Það sem aldrei hefur gerst - getur gerst aftur!

islenskar_kynjaskepnurÉg ætla ekki að hætta að blogga um bækur þó að aðal bókavertíðin sé að baki og átta mig á því núna að fyrir jólin bloggaði ég aldrei um þá bók sem var mér samt hvað hugleiknust þeirra bóka sem út komu. Þetta er bók þeirra Sigurðar Ægissonar og Jóns Baldurs Hlíðberg, Íslenskar kynjaskepnur.  Hér er á ferðinni afar vandað rit og kemur um margt inn á þau svið sem hafa verið mér hugleikin. Ég var þessvegna fljótur að segja öllu mínu fólki að þessa bók vildi ég fá í jólagjöf og stillti mig eiginlega um að nefna aðrar. Og af því að ég er jólabarn þá stillti ég mig líka alveg um að lesa þessa bók fyrir jólin og skoðaði hana sem minnst þó allnokkur eintök hafi farið um mínar bóksalahendur.

Og viti menn- þetta bitnaði auðvitað á bókinni því fyrir jólin kepptist ég við að blogga um sem flestar af þeim bókum sem ég kom höndum yfir að lesa eða grufla eitthvað ofan í en sleppti Kynjaskepnunum. Og kannski þykir útgefendum og höfundum seint fram komið að ég skuli vera að hrósa bók þessari nú eftir jólavertíð en ég hugga þá með að ég er búinn að selja nokkur eintök einnegin nú í janúar og lofa mörgum ensku í sumar. Bók þessi er semsagt gefin út samtímis á tveimur tungumálum.

Hér er á einn stað safnað saman lýsingum á helstu kynjadýrum og eiginlega þarf þetta rit á hverju heimili. Það er miklu algengara en af er látið að fólk rekist á skrímsli og mikil hætta á að þeir sem það gera verði að hjárænum á eftir. Þekki menn sem hafa rolast þannig árum saman af ótta við að einhver sjái það á þeim að þeir hafi séð urðarkött, skoffín eða nykur. Ekki svo að þeir hafi nokkru sinni haft orð á enda talið sjálfir að þetta hafi verið ofsjón einhverskonar, skynvilla, heimskulæti og geðveiki. Hafi menn bókina um kynjadýrin við hendina sjá þeir fljótt að dýr sem þessi eru algeng í náttúrunni og það sem þeir sáu er vitaskuld hluti af þeim raunheimi sem við búum við og höfum alltaf.

Og jafnvel þó ekkert af þessum dýrum sé til og enginn hafi séð þau en margir skrökvað þeim sögum þá skyldi maður aldrei útiloka að rekast á slík dýr sem bara eru fram til þess til í sögum. Því eins og sagt er í Hreppunum þegar mikið er haft við og margir koma saman sem er skjaldan þar í sóknum:

Það sem aldrei hefur gerst - það getur alltaf gerst aftur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Framsóknarflokkurinn nýjasta kynjaskepnan

Er ekki einsýnt að eftir atburði helgarinnar hefur bæst nýtt einstak í safn furðudýra þar sem er Framsóknarflokkurinn.

Hér er komið verkefni fyrir rithöfund, bóksala og aðdáanda Kynjaskepna að rita sérstakan eftirmála við umrædda bók.

Ekki sakar að sá hinn sami er nýsloppinn úr kviði skrímslisins.

Hjörleifur Guttormsson, 18.1.2009 kl. 21:44

2 Smámynd: Hörður B Hjartarson

 Góður Hjörleifur , sá fullorðni strákur ekki dauður úr öllum æðum .

Hörður B Hjartarson, 18.1.2009 kl. 23:17

3 identicon

Ææææi, af hverju gastu ekki sagt mér þetta fyrr? Nú skil ég betur hjárænuhættinn, sem verður svo oft á vegi mínum.

Ja, nú sé ég hve gríðarlega margir eru að fela þessa reynslu sína af skrímslasýn.

Mikið varstu góður að varpa enn einu sinni ljósi á lamyrkvað hugskotið, Bjarni sæll.

Helga Ág

Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 23:19

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Engin ástæða að skrifa bara um bækur fyrir jólin. Við lesum allt árið og það er gott að heyra af spennandi bókum. Ég keypti Fjarri Hlýju Hjónasængur notaða, síðast þegar ég var á landinu. Mæli með henni.

Villi Asgeirsson, 19.1.2009 kl. 10:11

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Segðu bara eins og pabbi gamli segir oft. "Það sem aldrei hefur gerst áður, getur alltaf gerst aftur"  kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 19.1.2009 kl. 11:47

6 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ég lærði nú þetta snjalla máltæki svona: Það sem aldrei hefur komið fyrir áður getur alltaf komið fyrir aftur.

Sigurður Sveinsson, 19.1.2009 kl. 12:03

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ég er svo gamall sem á grönum má sjá.

Ekki tel ég miklar breytingar þó svo að yngra módel af Kögun (ratsjárstofnun) verði kosin formaður í Framsókn.

Gamalt same old same old.

Ekkert nýtt hér.

Svo er Siggi Einars að segja allt í lagi með allt í Kaupþingi.

Same old same old

Og aungvir trúa nokkru, því menn hafa ekki lengr við, að trúa því sem á borð okkar er borið.

Fyrirgefðu lélegt slangur og enskuskot, illa stafsett.

Með virðingu

Miðbæjaríhaldið

á leið á Landsfund.

Bjarni Kjartansson, 19.1.2009 kl. 12:07

8 Smámynd: Þorleifur Magnús Magnússon. ( Brói )

Þetta er gott verkefni fyrir skemmtilegan mann sem þig Bjarni, að skrifa um reynslu þína í "skepnunni" og hvernig hún hrækti út úr sér vítamíntöflunum sem áttu að hjálpa henni.

kær kveðja,

Brói.

Þorleifur Magnús Magnússon. ( Brói ), 19.1.2009 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband