Sorgardagur á Selfossi

Í dag var Guðjón Ægir Sigurjónsson gudjon_aegirlögmaður á Selfossi borinn til grafar. Fráfall hans er okkur öllum hér austanfjalls mikill harmur en þar fór einn af máttarstólpum okkar samfélags, mikill félagsmálagarpur og hvers manns hugljúfi. Sem kunnugt er fórst hann af slysförum 5. janúar síðastliðinn, þá nýorðinn 37 ára gamall. Jarðarförin var fjölmenn og ræða séra Óskars afar vel samsett.

Á degi sem þessum drúpir allt hér höfði og réttlæti heimsins er víðs fjarri. Það hljómar svo tómt að óska aðstandendum samúðar þegar orð eru einskis megnug.

Guðjóni Ægi kynntist ég fyrst fyrir nærri 20 árum þegar hann gók að sér smá málningarvinnu fyrir mig á Eyrarbakka. Var í háttum og viðkynningu nauðalíkur föðurbræðrum sem höfðu deilt með mér plássi á Laugarvatni nokkrum árum fyrr. Ég man að það kom mér á óvart þegar ég bauð þessum snaggaralega pilti ofan af Selfossi í mat að hann sagðist ætla til afa og ömmu konu sinnar, Hjartar heitins í Káragerði og hans konu sem mig minnir að hafi heitið Ásta. Þessi ræktarsemi hjá kornungum slána við eldhúsið hjá tengdaömmu bar eitthvað það með sér sem heillaði mig.

Seinna var það júristinn Guðjón sem stofnaði fyrir mig félag þegar ég í prófkjörsslag þurfti á að halda félagi til að halda utan um kostnað og styrki. Og hvað skulda ég þér, spurði ég framsóknarmaðurinn sem ekki átti á neinn hátt hönk upp í bak kratans - en svarið var; ekkert, þetta er styrkur í baráttunni! Fyrir þann styrk  og samferðina vil ég nú þakka og um leið senda Þórdísi, börnum þeirra og öllu þeirra fólki mínar innilegustu kveðjur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Já, Guð kallar góða snemma. Held að það sé eitt af því sem maður verður að hugga sig við um þessar mundir. Mér finnst voðalegt að komast ekki í jarðarförina hjá honum, verandi erlendis.

Heimir Tómasson, 16.1.2009 kl. 18:43

2 Smámynd: Ólafur Björnsson

Sammála þér Bjarni þetta var sorleg stund í dag, en engu að síður virðuleg og magnþrungin. Ein besta líkræða sem ég hef heyrt var flutt af Óskari, Laugvetningi, í dag.  Guðjón var lögfræðingur góður og starfaði hjá okkur LS í 3 á og lauk þar m.a. þeim 4 prófraunum sem þá þurfti til að verða héraðsdómslögmaður. Fylgdi ég honum úr hlaði i sinni fyrstu ferð sem var eftirminnileg, því prófdómari var einginn annar en hinn frægi lögspekingur Bjarni K. Bjarnason hæstaréttardómari frá Öndverðarnesi, sem að sjálfsögðu lét nokkur föðurleg orð flakka til Guðjóns, um að flytja mál sinn jafnan hægt og skýrt. Urðu þau okkur báðum gott veganesti. Fann á netinu gamalt viðtal við Gaua sem ég læt fljóta hér með, það var alltaf stutt í húmorinn hjá honum. Þarna misstum góðan dreng alltof snemma Bjarni.

12.2007 | Knattspyrna

Hin hliðin á Gaua Sigurjóns

Fullt nafn og gælunafn? Guðjón Ægir Sigurjónsson – Gaui Sigurjóns

Aldur? Mjög fínn þakka þér – rétt rúmlega 36 ára.

Fjölskylda? Eiginkonan er Þórdís Erla Þórðardóttir, snyrtifræðingur og fyrrverandi bakvörður kvennaliðs Selfoss. Sonurinn er Hjörtur Leó, 13 ára, varnarjaxl og dóttirin Harpa Hlíf 10 ára varnarjaxl. Við förum helst ekki framyfir miðju.

Hvernig tónlist hlustar þú á? Rokk og ról og gæðapopp – U2 er efst á baugi.

Uppáhalds vefsíða? Selfossfc.com

Uppáhalds sjónvarpsefni? Enski boltinn, meistaradeildin og annað íþróttatengt efni.

Uppáhaldsmatur? Er nú ekki mikið fyrir mat, en hæfilega grilluð nautalund er eðalmatur.

Hvenær byrjaðir þú að æfa fótbolta og af hverju? Held ég hafi verið 5 – 6 ára. Í minni fjölskyldu var einfaldlega æfður fótbolti – jafnsjálfsagt og að draga andann.

Eftirminnilegasti leikur þinn? Líklega úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitil í 4. flokki á Akureyri 1985. Töpuðum naumlega 2-1 fyrir Val.

Uppáhaldslið? Selfoss – hvað annað maður.

Hvaða liði myndir þú ekki spila með? Miðað við ástandið manni í dag myndi maður ekki spila með neinu liði – held þau myndu ekki hleypa manni inná. Held ég myndi líka afþakka boð um leik frá Arsenal.

Hverjir eru þínir helstu kostir? Læt aðra dæma um þá.

Fyrirmynd í lífinu? Foreldrarnir eru náttúrulega fyrirmyndirnar – en konan tók ung við manni og er örugglega búinn að móta mann eins og leir.

Hvað kemur þér í gott skap? Skemmtilegt fólk, sem kann að segja skemmtilega frá.  Skemmtilegur fótboltaleikur er líka helv... hressandi.

Hvert er mesta afrek þitt í lífinu? Getnaður og fæðing barnanna minna.

Í hverju varstu bestur í skóla? Helv... lélegur í smíði – fínn í hinu.

Ef þú mættir breyta einni reglu í fótbolta, hverju myndir þú breyta? Mér líkar vel við fótboltann eins og hann er, með kostum og göllum leiksins.

Ef þú yrði að vera einhver annar í einn dag, hver myndir þú vilja vera? Það væri lærdómsríkt að verða konan mín og upplifa hvernig er að búa með mér – það er reyndar spurning hvort maður myndi þrauka heilan dag!!!

Ólafur Björnsson, 16.1.2009 kl. 19:10

3 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Tek ofan og drúpi höfði með fjölskyldu þessa góða drengs . . . og komplímenta þína kveðju Bjarni

Benedikt Sigurðarson, 16.1.2009 kl. 23:03

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Votta öllum hlutaðeigandi samúð mína.

Guðrún María Óskarsdóttir., 16.1.2009 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband