Áhættulausar aðildarviðræður!?

Í þúsund ár sátu margvísar langömmur við hlóðaeldinn og sögðu okkur sögur af vitgrönnum skessum sem í lífsleiða sínum og heimsku köstuðu milli sín fjöreggi. Mátti þá ekkert útaf bera að þær ekki misstu eggið ofan í hellisgólf og fordjörfuðu þar með lífi sínu. Líkt er þeim farið ráðamönnum þeim sem ósköpin öll langar til að setjast við tröllaborðið í Brussel og kasta þar í milli sín og hinna stóru sjálfstæði þjóðarinnar, sumir í veikri von um að koma samt með það fjöregg óskaddað heim aftur.

Sjálfstæðisþingmennirnir Árni Johnsen, Einar K. Guðfinnsson og Illugi Gunnarsson hafa nýlega bæst í þann tröllahóp sem ólmur vill komast í skessuleik þennan þar sem fyrir voru þær Ingibjörg Sólrún, Þorgerður Katrín og Valgerður Sverrisdóttir. En skyldi fjöregginu sjálfu, fullveldi og frelsi þjóðarinnar einhver hætta búin af leik þessum?

Icesave deilan lærdómsrík

Nýleg uppákoma Íslendinga vegna svokallaðra Icesave reikninga í London kallar á nokkurt endurmat í samskiptum okkar við stórþjóðir. Þar er ljóst að herraþjóðirnar skirrast ekki við að leika þá leiki við hinn litla og veika sem aldrei er boðinn þeim stóra og sterka. Enginn ráðamanna í Englandi hefur farið fram á ríkisábyrgð Bandaríkjamanna af tapi enskra fjármagnseigenda vegna Lehmans bræðra eða stórsvindlarans Madoffs en í samanburði við þessa tvo verða þeir Björgúlfsfeðgar þó sem börn ein. Af hverju erum við ábyrg fyrir Icesave en Bandarísk yfirvöld ekki vegna Madoffs. Ástæðan er einföld,- í leik þjóðanna gilda enn sömu reglur og gilt hafa í árþúsund að hinir stóru kúga þá litlu en fara af varkárni gagnvart leikbræðrum sem þeir ekki hafa í fullu tré við.

Það eru því gæfusnauðir stjórnmálamenn sem nú beint ofan í Icesave deiluna leggja til að Íslendingar gangi að samningaborði ESB og kanni í aðildarviðræðum hvað fást kunni. Rómarsáttmálinn liggur fyrir og er ekkert leyniplagg og sama má segja um yfirlýsingar stækkunarstjóra ESB um að auðvitað fái Íslendingar enga sérmeðferð þegar kemur að fiskimiðum þjóðarinnar. Sem og hitt að til aðildarviðræðna fer enginn með hálfum hug og meira að segja harðir ESB sinnar meðal vinaþjóða okkar í Skandinavíu hafa varað Íslendinga við að setjast að samningaborðinu í svo þröngri og veikri stöðu sem þjóðin er nú.

Hlekkjaðir við samningaborðið

Þetta segja þeir vitandi um það sem ekki liggur fullkomnlega fyrir, en má geta sér til af viðbrögðunum í Icesave deilunni. Vinir okkar í Skandinavíu vita fullvel hversu trauðla auðlinda-hungraðar stórþjóðir ESB muni sleppa svo vænum bita sem Íslandi af borði sínu þegar það væri einu sinni komið þangað.

Það eru víðar dyr inngöngu í konungsríkinu en þröngar útgöngu. Þegar samningaviðræður væru á annað borð hafnar og að þeim tímapunkti kæmi að Íslendingar vildu standa þar upp og þakka fyrir sig er eins víst að skilyrðin verði þau að aðildarsamningurinn verði lagður fyrir þjóðina til samþykktar. Ekki samþykktar eða synjunar eins og gerist í leik hinna litlu heldur til endanlegrar samþykktar í fyrstu, öðrum eða þriðju kosningum eins og gerist hjá hinum stóru og við íslenskir sveitamenn þekkjum vel þegar ráðuneytismönnum dettur í hug að afleggja hjá okkur aldagamla hreppa. Virðingin fyrir kosninganiðurstöðum okkar yrði síst meiri en gagnvart lýðræðislegri niðurstöðu Íra við Lissabon sáttmála.

ESB hefur hér ótal leiðir til að beita okkur þrýstingi. Ein er kúgun vegna skulda, önnur er að hóta okkur vegna EES samningsins og sú þriðja gæti einfaldlega legið í meinleysislegum tæknilegum hindrunum í markaðsaðgangi. Með EES samningi komust þjóðir þessa hálfa leið þar sem við glöptumst í framhaldi af honum til að setja eggin mörg mjög í sömu körfu. Ef okkur dettur í hug að fela fyrrnefndum þingmönnum Brusselferð með þau öll í körfu og þar á meðal gulleggið sem geymir sjálfstæði þjóðarinnar þá er gæfuleysi þessarar þjóðar meira en tárum taki.

(Birt á AMX 13. janúar 2009)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Bjarni minn. Baráttan fyrir sjálfstæði og fullu fresli þjóðar okkar við þetta andlitslausa bandalag skriffinnanna, verður ekki auðvelt vekefni, allra síst þegar svona margir íslenskir stjórnmálamenn ætla að gefa eftir gagnvart úrtöluliðinu og stanslausum hræðsluáróðri ESB trúboðsins og villuljósinu frá Brussel.

Sjálfstæðisbaráttan hin fyrri kennir okkur að úrtöluliðið er og verður alltaf sömu gerðar.

En meðan við höfum menn eins og þig Bjarni minn, sem eru tilbúnir að berjast bæði í orði og á borði þá verð ég bjarsýnn um sigur okkar sem viljum standa vörð um sjálfstæði og reisn Íslensku þjóðarinnar.

Sjáðu bræður okkar Norðmenn og hvernig fór hjá þeim, þeir þurftu að berjast við sama ESB TRÚBOÐIÐ, sem hafði lagt undir sig nær allt þjóðfélagið með úrtölum og áróðri og fyrir dásemdum ESB.

Allir stærstu stjórnmálaflokkarnir og forystumenn þeirra börðust orðið fyrir aðild að ESB. Nær öll helstu hagsmunasamtök landsins og forystumenn þeirra börðust hatrammlega fyrir aðild, s.s. öll verkalýðsforystan, samtök atvinnulífsins. Nánast allir fjölmiðlar höfðu um langan tíma alveg eins og hér flutt beint og óbeint mikinn áróður fyrir inngöngu í ESB. Allt fræðimannasamfélagið og háskólasamfélagið nánast eins og það lagði sig höfðu einnig í mörg ár barist leynt og ljóst fyrir aðild.

Það þótti nánast formsatriði hjá sigurvissum ESB sinnum að ganga til þessa þjóðaratkvæðis. Sambandssinnar höfðu í skoðanakönnunum aftur og aftur yfir 70% fylgi.

En hvernig fór. Jú Norska þjóðin hafnaði ESB aðild örugglega í mjög fjölmennri þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1974.

En svo varð auðvitað að kjósa aftur því fyrir ESB úrtöluliðinu er höfnun aðildar aldrei marktæk, því eru þeir eins og uppkvaðningar, þeir koma alltaf aftur og aftur.

En Norðmenn báru gæfu til þess að fella þetta öðru sinni 1994, þrátt fyrir að allt ESB valdið og sama úrtöluliðið hamaðist á þeim sem aldrei fyrr.

Þú Bjarni og við öll sem viljum berjast fyrir fullu sjálfstæði og frelsi Íslands og höfnum þar af leiðandi aðild að ESB stórríkinu við erum nógu mörg og höfum nógu sterk og góð rök til þess að heyja þessa baráttu til enda og hafa þar á endanum fullan sigur. 

En þessi barátta verður löng og ströng !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 12:03

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

fyrirgefðu fáfræði mína, en er ekki þetta ábyrgðarákvæði inni í EES samningnum?

ég veit ekki til að BNA sé í EES eða ESB.

Brjánn Guðjónsson, 14.1.2009 kl. 12:48

3 Smámynd: Stefán Bogi Sveinsson

Ertu í fúlustu alvöru að reyna að halda því fram að ESB myndi innlima okkur?!? Þetta þykir mér skrýtinn pistill.

Annars á ég inni bók hjá þér. Get ég vitjað hennar hjá þér?

Stefán Bogi Sveinsson, 14.1.2009 kl. 15:21

4 Smámynd: Ólafur H. Guðgeirsson

Hvernig sérðu það gerast, að Íslendingar geti ekki slitið viðræðum án skilyrða?

Annars er þetta allt saman byggt á alveg furðulegu sjónarhorni.  Við erum ekki að glata sjálfstæði okkar við inngöngu í ESB - völd og velmegun okkar almennings mun aukast en völd stjórnsýslunnar - embættismanna og pólitíkusa - munu dragast stórlega saman.  Það er kenning Björns Bjarnasonar sem hann hélt á lofti á Bylgjunni í gær, að völd íslenska stjórnkerfisins muni minnka mjög en áhrif á efnahaginn gætu alveg orðið góð þó hann tæki ekki afstöðu til þess.

Ég væri fyrir mína parta mjög sáttur við minni völd embættismanna og pólitíkusa hérlendis, en það þarf að tryggja að afkoma almennings hérlendis sé sambærileg við Vestur-Evrópu, og möguleikar barnanna okkar sambærilegir við möguleika jafnaldra þeirra á vesturlöndum.  Í þessum efnum hefur stjórnkerfið hérlendis algerlega brugðist og innganga í ESB er þess vegna nauðsyn.

Þessi pistill Bjarna ætti að styrkja alla lesendur í þeirri skoðun að ESB-aðild sé eini raunhæfi kosturinn.

Ólafur H. Guðgeirsson, 14.1.2009 kl. 16:15

5 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Held að okkur sé betur borgið utan ESB valdsins og einu viðræðurnar sem við ættum að fara í við ESB væru að segja okkur frá EES reglugerðafarganinu sem gerir ekkert annað en að láta okkur borga meira og meira vegna einhverja reglna.Tökum frekar upp Dollar við erum hvort eð er með mikil viðskifti í gegnum Dollar og held við ættum að taka hann upp eins fljótt og hægt er,þá kæmist á stöðuleiki hér á landi en ekki einhverjar þvinganir og yfirgangur frá ESB.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 14.1.2009 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband