Sparnaður og hagræðing stórfiskanna

Þegar sparnaður verður að sóun!

Heimskan er tvímælalaust sterkasta aflið í mannheimum og heilbrigðiskerfið fer ekki varhluta af henni þessa dagana. Þannig reynir Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra að halda því fram að hann geti sparað með því hringla nú öllu til og sameina stofnanir. Það þó flytja þurfi fæðandi konur um fjöll og höf... Þetta rifjar upp fyrir mér það sem gerðist hér á Suðurlandi á fyrstu árum nýrrar aldar. Fylgdist giska vel með sem blaðamaður á svæðinu.

Þá var farið að tala um að spara með því að sameina heilsugæslurnar á Selfossi, í Hveragerði, Þorlákshöfn, Laugarási, Hellu, Hvolsvelli, Vík og Klaustri í eina stofnun. Af þessu yrði mikið hagræði, sögðu mennirnir.

2004 var loks ákveðið að drífa þetta af en rétt fyrir sameiningu þá um haustið var það samt látið berast til fjölmiðla að þetta væri ekki gert í sparnaðarskyni heldur til þess að bæta hina faglegu þjónustu með samlegðaráhrifum...

Vorið 2005 var haldið málþing um stofnun þessa og þá kom fram að kostnaður við rekstur væri reyndar miklu meiri heldur en samanlagður rekstrarkostnaður áður en það væri allt í lagi þar sem faglega væri hann svo miklu betri.

Meðal íbúa er reyndar mjög lítill skilningur á hinum faglegu ávinningum og sumir telja að þjónustan hafi versnað en það er vafalaust vegna þess að íbúarnir eru ekki nógu faglega upplýstir.

Nokkrum misserum síðar kom fram eftir úttekt að rekstur á hinu sameinaða sjúkrahúsi Reykvíkinga væri stórum meiri heldur en var á sjúkrahúsunum þremur sem þar voru áður, Landakoti, Landsspítala og Borgarspítala.

Og er þá nema von að fólk sem ekkert hefur nema brjóstvitið spyrji: Hvenær ætlar íslenska embættisgengið að átta sig á að á Íslandi er sjaldnast hægt að ná fram hagræðingu stærðarinnar. Það er einfaldlega ekki völ á slíkri hagræðingu í kvartmilljónmanna samfélagi. Aftur á móti er víða hægt að ná fram hagkvæmni smæðarinnar en það þykir frekar ófaglegt og hallærislegt. Ekki sæmandi okkur stórlöxunum.

O tempora - o mores...

(Einnig birt á Smugunni 13. jan.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Þetta er allt svo afskaplega faglegt Bjarni   Ég hef engu við þína grein að bæta, tek bara undir það sem þú segir og hafðu góðann dag og þín fjölskylda

Máni Ragnar Svansson, 16.1.2009 kl. 10:48

2 identicon

Það var nefnilega grafalvarlegt  mál  og mikið ólán þegar upp spratt hópur fólks sem mátti vart mæla án þess að orðið "faglegt" kæmi þar við sögu. Þetta er alveg að drepa mig á köflum...

EN svo það sé algerlega ljóst, þá veit ég mætavel hvaða merkingu orðinu faglegur er ætlað að hafa.

Hitt er svo annað að mig langar svoooooo að fara aftur að heyra orðið"viðeigandi",  "sæmandi" og "ærukær" o.fl.

Tilgáta mín, harla vísindaleg: "Orðið f a g l e g u r er skjólorð (ný orðflokkur í íslenskri tungu). Skjólorð (af sumum málfræðingum nefnd skýliyrði) eru alla jafna notuð til að fela málflutning sinn á bak við þau - ellegar sveipa hann einhverjum þeim klæðum, sem kosið er hverju sinni. Skjólorð/skýliyrði  má einnig nýta - mörg hver -  til að sýna yfirburði eða jafnvel gera sig breiðan sé þess þörf.

(Ný íslensk málfræði bls 125 og 126;  útg. H.Ág. útgáfan 2009)

Og þetta er allt dagsatt - eða vel flest af þessu - allavega eitthvað - eitthvað smá...

Helga Ág.

Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband