur í Húnavatnssýslunni, enda hafa margir á þeim bæ sett sig upp á móti þessum samgöngubótum.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 19:50

13 Smámynd: Valbjörn Steingrímsson

Með betri pistlum sem ég hef lengi lesið,  vona að sem flestir lesi og vonandi taki til sín þeir sem við er átt,   þingmen,  Sigurrós,   Bryndís og fleiri slíkir sem elska náttúru landsins ekki meir en svo að geta ekki verið þar nema dagstund,  þá er nóg komið og viðkomandi flýta sér til byggða svo unnt sé að lýsa upplifuninni á reykfylltu kaffihúsi.     Hvar var þetta lið þegar Orkuveitan fyllti Hengilssvæðið af staurum og línum og eyðilagði eitthvert fegursta útivistarsvæði landsins,  ég spyr???.  Þá hafði þetta lið einhver völd til að láta verkin tala en gerði ekki.  Er hægt að taka mar´k á þessu fólki???    Nú þegar aðrir ráða þá er mótmælt. 

Valbjörn Steingrímsson, 14.2.2007 kl. 14:12

14 identicon

Alveg sammála Bjarni. Það er rétt að þetta er lítill alltof hávær 101 hópur sem er að mestu á bak við þetta.

Þessi sami hópur er líka á bak við það að byggja tónlistarhús á kostnað skattgreyðenda.

Enda eru þetta allt ákveðnar týpur svo sem : listamenn, skáld, kennarar og besservissarar.

Ég veit þetta af því að ég er alla daga umkringdur þessu fólki eins og þú veist.Mér hefur ekki tekist að koma vitinu í það en kannski tekst þér betur upp.

Kv,

Örn Johnson

Örn Johnson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 16:33

15 identicon

Mér finnst að í þessari færslu komi fram nokkuð vanmat á gildi fíflskapar. Af honum hefur bæði hlotist ágætur hagvöxtur og allgóð skemmtun. Annars er hægt að sýna fram á að menn geti sigrast á þyngdakraftinum með því að líma brauðsneið með sultu á bak kattar. Ef þessum samlímingi er hent upp í loftið verður togstreita milli tveggja ófrávíkjanlegra náttúrulögmála, sem eru annars vegar að kötturinn lendi á fótunum og hins vegar að brauðsneiðin lendi með sultuna niður. Þetta getur ekki farið nema á einn veg. Fyrirbærið lendir alls ekki. Á sama hátt mun ófrávíkjanlegt lögmál á háværasti minnihlutinn hefur upp raust sína til samþykkis ef heimtaður er fjórbreiður vegur með tvær akreinar í hvora átt og andmælir kröftuglega ef stungið er upp á mannvirkjagerð þar sem aðeins á að vera hægt að komast á upphækkuðum jeppum. Þessi minnihluti mun því verða kjaftstopp og ekki koma upp orði ef stungið er upp á fjórbreiðum vegi yfir hálendið. Best væri að hafa tvær af fjórum akreinum á Kili og hinar tvær á Sprengisandi. Sultubrauðskötturinn getur svo svifið yfir Hofsjökli og hávaðamennirnir gapað kjaftstopp í sínum náttúrulegu heimkynnum í 101 Reykjavík. 

Atli (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband