ESB-sinnar allra flokka á túr...

Í veðrinu liggja fyrirheit um að enn muni vora,- hverju hreti fylgir nýtt vor og þau hafa eiginlega verið dagviss undanfarið. Óneitanlega skrýtið samt að moka sig út úr bænum í apríl! Verri eru þó ráðleysishryðjurnar sem ganga nú á í pólitíkinni þar sem Sjálfstæðismenn tala nefmæltir fyrir því að aðgerðarleysi sé aðgerð í sjálfu sér og Samfylkingin tönglast á að þeir séu á leið í ESB. Að ekki sé nú talað um blessaða mennina í Seðlabankanum sem ég er nýbúinn að skrafa um...

Fjær ESB en nokkru sinni!

En væntanlega er ESB aðild fjær okkur nú en nokkru sinni í þeim þrengingum sem þjóðarbúið á við að stríða og myndi raunar ekki leysa neinn vanda dagsins. Það er ýmislegt sem bendir til að lönd innan ESB,- eins og til dæmis Írar séu í mikið verri stöðu í sinni kreppu heldur en við og það mest vegna þess að þeir eiga sinn eigin gjaldmiðil. Íslenska hagkerfið fer nú í sjálfkrafa niðurfærslu á kjörum með gengissiginu og þó að slíkt sé ákaflega óréttlætt ef stjórnvöld koma ekkert að með samhliða jöfnunaraðgerðir, - já og þó að sú leið sé hættuleg stöðugleikanum er hún þó mildari gagnvart þeim sem verst standa heldur en leið atvinnuleysis og gjaldþrota. Slíkt blasir við í löndunum sem ekki hafa sjálfstæðan gjaldmiðil.

Kannski er krónan úrelt!

Það breytir ekki þeirri sannfæringu minni að við eigum þegar við stöndum upp frá þessum darraðardansi að huga vel að okkar gjaldmiðilsmálum og skoða það af alvöru að taka upp annan lögeyri,- eða jafnvel að gefa athafnalífinu frjálst að nota hvaða lögeyri sem er. En ESB - aðild er ekki lausn heldur helsi sem okkur ber að forðast meðan sá klúbbur er eins og hann er. Ef við göngum þar inn leiðum við yfir þjóðina atvinnuleysi, skrifræðisstjórn reglugerða og afsölum okkur fullveldi landsins og sjálfstæði. Svo einfalt er það.

Þó margt sé að hérna er ástandið þó margfalt betra en í stöðnun og atvinnuleysi ESB landanna. Hingað koma fleiri en Pólverjar til vinnu. Frétti um daginn af þýskri konu sem býr hér í lotum til að vinna ófaglærð á leikskóla,- til þess að safna peningum! Finnst það betra en atvinnuleysið heima. Hefði hún mikið að sækja ef ástandið hér yrði eins og í hennar heimalandi.

ESB sinnar á túr! 

Hef mjög á tilfinningunni að ESB - sinnarnir í öllum flokkum séu á túr þessar vikurnar. Skynji sem er að vagninn sé að skreppa frá þeim enn einu sinni. Þeim finnst að það eigi að vera lag í hörmungunum núna til að plata landsmenn með ESB draumum og verða margir svolítið skelkaðir þegar þeir finna að þetta er enn og aftur að mistakast. Skoðanakannanir sýna nú sem fyrr að það er minnihluti þjóðarinnar sem lætur glepjast og miðað við norsku reynsluna þá þýðir það að við kosningar yrði yfirgnæfandi meirihluti andvígur ef spurningin væri lögð fyrir þjóðina.

Hvimleiðast er þetta algera virðingarleysi fyrir staðreyndum. Því er þráfaldlega haldið fram að fylgi við ESB aðild sé að aukast þegar ekkert í tölum Gallup ýtir undir þá staðreynd, hvort sem horft er á fylgið meðal almennra kjósenda, meðal atvinnulífsins eða að ekki sé nú talað um afstöðuna meðal Framsóknarmanna. Það er helst að í þetta skiptið mældust óvenjulega margir fylgismenn ESB aðildar meðal Vinstri grænna og líka í fleira lagi andvígir meðal Samfylkingarmanna. Skondið!

Óspillt Stella ung og stök

Annars er þetta mikill hamingjudagur þrátt fyrir veðrið og eiginlega um of til að vera skrifa um pólitík. Eignaðist nefnilega Megasardisk sem ég hafði ekki heyrt áður og heitir Óspillt Stella ung og stök sem er hrá og óborganleg útgáfa á einum besta disk skáldsins sem dregur nafn af sömu glæpakonu, henni Stellu...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæri Bjarni. Vinsamlegast láttu þér batna. Þarft ekkert að skammast þín fyrir að leita þér aðstoðar.....

Hannes (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 19:19

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

afar fáir stjórnmálamenn leyfa frjáls komment inni á bloggsíðum sínum. ástæðan er dónaskapur eins og sá sem birtist hér að ofan og er algengur, bæði á minni síðu og öllum þeim öðrum þar sem dónum og smámennum en heimilt að kommentera. slík komment segja meira um smámennin en nokkuð annað og ef mönnum er fró að slíku er ekkert við því að segja og eðlilegast að vorkenna svo lítilmótlegu fólki. sem betur fer eru hinir fleiri sem nota kommentakerfið til málefnalegrar umræðu og hennar vegna held ég öllum kommentleiðum opnum og eyði aldrei innkomnu kommenti.

Bjarni Harðarson, 13.4.2008 kl. 21:22

3 identicon

Nú kannast ég við Framsókn. Farnir að stangast í flaginu. Hnippum og kippum ykkur með í evrópuvagninn, svona líkt og við gerðum með EES hér um árið. Á ég nokkuð að rifja það upp Bjarni?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 22:03

4 Smámynd: Víðir Benediktsson

Ágætispistill hjá þér Bjarni (helst til langur fyrir seinlesinn mann eins og mig) þó svo ég sé bara rétt í meðallagi sammála. Einhvernveginn held ég að krónan sé búin að vera. Það er engu að síður margt til í því sem þú ert að segja varðandi atvinnuleysið, okkur hefur oft tekist að forða okkur frá því með að fella gengið en það var aðallega á meðan sjávarútvegurinn var undirstaða alls hér á landi og kjarasamningar oft á tíðum óábyrgir. Kannski sá tími sé liðinn. Trúði því að minnsta kosti eftir þjóðarsáttasmningana frægu að skynsemin hefði tekið við.

Víðir Benediktsson, 13.4.2008 kl. 22:10

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Stend með þér þarna Bjarni /Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 13.4.2008 kl. 23:42

6 Smámynd: Óðinn Þórisson

Geir H. Haarde hefur bent á að aðild að esb- er ekki á dagsrká þessarar ríkisstjórnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur það ekki á sinni stefnuskrá og þar til landsfundur flokksins ákveður eitthvað annað kemur esb aðild ekki til greyna og það verða esb-sinnar í sf að skylja.

Óðinn Þórisson, 14.4.2008 kl. 10:36

7 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Ekki skil ég hvað meðaltals atvinnuleysi kemur neinum málum við, atvinnuleysi hér mun ekkert breytast við inngöngu í ESB frekar en að meðal hitinn fari að hækka hérna bara vegna þess að það er svo fínt á Mallorca! Fyrirsögnin hjá þér lýsir bara málefnaþrotinu sem ESB aðildar andstæðingar eru í - verið að úthúða þeim sem eru ekki sammála frekar en að fræða almenning.

.

Ef þú getur komið með alvöru lausn á hvernig sé hægt að lækka vexti án þess að koma af stað verðbólgu á íslandi, og þar með losa okkur úr þeirri sjálfheldur sem íslenska krónan er, þá færi maður að hlusta aftur. Þú verður líka að athuga að það eru frjálsir fjármagnsflutningar - þannig að sjálfstæður gjaldmiðill og peningastefna dugar ekki lengra en það að þeir sem geta taka erlend lán og taka inn tekjur sínar í erlendri mynt. Hér eru því að myndast tvær launastéttir - önnur með um og yfir 20% vexti, en hin með um 5% - almenningur og elítan, skuldarar og eignarmenn.. og Framsókn hefur engin svör.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 14.4.2008 kl. 13:20

8 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Jónas:
Spurning að afla þér smá hagfræðiþekkingar.

Hjörtur J. Guðmundsson, 14.4.2008 kl. 15:57

9 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

"Framsækin og upplýst umræða evrópumál er ekki bara umræða um það hvernig við komumst inn í ESB. Framsækin og upplýst umræða verður að taka á því hvernig við sæjum fyrir okkur hagstjórn á Íslandi ef evran yrði tekin upp. Ég tel til að mynda að líkurnar á því að sú staða komi upp að okkar hagkerfi sveiflist á skjön við hagkerfi meginlandsins séu nokkuð miklar, þó þær hafi minnkað með aukinni framleiðslu áls og minna mikilvægi sjávarútvegs. En vegna þess hversu lítið hagkerfið okkar er, þarf ekki mikið að gerast til þess að við annað hvort höfum umtalsvert meiri eða minni hagvöxt heldur en gerist á meginlandinu – reyndar spái ég því, í ljósi þess sem ég sagði hér áðan, að næstu framtíð verði hagvöxtur meiri hér á landi en í ESB. Ef svo verður þá verðum við að trúa því að stjórnmálamennirnir geti notað ríkisútgjöldin til þess að halda hagkerfinu á réttu róli. Með öðrum orðum, ef vextirnir eru of lágir, vegna þess að það er verið að reyna að eyða atvinnuleysi í Frakklandi eða Þýskalandi og við erum á fleygiferð, t.d. vegna hinna miklu orkulinda okkar og sveigjanlegra hagkerfis svo dæmi sé tekið, þá þarf að hemla mjög í ríkisútgjöldum til þess að þensla verði ekki óbærilegt vandamál. Menn geta velt því fyrir sér hversu líklegt það er að stjórnmálamenn muni standa klárir á slíkri hagstjórn. Verður Vegagerðinni lokað tímabundið til að stíga hagsveifluna? Og ef það gengur nú í hina áttina, ef illa gengur hjá okkur en vel á meginlandinu þá þurfum við að klára hagstjórnina meðal annars í gegnum vinnumarkaðinn. Annað hvort tekst að semja um lækkun launa, þ.e. lækkun nafnlauna sem yrði vart þægilegt samtal í kjaraviðræðum, eða við búum við atvinnuleysi."

(Úr ræðu Illuga Gunnarssonar á Iðnþingi 2008) 

Hjörtur J. Guðmundsson, 14.4.2008 kl. 16:02

10 Smámynd: Bjarni Harðarson

smá svör; það er vitaskuld staðleysa að matarverð lækki hér um 25% við inngöngu í ESB ekki frekar en að hér verði majorka veður. og svo hefi ég alveg tekið undir (t.d. hér) með þeim sem telja að það eigi að skoða af alvöru að taka upp annan gjaldmiðil,- en ekki með esb inngöngu enda slík lausn tilræði við sjálfstæði og fullveldi landsins. vitaskuld þurfum við að losna hér úr vaxtaokri og verðtryggingu en gleymum ekki að lífskjör almennings eru betri hér en í evrópu þó margt megi samt betur fara...

Bjarni Harðarson, 14.4.2008 kl. 17:52

11 Smámynd: Stefán Bogi Sveinsson

Bjarni er viss um að yfirgnæfandi meirihluti muni hafna ESB-umsókn í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Eins þykist ég viss um að fylgjendur aðildar eru bjartsýnni á sinn hlut en Bjarni er. Er þá ekki eina vitið að blása bara til þessara kosninga? Láta þjóðina greiða atkvæði og framkvæma svo eftir niðurstöðum þeirra kosninga. Hafni þjóðin ESB, þá byggjum við okkar utanríkisstefnu og hagstjórn upp með öðrum hætti. En samþykki þjóðin ESB-umsókn þá fetum við þann veg. Einfalt mál.

Stefán Bogi Sveinsson, 14.4.2008 kl. 17:57

12 identicon

Það er búið að ræða kosti og galla inngöngu í ESB í næstum 20 ár. Hvernig væri að sækja um, sjá hvaða samningum við náum og taka svo ákvörðun.

Sjá:

Aðild að ESB hefur verið til umræðu í 18 ár

Sigurður Hólm Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 18:30

13 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Bíddu? Á ég að afla mér hagfræðiþekkingar í þessum texta frá Ílluga? Reyndar alveg týpískt hjá þér að úthúða þeim sem eru ekki sammála þér frekar en að vera málefnalegur - en ég geri mér fyllilega grein fyrir því að hagstjórn muni fara fram með því að ríkistjóður skili hagnaði eða eyði eftir því hvernig efnahagsástandið er þegar við erum komin með evru! þú virðist hinsvegar ekki gera þér grein fyrir að það gengur ekki lengur að vera með sjálfstæða peningamálastefnu hér á Íslandi. Við erum með hærri vexti en þekkjast en erum enn að hækka vexti til að stemma stigu við verðbólgu - sem er samt enn að vaxa. Ég veit ekki hvað þarf til að íhaldsmenn hér á landi fatti að erum föst í sjálfheldu, og að krónan er ekkert að sveiflast með Íslenskum efnahag (sem sást best þegar hún hækkaði eftir að við skárum niður þorskkvótann).

.

Það er enginn að reyna halda því fram að lífskjör séu verri á Íslandi en annarstaðar, það sem Evrópusambandssinnar eru að benda á er að þau gætu verið mun betri án vaxtaokri og vertryggingu og að við erum með lausn sem hin evrópuríkin hafa reynt! Ein stærsta ástæðan fyrir góðum lífskjörum hér er aukaaðild okkar að ESB gegnum EES samninginn, og sú löggjöf og aðgangur að þeim markaði sem það færði okkur. Við eigum eftir að taka upp Landbúnaðarstefnu þess, sem mun fella niður tolla og aðflutningsgjöld til landsins, sem þýðir 25% lækkun á vöruverði - sem er ekkert skrýtið þar sem höftin og gjöldin eru mjög há hér. Það er því ekki spurning um meðalverð í evrópu, heldur um að fella niður þessi gjöld.

.

Evrópusambandsaðild er stærsta og besta kjarabót sem Íslensk heimili sem og fyritæki eiga í boði - og það er því ekkert skrýtið að þessi umræða sé á fleygiferð. Verst hvað það fer í taugarnar á ykkur sem eruð á móti.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 14.4.2008 kl. 20:45

14 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sammála því sjónarmiði að nú sé komið nóg af umræðu um Evrópumál til að móta aðgerðaáætlun. Slíkt plan verður Samfylkingin að hafa frumkvæði um að gera sem fyrst. Með aðstoð Björns Bjarnasonar og fleiri. Pólitíkusar mega ekki verða svo sjálflægir eða sannfærðir um sína útgáfu af sannleikanum að þeir spilli lýðræðislegum framgangi mála eða vinni gegn þjóðarvilja eins og hann hefur birst í könnunum Samtaka iðnaðarins. Næsta skref er að sækja um aðild.  Síðan yrði samningur settur í þjóðaratkvæði.

Gunnlaugur B Ólafsson, 15.4.2008 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband